08.10.1951
Sameinað þing: 3. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Ásmundur Sigurðsson:

Um langt skeið hefur það tíðkazt á Alþingi að útvarpa 1. umr. fjárlaga. Mun það vera vegna þess, að afgreiðsla þeirra er talin skipta meira máli en afgreiðsla flestra annarra mála, enda má segja, að í fjárl. sjáist þess gleggst merki, hvernig þjóðarbúskapnum er stjórnað og hvernig valdhafar bregðast við þeim trúnaði, sem þeim hefur verið sýndur. En þegar dæma skal fjárlagaafgreiðslu og fjármálastjórn, þá verður fyrst og fremst að skoða hana í því ljósi, hvern þátt hún á í að tryggja öryggi atvinnulífsins og efnahagslega afkomu alls þorra þjóðarinnar.

Það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, sýnir fjármálastefnu hæstv. ríkisstj. og þá fyrst og fremst fjmrh.

Fyrsta og gleggsta einkenni þess er það, að það er langsamlega hæsta fjárlagafrv., sem nokkru sinni hefur verið lagt fyrir Alþingi. Ef að vanda lætur, mun það þó eiga eftir að hækka í meðferð þingsins, a.m.k. ef gera skal framlögum til verklegra framkvæmda jafnhátt undir höfði sem öðrum útgjöldum ríkisins.

Heildarupphæð þessa frv. á sjóðsyfirliti er 363.8 millj. kr. og af því aðeins 4 millj. hagstæður greiðslujöfnuður. Er hér um að ræða 60 millj. kr. hærri upphæð en á síðasta árs fjárl. Má það teljast allgott stökk á einu ári og fróðlegt að minnast ummæla hæstv. fjmrh., er flokkur hans var í stjórnarandstöðu fyrir nokkrum árum. Í þingræðu, sem hæstv. ráðh. flutti þá, taldi hann það bera vott um hámark óstjórnar í fjármálum og eyðslusemi hvers konar. að fjárl. væru nú bara farin að nálgast 100 milljónir. Síðan er liðið á sjöunda ár, og langmestan þann tíma hafa hinir þrír íslenzku lýðræðis- og umbótaflokkar farið með stjórn landsins.

Nú væri e.t.v. ekkert við þessum háu upphæðum að segja, ef það væri vottur þess að efnahagur þjóðarinnar færi batnandi, atvinnuvegirnir væru að blómgast, framleiðslan að vaxa, meira fé í framkvæmdir, atvinna færi vaxandi, efnahagur hinna einstöku heimila væri betri en áður og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar gagnvart öðrum þjóðum færi batnandi. Ég þarf ekki að svara því, hvort staðreyndirnar eru þessar, því getur hver einstaklingur svarað fyrir sig. Allir vita, að þróun síðustu ára hefur gengið nákvæmlega í gagnstæða átt. Hagur atvinnulífsins hefur versnað, atvinnuleysið vex, heimilin safna skuldum eða skortir nauðsynjar, og þjóðin hefur verið bundin á jötu erlendrar betliframfærslu og landsréttindi afhent í staðinn.

Í ársbyrjun 1947 — eða fyrir nærri 5 árum var mynduð samsteypustjórn „lýðræðisflokkanna“ þriggja. Síðan hafa þeir farið með völd ýmist þrír eða tveir. Um þau áramót átti þjóðin álitlega fúlgu í inneignum erlendis þrátt fyrir það fé, sem notað hafði verið til uppbyggingar atvinnulífsins næstu árin á undan. Samkvæmt skýrslum sjálfs Landshankans nam gjaldeyriseign Íslendinga í árslok 1946 ca. 170 millj. kr. Engar ósannindafullyrðingar gerðar í pólitískum tilgangi geta afsannað þessa staðreynd. Framleiðslutekjur þessara ára hafa verið í meðallagi og stundum framúrskarandi góðar, eins og t.d. 1948. Þar við hafa svo bætzt hundruð milljóna í Marshallfé.

Það eru því engir smáræðis fjármunir, sem þessar ríkisstjórnir hafa haft til meðferðar, og því ekki fyrir fjárskort, að svo er komið, að allar framkvæmdir stöðvast, að atvinnuleysið er orðið svo, að sjálf ríkisstj. verður að skipuleggja tugi og hundruð af heimilisfeðrum úr ýmsum bæjum landsins í braggaviðlegur á Keflavíkurflugvelli og láta þá vinna þar hernaðarvinnu til framfærslu fjölskyldum sínum heima.

