18.12.1951
Efri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það voru örfá orð út af því, sem hv. frsm. minni hl., hv. 1. landsk., tók fram. Það er þá fyrst það, að hann sagði, að þetta væri ranglátur skattur, en ég vil minna hv. þm. á, að þegar hann var sjálfur í ríkisstj., þá var farið inn á þá braut að leggja á almennan umsetningarskatt, sem var svipaður þessum skatti. Ég veit, að hægt er að fá samþ. andmæli gegn tollum og sköttum og þá ekki sízt söluskattinum, sem mætt hefur mikilli andúð. En ég vil benda hv. þm. á, að allar nágrannaþjóðir okkar hafa lagt á söluskatt, og bendir það til þess, að ekki verði komizt hjá þessum skatti. Það er ekki hægt að innheimta allar tekjur ríkisins með beinum sköttum og innflutningsgjöldum. Það er einfalt að fá samþ. mótmæli gegn skattinum, og það er sagt, að óþarfi sé að taka söluskattinn í ríkissjóð, en ég er sannfærður um. að þessar samþykktir væru ekki gerðar, ef réttar upplýsingar væru gefnar um nauðsyn hans fyrir ríkissjóð.

Hv. þm. sagði, að í fyrra hefði fjmrh. fullyrt, að nauðsynlegt væri að leggja á söluskatt, en að stjórnarandstaðan hefði verið á móti því. Nú hefði komið í ljós, að fjmrh. hefði haft rangt fyrir sér, en stjórnarandstaðan rétt. Ég vil benda hv. þm. á, að ef söluskatturinn hefði ekki verið lagður á, hefði orðið stórfelldur greiðsluhalli þrátt fyrir óvenjumikinn innflutning og þar af leiðandi auknar tollatekjur. Það var því ekkert vit í því að vera á móti söluskattinum. Ef farið hefði verið að ráðum stjórnarandstöðunnar, hefðu hlotizt af því stórslys og fullkomið öngþveiti.

Hv. þm. sagði, að söluskatturinn hefði óheppileg áhrif á iðnaðinn og gæti komizt upp í 15%. En þetta er alveg út í bláinn, enda er öllum ljóst, að söluskatturinn er algert aukaatriði í sambandi við vandamál iðnaðarins og að það væri engin lausn á þeim, þó að skatturinn væri afnuminn. Það þarf ekki annað en að hafa það í huga, að í fyrra var söluskatturinn jafnhár og nú, en þá voru fyrirtækin rekin með miklum blóma. Það hlýtur því að vera eitthvað annað en söluskatturinn, sem hér kemur til greina.

Viðvíkjandi nauðsyn þess, að skatturinn verði innheimtur á næsta ári, þá geta hv. þm. sjálfir dæmt um það. Á fjárlagafrv. nú eru útgjöldin áætluð 37 millj. kr., en vegna hækkana, sem þarf að gera, verða þau um 380 millj., og þau fara ævinlega eitthvað fram úr áætlun, svo að það er sennilegt, að þau verði um 400 millj. kr. Með hvaða tekjuliðum á að mæta þessum útgjöldum? Það vita allir, að við getum ekki gert ráð fyrir jafnmiklum innflutningi á næsta ári og í ár, er sérstakt framlag fékkst til þess að standa undir birgðasöfnun. Það er því teflt á tæpasta vaðið eins og nú er og þarf allt til, og gæti farið svo, að ríkisbúskapurinn yrði ekki greiðsluhallalaus. Ef framleiðslan verður minni næsta ár en á þessu ári eða eins, er hætta á því, þar sem ekki verður um birgðasöfnun að ræða. Það þarf því betra ár, ef vel á að fara. Mér vitanlega er enginn ágreiningur um það, að málin standa þannig, og þess vegna hefur stj. staðið saman um þetta mál, og þeir, sem vilja breyta frv. í Ed. nú, eru á sömu skoðun. Það er þess vegna út í bláinn, að hér sé verið að leggja fyrir peninga. Og það má minna hv. þm. á, að af tekjuafganginum nú verður 88 millj. kr. ráðstafað til bráðnauðsynlegra framkvæmda.

Svo klykkti hv. þm. út með því, að það væri sparnaður fyrir ríkissjóð að afnema söluskattinn. Með sama rétti mætti segja, að það væri sparnaður að afnema verðtollinn, og ef þessi röksemd væri yfirleitt nokkurs virði, ætti ríkissjóður að afnema allar tekjur sínar til þess að spara sér útgjöld.

Þá er það varðandi þá afgreiðslu málsins, sem hv. meiri hl. n. hefur lagt til. Hv. 1. landsk. sagði, að þetta væri einkennilegt samkomulag, þar sem ríkisstj. féllist á að greiða framlög, sem henni væri skylt að greiða hvort sem væri. Þetta er algerlega út í bláinn talað. Ríkisstj. er ekki skylt að greiða til skóla eða hafnargerða meira en það, sem veitt er til þessara framkvæmda á fjárlögum. Þó að einhverjir leggi fé í skóla og hafnargerðir, þá geta þeir ekki komið með reikningana upp í stjórnarráð. Alþ. ræður því, hvenær ríkið greiðir þessi mótframlög. Hér er fallizt á, að Alþ. veiti aukafjárveitingu til þess að greiða þessi framlög, og verður það gert með sérstökum l. um ráðstöfun tekjuafgangsins. Annars væri það óheimilt.

Þetta vildi ég taka fram, og með þessu falla um sjálf sig öll gífuryrði og hæðiyrði hv. þm.