30.11.1951
Sameinað þing: 20. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1952 var lagt fram, voru tekjurnar áætlaðar um 358 millj. kr., en gjöldin rúmlega 312 millj. kr. Rekstrarafgangur var því áætlaður rúmar 43 millj. kr. Á sjóðsyfirliti var gert ráð fyrir, að um 364 millj. kr. greiddust inn, en 360 millj. kr. út, svo að greiðslujöfnuðurinn yrði hagstæður um 4 millj. kr. Eru þetta um 60 millj. kr. hærri tekjur og gjöld en áætlað var á fjárl. yfirstandandi árs.

Fjvn. hefur nú haft frv. til umræðu um tveggja mánaða skeið, kynnt sér öll fylgiskjöl, sem frv. fylgdu, og rætt við fjölda þeirra manna í þjónustu ríkisins, sem fara þar með umboð þess í hinum ýmsu málum og hafa því á margan hátt bein og óbein áhrif á rekstrarkostnaðinn og fjárhagsafkomuna. Nefndin hefur talið sér þetta skylt af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi til þess á þennan hátt að kynna sér sem bezt allan rekstur ríkisins, eftir því sem unnt er á svo skömmum tíma, og í öðru lagi að leitast við að fá samstarf við umboðsmenn ríkisvaldsins um skynsamlegan og hagkvæman rekstur hinna ýmsu stofnana, en á því veltur mjög mikið um afkomu ríkissjóðs, hvernig tekst um slíkt samstarf á milli umboðsmannanna, fjárveitingavaldsins og ráðuneytanna. Væri nokkur möguleiki til þess að skapa slíkt samstarf á milli þessara aðila, mætti tvímælalaust bæta úr mörgum þeim misfellum, sem eru á rekstrarkerfinu og eigi verða lagaðar, nema slíkt samstarf komist á með fullum heimildum. En á þessu hefur orðið misbrestur og það í mjög stórum stíl.

Í ljós kom, að langflestir umboðsmenn ríkisvaldsins hafa litið á þessa afskiptasemi n. sem hreinan óþarfa, aðrir sem andúð eða árásir á stofnanirnar, en langfæstir sem embættisskyldu og knýjandi nauðsyn til þess með eðlilegu samstarfi að skapa sem drýgstan skilning á þörfunum annars vegar og möguleikunum til þess að mæta þeim hins vegar. Við þetta hefur svo bætzt hin ríka tilhneiging mannanna að gera samanburð á milli stofnananna og eigi síður milli starfsmannanna í hverri stofnun og nota hann síðan til hins ýtrasta sér og sínum málum til framdráttar án þess að gera sér það ljóst, hvaða áhrif þetta hefur á rekstrarkostnaðinn. Samnefnarinn fyrir svörum umboðsmannanna má segja að sé þessi: „Við þurfum meira fólk, meira fé og meira húsnæði til þess að geta rækt þau verkefni, sem okkur eru falin, svo að vel sé.“ N. hefur að sjálfsögðu enga möguleika til þess að tryggja það, að skoðanir hennar á hinum ýmsu atriðum (rekstri ríkisins verði ráðandi í framkvæmdum, því að jafnvel þótt henni tækist að fá þær viðurkenndar í þinginu með því að skerða framlög ofan í þær upphæðir, sem hún alveg réttilega teldi hæfilegar til þess að mæta útgjöldunum, ef rétt og viturlega væri á málunum haldið í framkvæmdinni, þá hefur það mjög sýnt sig, að þessi beiting fjárveitingavaldsins er máttlaus og megnar ekki að knýja fram þær umbætur, sem þörf er að koma á í ríkisrekstrinum.

Reynslan hefur sýnt, að þessi aðferð ein leiðir til meiri umframgreiðslna á fjárl. og því hærri aukafjárl., því meira sem henni er beitt. Jafnvel ráðuneytin fá hér engu um þokað. Árangurinn af þessu starfi n., sem hún þó árlega hefur lagt mikla vinnu í, er að því leyti neikvæður, að hann hefur engin áhrif að svo stöddu á afgreiðslu fjárl. Hins vegar hefur n. öðlazt við þetta margvíslegar upplýsingar um einstök atriði í rekstri ríkisins og fengið á þennan hátt glöggt yfirlit yfir kosti og galla á því kerfi, sem vér búum við, og mun nefndin áður en þessu þingi lýkur gera tilraun til þess að fá þessu breytt til batnaðar.