Barátta gegn verðbólgunni, viðreisn atvinnulífsins og fjárhagslegt sjálfstæði hafa verið kjörorð allra þessara ríkisstjórna. Og nú á síðasta ári var einu nýju bætt við. Það var jafnvægi. Ekki verður sagt að ófagrar hugsjónir liggi bak þessum hugtökum. Því hörmulegri árangur. Skal þá fyrst vikið að aðgerðum þessum og áhrifum þeirra, því að sú stefna er fjárlagafrv. mótar skilst bezt í því ljósi.

Á fyrra kjörtímabilinu var sett upp hið fræga fjárhagsráð og skömmtunarkerfi, stærsta embættisbákn, sem íslenzka ríkið hefur eignazt. Það er eftirtektarvert, að svo var kostnaðurinn við þetta bákn orðinn mikill, að á síðustu fjárl. var það tekið út, og mun ekki hafa þótt fært að láta þær tölur sjást. Að vísu var það gert undir því yfirskini, að breytingar svo miklar stæðu til, að erfitt væri að gera réttar áætlanir. Nú hafa þær verið framkvæmdar, aðallega með því að leggja niður skömmtunarskrifstofuna og nokkurri fækkun starfsfólks í innflutnings- og gjaldeyrisdeild, jafnframt því sem verðlagseftirlitið var afnumið. Er upplýst í greinargerð, að þessar breytingar muni spara 1 millj. 300 þús. kr. En samt sem áður er gert ráð fyrir að halda þessu bákni utan fjárl., en aðeins tekið fram, að líkur séu til, að leyfisgjöld muni hrökkva fyrir útgjöldum. En ég fæ ekki betur séð en með auknum innflutningi og þar með hækkandi tekjum af innflutningsleyfum eigi þau að gera miklu meira en að hrökkva fyrir útgjöldum og það sé í hæsta máta óviðfelldið, svo að ekki sé meira sagt, að hafa stærsta embættisbákn ríkisins utan fjárlaga.

Tvenn lög um dýrtíðarráðstafanir voru samþykkt á þessu tímabili, en samt óx dýrtíðin jafnt og þétt. Í hinum síðarí, 1948, var lagður á sérstakur skattur, svokallaður söluskattur, og upplýst, að tekjur af honum yrðu sérstaklega notaðar til að greiða verðuppbætur á útflutningsvörur bátaútvegsins.

Þannig stóð fram á árið 1949. Var samkomulag stjórnarflokkanna hið bezta. En á miðju því ári fór að koma órói í vissa hluta stjórnarliðsins. Einkum var það Framsókn, sem þóttist verða halloka í öllum átökum innan stj. fyrir hinum flokkunum tveim. Í fjárhagsráði höfðu framsóknarmenn lagt fram sérstakar tillögur um að gera skömmtunarseðlana að innkaupaheimild og töldu þá tilhögun allra meina bót í verzlunarmálum þjóðarinnar. Einnig reis ágreiningur um annað, það, hvernig nú skyldi snúast við dýrtíðarmálunum, því að sú ömurlega reynsla lá fyrir, að allar dýrtíðarráðstafanir, sem þeir höfðu gert, höfðu aðeins aukið dýrtíðina.

Framsókn og íhaldið voru nú komin inn á þá skoðun, að gengislækkun væri eina bjargráðið, en þar var Alþfl. í andstöðu. Hins vegar taldi Framsókn ástandið í verzlunarmálunum algerlega óþolandi og kenndi samstarfsflokkunum um allt, sem miður fór í þeim málum. Mjög er fróðlegt að rifja upp ýmis blaðaummæli frá þeim tíma.

1. sept. 1949 birtist feitletraður leiðari í Tímanum, og segir þar m.a. þetta:

„Eitthvert helzta efni þessara blaða (þ.e. Morgunblaðsins og Alþýðublaðsins) eru ádeilur á verzlunarástandið í landinu .... Það er auðvitað ekki tilefnislaust, því að mikil þörf er á að friða landið fyrir þeim „óaldarlýð“, er þar fær að leika lausum hala og gera alþýðu manna þungar búsifjar.

