18.12.1951
Efri deild: 47. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

139. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki halda langa ræðu, en ég vil segja nokkur orð út af því, sem hv. 7. landsk. þm. sagði hér, og út af þeim till., sem hann flytur hér á þskj. 476. Og vil ég þá benda honum á, að það er sami gallinn á þeim, þar sem um heimild eina er að ræða. Ef ráðh. vill ekki nota heimildina, þá ná hans till. ekkert lengra, svo að þetta bjargráð hans er ekki alveg öruggt.

Út af því, sem hann sagði um handbók trygginganna, þá er það a]veg rétt, að það er ákaflega bagalegt, að hún skuli ekki hafa getað komið út, en það stendur þannig á því, að sá maður, sem um það ætlaði að sjá fyrir Tryggingastofnunina, veiktist, svo að af því hefur ekki getað orðið enn þá, en vonir standa til, að úr því rætist á næstunni.

Út af þeim ummælum, hvað hækkandi vísitala hefði áhrif á framlögin til trygginganna, er rétt, að menn geri sér það ljóst, hvað það nemur miklu. Hvert vísitölustig veldur fyrir ríkið 170–174 eða 175 þús. kr. og fyrir bæjar- og sveitarfélög 100 þús. kr. Á sama hátt hefur það áhrif á iðgjaldahækkunina. Á 1. verðlagssvæði nemur hækkunin kr. 3.90 fyrir giftan mann. Segjum, að miðað sé við vísitöluna 150, þá hækka iðgjöldin úr 390 í 588 kr. Nú eru þau 473 kr., svo að þarna munar liðugum 100 kr. Lægstu iðgjöld, þ.e. ógiftra kvenna í sveit, mundu hækka um kr. 2.30 fyrir hvert vísitölustig, eða mundu fara upp í 345 kr. við 150 stig. Út af fyrir sig er þessi iðgjaldahækkun ekki tilfinnanleg, heldur eru það aðrar greinar, sem þar verða miklu verri, þar sem eru sjúkrasamlagsiðgjöldin, en þau nema nú t.d. í Sjúkrasamlagi Reykjavíkur 22 kr. á mánuði fyrir hvort hjóna, eða rúmum 500 kr. á ári. Og ég held, að þessi gjaldahækkun sé miklu meiri en kauphækkunin frá því að tryggingalögin voru sett, en nú er þess líka að gæta, að atvinna er nú miklu minni en hún var þá, og almenningur getur miklu verr risið undir þessu. Svo er t.d. um marga unglinga milli 16 ára og tvítugs.

Það kom fram hjá hæstv. forsrh., að hann teldi, að Tryggingastofnunin mætti eftir atvíkum vel við una, ef hún fengi tekjur sínar greiddar eftir marzvísitölu, þótt vísitalan hækkaði nokkuð úr því, og yrði þá að ganga á sjóði stofnunarinnar. Nú er það svo, að þótt gengið hafi nokkuð á sjóði stofnunarinnar undanfarið, — ég held, að hallinn hafi verið um 9 millj. kr., — þá eru þeir sem betur fer ekki svo mjög uppétnir enn. En það er rétt að skýra frá því, að Tryggingastofnunin hefur tekið á sig ýmiss konar skuldbindingar, sem hún þarf að inna af hendi. Þannig hefur Tryggingastofnunin lofað allt að 15 millj. kr. láni til trygginganna í Reykjavík og sjúkrahúsa og gamalmannaheimila úti um land. Ég tel henni skylt að standa við þessi loforð, og því er óhæft að ganga svo að sjóðum stofnunarinnar, að hún geti ekki innt þessar skuldbindingar af hendi; annað tel ég óhæft, ekki sízt vegna þess, að þessar stofnanir eru í nánu sambandi við tryggingastarfsemina í landinu. Ég vil ekkert um það fullyrða, hver vísitalan verður næsta ár, en ég hef séð það í blöðum og heyrt það, að Reykjavíkurbær telur rétt að reikna með, að meðalvísitala ársins verði 155 stig, eða 9 stigum hærri en nú. Hvort þetta er of hátt áætlað, skal ég ekkert um segja.

Hv. þm. Barð. benti réttilega á það, að ef þetta frv. yrði samþ., þyrfti að bæta við framlagið til trygginganna á fjárlögunum, og vil ég fullyrða, að miðað við afkomu ríkissjóðs að undanförnu er auðvelt að fá fé til að mæta þessum auknu útgjöldum.

Þessar upplýsingar vildi ég gefa, áður en umr. um þetta mál lýkur hér. Það er ekki hægt að mæta lengur væntanlegum halla á rekstri Tryggingastofnunarinnar með því að ganga á sjóði hennar, nema menn ætlist til, að bætur verði lækkaðar eða lánastarfsemi stöðvuð, sem einnig mundi hafa þau áhrif, að dregið yrði úr þeim stuðningi við landsmenn, sem tryggingunum er ætlað að veita.