Mér hefur þótt rétt og skylt að gefa þessar upplýsingar hér við 2. umr., m.a. vegna þess, að það er meginástæðan fyrir því, að meiri hl. n. gerir engar tillögur til lækkunar á frv. í sambandi við rekstur ríkisins, að ekki hefur tekizt að koma á því samkomulagi, sem að framan greinir og þó er grundvallarskilyrði fyrir raunverulegri niðurfærslu kostnaðar í rekstrinum.

Eins og nál. meiri hl. ber með sér, hækka rekstrargjöld ríkisins á frv. um 9.8 millj., ef allar brtt. verða samþ., og verður þá áætlun rekstrarútgjaldanna alls um 324.5 millj. kr., auk þess sem lagt er til, að greiðslur skv. 20. gr. hækki um tæplega 1.6 millj. kr. Yrði á þennan hátt óhagstæður greiðslujöfnuður rúmlega 7 millj. kr. Í þessari áætlun er tekjubálkinum ekkert raskað frá því, sem áætlað var í upphafi. Þótti meiri hl. rétt að fresta þeirri athugun þar til síðar, að séð yrði, hvaða afgreiðslu frv. fær við þessa umræðu, og vitað er betur um afkomu ársins í lok þessa mánaðar. Hitt er nú þegar ljóst, að ekki verður komizt hjá því að hækka enn allverulega gjaldabálkinn, þar sem óafgreidd eru enn ýmis veigamikil atriði, svo sem sjúkrahúsmálin, raforkumálin o.fl., er sýnilega hljóta að verka til hækkunar, en ekki verða að fullu afgr. fyrr en við 3. umr. Þætti mér ekki ólíklegt, að útgjöldin hækkuðu enn af þessum ástæðum um nokkrar milljónir króna. Gæti því vel svo farið, að gjaldabálkurinn allur yrði um 380 millj. kr. og þyrfti því að hækka tekjuáætlunina um 16 millj. kr., til þess að unnt yrði að skila greiðsluhallalausum fjárl., en að því ber að sjálfsögðu að stefna. Er þetta raunverulega hin rétta mynd af fjárlagafrv., eftir því sem unnt er að áætla á þessu stigi málsins.

Eins og tekið er fram í nál. minni hl., þá bar hann fram á fyrstu fundum n. till. um það að fella þegar niður úr tekjuáætluninni, fyrst alla söluskattsupphæðina, 77 millj. kr., og síðar einhvern óákveðinn og óvissan hluta þeirra tekna. Þegar spurzt var fyrir um það, hvaða tekjuliðir væru hugsaðir í staðinn, taldi minni hl., að hægt væri að hækka aðra tekjuliði frv. um 26 millj. kr. En hins vegar benti hann jafnframt á, að lækka mætti kostnað á hinum ýmsu rekstrargreinum sem hér segir:

Millj.

Á 10. gr. Stjórnarskrifstofur og utanríkis-

mál .................................... 1.8

Á 11. gr. Dómsmál, löggæzla og opinbert

eftirlit, skatta- og tollamál .............. 2.4

Á 12. gr. Heilbrigðismál .................. 6.0

Á 13. gr. Strandferðir ..................... 1.8

Á 14. gr. Menntamál ...................... 11.0

Á 16. gr. Landb., sjávarútv. ................ 9.0

Alls að upphæð 32 millj. kr. Með þessu móti yrðu fjárl. afgreidd með 19 millj. kr. óhagstæðum greiðslujöfnuði, og væri það engin goðgá að ganga þannig frá fjárl.

