18.12.1951
Efri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Það ber nú heldur brátt að um afgreiðslu þessa máls. Það er að minnsta kosti mjög skrýtið, sem fram hefur komið í meðferð þess. Nefndin klofnaði mjög fljótt, og var ekki mikill tími til þess að ræða málið, enda var sýnilega búið að gera það á öðrum vettvangi, og meiri hl. þurfti því ekki neitt að ræða það.

Hann var ákveðinn og vildi ekki samþ. frv. óbreytt eins og það kom frá hv. Nd., en er með þeirri breytingu, að niður falli þau ákvæði, sem um það fjalla, að 1/4 hluti söluskattsins skuli renna til bæjar- og sveitarfélaga. Ég er hins vegar algerlega andvígur málinu og legg til, að það verði fellt.

Sósfl. hefur frá upphafi verið andvígur þessum skatti, sem er ekki aðeins ranglátastur af öllum ranglátum sköttum, sem nú eru innheimtir, heldur hefur líka valdið þjóðinni böli og þjóðfélagslegu tjóni. Það höfðu ekki allir áttað sig á því, þegar þessi skattur var á lagður fyrst, hversu skaðlegur hann mundi vera og hversu ranglátlega hann mundi koma niður. Þó var sýnt fram á það þá þegar af andstæðingum skattsins. Nú held ég, að flestir séu búnir að átta sig á því, nema kannske hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar á Afþingi, en ég held allir aðrir. Það er sama, hvar haldnir eru fundir, þar sem rætt er um stjórnmál, — alltaf og alls staðar á hverjum slíkum fundi eru samþ. einróma mótmæli, harðorðuð mótmæli, gegn þessum skatti, sem sagt hér um bil alltaf einróma og næstum undantekningarlaust í einu hljóði. Þar virðast þá engir stjórnarstuðningsmenn vera til. Það er ekki ein stétt, sem stendur að öllum þessum mótmælum, heldur næstum allar stéttir í landinu. Það eru hin ólíkustu samtök og stéttir, sem kannske hafa að öðru leyti afar ólíkar skoðanir. Og þessi samtök stétta, sem eru að öðru leyti andstæðar stéttir, samþ. einróma mótmæli gegn þessum skatti. Þjóðin er sem sagt á móti þessum skatti og krefst þess, að hann verði afnuminn. Ég held, að eins og sakir standa sé þjóðin einhuga á móti söluskattinum. En þessi samkunda, sem hér er saman komin í þessum sölum Alþingis, á að vera fulltrúasamkunda þjóðarinnar. Verði þessi skattur samþ., þá er það gert algerlega gegn vilja þeirrar þjóðar, sem hefur falið hv. þm. umboð sitt.

Þegar þessi skattur var lagður á fyrst, þá hét hann „ráðstafanir gegn dýrtíðinni og til þess að tryggja rekstur atvinnuveganna“ og var lagður á í þeim tilgangi, enda hétu lögin: „Lög um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna“. Rökin fyrir því, að skatturinn var lagður á, voru þau, að brýna nauðsyn bæri til þess þá að fá þennan tekjustofn til þess að halda dýrtíðinni í skefjum og til þess að greiða uppbætur á fisk, til þess að framleiðslan gæti haldið fram, til þess að hægt væri að framleiða áfram til útflutnings. Nú eru allar uppbætur á fisk niður felldar, en samt er haldið áfram að innheimta skattinn, en hann er nú ekki orðinn uppbætur á fisk, heldur eins og hver annar almennur tekjustofn ríkisins. Í fyrra fullyrti hæstv. fjmrh., að það væri alveg óumflýjanleg nauðsyn að hafa þennan skatt til þess að tryggja hallalaus fjárlög. Nú hefur reynslan talað. Tekjuafgangurinn reyndist meiri en söluskattinum nemur. Hvaða markmið hefur þá þessi skattur? Í fyrsta lagi hefur hann orðið til þess að stórauka dýrtíðina í landinu, eins og allir vita og að því er fróðir menn telja um allt að 12%. Í öðru lagi hefur hann orðið til þess að drepa niður framleiðslu landsmanna.

