20.12.1951
Neðri deild: 51. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Það má vera, að hv. 7. þm. Reykv. hafi verið eins mikið með tryggingalöggjöfinni og ég, þegar hún var sett. Ég benti þá á, að ég teldi vafasamt, hvort fært væri að leggja í svo fullkomna löggjöf. En árið 1945 var mikið peninga- og veltuár, svo að Alþ. áleit þá allt fært. Nú er svo komið, eftir 5–6 ár, að búið er að nema margt úr gildi og það fer að verða erfitt að halda tryggingalöggjöfinni við. Það er komið í ljós, sem ég spáði 1945, að erfitt ætlar að reynast að standa undir löggjöfinni fjárhagslega.

Ég veit, að Reykjavíkurbær og fleiri bæjarfélög eiga erfitt með að greiða framlög sín til trygginganna. En eins og ég gat um, er ekki annað fært, ef stofnunin á að inna af hendi þær greiðslur, sem l. mæla fyrir um, en að henni séu tryggðar samsvarandi tekjur. Ég held, að það hafi verið álit allra, að Tryggingastofnunin gæti ekki greitt hærri bætur en tekjunum nemur og að forðast yrði að ganga á sjóði stofnunarinnar. Það er því ekki um það að deila, annaðhvort verður að draga úr tryggingunum eða ganga til móts við stofnunina, svo að hún fái að hækka álögin að einhverju leyti gegn auknum bótum. Í frv. er ekki gengið lengra en það, að ákveðið er, að miða skuli við vísitölu marzmánaðar, en stofnunin ber áhættuna af því, ef marzvísitalan verður lægri en meðalvísitala ársins. Ég álít, að öll sanngirni mæli með því, að Tryggingastofnunin fái þetta álag.

Það má vera, að það sé misskilningur hjá mér, að hv. 7. þm. Reykv. hafi miðað upplýsingar sínar við vísitöluna 155. En hitt mundi ég, að í heild var fjárhagsáætlunin miðuð við vísitöluna 155, og hélt því, að það sama mundi gilda um þetta.

Viðvíkjandi iðgjöldum ungmenna eða fátæklinga er það svo, að bæjarfélagið hefur endurkröfurétt á hendur öllum þeim, sem færir eru um að greiða skatt. Ef þetta fólk ætti að bíða eftir úrskurði sveitarstjórnar, er hins vegar, eins og ég áður sagði, hætt við, að það yrði réttindalaust mestan hluta ársins.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vona bara, að brtt. verði felldar.