Meiri hl. gat ekki fallizt á þessa till. Fyrir lækkunartill. minni hl. voru aldrei færð fram nein frambærileg rök, heldur aðeins fullyrt, að unnt væri að starfrækja viðkomandi stofnanir með því fé, sem eftir yrði, þótt upphæðirnar yrðu lækkaðar skv. till. Þegar vitað er, að minni hl. greiddi jafnan atkv. með flestum hækkunartill. og bar auk þess fram í n. fjölda af hækkunartill., sem voru felldar þar, en nú er sumar hverjar bornar fram hér og skipta tugum milljóna, þá þarf ekki að lýsa því, hvaða fádæma ábyrgðarleysi minni hl. sýndi í sambandi við afgreiðslu málanna í n. Í nefndinni var ekkert ósamkomulag á milli þeirra tveggja (HV og ÁS) um afgreiðslu mála, þótt þeir hafi ekki treyst sér til að skila sameiginlegu minnihlutanál. Verður þetta fyrirbæri ekki skýrt á annan hátt en þann, að almenningur megi ekki fá vitneskju um þann andlega skyldleik, sem bindur þessa tvo andstöðuflokka stj. svo innilega saman í öllum málum í nefndum, en þeir svo sverja fyrir hvor í sínu lagi, þegar málin eru til umræðu hér í þingsölunum. Þykir mér rétt, að þetta komi hér fram í umr., vegna þeirra yfirlýsinga, sem báðir þessir menn hafa gefið, hvor í sínu nál.

Það dylst engum, að þjóðin í heild er ekki ánægð með þann öra vöxt, sem árlega á sér stað í útgjöldum ríkisins. Þess bera ljósast vitni allar þær kröfur, sem bornar eru fram um afnám skatta og tolla og um samdrátt í ríkisrekstrinum. En þessi mál lagast því miður ekki fyrir eintómar ályktanir og kröfur, einkum þegar þeim eru samfara aðrar ályktanir og kröfur um að leysa aðkallandi þarfir, sem kosta mundu margfalt fleiri milljónatugi ef mætt yrði en hinar veittu í sparnaði, þótt framkvæmanlegar væru. En um þetta er ekki ávallt hugsað.

Það er ekki vandalaust að draga úr kostnaði við ríkisreksturinn eða jafnvel að stöðva frekari aukningu, þegar vitað er, að það er þjóðinni lífsnauðsynlegt í baráttu fyrir betri og öruggari lífskjörum, að ríkisvaldið styrki þá viðleitni innan viturlegra takmarka, eftir því sem afkoma ríkissjóðs og gjaldþol þegnanna megnar á hverjum tíma. Veitur ekki hvað minnst á því, að veitingavaldið hafi jafnan það sjónarmið að verja fé ríkissjóðs til lífrænna framkvæmda, þ.e. til þeirra hluta, sem gefa þjóðinni ný verðmæti og skapa henni nýjar auð- og orkulindir, en minna til hins, sem er einskis nýtt. Út af þessu þykir mér rétt að gefa hér nokkurt yfirlit í stórum dráttum yfir það, hvernig því fé er varið, sem meiri hl. n. leggur til að tekið verði upp á fjárl. næsta árs, svo og hvernig ríkissjóður aflar sér þess fjár, sem þarf til að mæta þeim útgjöldum.

Laun embættis- og starfsmanna ríkisins nema nú um 90–100 millj. kr. Er þetta langstærsti útgjaldaliðurinn í rekstri ríkisins. Launabreytingar, hvort heldur þær eru til hækkunar eða lækkunar, hafa því hvað mest áhrif á afkomu ríkissjóðs, og þá ekki síður hitt, hve mikil vinna er látin í té í hverju starfí um sig. Rekstrarút gjöld ríkissjóðs og þar með skattabyrðin á fólkinu í landinu eru því beinlínis háð því, hversu vel þeir menn, sem ríkisvaldið felur umboð í hinum ýmsu embættum, rækja þessi störf. Skal ekki farið nánar út í þau atriði, en aðeins bent á, að ýmsar upplýsingar, sem fyrir liggja hjá fjvn., sýna, að margir starfsmenn ríkisins eru þar á 60–90 þús. kr. launatekjum, þótt launalög ákveði þeim eigi meira en 30–50 þús. í árslaun. Er þessum uppbótum náð eftir ýmsum leiðum. Má að sjálfsögðu ætla, að vinnudagur þessara manna sé langur, þótt ekki sé vitað, að nauðsynlegt sé enn að setja vökulög sérstaklega þeirra vegna. Hitt er sanni nær, að stéttvísin hafi þróazt hér um of og að stéttarvaldið sé hér að verða ofveldi líkt og á mörgum öðrum sviðum í þjóðfélaginu. Verður ríkisvaldið eitt varla sakað um þessa þróun málanna. Einmitt þessi staðreynd á e.t.v. sinn ríka þátt í því, hversu almenningi finnst rétt og sjálfsagt að knýja á dyr hjá ríkissjóði og þykir í því enginn vansi að tryggja sér þaðan greiðslur oft fyrir of litla verðleika. Að öðru leyti skiptast gjöldin í stórum dráttum sem hér segir:

Millj. Millj.