En hitt er jafnframt vitað, að þessir sömu stjórnmálaflokkar, sem að ádeilunum standa, hafa skapað þetta ástand, sem þeir eru að deila á.“

Og í ávarpi miðstjórnar Framsóknar til kjósenda um allt land, sem birtist í Tímanum 4. sept. 1949, segir svo:

„Með myndun nýrrar ríkisstjórnar var á árinu 1947 hafið viðnám gegn öngþveitinu í fjármálum og þá fyrst og fremst verðbólgunni.“

Og í lok ávarpsins segir svo:

„Kosningarnar, sem nú fara í hönd, eru líklegar til að skera úr um fjárhagslegt sjálfstæði Íslendinga og afkomu í nokkra áratugi, e.t.v. það, sem af er þessari öld. Enn er tækifæri til að velja ábyrga og dugandi forustu í baráttunni gegn hinum þjóðhættulegu og andvaralausu upplausnaröflum, er ógna framtið landsins og munu, ef ekki er að gert, leiða skuldir, fátækt og atvinnuleysi yfir meginþorra alþýðuheimilanna, bæði til sjávar og sveita. Framsóknarflokkurinn mun ekki skorast undan að taka að sér þessa forustu.“

Þá má ekki heldur gleyma loforðum einstakra frambjóðenda flokksins, svo sem þegar stríði var lýst yfir gegn allri fjárplógsstarfsemi, í hverri mynd sem hún birtist, o, fl. því líkt. Og síðast en ekki sízt yfirlýsingar flokksins um, að ekki kæmi til mála, að hann tæki þátt í neinu því stjórnarsamstarfi, er ekki tæki verzlunarmálin til fullrar athugunar og lausnar.

Eftir kosningarnar hófust síðan viðræður um stjórnarmyndun, eins og kunnugt er. Úr þeim varð hið furðulegasta brölt. Minni hluta flokksstjórn íhaldsins felld á vantrauststillögu frá Framsókn, sem rökstudd var með því, að gengislækkunin væri svo stórt mál, að ekki mætti með nokkru móti láta íhaldið fá slíkt mál til framkvæmda. Átökin enduðu svo með innilegri sambræðslu þessara tveggja flokka og bræðralagi um framkvæmd þessa stóra máls.

Ein höfuðrökin, sem færð voru fram til varnar gengislækkuninni, voru þau, að tryggja þyrfti útflutningstekjur vélbátaflotans og spara ríkissjóði þau útgjöld, sem til þess höfðu farið og numið höfðu rúmum 50 millj. kr. samtals þau þrjú ár, sem það fyrirkomulag gilti. Af ábyrgðarlausum ráðherrum hefur þeirri firru hvað eftir annað verið slegið fram, að ef ekki hefði til gengislækkunar komið, hefðu þessar greiðslur getað orðið allt að 200 millj. kr. Ekki hefur verið reynt að rökstyðja svona fullyrðingar, enda ómögulegt. Staðreyndirnar, sem liggja fyrir, eru þessar: Áður en gengislækkunin kom til framkvæmda, bjó bátaútvegurinn við 75 aura fiskverð, og var dálítill hluti þess útflutningsuppbætur ríkissjóðs. Postular gengislækkunarinnar fullyrtu, að fiskverðið mundi hækka upp í 93 aura við lækkunina. Reynslan varð hins vegar sú, að hraðfrystihúsin treystust ekki til að greiða hærra verð en 75 aura pr. kg, eða sama og útvegurinn hafði búið við áður.

Þannig fékk útvegurinn ekkert hækkað verð, en hins vegar mjög hækkaðan tilkostnað. Enda sýndi það sig, að eftir eitt ár — eða um síðustu áramót — stóð hann verr en áður, og í stað þess að gengislækkunin átti að vera frambúðarlækning á efnahagsmeinum þjóðfélagsins, þurfti strax nýjar ráðstafanir, sem ég kem að síðar.

Þá hefur verið nokkuð reynt að eyða óánægju bændastéttarinnar af hinum gífurlegu húsifjum, er gengislækkunin bakaði henni, með því að benda á nýjan markað, er unnizt hafi fyrir dilkakjöt í Bandaríkjunum. En hver er svo staðreyndin í því máli? Jú, það hefur verið selt dilkakjöt í Ameríku síðan. En ástæðan er eingöngu sú, að það fór fram raunveruleg verðlækkun á kjötinu gagnvart hverri þeirri vöru, sem fyrir það var keypt. Það þurfti ekki færri dilka en áður fyrir hverja dráttarvél og hverja skurðgröfu. Vélarnar hafa tvöfaldazt í verði að krónutölu og hagnaðurinn enginn.

