18.12.1951
Efri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Ég þarf ekki að taka margt fram í sambandi við ræðu hæstv. fjmrh. Hann sagði, að söluskatturinn hefði verið lagður á, þegar ég átti sæti í ríkisstj. Það var allt annar skattur, og að vísu ekki sambærilegur. Það var veltuskatturinn. Hann var ekki sambærilegur við þann skatt, sem nú er innheimtur og getur orðið 15%.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri gersamlega úr lausu lofti gripið, að söluskatturinn gæti haft nokkur áhrif á starfsmöguleika íslenzkra iðnaðarfyrirtækja. Hæstv. fjmrh. veit það að vísu fullvel, hversu þungur baggi þessi söluskattur hefur verið á þjóðinni, þó að hann tali svo. Hann veit það líka, að framlenging söluskattsins er til þess að draga allan mátt úr þjóðinni og iðnaðinum.

Hæstv. ráðh. segir, að tekjuafgangur hefði enginn orðið, ef söluskatturinn hefði verið afnuminn í fyrra. Þetta er alls ekki rétt hjá hæstv. ráðh. Nú hefur reynslan sýnt, að tekjuafgangur ríkissjóðs mun verða hátt á 2. hundrað millj. kr. á þessu ári, og er það allnokkur tekjuafgangur. Eins og ég sagði, mun tekjuafgangurinn verða hátt á 2. hundrað millj. kr. Söluskatturinn var hins vegar áætlaður 50–60 millj. kr. Tekjuafgangurinn verður því miklu meiri en söluskatturinn var áætlaður eða tekjurnar af honum reyndust. Ég hefði því haldið, að það hafi verið hægt að komast hjá því að leggja þennan bagga á þjóðina í viðbót við alla hina þungu skatta, sem á henni hvíla. — Er það þetta, sem hæstv. ráðh. kallar að spara? Hvað er það, sem hann kallar að spara? Ef til vill það að leggja alltaf sífellt þyngri skatta og álögur á þjóðina. Er það sparnaður fyrir þjóðina að borga 80 millj. kr. í skatt, sem engin þörf er að leggja á? Svo á að friða bæjar- og sveitarfélögin, sem berjast í bökkum, með því að verja 7 millj. kr. til greiðslu á vangoldnum gjöldum. Þessi vangoldnu gjöld eru vegna framkvæmda, sem ríkissjóði ber raunverulega skylda til að styrkja. Það er sennilega þetta, sem hv. 1. þm. Eyf. kallar, að fólkið fái í aðra hönd fyrir þá skatta, sem það verður að greiða.

Þá talaði hv. 1. þm. Eyf. um óvinsældir skatta. Ég ætla ekki að fara að rökræða það, en ég get ekki skilið, að það detti nokkrum í hug að halda því fram, að söluskatturinn sé vinsæll skattur. Það eru allir skattar óvinsælir, og söluskatturinn er þeirra ekki vinsælastur.

Það er nú vitað af öllum, að tollarnir samtals eru nú orðnir 8 þús. kr. að jafnaði á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu, ef jafnað er niður. Og hvernig er svo afkoma þeirra þegna, sem eiga að greiða þessa geysilega háu skatta, sem að mestu leyti eru nefskattar, sem koma jafnt niður á alla, og þó að það séu þegnar, sem hafa þung heimili? Nú er ástandið þannig hér í Reykjavík, og það er langt frá því, að það sé eitthvað sérstakt, að ef atvinnan brestur, þá beinlínis sveltur fólkið. Hér á Alþingi — í hv. Nd. — hefur verið sagt frá einu dæmi um, að hringt hafi verið til lögreglunnar frá einn heimili og hún beðin um að taka börnin og flytja þau á spítala, vegna þess að þau liðu af hungri. Þetta dæmi er samtvinnað þessum þungu skattaálögum. En það kemur einnig dálítið málinu við, hvernig ástandið er í atvinnulífinu í landinu, þegar lagðir eru á skattar og tollar. Það kemur málinu við, hvort atvinnutækin ganga með hálfri afkomu eða fullri. Og eftir því fer einnig, hvernig hagur ríkissjóðs er og hvað þarf að leggja á háa skatta. Þetta er ekki bara mál ríkisreikninganna, heldur mál, sem snertir efnahagsafkomu þjóðarinnar. Þegar tekjur af tekjuskattinum minnka vegna vaxandi fátæktar almennings, og þegar tollar minnka vegna þess, að kaupgeta manna minnkar, þá er ráðið hjá hæstv. fjmrh., að hann bara hækkar skattana og tollana á almenning, — aðeins eitt ráð. Þegar tekjurnar minnka vegna vaxandi fátæktar, þá er bara að hækka skatta og tolla, — allt í lagi, að það geti bara verið færður hallalaus rekstur á ríkisreikningunum. Þetta hefur svo aftur á móti í för með sér enn meiri tekjurýrnun og minni kaupgetu. Og þá þarf aftur að hækka skatta og tolla og svo koll af kolli. — Þetta er eina ráðið, sem hæstv. fjmrh. virðist kunna til þess að sjá fjárhag ríkissjóðs borgið. M.ö.o., ríkisstj. er í kapphlaupi við fátæktina, sem hún sjálf hefur skapað. Og með skattinnheimtunni skapar hún alltaf meiri og meiri fátækt. Spurningin er ekki um afkomu ríkissjóðs, ekki heldur um innheimtu skatta og tolla, heldur um afkomu þjóðarinnar, þ.e.a.s. spurning um sjálfa trygginguna í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ef þjóðin er velmegandi, þá er hag ríkissjóðs einnig vel borgið.