10.10.1951
Neðri deild: 6. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (5)

39. mál, lántaka vegna landbúnaðarframkvæmda

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður. Þetta frv. er lítið annað en endurtekning á þeirri heimild, sem ríkisstj. var veitt á síðasta þingi í öðru formi. Þessi litla hækkun getur ekki valdið neinum ágreiningi, og ég get líka fallizt á að hraða málinu. En það er tvennt annað, sem ég vildi sérstaklega minnast á í sambandi við afgreiðslu málsins. Ef ég hef skilið hæstv. atvmrh. rétt, virðist þessi lántaka eiga að kosta það, að fresta verði byggingu sementsverksmiðjunnar um að minnsta kosti tvö ár. Þegar vakin var athygli á því á sínum tíma, að sementsverksmiðjan væri ekki með í þeim samningi, sem stjórnarflokkarnir gerðu með sér um samvinnu, var því lýst yfir, að mig minnir af einum ráðh., að það skipti ekki máli, því að auðvelt væri að fá lán erlendis til hennar. Það átti því ekki að seinka afgreiðslu málsins, þó að hún væri ekki tekin með í samainginn. Eins og kunnugt er bíða nú margir eftir því með óþreyju, að þessi verksmiðja verði reist, og þess vegna þykir mér allur sá dráttur, sem á því kann að verða, vægast sagt leiður og æskilegast, að málinu verði hraðað, þó að möguleikar í þessum banka, sem þetta lán hefur verið tekið í, séu ekki miklir á næstu missirum. Ég vildi aðeins fyrir mitt leyti undirstrika það og beina til ríkisstj., hvort hún sjái sér ekki fært að reyna fyrir sér á öðrum vettvangi að fá það fé, sem þarf til þessara nauðsynlegu bygginga, svo að hægt væri að hefjast banda ekki siður fyrir því, þó að þetta lán til landbúnaðarins verði nú tekið hjá Alþjóðabankanum.

Í annan stað langar mig að beina til hæstv. fjmrh. ofur lítilli fyrirspurn. Í heimild þeirri, sem samþ. var ríkisstj. til handa á síðasta Alþ., er gert var ráð fyrir því að taka lán til landbúnaðarframkvæmda, var látin fljóta með eftir mjög miklar bollaleggingar mjög lítilfjörleg upphæð, 3 milljónir ísl. kr., til iðnlánasjóðs. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. hafi ekki gleymt þessari litlu upphæð, þegar hann var að leita fyrir sér um lán til landbúnaðarins, því að eins og hæstv. atvmrh. tók greinilega fram, er ekki ófyrirsynju, þótt reynt verði að beina atvinnustarfsemi og fjármálum að einhverju leyti inn í annan farveg en fjármagnið hefur að mestu leyti runnið að undanförnu, þ.e. í sjávarútveginn. Ég álit æskilegt, að hægt verði að finna stuðning til handa iðnaðinum í landinu líka. Á þetta hefur hvorugur hæstv. ráðh. minnzt, og þá þykir mér rétt að óska eftir að fá upplýst, hvort þetta hafi verið tekið með og hvað þessu máli líður. Alveg eins og menn bíða spenntir eftir því að vita, hvað líði framkvæmd sementsverksmiðjumálsins, bíða menn einnig með óþreyju að fá að einhverju leyti bætt úr fjárskorti iðnaðarins. Það er að vísu ekki hægt að búast við árangri af þessari upphæð út af fyrir sig. En eins og málið var lagt fyrir síðasta þing, þar sem með þessu litla fjárframlagi ríkisins væri hægt að gera ráð fyrir, að um myndun stærri stofnunar yrði að ræða, þá gæti hún, ef afgreidd yrði, orðið til verulegra bóta.

Mín fyrirspurn til hæstv. fjmrh. er því þessi, hvort hann hafi tekið þetta mál til athugunar um leið og hann tók fyrir möguleika til lánsútvegunar fyrir landbúnaðinn og hvað því liði, hvort þetta sé nokkuð á veg komið og hvort einhvers árangurs megi vænta á næstunni.