19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

139. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur gengið í gegnum hv. Ed. og tekið þar aðeins lítilfjörlegum breyt. Það var borið þar fram sem stjfrv., vegna þess að nauðsynlegt þótti að gera tvenns konar breyt. á l. um almannatryggingar. Fyrsta breyt., sem feist í 1. gr. frv., er aðeins leiðrétting eða nánari skilgreining, og þarf ekki orðum um að fara, af því að nú er talað um fleiri en eina vísitölu. En meginbreyt. á sjálfum almannatryggingunum felst í 2. gr. frv., þar sem í gildandi lögum er nú farið þannig að, að vísitöluálag grunnupphæðarinnar er miðað við meðalvísitölu næsta árs á undan greiðslunum. Og þegar jafnörar breyt. eru á vísitölunni eins og nú upp á síðkastið, hefur það leitt til þess, að tekjustofnar almannatrygginganna hafa orðið nokkuð langt á eftir því, sem þurfti að greiða, og hefur munað mjög verulegu. Sú breyt., sem hér er lagt til að gera, er í því fólgin, að í stað þess að miða við meðalvísitölu næsta árs á undan er lagt til að miða við meðalvísitölu marzmánaðar sama ár og á að greiða. Það er talið, að ekki þurfi fyrr að ákveða um innheimtu og framlag sveitarfélaga, og er farið eins langt og fært er af tæknilegum ástæðum. Þetta hefur þótt nauðsynlegt að gera til þess að tryggja, að ekki gangi um of á sjóði almannatrygginganna, og fellst ríkisstj. á þetta. Að öðru leyti er ekki að ræða um neina breyt. á iðgjöldum eða framlagi sveitarfélaga. — Ed. gerði nokkra breyt. við þessa gr., og er það raunverulega leiðrétting, vegna þess að ekki þótti fært að innheimta iðgjöld lögskráðra sjómanna samkv. marzvísitölu. Er því lagt til, að þau verði fram til marzmánaðar innheimt samkv. janúarvísitölu sama árs, og mun það réttara af tæknilegum ástæðum.

Þá er 3. brtt., sem felst í þessu frv. og er í 3. gr. þess. Er hún varðandi bráðabirgðaákvæði almannatryggingal., þar sem talað er um það, að nokkrar skerðingar, sem voru á elli- og örorkulífeyri til ársloka 1951, skuli ekki koma til framkvæmda. Nú þótti ekki fært að taka upp fjárgreiðslur, sem hefðu numið allmiklu, til að mæta þessu að þessu sinni. Er því lagt til, að þetta bráðabirgðaákvæði verði enn framlengt um eitt ár. En jafnframt lýsti ég því yfir í hv. Ed. og skal endurtaka hér, að meiningin er á þessu ári að taka til athugunar, á hvern hátt eða hvort ekki mundi unnt að afla almannatryggingunum tekjustofna, til þess að hægt sé að afnema þessar skerðingar, annaðhvort að fullu eða í áföngum, frá árslokum 1952 að telja. Verður þetta tekið mjög alvarlega til athugunar á þessu ári í samráði við almannatryggingarnar sjálfar, hvernig með þetta mál skuli farið. Mér er vel ljóst, að það eru ýmsir sjóðir, sem þarna heyra undir, sem þarfnast þess, að frestur verði nokkru lengri, og mun því nauðsynlegt að finna einhver ráð til þess, að úr verði bætt. Eu sem sagt, það þótti alls ekki fært að taka þetta upp að þessu sinni, hvorki vegna ríkissjóðs sjálfs né annarra þeirra, sem undir þeim gjöldum réttu að standa.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. við 1. umr. En málið þarf að afgr. áður en þingi er frestað, sennilega innan tveggja daga, og vildi ég því óska, að hv. n. mætti vinna eins hratt í málinu og hún sér sér fært, til þess að frv. mætti afgreiðast. Leyfi ég mér svo að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.