Nýlega var hér n. frá fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík, sem átti erindi við þm. Reykv. vegna hins mikla atvinnuleysis og beinlínis neyðarástands hjá fjölda fólks hér í bæ. Hún skýrði svo frá, að í Reykjavík væri á annað þúsund atvinnulausra manna. Þessi n. hafði þá sögu að segja, að fólki í 18 iðnfyrirtækjum í Reykjavík hefði fækkað um 86%, þ.e.a.s., að af 481, sem störfuðu í þessum iðnaði við síðustu áramót, hefur 411 verið sagt upp á árinu. Árið 1949 starfaði að iðnaðinum í Reykjavík um 1200 manns; nú um áramót verður það 500–600 manns. Starfandi fólki að iðnaði hér í Reykjavík hefur fækkað um meira en helming. N. rakti fyrir okkur þm. það, sem hún taldi hafa verið orsök þessarar þróunar. Eitt af þeim atriðum, sem hún taldi eiga sök á því, hvernig komið er, var söluskatturinn, og var hún þar öll sammála. Er ekki heldur að undra, þegar þess er gætt, að söluskatturinn er oft lagður margsinnis á sömu vöru og í nokkrum tilfellum, sem snerta iðnaðinn, kemst hann upp í 15–16%. Það segir sig sjálft, hvílík byrði þetta er fyrir innlenda framleiðslu, sem þarf að keppa við erlenda framleiðslu, sem hefur verið flutt inn í ríkum mæli.

Kröfur þær, sem þessi n. gerði til okkar, var beinlínis neyðarkall til þm. Reykv. og annarra þm. um að duga nú til þess að bæta úr þessu ískyggilega ástandi, sem sífellt fer versnandi. Ein höfuðkrafa þessarar n. var, að söluskatturinn yrði afnuminn. Ég veit ekki, hverju þeir hv. þm. stjórnarfl., sem n. talaði við, hafa svarað þessu. En atkvgr. hér mun gefa gildasta og ótvíræðasta svarið.

Þegar söluskatturinn var lagður á, var tilgangurinn með honum að vinna gegn afleiðingum dýrtíðarinnar og tryggja rekstur atvinnutækjanna. Nú er þetta beinlínis skattinnheimta til þess að auka dýrtíðina í landinn og til þess að stöðva rekstur atvinnutækjanna. Auðvitað halda fulltrúar stj. og hæstv. ráðh. því fram nú eins og fyrri daginn, að skattinnheimta þessi sé alveg bráðnauðsynleg fyrir ríkissjóð til þess að tryggja hallalaus fjárlög. Þetta er alveg það sama og hæstv. fjmrh. sagði s.l. ár, er hann taldi, að ríkissjóður kæmist ekki af án þessa skatts. Eftir þá reynslu, sem fengin er, held ég, að við höfum lært að trúa hæstv. ráðh. svolítið varlegar nú en þá. Ég held, að ef vilji er fyrir hendi, þá séu til leiðir til þess að koma saman að minnsta kosti rekstrarhallalausum fjárlögum fyrir næsta ár án þess að innheimta þennan skatt. Sú áætlun gæti staðizt, ef stefnan í efnahagsmálum væri þannig, að hægt væri að nýta til fullnustu framleiðslutækin til útflutnings. Hvað gerist, fer eftir þeirri pólitík, sem ríkir í efnahagsmálum landsins. Það má benda á, að ef söluskatturinn er ekki innheimtur, mun ríkissjóður spara sér mikið fé, svo að tugum millj. kr. næmi. (Fjmrh.: Er ekki bezt að afnema allar ríkistekjurnar til þess?) Þetta sjónarmið sem kom fram í athugasemd hæstv. fjmrh., er eina sjónarmiðið, sem til er hjá honum. En hvað sem reikningshlið fjárl. líður, er ekki hægt að finna ranglátari og skaðlegri tekjustofn en þennan. Ég fullyrði, að ekki er hægt að finna ranglátari tekjustofn og skaðlegri fyrir allan fjárhag og atvinnulíf þjóðarinnar. Svo illir sem aðflutningstollarnir eru, var þó miklu betra að hækka þá heldur en halda áfram að innheimta söluskattinn. Ég tel það hættulega stefnu að líta einungis á tölur ríkisreikningsins án þess að láta sig nokkru skipta afkomu þjóðarinnar. Ef skattheimtan er þannig, að menn missa eigur sínar og atvinnufyrirtæki stöðvast, hlýtur svo að fara um siðir, að það kemur niður á ríkissjóði sjálfum. Þegar til lengdar lætur, fer afkoma ríkissjóðs eftir afkomu þjóðarinnar.

