19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og nú er, þá er fjárlagafrv. að upphæð 370 millj. kr., og brtt. meiri hl. fjvn. munu auka tekjurnar um 10 millj. kr., þannig að frv. verður 380 millj. kr., þegar n. hefur endanlega afgreitt það. Nú sýnist augljóst, að tekjur þessa árs losa 400 millj. kr. Desembermánuður verður þó tekjuminni mánuður en undanfarið hefur verið. Ef nokkur von á að verða til þess að geta greitt allan þann búskaparhalla, sem orðið hefur hjá ríkissjóði, þarf hann að fá jafnmiklar tekjur á næsta ári og hann fékk í ár. Þetta er ískyggilegt. Og af þessum ástæðum er það skoðun ríkisstj., að það sé ekki hægt að afgreiða fjárlögin tekjuhallalaus, nema þeir tekjuöflunarliðir, sem verið hafa í því, haldist áfram, og Ed. hefur nú breytt frv. þessu með þetta fyrir augum, og ég vildi eindregið mælast til þess, að þessi hv. deild léti frv. standa óbreytt eins og það nú er.

Ég skal geta þess, að ríkisstj. hefur komið sér saman um að leggja til við Alþ., að 8 millj. kr. af tekjum þessa árs verði varið þannig, að 5 millj. fari til þess að greiða upp í vangoldin framlög til bæjar- og sveitarfélaga vegna skólabygginga, 2 millj. kr. til hafnargerða og 1 millj. fari til veðdeildar Búnaðarbankans. Þessar milljónir er ætlað að greiða til bæjar- og sveitarfélaga, vegna þess að ríkið hefur ekki getað greitt eins örugglega sitt framlag og æskilegt hefði verið. Ég vildi geta um þetta hér, af því að þetta snertir að sjálfsögðu nokkuð afgreiðslu þessa máls, þótt þetta sé lítill hluti þess, sem bæjar- og sveitarfélögin raunverulega ættu að fá greitt.