Þannig varð árangur gengislækkunarinnar. Vandamál útvegsins á engan hátt leyst. Grundvöllur alls verðlags í landinu stórhækkaður, svo að nú varð verðbólgan hálfu verri viðureignar en áður.

Eitt má að vísu segja að unnizt hafi við gengislækkunina, og það var að létta milli 20 og 30 millj. kr. greiðslu af ríkissjóði, en ég kem seinna að því, hversu verðmætur vinningur það er.

En eins og áður er sagt var komið í sama öngþveitið og sýnt, að allt mundi stöðvast um síðustu áramót, ef ekkert væri að gert að nýju. Þú áttu stjórnarflokkarnir um það að velja að gera nýja gengislækkun, sem þeim mun ekki hafa þótt fýsilegt, að hverfa aftur til gamla fyrirkomulagsins um útflutningsuppbætur eða finna einhverja nýja leið.

Það ráð er svo tekið, þegar í óefni er komið, að gefa frjálsa verzlun með nokkurn hluta þess gjaldeyris, sem vélbátaflotinn framleiðir, og heimila ótakmarkaða álagningu á þær vörur, sem leyft var að flytja inn fyrir þann gjaldeyri. Enn fremur að betla sér erlent lánsfé, svo að hundruðum millj. kr. nemur, hjá greiðslubandalagi Evrópu til að auka innflutning svo mjög, að innflutningur þessa árs mun nema ekki minna en 900–1000 millj. kr. Bankarnir eru svo látnir taka við að skipta innflutningsleyfunum milli þeirra aðila, sem í mestri náð eru hjá yfirvöldunum. Stærsta neytendafélag landsins, KRON, fær engin innflutningsleyfi og ekki heldur önnur einstök kaupfélög.

Í útflutningsverzluninni ríkir það dómadagsfrelsi, að enginn má selja fiskugga úr landi nema með leyfi ríkisstj. Og svo er þetta fyrirkomulag kallað frjáls verzlun.

Allar þessar nýju ráðstafanir voru gerðar án þess, að Alþingi fengi nokkuð um þær að fjalla. Mun þó a.m.k. mjög orka tvímælis, að þær geti talizt löglegar. Nú er nefnilega svo komið virðingu íslenzku lýðræðisflokkanna fyrir lýðræðinu, að ákvarðanir um örlagaríkustu málin, svo sem afdrifaríkar ákvarðanir í efnahagsmálum og um hernám og hersetu landsins á friðartímum, eru teknar af ríkisstj. utan Alþingis, og í bezta lagi, að fylgismönnum stj. sé hóað saman á stutta klíkufundi og þar séu þeir látnir samþ. gerða hluti, ólöglegar ákvarðanir, sem ekki verða afturkallaðar.

Það, sem þannig hefur einkennt allar stjórnaraðgerðir hv. lýðræðisflokka þetta tímabil, er að skjóta sér undan þeim vanda að finna neitt annað en bráðabirgðalausn á hverju því vandamáli, sem að höndum ber og alltaf hlýtur að koma fyrir í auðvaldsþjóðfélagi. Þannig verður með hverju ári sem líður erfiðara að finna ráð, sem fleytt geta til næsta árs, þótt aldrei hafi verið hugsað um annað. En afleiðingarnar liggja ljósar fyrir í efnahagsástandi þjóðarinnar nú og speglast m.a. í því fjárlagafrv., sem hér er til umræðu, og skal nú hvoru tveggja lýst nokkru nánar. Sýnir það, hversu vel hefur verið staðið við kosningaloforðin.

Eins og miðstjórn Framsóknar komst að orði í ávarpi sínu til kjósenda 4. sept. 1949, voru þær kosningar mjög líklegar til að skera úr um fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar um lengri tíma. Framsókn fékk aukið fylgi og alla aðstöðu til þess að auka áhrif sín á gang stjórnmálanna. En hverjar hafa svo orðið efndirnar, t.d. í stríðinu gegn fjárplógsstarfseminni eða að „friða landið gegn þeim óaldarlýð“, sem flokkurinn taldi, að leikið hefði lausum hala í verzlunarmálunum og gert almenningi „þungar búsifjar“?