1. Póstmálin ............................................... 10.3

2. Símamálin . ..... ..................................... 36.9

3. Áfengis- og tóbakseinkasölur ............................ 10.2

4. Ríkisútvarp með undirdeildum .......................... 6.8

5. Aðrar ríkisstofnanir á 3. gr. 10.4 74.6

6. Vextir ................................................... 3,8

7. Stjórn landsins .......................................... 0.4

8. Alþingi .................................................. 3.5

3.9

9. Ráðuneytin og hagstofan ................................ 5.9

10. Utanríkisþjónustan ......................... ........... 4.9

10.8

Millj. Millj.

11. Dómgæzla og lögreglustjórn ............................ 21.7

12. Opinbert eftirlit .......................................... 3.6

13. Kostnaður við skatta og tolla …………….. 8.5

14. Sameiginlegur kostnaður .............................. 2.3

36.1

15. Heilbrigðismálin ......................................... 24.5

16. Vega- og brúargerðir .................................... 33.7

17. Samgöngur á sjó ........................................ 4.5

18. Ferðaskrifstofan ....................................... 0.7

19. Vita- og hafnarmál ...................................... 10.4

20. Flugmál ................................................. 10.0

59.3

2l. Kirkjumál ................................................. 5.5

22. Kennslumál .............................................. 50.5

56.0

23. Bókmenntir, listir og vísindi ............................ 4.0

24. Vísindarannsóknir ........................................ 3.8

25. Veðurstofa ...................... ............. ....... 1.7 .

26. Húsameistari, landmælingar, tæknileg aðstoð o.fl. 1.0

10.5

27. Landbúnaðarmál ................... ... ................ 41.1

Þar af til sauðfjársjúkdómavarna 15.9 millj.

28. Sjávarútvegsmál ......................................... 6.0

29. Iðnaðarmál .............................................. 1.2

30. Raforka og jarðboranir .................................. 13.1

60.4

31. Álmannatryggingar ...................................... 32.5

32. Önnur félagsmál ......................................... 8.0

33. Eftirlaun .. .......................................... 10.4

34. Dýrtíðarráðstafanir ................................ 26.5

Alls millj. kr. 412.3

Að viðbættu þessu er svo varið til eignaaukningar á 20. gr. 46.3 millj. Alls nema þessar upphæðir 458.6 millj. kr. Til að mæta þessum gjöldum áætlar frv. tekjur sem hér segir:

Millj. Millj.

Vaxtatekjur ............................................. 1.9.

2.Af tekju- og eignarskatti ....... ........................ 42.5

3.Af innflutningsgjöldum og söluskatti . ..........................209.5

4.Af bifreiðaskatti, lestagjöldum og fasteignaskatti ........ 3.9

5.Af ýmsum öðrum fastagjöldum skv. 2. gr. ................ 14.9

270.8

6.Pósttekjur ................................................ 9.7

7.Símatekjur ............................................... 35.5

8.Áfengis- og tóbaksverzlun ............................... 89.1

9.Ríkisútvarp með deildum ................................ 7.3

10.Aðrar ríkisstofnanir skv. 3. gr. .......................... 10.6

152.2

11.Af opinberu eftirliti ...................................... 2.0

12.Endurgreiddur skattur og innheimtukostnaður ............ 1.3

3.3

13.Frá ferðaskrifstofunni .................................. 0.7

14.Frá flugmálunum ........................................ 6.4 7.1

15.Af rannsóknum og vísindum á 15. gr. B. ................ 1.0

16.Af raforku og jarðborun ................................ 7.4

8.4

Alls millj. kr. 443.7

Gefur þetta yfirlit allskýra mynd af því, hvernig ríkissjóður ver fé sínu og hvernig hann aflar sér teknanna.

Skal þá gerð nokkur grein fyrir þeim breytingum, sem meiri hl. leggur til að gerðar verði á frv.

