19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 1. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gleymdi að gefa mér upplýsingar um það, hvað búið er að borga í yfirdrátt af skuldum við Landsbankann. Hann vill líklega ekki fá þann samanburð, hvernig þeir borga bankanum og hvernig þeir borga bæjarfélögunum. Er hann kannske ekki búinn að borga þeim neitt í ár annað en ef til kemur að úthluta tekjuafgangi?

Hæstv. fjmrh. vill halda því fram, að í raun og veru væru þessar 7 millj. eins konar fjárveiting til sveitarfélaganna. Hvernig sem við viljum deila um það, hvort ríkissjóði bæri að borga þetta undireins, þá er það ekkert spursmál, að með l. viðvíkjandi skólabyggingum og hafnargerðum er lögð sú skylda á herðar ríkissjóði að greiða ákveðinn hluta af kostnaði við þessar aðgerðir, þannig að sú lagalega skylda er fyrir hendi, svo að það er ekki verið að taka neinar nýjar byrðar á herðar ríkissjóðs. Bæjar- og sveitarfélögin eiga að fá greiddan þennan hluta ríkisins til skólabygginga, til hafnargerða og lendingarbóta, það er ótvíræð lagasetning. Þm. geta deilt um það, hvenær beri að greiða þetta, en 1/4 af söluskattinum, það væri nýr fengur, ný réttarbót, það væri uppbót á þá aðstöðu, sem þau nú hafa. Það, sem þau fá í staðinn, er, að þeim er lofað, að það skuli ekki svikizt um að framkvæma gamla réttarbót, sem þau hafa. Það er allt, sem þau fá í staðinn. Hæstv. fjmrh. gat sagt við bæjar- og sveitarfélögin: Vissulega skulda ég ykkur þetta; vissulega eigið þið að fá þetta, en það getur verið, að ég dragi von úr viti að greiða þetta. Það getur verið, að ég greiði það, sem mér ber að greiða samkvæmt l., gegn því, að þið fallið frá því að fá nýja réttarbót, sem búið er að samþ. hér í Nd. — Ég býst við, að hæstv. fjmrh. reyni ekki, a.m.k. þegar hann talar í Framsfl., að draga dul á, hve góða verzlun hann hafi gert, þó að hann vegna samninga innan ríkisstj., ef hún gæti hangið dálítið saman, reyni að láta þetta líta út sem feng fyrir bæjarfélögin, — hvernig hann hafi sloppið við að þurfa að greiða nokkuð af söluskattinum til bæjarfélaganna með því að lýsa yfir, að hann muni ef til vill greiða eitthvað til bæjar- og sveitarfélaganna af skuldum, sem þau eiga hjá ríkinu. Hæstv. fjmrh. þarf ekki að vera með nein ólíkindalæti við okkur, þegar hann er að lýsa þessu.

Þá kom hæstv. ráðh. að því, að þetta væri mikill fengur fyrir bæjar- og sveitarfélögin að geta notað þessar 7 millj., og svo bætti hann við: ef þau hafa lagt þetta út sjálf, ýmist borgað skuldir eða lagt peninga út. — Með öðrum orðum: Er ekki meiningin hjá hæstv. fjmrh. að borga þessar 7 millj. beint út til bæjar- og sveitarfélaganna? Er meiningin að borga þetta kannske inn á reikning bæjar- og sveitarfélaganna hjá bönkunum? Er ekki meiningin, að þetta eigi að einhverju leyti að fá að notast af hálfu bæjarfélaganna til framkvæmda og ríkisstj. hjálpi bæjarfélögunum til að losna við skuldir við bankana í staðinn? Svo framarlega sem bæjar- og sveitarfélögin fengju þessa peninga beint og ríkisstj. sem sá voldugi aðili hefði áhrif um það, að þær skuldir, sem bæjarfélögin nú eru í við bankana,fengju að standa óhreyfðar, þá gætu bæjarfélögin notað þetta að einhverju leyti til framkvæmda. En það skauzt upp úr hæstv. ráðh., að það muni vera annað, sem er meiningin með þessu. Meiningin er, eins og hv. þm. Hafnf. drap á, að jafnvel fari meginið af þessu í skuldir bæjar- og sveitarfélaga til þess að borga eitthvað upp af þeim. Með öðrum orðum: Í viðbót við það, að svo og svo mikið af tekjuafgangi ríkissjóðs fari til að greiða skuldir ríkissjóðs við Landsbankann, þá ætlar nú hæstv. fjmrh. og ríkisstj. að hugga bæjarog sveitarfélögin með því að létta af þeim þungum byrðum — og svipta þau 1/4 af söluskattinum — með því að borga líka til Landsbankans og annarra banka ofur lítinn part af þeim skuldum, sem bæjar- og sveitarfélögin eru í. Ég held, að þetta sé anzi hart að farið og minni nokkuð á, hvernig hreppstjórar stundum höguðu sér í gamla daga, þar sem þeir voru í góðum kunningsskap við selstöðukaupmenn, þegar þeir voru að meðhöndla kotungana, sem voru í skuld við þá. Það er svipuð meðferð, sem hæstv. fjmrh. virðist nú ætla að hafa gagnvart fátækum bæjar- og sveitarfélögum í landinn. Og sá ráðh., sem næstur honum situr, hæstv. viðskmrh., skrifar um leið bönkunum og segir við þá: Nú megið þið ekki vera að lána meira, nú verðið þið að setja hömlur á lánastarfsemina. — Sem sé, um leið og hæstv. fjmrh. tekur peningana frá bæjar- og sveitarfélögum, sem hann þó ætti að greiða þeim, þá skrifar hin hönd ríkisstj. og segir: Verið þið ekki að lána þessum bæjarfélögum meira. — Það er eins og það séu samfelldar aðgerðir gegn bæjar- og sveitarfélögunum til þess að minnka þeirra möguleika á framkvæmdum. Ég held, að þetta ætti að nægja til þess að sýna fram á, hvers eðlis þetta bein er, sem Framsfl. kastar í Sjálfstfl. í skiptunum innan ríkisstj.; það er nokkuð lítið á því.