Fyrsta afrekið var það að kaupa sér forsæti í ríkisstjórn með því að leggja yfirstjórn verzlunarmálanna í hendur á sjálfum aðalforingja „óaldarlýðsins“, sem Tíminn kallaði, Birni Ólafssyni. Síðan hafa þau komið hvert af öðru undir stjórn þessa ráðherra: gengislækkunin með öllum hennar afleiðingum, frjálsa verzlunin svokallaða og bátagjaldeyrisokrið, þar sem „óaldarlýðnum“ var gefið betra tækifæri en nokkru sinni áður til að leika lausum hala.

Afleiðingar þessara ráðstafana hafa nú komið að nokkru fram í skýrslu verðgæzlustjóra, sem nú hefur verið birt í blöðum og valdið miklu umtali síðustu daga. Það nægir að nefna einstök dæmi til að sýna þessar afleiðingar, t.d. það, að á leir, gleri og búsáhöldum hefur hækkun álagningar í vissum tilfellum reynzt vera 47–48%, á vefnaðarvöru 5–70%, og í einstöku tilfellum hefur álagningin komizt upp í 155 %. Þetta er árangurinn af stríðinu gegn fjárplógsstarfseminni. Þótt Tíminn sé nú af skelfingu við pólitískar afleiðingar þessara ráðstafana farinn að heimta nöfn þessara okrara birt og þykist fullur vandlætingar, þá þvær hann ekki Framsókn hreina af ábyrgð þeirra. Hún er sameiginleg fyrir Framsókn og íhaldið. Þær grundvallarráðstafanir, sem hér um ræðir, eru verk beggja flokkanna og af báðum taldar viðreisnarráðstafanir á sínum tíma.

Allar þessar ráðstafanir og afleiðingar þeirra hafa sannarlega sagt til sín í verðlaginu, og ég skal nefna hér nokkur dæmi um hækkun dýrtíðarinnar í landinu síðan 1947 með því að nefna tölur um verðhækkanir á ýmsum nauðsyrjavörum og gera samanburð á verðlaginu þá og nú. Ég vel eingöngu nauðsynlegustu matvörur. En þær tölur litv þannig út:

1947 1951

Vara kg kr. kg kr.

Rúgmjöl………. 1.41 3.05

Hveiti ............... 1.23 3.95

Hafragrjón ......... 1.64 4.20

Hrísgrjón ........... 2.00 4.95

Nýmjólk (l. m.) ... 1.83 2.90

Skyr ................... 3.30 5.15

Nautakjöt (skj.) .... 8.50 17.00

1947 1951

Vara kg kr. kg kr.

Kindakjöt, nýtt ...... 9.85 15.05

Ýsa (sl. m. h.) ...... 0.95 1.85

Saltfiskur ........... 3.25 5.35

Harðf. (ópakk.) .... 12.00 23.90

Smjör (sk.) .......... 10.00 38.10

Strásykur ........... 1.98 5.05

Hvítas. (höggv.) .... 2.02 5.35

Kaffi (br. og m.) ... 8.40 41.60

Þótt hér séu aðeins valdar nauðsynlegustu matvörur, sem ekkert heimili kemst af án, þá vil ég þó geta þess, að raunverulega er ástandið verra á ýmsum öðrum sviðum. T.d. er ekkert af þessum vörum flutt inn fyrir bátagjaldeyri, þar sem okurálagningin er mest. En þetta er barátta lýðræðisflokkanna við dýrtíðina.

Vísitalan segir líka fyllilega til um, hvernig ástandið er orðið. Í ársbyrjun 1947 var hún 310 stig. Reiknað út eftir sömu reglum og áður, var hún 1. sept. s. l. 574 stig. Af þessari 264 stiga hækkun siðan í ársbyrjun 1947 voru 219 síðan gengið var fellt, en 55 voru komin fyrir gengisfellinguna.

Hvað skyldi hafa sungið í tálknum þessara stjórnarherra, ef aðrir hefðu farið með völd á þessu tímabili og afleiðingar stjórnarfarsins orðið þessar?

Með gengislækkuninni var tekið upp nýtt form á útreikningi vísitölunnar, þar sem ákveðið var að færa þágildandi vísitölu niður í 100 og reikna framhaldandi breytingar út frá því. Höfundar gengislækkunarfrv. fullyrtu, að verðlagið mundi ekki stíga meira en 11–13%. Með þeim grundvelli var reiknað. En 1. sept. s.l. var vísitalan eftir þessum nýja útreikningi orðin 148 stig. Nú veit ég, að þar kemur fleira en gengislækkunin til greina. En skyldi vera til nokkur maður í landinu, sem ekki skilur, að höfundum gengislækkunarlaganna yfirsást svo hrottalega í fullyrðingum sínum, að það hafi gengið glæpi næst að láta jafnforheimskuð sjónarmið ráða í jafnörlagaríku máli?

