19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

139. mál, almannatryggingar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við 3. gr. þessa frv. Hæstv. forsrh. sagði í sinni fyrri ræðu hér um þetta mál, sem ég fagna, að það mundi verða tekið til athugunar næsta ár, hvort ekki sé hægt að breyta þeim bráðabirgðaákvæðum almannatryggingalaganna, sem kveða á um það, að það fólk, sem nýtur einhvers konar styrks úr opinberum sjóðum, skuli fá það fé dregið frá sínum ellilífeyri. En ég harma það samt, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki treysta sér til að gera á þessu nokkra breytingu þegar á þessu ári, og mér hefði fundizt, að það hefði mátt byrja á að gera á þessu breyt. nú þegar. Það er í rauninni dálítið broslegt, að þegar hér á Alþ. er verið að veita fólki fjárstyrk með 18. gr. fjárlaganna, þá er þar raunverulega um að ræða, að verið er að greiða fé til Tryggingastofnunar ríkisins, vegna þess að þessir fjárstyrkir koma til frádráttar þeim styrkjum, sem Tryggingastofnunin á að greiða þessu fólki. Og þá er það svo, að þessir styrkir koma ekki fram sem neinir viðbótarstyrkir til þessa fólks. Nú má gera greinarmun á því fólki, sem nýtur styrks samkvæmt 18. gr. fjárlaganna, og því, er nýtur hinna lögboðnu lífeyrissjóðslauna, þar sem hið síðarnefnda greiðir ekki nema hluta af venjulegum greiðslum í sjóði almannatrygginganna. En hitt kemur óeðlilega út, og fólki finnst það undarlegt, að þegar það er að taka út sína styrki frá tryggingunum, þá fær það þá ekki alla, heldur koma þar til frádráttar þeir styrkir, sem það nýtur frá hinu opinbera samkv. fjárlögunum. Ég vil því leyfa mér að beina því til þeirrar hv. nefndar, sem fær þetta frv. til athugunar, að hún rannsaki möguleikana á því að breyta þessum ákvæðum nú þegar, að þessir styrkir samkv. 18. gr. fjárlaganna komi ekki til frádráttar lífeyrisgreiðslum frá almannatryggingunum og sömuleiðis t.d. styrkir, sem menn kunna að njóta frá bæjarfélögunum, því að það er efalaust ekki hugmyndin með þessum styrkjum að svipta fólk ellilífeyri, sem það á annars kröfu á. En mér finnst rétt að gera nokkurn greinarmun á því fólki, sem fær greidd lögboðin eftirlaun úr lífeyrissjóði, og því, sem fær greidda þessa sérstöku styrki. Það er óeðlilegt að hafa þann hátt á, að tekið sé með annarri hendinni það, sem gefið er með hinni. Og það er dálítil blekking fólgin í þessu fyrir fólkið, sem verður aðnjótandi þessara styrkja samkv. 18. gr. fjárlaganna. — Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fara að koma með brtt. um þetta, en ég leyfi mér að beina því til hv. nefndar, að hún taki þetta atriði til athugunar, því að enn er tími til að breyta þessu nú þegar.