18.12.1951
Efri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð í tilefni af ræðu hv. 1. landsk. — Ég vil geta þess, að í fjvn. kom fram till. um það frá stjórnarandstöðunni að fella söluskattinn alveg niður. Þessi till. var felld, og er það sönnun þess, að stuðningsmenn stj. vildu ekki láta skattinn falla niður. Þá var þess óskað, að stjórnarandstaðan bæri fram till. til lækkunar, sem næmu upphæð söluskattsins. Þær till. voru bornar fram, en samkv. þeim hefði orðið 20 millj. kr. greiðsluhalli á fjárl. Þessar till. þóttu ekki aðgengilegar og voru því felldar, og við afgreiðslu fjárl. í Sþ. voru þær einnig felldar. Það er því ekki um neinn snúning í málinu að ræða. Það er skoðun þm., að ekki sé hægt að afgr. fjárl. án söluskattsins.

Ég vil benda á, að meðan þetta mál var rætt, kom nefnd frá Sambandi íslenzkra sveitarfélaga og óskaði þess. að einhver hluti af tekjunum af söluskattinum yrði afhentur sveitarfélögunum. Ég lýsti því þá yfir, að það kæmi ekki til mála, að neitt af tekjum ríkissjóðs yrði afhent sveitarfélögunum, enda æskilegra, að þau fengju meira af ógreiddum hluta ríkisins til skólabygginga og hafnargerða heldur en hluta af tekjum ríkissjóðs. Ég taldi, að sveitarfélögin mættu vel una við þá lausn á málinu og að ekki væri hægt að afgr. jafnstórt mál og þetta á einu þingi. Þessu var ekki mótmælt, og nefndin fór þannig, að hún gat ekki haft neinar vonir um þetta. Ég hef því ekki snúizt í þessu máli, — þetta hefur alltaf verið mín skoðun, og það er skoðun meiri hl. fjvn. Þetta þykir mér rétt að komi fram.

Ég vil svo víkja að því, sem hv. þm. sagði, að þetta væri ranglátur skattur og að betra væri að innheimta þetta með tollum. Ég vil benda á það, að ef innheimta ætti þessar 77 millj. kr. með tollum, sem lagðir væru á innkaupsverð, þá kæmi þar ofan á meðalálagning, sem ekki mun vera undir 30%. Til þess að ríkissjóður fengi þessa upphæð, yrðu því neytendurnir að greiða til milliliðanna 23.1 millj. kr. í viðbót. Ég tel því, að það mundi vera ranglátara gagnvart neytendum.

Ég tel, að ríkisstj. hafi gert rétt, er hún ákvað að veita þessar 8 millj. kr. til skólabygginga, hafnarmannvirkja og til veðdeildar Búnaðarbankans. Með þessu er bætt úr margri aðkallandi þörf, þó að vandræði bæjar- og sveitarfélaganna séu ekki leyst með því, en þau verður að leysa í sambandi við endurskoðun skattalöggjafarinnar. Ég held því, að n. þurfi ekki að vera óánægð með þessa afgreiðslu. — Þetta þótti mér rétt, að kæmi hér fram.