20.12.1951
Neðri deild: 51. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

139. mál, almannatryggingar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Rang. taldi það upplýst, að þegar ég gaf upplýsingar í gær um það, hvað þessi lagabreyt. mundi kosta Reykjavíkurbæ, þá hefði ég reiknað fullflott. Mínar upplýsingar voru miðaðar við það, að vísitala marzmánaðar yrði 150 stig, þar sem ég tel það skammsýni að halda, að vísitalan þá verði óbreytt frá því sem nú er. Það er að vísu rétt, að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurbæjar er miðað við 155 stig, en þó ekki framlagið til Tryggingastofnunarinnar, það er miðað við 150 stig.

Hv. frsm. n. taldi, að þó að þetta mundi hafa aukinn kostnað í för með sér, þá mundi það hins vegar létta fátækraframfærsluna. Ég skal ekki draga úr þýðingu trygginganna, ég var eins mikill stuðningsmaður þeirra og hv. frsm. Hitt vildi ég segja, að það hefur valdið vonbrigðum, að þær skuli ekki hafa létt fátækraframfærsluna meira en raun er á.

Ég vil taka það fram, að þessi ummæli fela ekki í sér gagnrýni á Tryggingastofnunina. En hitt er ábyrgðarhluti fyrir Alþ., ef það neitar bæjar- og sveitarfélögum um aukna tekjustofna, samtímis því sem það samþykkir l., sem hafa í för með sér milljónaútgjöld fyrir þau.