Nú efast ég ekki um, að enn verður reynt að svara þessu með gömlu blekkingunni, að það sé hækkun kaupgjaldsins í landinu, sem sé ástæðan til þessa ástands. Ég vil fyrir fram sýna með óhrekjanlegum tölum, hver fjarstæða þetta er.

Í ársbyrjun 1947 var grunnkaup verkamannafélagsins Dagsbrúnar kr. 2.65 pr. klst. Vísitalan var þá 340, og var því tímakaup með vísitölu kr. 8.22. Miðað við 2400 vinnustundir á ári nam árskaup þá kr. 19728.00. Nú er þessi vísitala 574 stig, og þótt reiknað sé með því, að engin grunnkaupshækkun hefði átt sér stað, en aðeins verið greitt eftir hækkandi vísitölu, þá hefði tímakaup núna 1. sept. átt að vera kr. 15.21 eða 36504 kr. á ári miðað við sama vinnustundafjölda.

En staðreyndin er sú, að meðal Dagsbrúnarkaup, það sem af er þessu ári, hefur verið kr. 12.07 pr. klst., eða 28968 kr. á ári, einnig miðað við sama vinnustundafjölda. Þetta þýðir, að það vantar 7536 kr. á, að verkamaðurinn fái jafnhá laun og í ársbyrjun 1947, miðað við þá dýrtíðarhækkun, er orðið hefur síðan samkvæmt vísitöluútreikningnum. En auk þess vita það allir, að dýrtíðin hefur vaxið meira en vísitalan sýnir, en ég skal láta það liggja milli hluta núna. Hér er því um að ræða kauplækkun miðað við verðlagið, sem gersamlega afsannar þá blekkingu, að dýrtíðin sé kauphækkunum að kenna.

Þegar verðhækkanir síðustu „viðreisnarráðstafana“ voru farnar að gera vart við sig á síðastl. vori, flutti hæstv. viðskmrh. útvarpsræðu og ræddi um frjálsa verzlun. Taldi hann, að Íslendingar hefðu nú loksins eignazt það hnoss, en gat þó ekki komizt hjá að viðurkenna, að helztu áhrifin, sem almenningur þá hefði orðið var við af ágætum þessara ráðstafana, voru aukin dýrtíð. En að því loknu bætti ráðherrann við þessari stórmerkilegu setningu: „Þrátt fyrir þetta er hér ekki um verðbólgufyrirbrigði að ræða.“ Þessum ráðherra verður það stundum á, annaðhvort viljandi eða óviljandi, að segja hluti af meiri hreinskilni en aðrir ráðherrar þessara flokka. Ég veit, að hlustendur muna það, að í sambandi við þetta var fundið upp nýtt slagorð, „jafnvægi“. Það var kjörorð ríkisstj. á síðasta þingi. En þessi einfalda setning ráðherrans var hreinskilnari játning á því, hvað meint hefur verið með verðbólguskrafinu, heldur en nokkur annar úr þeim hópi hefði þorað að viðurkenna.

Ráðherrann hafði sýnilega í huga þessa staðreynd, sem ég var að lýsa, að hvorki verkamenn né aðrir launþegar hafa fengið dýrtíðina bætta með hækkuðum launum. Sama gildir um bændur landsins. Tekjur þeirra hafa ekki hækkað nema lítið brot af þeirri gífurlegu aukningu, sem orðið hefur á framleiðslukostnaðinum. Meðan þessar stéttir fengu að verulegu leyti hækkaðar tekjur á móti hækkuðu vöruverði, þá var það verðbólga, sem allt var að setja á hausinn. En þegar vöruverðið hækkar örar en nokkru sinni áður, án þess að tekjur einstaklingsins hækki á móti, þá er það jafnvægi. Meðan fjöldi bænda t. d. hafði möguleika og óskaði að fá sér dráttarvélar og jeppa, vegna þess að verðið var ekkj nema 10 þús. kr., þá hét það óþolandi verðbólga, en þegar verðið er komið yfir 30 þús., svo að ekki getur nema 10. hver bóndi keypt slíkt áhald, þá er komið hið gullna jafnvægi.

Þá vil ég minnast frekar á fjárlagafrv. og stefnu þá, er í því felst.