Við 3. gr., póstsjóður, er lagt til að lækka áætlaðar tekjur um rúmlega 592 þús., en hækka hins vegar gjöldin um tæpar 8 þús. kr. Nefndin hefur árlega óskað þess að mega áætla nægilegar tekjur á móti gjöldum í þessari stofnun, svo að ríkissjóður þyrfti ekki sérstaklega að leggja henni til fé. Nú þykir þetta ekki gerlegt. Burðargjöld á milli landa eru þegar komin í hámark samkvæmt samningum. Þau verða því ekki hækkuð. Hins vegar er heldur ekki hægt að hækka burðargjöld innanlands ótakmarkað. Gert er þó ráð fyrir 25 aura hækkun á bréf innanlands, sem þó ekki er talið nægilegt til að áætla tekjur jafnháar gjöldum. Er því rekstrarhalli á póstsjóði áætlaður 600 þús. kr. Nefndin lítur þó svo á, að að því beri að stefna, að þessi stofnun geti sjálf staðið undir útgjöldum, svo að eigi þurfi að veita henni sérstakan styrk úr ríkissjóði.

Tekjur landssimans eru áætlaðar 950 þús. kr. hærri en á frv. Verður að hækka allverulega gjaldskrá landssímans til þess að ná þessari tekjuupphæð. Hækkunin getur þó ekki að fullu tekið gildi fyrr en á síðari helmingi næsta árs. Jafnframt er lagt til að hækka rekstrargjöld landssimans um tæpa 1.5 millj. Er þá gert ráð fyrir um 3.3 millj. kr. rekstrarafgangi á árinu. — Þá er enn fremur lagt til, að framlög til eignaaukningar séu hækkuð um 480 þús. kr. Er stærsti liðurinn hækkun á framlagi til notendasima í sveitum, 200 þús. kr. Telur nefndin, að eigi megi draga úr þessum framkvæmdum, heldur beri að hraða þeim svo sem frekast er unnt. Vantar þá landssímann um 1.5 millj. kr. til þess að standa að fullu undir eignaaukningunni á því ári.

Lagt er til, að nokkrar breyt. séu gerðar til hækkunar á 11. gr. Er hér um að ræða fjölgun manna við dómgæzlu og lögreglustjórn vegna aukinna verkefna í einstökum embættum, og auk þess kaupverð tveggja nýrra bifreiða, 100 þús. kr., í sambandi við lögreglu á Keflavíkurflugvelli. Vísast að öðru leyti til nál. um þessi atriði.

Eins og tekið er fram í nál., telur n., að ræða þurfi nánar framlag til sjúkrahúsa fram yfir það, sem lagt er til í frv. Hér er um svo mikla nauðsyn að ræða, að sú upphæð, sem nú er í frv., getur engan veginn bætt úr þeim málum, svo að vel sé, auk þess sem ekkert fé er ætlað til byggingar hjúkrunarkvennaskólans, og er sú bygging þó einna mest aðkallandi sem liður í heilsugæzlunni almennt.

N. hefur lagt til að hækka framlög til vega um 900 þús. kr. og til brúa um tæp 800 þús. Nauðsyn á framkvæmdum í vega- og brúamálum er svo aðkallandi í sambandi við breytta atvinnuhætti, að ekki verður komizt hjá því að halda þessum framkvæmdum áfram á líkan hátt og verið hefur. Aðrar breyt., sem lagt er til að gerðar verði á 13. gr. A., eru frekast til samræmis á því, sem áður hefur verið í fjárlögum.

N. gerir engar till. til breyt. á framlagi til strandferða við þessa umr. Er þetta atriði til athugunar fyrir 3. umr.

N. leggur til, að framlög til hafnarbóta verði hækkuð um 825 þús. Gildir sama um þessar framkvæmdir og vegaframkvæmdirnar, að ekki þykir gerlegt að áætla þessa upphæð lægri, miðað við þær þarfir, sem fyrir eru. Í því sambandi þykir rétt að taka það fram, að ríkissjóður á nú ógreidd áfallin framlög til hafnarframkvæmda, rúmlega 5 millj. kr., eða hærri upphæð en lagt er til að tekin sé inn á fjárl. Er það hafnarsjóðunum mikill skaði, að ekki skuli vera unnt að greiða þessar upphæðir að fullu nú þegar.