Þá sagði hæstv. ráðh. út frá spurningunni, sem hv. þm. Hafnf. lagði fyrir hann, hvernig ætti að skipta þessu, að það væri óákveðið, það væri alls ekki ákveðið, hvert þetta færi til bæjar- og sveitarfélaga, það væri bara búið að ákveða, að þetta skuli borga út til einhverra bæjarfélaga, ef samkomulag næðist í ríkisstj. um, hvernig skyldi borga þetta. Það er vitanlegt, að það er kominn glundroði í ríkisstj., hæstv. fjmrh. hótar að segja af sér við 2. umr. Ef það fer þannig, þegar ríkisstj. fer að ræða skiptinguna á þessari bráð, að hæstv. fjmrh. finnist hann ekki fá nægilega mikið fram af sínum kröfum og hótar að segja af sér, — hví að það er ekki alveg víst, að hann beygi Sjálfstfl. eins og nú, því að það er stundum slæmt að vega tvisvar í sama knérunn, — þá gæti farið svo, að ekkert samkomulag næðist í ríkisstj. um þessa skiptingu og ríkisstj. spryngi á því, að löggjafinn var ekkert búinn að samþykkja um það. Hvar stendur þetta þá? Það gæti þá farið svo, fyrst ríkisstj. er enn þá, eftir 3 mánaða þingsetu, ekki búin að koma með löggjöf um það, hvernig eigi að skipta þessum tekjuafgangi, að ríkisstj., sem var nærri því sprungin á því, hvort ætti að setja 1/4 af söluskattinum til bæjarfélaganna, spryngi á þessu atriði eða á því, hvað mikið af mótvirðissjóðnum ætti að fara til landbúnaðarins. Það gæti farið svo, að ríkisstj., sem er eins viðkvæm og hæstv. fjmrh. lýsir yfir að hún sé, væri búin að sprengja sjálfa sig, áður en hún væri komin að því að skipta þessum 7 millj. Þá er þetta orðin góð verzlun, sem hæstv. fjmrh. er búinn að gera á móti hagsmunum bæjar- og sveitarfélaga. Það er ekki að vita, hverju hæstv. fjmrh. býr yfir, en fastheldinn er hann á auðinn í ríkissjóðnum og hættir við að gleyma bæjar- og sveitarfélögunum, þegar hann er kominn til Reykjavíkur, þó að hann muni þau vel, þegar hann er í sínu kjördæmi.

Það eru svo nokkur orð út af því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði. Ég hafði eiginlega hugsað, að þessi skörulega samþykkt, sem hér er gerð í Nd. fyrir hans tilstuðlan, væri í raun og veru framkvæmd á þeirri yfirlýsingu Sjálfstfl. á siðasta landsfundi, að það væri Sjálfstfl., sem hefði forustu í ríkisstj. og markaði stefnuna, og ég sé, að Framsfl. mun líklega hafa tekið þetta nokkuð þungt upp — þessa yfirlýsingu Sjálfstfl. — og fjmrh. hans hafi ætlað að láta Sjálfstfl. finna, að það væri ekki Sjálfstfl., sem markaði stefnuna, Sjálfstfl. skyldi fá að beygja sig. Hins vegar heyrði ég það á ræðu hv. 7. þm. Reykv., að hann mun ekki líta á þetta sem neinn frið innan ríkisstj., heldur væri hér aðeins um vopnahlé að ræða, eins og hann orðaði það, vegna þess að jólahelgin væri í nánd. Ríkisstj. kunni sjálf ekki við að hafa svona reidd vopnin hver gegn öðrum, meðan jóladagarnir eru. Hins vegar eigi að kalla þing saman aftur eða þingfundir að halda áfram 3. jan. og þá muni að öllum líkindum jólahátíðin vera búin og vopnahléinu lokið og Sjálfstfl. muni draga sverð sitt úr slíðrum og sýna, hver hefur forustuna. Þess vegna er ég hræddur um, að þessi samþykkt verði skammgóður vermir fyrir bæjar- og sveitarfélögin, þegar ekki er gengið betur frá hlutunum en þetta.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vonast til þess, að hv. þdm., sem áður samþ. þessar brtt., þegar þær komu frá hv. 7. þm. Reykv., standi nú fast með þeim, enda hefur það komið í ljós, að það samkomulag, sem innan ríkisstj. hefur verið gert, er engan veginn haldgott og aðeins um vopnahlé að ræða, sem líklegt er að ekki standi lengi, og þess vegna illa um hnútana búið, ef bæjar- og sveitarfélögin fengju ekki einu sinni þetta litla bein, sem til þeirra er hent með yfirlýsingu í nál. frá meiri hl. fjhn. á þskj. 503. Þess vegna vonast ég til þess, að þessi brtt. á þskj. 511 verði samþ.