Þess var áður getið, að heildarupphæð þess á sjóðsyfirliti er 363.8 millj., 60 millj. hærri en síðustu fjárlög og 150 millj. hærri en 1947. Þar af eru skattar og tollar áætlaðir 270 millj. 850 þús. kr. Þessi upphæð skiptist þannig, að beinir skattar, tekju- og eignarskattur, tekjuskattsviðauki, stríðsgróðaskattur og fasteignaskattur, nema samtals 43.2 millj. kr., en hinir óbeinu skattar og tollar nema samtals 277.6 millj. kr., og svo að segja allir leggjast þeir á vöruverð. Þessir tekjustofnar, sem að mestu eru tollar, nema rúmum 1600 kr. á hvert mannsbarn í landinu eða 8000 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu.

Til samanburðar við þetta vil ég taka árið 1947. Þá var heildarupphæð fjárl. á sjóðsyfirliti 214 millj. Þar af voru tollar og skattár 148.1 millj. og skiptust þannig, að beinu skattarnir námu 38.6 millj., en óbeinir skattar 109.5 millj.. eða ca. 780 kr. pr. einstakling, sem verður þó ekki nema 3900 krónur á hverja 5 manna fjölskyldu.

Þannig hefur tekizt að tvöfalda þessar óbeinu tolla- og skattatekjur, sem beint leggjast á vöruverðið og eru þannig stór þáttur í dýrtiðinni á þessum árum, þ.e. að láta hverja 5 manna fjölskyldu greiða 8000 krónur í ríkissjóð, í staðinn fyrir að það voru þó ekki fullar 4000 kr. 1947. Auk þessa hafa beinir skattar hækkað nokkuð. En það sér hver maður, hvaða áhrif það hefur á verðlag í landinu, þegar vörur til hvers 5 manna heimilis hafa hækkað yfir 4000 kr. vegna hækkunar tolla. Þó má geta þess enn fremur, að þessi áætlun fyrir næsta ár er miðuð við minni innflutning en verða mun á þessu ári, og er það skýrt tekið fram í grg. frv.

Það er nýlega upplýst í blaði hæstv. viðskmrh., að innflutningur þessa árs til septemberloka nemi 628.6 millj. kr. Með sama hlutfalli, það sem eftír er ársins, ætti heildarinnflutningur ársins að nema 840 millj. kr. Nú má fullyrða, að innflutningur síðustu mánaða ársins verði hlutfallslega mun meiri. Slíkt er algild reynsla, og má því fyllilega áætla heildarinnflutning ársins 900-1000 millj.

Fjmrh. segir í grg. frv., að innflutningur muni minnka á næsta ári, og eru því áætlanir þær, sem ég hef gert hér að umtalsefni, mun lægri en tekjur, sem ríkið tekur núna í þessum tollum.

Samkvæmt yfirliti, sem ég hef fengið frá ríkisbókhaldinu um innheimtuna eins og hún var í ágústlok, voru þá innheimtar af verðtolli 69.3 millj., en hann var áætlaður 73 millj. Og af söluskatti, sem áætlaður var 55 millj., voru þá þegar innheimtar 53.3 millj.

Ráðherra segir í athugasemdum við frv., að þessi skattstofn muni verða 80 millj., þ.e. fara 25 millj. fram úr áætlun. Ég hika ekki við að fullyrða, að þessi áætlun ráðherrans er allt of lág. Líklega verður hann nær 100 millj. en 80 á þessu ári. Sama verður um verðtollinn, með nærri 70 millj. innheimtar í ágústlok verði hann áreiðanlega nokkuð yfir 100 millj. Svipað mun verða um fleiri af hinum óbeinu sköttum. En þetta sýnir það, að á þessu ári tekur hið opinbera miklu meira en 8000 kr. af hverju 5 manna heimli í þessum tollum; mundi sanni nær að segja þessa upphæð 10–12 þús. kr.

Vitanlega skapar þetta stóran tekjuafgang hjá ríkissjóði, sem fjmrh. hefur einnig gert ráð fyrir og bæði hann og flokkur hans eru stoltir af. En það þýðir einnig hitt, að þessi tekjuafgangur hefur stóraukið vöruverð í landinu og kemur út sem skuldasöfnun alþýðuheimilanna til sjávar og sveita, bæði hjá kaupmönnum og kaupfélögum.