Eins og fram er tekið í nál., urðu allmiklar umræður um áætlaðar tekjur af flugsamgöngum, þótt niðurstaðan yrði sú, að engar brtt. séu gerðar um hækkun á þeim lið, en þess er þó að vænta, að tekjurnar verði allverulega hærri en þær eru áætlaðar á frv. Og með því að það er frumskilyrði fyrir vaxandi tekjum af flugsamgöngum, að allt sé gert sem unnt er til þess að halda við flugvöllum, bæta þá og búa til nýja, þar sem þeirra er þörf, væntir n. þess, að þær tekjur, sem umfram kunna að verða á næsta ári, frá því, sem áætlað er, verði notaðar til að endurbæta flugvelli og öryggi allt í sambandi við flugsamgöngur.

Um breyt., sem lagt er til að gerðar séu á 14. og 15. gr., get ég að langmestu leyti vísað til þess, sem fram er tekið í nál. Þó skal ég leyfa mér að taka eftirfarandi fram um 100 þús. kr. framlag til Laugarvatnsskólans: Samkvæmt lögum skal stofna menntaskóla í sveit, þegar fé er veitt til þess í fjárl. Undanfarin ár hefur farið fram á Laugarvatni kennsla undir stúdentspróf, og er henni haldið þar áfram með samþykki rn., þótt skólinn hafi enn ekki verið gerður að menntaskóla. Upplýst hefur verið, að kostnaðurinn við nám þar sé að miklum mun lægri en bæði á Akureyri og í Reykjavík, og vitað er, að það væri nemendum, sem þar læra, þungur baggi að hverfa þaðan í aðra skóla til lokanáms sem stúdentar. Enn fremur er upplýst, að mjög miklir erfiðleikar séu á því, að þessir nemendur geti fengið að ganga undir stúdentspróf við menntaskólann í Reykjavík, af hverju sem það stafar. Öll sanngirni mælir því með því, að þessi upphæð sé veitt til skólans.

Ég get einnig vísað að mestu til þess, sem fram er tekið í nál. um breyt., sem lagt er til að gerðar séu á 16. gr., en vil þó taka eftirfarandi fram:

Hækkun til sauðfjársjúkdómavarna er gerð í því trausti, að ekkert sé látið ógert til þess að hefta útbreiðslu veikinnar á ný, hvort heldur um er að ræða nýjar girðingar, aukna vörzlu eða niðurskurð í þeim héruðum, sem veikin hefur komið upp í. Það tjón, sem bændur og ríkissjóður sameiginlega hafa haft af þessum voða, er svo gífurlegt, að allt verður að gera, sem unnt er, til að útrýma veikinni og ala upp á ný sterka og ósýkta fjárstofna í landinu. Á því veltur bókstaflega framtíð landbúnaðarins í þessu landi, að þetta megi takast. Jafnframt er nauðsynlegt, að bændum sé gert það ljóst, að sérhvert frávik af þeirra hálfu frá ströngu eftirliti, á meðan verið er að útrýma veikinni, getur valdið því, að öllum þeim milljónum, sem fjárskiptin hafa kostað, sé á glæ kastað. Þess vegna er það frumskilyrði, að sá árangur náist, sem að er stefnt, að þess sé gætt til hins ýtrasta að vera jafnan vel á verði um þessi mál, einnig í hinum smæstu atriðum, sem vel geta eyðilagt alla tilraunina, ef einnig þar er ekki gætt fyllstu varúðar.

Ráðuneytið hafði óskað eftir því, að framlag til brennisteinsrannsókna yrði ákveðið 1 millj. kr. Hér er um að ræða mjög athyglisverða tilraun til þess að framleiða örugga og verðmæta vöru til útflutnings. En með því að allverulegt framlag er ætlað auk þessa til borunarframkvæmda, leit n. svo á, að rétt væri að láta þær framkvæmdir víkja að einhverju leyti fyrir þessari rannsókn, sem þykir svo mikils virði, og þyrfti hún því ekki að stöðvast, þótt öll upphæðin yrði ekki áætluð á næsta árs fjárlögum.

Þá skal einnig tekið fram, að ætlazt er til þess, að þær 150 þús. kr., sem lagt er til að varið sé til rannsóknar á kolalögum á Skarðsströnd, verði allar notaðar til frekari rannsóknar, en ekki til að greiða kostnað, sem orðið hefur í sambandi við rannsóknir kolalaganna að undanförnu.

