19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

139. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég skal ekki hefja deilur um þetta mál hér. Ég sé ekki ástæðu til að svara neinn af því, sem hv. 7. þm. Reykv. mælti. Hann mælti fyrir hönd sveitar- og bæjarfélaganna, og skil ég vel, að það er eðlilegt. En hins er að gæta, að ef það á að halda uppi tryggingastarfsemi í landinu, verður að horfast í augu við það, að til þess verður að afla fjár. Það er líka vitað, að það hefur að undanförnu gengið nokkuð á sjóði Tryggingastofnunarinnar, og minn dómur er það, að ekki sé hægt að ganga lengra á þeirri braut. Hitt er og vitað, að Ed., er hún hafði frv. til umræðu, vildi ganga enn þá lengra en þetta til að mæta óskum almannatrygginganna í þessu efni. Ég varð að standa þar uppi gegn þm. úr ýmsum flokkum, sem vildu ganga enn lengra til móts við Tryggingastofnunina. Hér koma svo fram andmæli um það, að of langt sé gengið í að mæta óskum stofnunarinnar með þessu frv. Ég gæti því hugsað, að hér sé reynt að ganga meðalveginn, án þess þó að tekin sé til greina hin fulla þörf trygginganna fyrir meira fé. Þannig horfir málið við fyrir mér, eftir að hafa heyrt umr. um það í Ed.

Mér finnst heldur ótrúleg orð hv. 7. þm. Reykv. um það, að þessi ákvæði mundu hafa í för með sér 2 millj. kr. kostnað fyrir Reykjavíkurbæ. Það er þá ekki samræmi í því og þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um þetta mál, að það muni ekki kosta ríkissjóð nema lítið yfir 2 millj. kr. Að vísu er ekki vitað með vissu, hver vísitalan verður í marzmánuði næsta ár. En að sjálfsögðu er það vitað, að samþykkt þessa frv. mundi hafa í för með sér nokkur útgjöld fyrir Reykjavíkurbæ.

Ég vildi svo aðeins segja hv. 7. þm. Reykv. það, að það átti ekki að liggja í orðum mínum áðan, að ég reiknaði með örari breyt. á vísitölunni á næstunni en hefur verið, og ég vil taka undir þau orð hv. þm., að breyting hlýtur að verða, og við vonum, að hún verði miklu hægari á næstunni en undanfarin ár. Hitt virðist mér auðsætt, að þegar þetta mál er athugað út af fyrir sig, þá sé það eðlilegt, að reynt verði að koma á betra samræmi á milli innheimtu teknanna og greiðslu gjaldanna, þannig að bilið milli þeirra verði sem stytzt. Mér er ekkert ljúft að mæla hér með till. um að leggja aukna byrði á sveitarfélögin sem og fjölda einstaklinga; ég er ekkert ginnkeyptur fyrir því að leggja aukin álög á fólkið í landinu, en ég sá mér bara ekki fært að ganga skemmra í þessu máli.