En mér virðist af því, sem hér er búið að tala, að fullljóst sé, að skatturinn verði samþ. Þá tel ég mikla bót í máli, ef frv. verður samþ. eins og það kom frá hv. Nd., þ.e.a.s., að ekki verði felldar úr því þær gr., sem kveða svo á, að 1/4 af þessum skatti renni til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna. En þessa breytingu gerði hv. Nd. á frv. elns og það kom frá hæstv. ríkisstj., en nú er lagt til af hv. meiri hl. fjhn., að þetta verði fellt niður. Hefur sú yfirlýsing verið gefin af hálfu meir í hl. n., að það sé samkomulag milli stjórnarflokkanna. Það er svona, sem farið er að því að afgreiða mál á Alþingi, og samkomulagið er svona. Hluti Sjálfstfl. hafði ákveðið að afgr. þetta frv. þannig, að sveitarfélögin fengju nokkurn hluta hans. Það hafa komið fleiri frv. um þetta áður, en ekki fengið afgreiðslu. Meðal annars flutti ég frv. um það, að 1/3 af þessum skatti á síðasta ári rynni til bæjarog sveitarfélaga. Samkomulagið, sem nú hefur verið gert, er þannig, að þessi hluti Sjálfstfl. hefur gengið inn á að falla frá þessu, gefast algerlega upp og falla frá því að láta sveitarfélögin fá nokkurn hluta af þessum skatti gegn því, — og nú kemur það skrýtnasta, — að hæstv. ríkisstj. lofi því á móti, að hún skuli borga .5 millj. kr., sem vangoldnar eru úr ríkissjóði, til skóla og 2 millj. kr. til hafnargerða, þ.e.a.s. borga lítinn hluta af lögboðnum greiðslum til bæjar- og sveitarfélaga, sem enn eru ógreiddar. En hvað er þetta mikið af því öllu saman? Eftir því, sem mér hefur verið tjáð, eru þessi vangoldnu framlög hvorki meira né minna en 20.6 millj. kr. alls, sem greiða á til skóla, hafna og sjúkrahúsa, þ.e. 7 millj. kr. af rúmum 20 millj. kr., sem ríkinu ber að greiða, lofar ríkisstj. að greiða. Þeir þm., sem afstöðu sinnar vegna hafa orðið að taka tillit til krafna bæjarfélaganna, lögðu ríka áherzlu á það að fá þennan 1/4 hluta skattsins til bæjar- og sveitarfélaga og fengu það samþ. í Nd. Hæstv. fjmrh. hefur hótað að segja af sér, ef þetta verður látið standa. Ég leyfi mér að veita honum mín beztu kompliment fyrir svo fullkominn sigur. Hann stendur hér með pálmann í höndunum. Sjálfstfl: menn þeir, sem vildu koma þarna nokkuð til móts við kröfur bæjarfélaganna, hafa verið svínbeygðir. Ég veit raunar ekki, hvort rétt er að nota þetta orð. Eða er þetta kannske bara loddaraleikur? En ef þeim hefur verið nokkur alvara, þá hafa þeir verið svínbeygðir. Og aðferðin, sem notuð hefur verið í þessu máli, er líka æði skrýtin og rétt að gefa henni gaum. Þetta samkomulag milli stjórnarflokkanna mun ekki hafa verið gert seinna en í dag. Það var að minnsta kosti auðheyrt á umr. í Nd. í dag, að þetta samkomulag var þá þegar fyrir hendi, en um það veit enginn. En hvernig stendur þá á því, að það var látið eins og ekkert væri? Þetta er látið fara í gegnum Nd. eins og ekkert sé um að vera og frv. látið fara hingað óbreytt. Það er alveg augljóst, hvernig í þessu liggur. Þetta var náttúrlega nokkuð þungur kross fyrir þessa vesalinga, sem að þessu standa í hv. Nd. Og þeir hafa beðið um þetta síðast allra orða: „Ó, takið þennan kaleik frá okkur, takið frá okkur þennan kross að þurfa að snúast öndverðir gegn máli, sem við höfum barizt fyrir í deildinni og borið fram til sigurs.“ Og þessi kross, þessi kaleikur, hefur verið frá þeim tekinn. Nú hafa fulltrúar Sjálfstfl. hér í þessari hv. d. tekið á sig þennan kross. Ég veit ekki, hversu þungbær þessi kross er. Það fer eftir því, hve mikil alvara hefur verið í þessu máli frá upphafi. En þessir þm. hafa sem sagt tekið þennan kross á sig. Svo þegar málið kemur aftur til Nd., þá er eftir að vita, hvaða grein þessir hv. þm., sem fengu krossinn af sér tekinn, geta gert fyrir atkvæði sínu. Ætli þeir segi ekki eitthvað á þessa leið: „Það er búið að samþ. þetta í hv. Ed., og hvað getum við þá gert? Það verður að afgreiða þetta fyrir áramót, og við getum því ekki gert annað en að samþ. þetta, fyrst Ed. hefur farið svona með okkur.“ Svona hefur samningurinn verið. — Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar, en ég legg til, að frv. þetta verði fellt.