Ég get að mestu vísað til nál. um þær breyt., sem lagt er til að gerðar verði á 17. gr. Vil ég þó taka fram, að framlag til Tryggingastofnunar ríkisins er að sjálfsögðu háð þeim breyt., sem kynnu að verða gerðar á lögunum á þessu þingi.

N. hefur lagt til, að tekinn verði upp nýr liður, 150 þús. kr., til dvalarheimilis fyrir afvegaleidd börn og unglinga. Ber ríkissjóði skv. lögum að leggja fram fé til að koma upp slíkum heimilum og reka þau. Er hér um svo aðkallandi mál að ræða, að því verður ekki slegið á frest. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur athugað ýmsa staði á landinu, sem til greina gætu komið, og væri eðlilegast, að farið yrði um staðarval eftir tillögum hennar. — N. leggur einnig til, að teknar séu upp á 20. gr. 150 þús. kr. vegna byggingar sama hælis. Hafði hún fengið uppdrætti og áætlanir yfir 3 hæli, sem fyrirhuguð eru í þessu skyni og kosta um 6 millj. kr. Eftir að hafa rætt við barnaverndarnefndina er ljóst, að úr þessum málum má bæta allverulega nú þegar með mjög miklu smærri upphæðum, ef málunum er haganlega fyrir komið.

Aðrar hækkanir á 20. gr., sem mér þykir rétt að minnast á, eru: 500 þús. kr. til viðbótarbyggingar við ríkisspítalana. Er ætlazt til þess samkv. ósk ráðh. og landlæknis, að þessi upphæð verði notuð til að koma upp þvottahúsi spítalanna, þar sem það að dómi landlæknis er mest aðkallandi. N. getur að sjálfsögðu ekki lagt á það neinn dóm og telur því, að hér verði að fara eftir tillögum þeirra, sem þessum málum eru kunnugastir og þeim stjórna, nema annað reynist réttara. Hitt þykir skylt að upplýsa, að mér hafa borizt þau álit frá öðrum aðilum, sem einnig þykjast bærir að tala um þessi mál, að sama takmarki megi ná með því að stækka núverandi þvottahús landsspítalans, sem mundi kosta miklu minna fé og hefði auk þess þann kost í för með sér, að nota má þar heita vatnið frá hitaveitunni, en þetta verður ekki hægt í hinu nýja fyrirhugaða þvottahúsi. Er þetta aðeins sagt til ábendingar án þess að leggja nokkurn dóm á málið. En ráð er gert fyrir því, að þetta verði athugað fyllilega, áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar.

Hækkun á framlagi til hyggingar á prestssetrum er í samráði við ráðh. gert til þess að koma upp prestsbústað í Sauðlauksdal á næsta ári. Prestssetrið er svo að segja húsalaust, bæði fyrir menn og skepnur, og verður ekki unnt að halda þar presti né hafa jörðina í ábúð, nema úr verði bætt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera sérstaka grein fyrir öðrum brtt. Þær skýra sig sjálfar, auk þess sem gerð er grein fyrir þeim í nál.

Ég vil þó að síðustu gefa hér yfirlit yfir, hvernig fjárl. koma til með að lita út, ef allar tillögur meiri hl. verða samþykktar:

Hækkun gjalda alls ........ 9837130.00

= lækkun gjalda .......... 51047.00

Raunveruleg gjaldahækkun 9786083,00

Lækkunin er laun próf. Sigurðar Nordals, sem nú hefur tekið við sendiherraembætti í Danmörku, og með því að honum voru greidd þessi laun án kennsluskyldu, er rétt að fella þetta niður, enda er samkomulag um það við ráðuneytið.

Hækkun alls á eignagrein er lagt til að verði kr. 1580000.00.

Rekstraryfirlitið lítur þá þannig út:

Tekjur alls .............. 357918192.00

Gjöld alls ................ 324363559.00

Rekstrarhagnaður alls 33554633.00

Sjóðsyfirlitið yrði þá sem hér segir:

Útborganir .............. 371139634.00

Innborganir .............. 363868192.00

Óhagstæður greiðslujöfn. 7271442.00

Ég vil að síðustu geta þess, að fyrir öllum brtt. er meiri hl. í n. Leyfi ég mér að síðustu að óska þess, að frv. að lokinni þessari umræðu verði vísað til 3. umr.