Í þessu sambandi er rétt að minnast ofur lítið frekar á söluskattinn. Þegar hann var lagður á upphaflega, var það beinlínis fram tekið, að það væri gert til að verðuppbæta útflutningsafurðir sjávarútvegsins. Rökrétt afleiðing þeirrar yfirlýsingar hefði verið sú að afnema þennan skatt, þegar gengislækkunin var gerð,

þar sem þessi útgjöld ríkissjóðs féllu þá niður og aðalröksemd gengislækkunarmannanna var sú, að þessum álögum þyrfti að létta af ríkissjóði. En í stað þess að afnema söluskattinn, þá var hann hækkaður til stórra muna, hefur svo enn þá margfaldazt vegna hinnar stórauknu verðbólgu og mun á þessu ári nema a.m.k. þrisvar sinnum hærri upphæð en útflutningsuppbæturnar, þegar þær voru mestar.

Þannig er Framsókn og íhaldinu að takast svo dásamlega í innilegu bræðralagi að framkvæma það, sem Framsókn þóttist vera að vara við um síðustu kosningar, „að leiða fátækt, skuldir og atvinnuleysi yfir meginþorra alþýðuheimilanna, bæði til sjávar og sveita“. Og þó á þetta eftir að verða enn þá áþreifanlegra á næsta ári.

Þá vil ég að síðustu gefa stutt yfirlit yfir það, hvernig varið er þeim milljónatugum, sem frv. gerir ráð fyrir umfram áætlanir síðasta árs.

10. gr., þ. e. kostnaður við stjórnarráðið og utanríkismálin, hækkar úr rúmum 9 millj. á síðustu fjárl. upp í 10.8 millj. rúmlega, eða ca. 20%.

11. gr. A., sem er dómgæzla og lögreglustjórn, hækkar úr 16.25 millj. upp í 21.62, eða nærri 5.4 millj., sem er nærri 33%. — Svipað er um aðra liði þessarar greinar, og öll til samans hækkar sú grein úr 25.7 millj. í 34 millj., eða um 8.3 millj. Þannig hækkar kostnaðurinn við embættiskerfið jafnt og þétt.

12. gr., heilbrigðismál, hækkar úr 18 millj. upp í 24. - 13. gr., samgöngumál, úr 27 millj. upp í 32. – 14. gr., kirkju- og kennslumál, úr 44 millj. upp í 55. – 16. gr. A., landbúnaðarmálin, úr 27.8 millj. í 36.9, og þannig má halda áfram. — En það, sem eftirtektarvert er, er það, að meðan rekstrarútgjöld hinna ýmsu stofnana og ríkisins sjálfs hækka um 25–33%, þá eru framlögin til verklegra framkvæmda annaðhvort látin standa í stað eða hækka örfá %, upp í 10%, þar sem bezt er. Þannig verða þau sífellt minni hluti af útgjöldum ríkisins, en embættis- og skrifstofukostnaðurinn að sama skapi meiri.

Það er sannarlega furðulegt fjármálaástand, sem skapazt hefur á Íslandi síðustu árin. Landið er fyllt af neyzluvörum, þörfum og óþörfum, fyrir allt að 1000 millj. kr. á einu ári. Þessar vörur eru að verulegu leyti greiddar með erlendu láns- og gjafafé. Atvinnuvegirnir berjast í bökkum, og fjárhagur almennings fer versnandi. Ríkissjóður græðir og hefur marga tugi milljóna í tekjuafgang, en samt má ríkið ekki leggja í neina verklega framkvæmd nema með leyfi erlendra ríkisstjórna og stofnana. Í Landsbankanum liggur svokallaður mótvirðissjóður, sem nemur hundruðum milljóna og er óvefengjanleg eign Íslendinga. Ekki má heldur ráðstafa úr honum einni krónu nema gegn erlendu leyfi. Utanstefnur ráðherra gerast nú svo tíðar, að jafnan er þriðjungur til helmingur ríkisstj. erlendis í einu og allt útlit fyrir, að svo verði einnig nú um þingtímann. Þannig er nú komið fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar eftir 5 ára samstjórn „lýðræðisflokkanna“ þriggja. Þetta finnur þjóðin öll, hversu mikið sem gert er til að svæfa hugi fólksins út af þessu ástandi með lofræðum um Marshallaðstoð, ógnunum um stríðshættu og fullyrðingum um Moskvaþjónustu sósíalista.

Fögru loforðin frá síðustu kosningum eru orðin að logandi háði, sem bergmálar um þjóðarsálina frá yztu nesjum til innstu dala.