18.12.1951
Efri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseli. Ég þarf litlu við það að bæta, sem í nál. meiri hl. fjhn. segir. Við meðferð málsins í hv. Nd. var því ákvæði bætt inn í frv., að 1/4 hluti söluskattsins skyldi renna í jöfnunarsjóð sveitarfélaga, og eru nánari reglur um það í 4. gr. frv. Það er nú vitað mál, að sveitarfélögunum veitir ekki af að fá auknar tekjur, en á hitt ber líka að líta, að þetta hafa verið tekjur ríkisins. Ef tekjur og gjöld ríkisins eiga að geta staðizt á og ef nokkur vissa á að vera fyrir því, þá veitir ríkissjóði ekki af þessum tekjum. Þess vegna sér meiri hl. n. sér ekki annað fært en að leggja til, að þessi ákvæði, sem hv. Nd. setti inn í frv., verði látin falla burt. En það hefur hæstv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem hana styðja, fullkomlega viðurkennt, að líta þarf til sveitarfélaganna og mæta óskum þeirra og þörfum að nokkru í þessu efni. Vegna þess hefur það samkomulag verið gert, sem frá greinir í nál. Er ekki nokkur vafi á því, að þær ráðstafanir, sem um ræðir í nál., að verja 5 millj. kr. til þess að greiða það, sem kalla má skuldir ríkissjóðs við skólabyggingar, og 2 millj. kr. til þess að greiða upp í það framlag, sem ríkinu ber að leggja fram til hafnargerða, munu hvorar tveggja koma mörgum sveitarfélögum mjög vel. Þarna á meðal eru sveitarfélög, sem eru illa stödd fjárhagslega, með fram vegna þess, að þau hafa lagt fram bæði til skólabygginga og hafnargerða meira í bráðina en ætlazt er til, að þeirra hlutur verði. Mun það verða töluvert mikið hagræði fyrir mörg af sveitarfélögum landsins að fá þessa upphæð greidda. Ég get fullyrt það, að meiri hl. n. hefði gjarnan óskað að mæta óskum sveitarfélaganna frekar en hér er gert. Þarf ekki að taka það fram, að það er einungis vegna þarfa ríkissjóðs og vegna þess, að ekki er hægt að koma fjárlögum saman öðruvísi en að ríkissjóður haldi sínum tekjum, að þessi lausn á málinu er hér lögð til.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta mál, það er öllum hv. þm. vel kunnugt.