20.12.1951
Neðri deild: 51. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð, því að það mun ætlunin, að þetta verði að lögum fyrir áramót, og er því skammur tími til stefnu fyrir jól. Þetta er stjórnarfrv. og borið fram í hv. Ed. Kom það til þessarar deildar í gær, svo að það hefur ekki verið mikill tími fyrir n. að athuga þetta. N. hafði þó fund í gærkvöld, og allir nm. hafa skrifað undir nál., þótt ýmsir þeirra áskilji sér rétt til þess að bera fram brtt. eða fylgja þeim brtt., sem fram kunna að koma.

Efni frv. er í þremur gr. og er aðallega um tekjuöflun Tryggingastofnunar ríkisins. Undanfarin ár hefur vísitöluálagið á grunnupphæðirnar verið miðað við meðalvísitölu næsta árs á undan. Þetta hefur komið sér illa nú á seinni árum, því að vísitalan hefur farið hækkandi með hverju ári og Tryggingastofnunin hefur orðið að greiða öll gjöld og bætur með vísitölu hvers tíma. Mismunurinn á greiðsluvísitölunni, sem bæturnar eru greiddar með, og meðalvísitölu næsta árs á undan, sem tekjurnar eru miðaðar við, hefur verið afar mikill 2 s.l. ár. Árið 1950 var vísitalan, sem bæturnar miðast við, um 108 stig, en tekjuálagsvísitalan um 100 stig. Þetta frv. gengur í þá átt að reyna að samræma hlutfallið á milli bótanna og framlaga til stofnunarinnar, sem skulu nú vera miðuð við vísitölu yfirstandandi árs. Skal marzvísitalan vera lögð á gjöldin, sem greidd eru til Tryggingastofnunarinnar til þess að standa undir kostnaði. En þetta er ekki nægilegt þegar svo kann að fara, að vísitalan hækki meira, og verður þá Tryggingastofnunin sjálf að taka á sig þann halla, sem verður fram yfir áramót. En það er þó mikil bót að þessu.

Nú er talið, að meðalvísitala yfirstandandi árs sé 131 stig, en kaupgjaldsvísitalan, sem bæturnar greiðast með, er komin upp í 144 stig. En þetta er þó mikið til bóta, og verður ekki lengra komizt. Það var reynt að komast lengra í hv. Ed., með því að ríkið taki á sig nokkurs konar ábyrgð, þannig að ef vísitalan yrði hærri á árinu en hún var í marzmánuði, þá verði ríkið að borga þann halla, svo að hægt sé að greiða bætur með fullri uppbót samkvæmt kaupgjaldsvísitölu án þess að skerða tryggingasjóðinn. En á þetta var ekki fallizt. Heilbr.- og félmn. þessarar d. fellst á hitt sjónarmiðið. En tveir þm., þeir hv. 3. landsk. þm. og hv. 10. landsk. þm., bera fram brtt., sem fer fram á, að ríkissjóður taki á sig ábyrgð og greiði það, sem á vísitöluna vantar, svo að Tryggingastofnunin geti á árinu 1952 greitt bætur með fullri uppbót samkvæmt kaupgjaldsvísitölu. Þessi brtt. gengur að mínu áliti allt of langt, þannig að ekki mun verða samkomulag um hana. Þess vegna mæli ég á móti henni og legg til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Í 3. gr. frv. er líka brtt. um, að þau bráðabirgðaákvæði um takmörkun á lífeyrisgreiðslum, sem sett voru 1946 og áttu að gilda til 5 ára, verði framlengd um eitt ár, eða til ársloka 1952. Hæstv. ríkisstj. hefur boðað, að fyrir næsta þing verði lagðar fram till. um það, hvernig með þetta skuli fara. En eins og nú standa sakir og ef þetta frv. verður ekki samþ. fyrir áramót, þá verður ríkisstj. að taka að sér að greiða þessar uppbætur, sem eru mikil útgjöld fyrir stofnunina. En þar sem það á að athuga þetta nánar á næsta ári, legg ég til, að frv. verði samþ. óbreytt. Með því er tekinn af allur vafi um það, með hvaða vísitölu skuli greiða gjöldin. Í raun og veru er til tvenns konar vísitala. En hér er tekin ákvörðun um, að það sé kaupgjaldsvísitala marzmánaðar, en ekki verðlagsvísitalan, sem ber að reikna með. Er þetta því leiðrétting, þannig að tekinn er af allur vafi um það, hvort verðlagsvísitalan eigi að reiknast eða ekki. — Vona ég, að þetta frv. verði samþ. og nái fram að ganga.