30.11.1951
Sameinað þing: 20. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka meiri hluta hv. fjvn. fyrir undirbúning þessarar umr. og vona, að áframhald verði á þeirri samvinnu um undirbúning 3. umr. Þá vil ég einnig þakka hv. fjvn. fyrir, hvernig hún hefur tekið á afgreiðslu málsins.

Ég ætla ekki að elta ólar við það, sem kom fram í ræðu hv. 5. landsk., frsm. 1. minni hl. Þó vil ég fara nokkrum orðum um ofur lítið af því, sem hann sagði. Það hefði verið æskilegra, að minni hl. hv. fjvn. hefði flutt hér í þinginu þær till., sem hann flutti í fjvn., svo að þm. geti vitað, hvað hann vill, en hafi það ekki eins og hann hefur haft það nú að flytja í n. aðrar till. en þm. fá almennt að sjá. Vona ég, að hann flytji hér þær till., sem hann flutti þar, svo að liggi ljóst fyrir, hvað hann vill.

Hv. 5. landsk. talaði hér um það, að ófullnægjandi upplýsingar væru t.d. um greiðslur til einstakra starfsmanna og starfsmannaskráin ófullnægjandi. Henni er aðeins ætlað að sýna, hve marga starfsmenn hverri starfsgrein er ætlað að hafa á næsta ári, en ekki ætlað að sýna hlut hvers, og er hægt að sjá á henni á eftir, hve vel hefur tekizt að fylgja fjárl. að því leyti að láta launagreiðslurnar vera eins og starfsmannaskráin sýnir, t.d. fyrir endurskoðendurna. Sams konar skrá fylgir fjárlögunum í nágrannalöndunum. Hitt, sem hann var að tala um, er svo annað mál, en hvers vegna tekur hann þetta ekki saman og gefur út skýrslu um það í þinginu eða utan þess? Ég veit, að hv. þm. er eljumaður og setur slíkt ekki fyrir sig. — Þá voru ýmsar fáránlegar mótsagnir í ræðu hans, sem ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um. T.d. leggur hann áherzlu á að lækka fjárl. og sagðist sjá blóðugum augum eftir hinni háu húsaleigu, sem ríkið greiðir, og talar um, hvers vegna sé ekki byggt. Hvers vegna leggur hv. 5. landsk. þm. þá ekki til að verja tugum milljóna til að byggja? Eða heldur hann, að það kosti ekkert? Og hvar eru svo till. hans um að verja fé til að byggja? Svona var hans ræða öll, botnlausar mótsetningar. Hann talaði um að afnema söluskattinn, en benti auðvitað ekki á, hvernig ætti að komast af án hans. Hann sagði, að það gerði naumast til, þótt 20 millj. kr. greiðsluhalli yrði, en stj. telur það höfuðatriði að afgreiða greiðsluhallalaus fjárl., og það er hennar stefna. En það er gott, að þessi viðurkenning kom frá hv. þm., að það mundi leiða til greiðsluhalla, ef söluskatturinn væri afnuminn, það er meira en stjórnarandstaðan hefur viðurkennt fram að þessu. — Það er hlálegt að heyra frsm. 1. minni hl. tala mikið um sparnað, því að það er á allra vitorði hér, að flokksbræður hv. þm. eru með öllum till., sem fram koma til hækkunar, og vilja, að ríkið taki að sér framkvæmdir, sem kosta stórfé, og tala svo um lækkun á fjárl. og flytja í fjvn. till. um tugmilljóna kr. lækkun, sem vitanlega er alveg út í bláinn, því að engin greinargerð fylgir um það, hvernig eigi að koma því í framkvæmd.

En ástæðan til, að ég ætla að nota þessar fáu mínútur, sem eftir eru af ræðutímanum, er ekki þessi atriði, heldur það, sem kom fram um hugsanlega afkomu á þessu ári. Því miður er það nú ekki svo, að hægt sé að gera ráð fyrir 100 millj. kr. greiðsluafgangi á þessu ári. En betur að svo væri, því að hv. Alþ. yrði áreiðanlega ekki í vandræðum með að ráðstafa því fé á skynsamlegan hátt, því að fullt er af verkefnum, sem vantar fé til að framkvæma, og þarf ekki annað en líta á þau frv., sem flutt hafa verið um ráðstöfun tekjuafgangsins. Það er því ekki ástæða til að harma, heldur fagna því, ef tekjuafgangur yrði. Það er broslegt, hvernig stjórnarandstaðan hefur enga værð út af því, að það skuli verða tekjuafgangur. — Horfurnar eru þær, að 1. nóv. voru tekjurnar 308 millj. á rekstrarreikningi, en erfitt er að áætla tekjurnar í nóvember og desember, og get ég það ekki með neinni nákvæmni. Það er erfitt að átta sig á, hver innflutningurinn verður, en gerum ráð fyrir, að ekki verði aukning á innflutningnum frá því, sem var t.d. í október, og gera má ráð fyrir, að komi að því, að innflutningurinn minnki vegna þeirra birgða, sem safnast fyrir í landinu. Ef við gerum ráð fyrir, að hann verði jafnmikill og í október, — en hann var hæsti mánuðurinn, þá voru tekjur af innflutningi 13 millj., en meðaltalið er um 10 millj., — ef við gerum ráð fyrir 13 millj. hvorn mánuð, eru það 26 millj., og svo söluskattur álíka og í október, má gera ráð fyrir, að tekjurnar verði um 410 millj., og er það rúmlega 100 millj. fram úr áætlun. Þetta er miðað við það, að tekjurnar í nóvember og desember verði eins og í október, en þær geta orðið minni og geta orðið meiri, en á því verða aldrei neinar stórfelldar breytingar.

Þá er spurningin, hve umframgreiðslurnar verða miklar, og um það get ég ekki sagt með neinni vissu, en veit það betur mjög bráðlega. En það er hægt að nefna, að launauppbætur skapa ríkissjóði um 5 millj. kr. umframútgjöld, sauðfjárskiptin 2.5 millj., vegamálin yfir 5 millj., halli á strandferðum og landhelgisgæzlu verður meiri en gert var ráð fyrir, og svo er um fleiri liði vegna þeirrar hækkunar, sem orðið hefur á verðlagi. Ég get ekki sagt um, hve tekjuafgangurinn verður mikill, en ég get það frekar eftir fáa daga, en hann nálgast ekki 100 milljónir, því að það hljóta að verða umframgreiðslur svo að tugum milljóna skiptir. Hins vegar verður greiðsluafgangurinn verulegur, og það mun sýna sig, að hann kemur að góðu haldi til að ráðstafa hluta af honum í mjög aðkallandi verkefni og hluta til að greiða þá skuldasúpu, sem ríkið hefur verið í.

Um horfurnar á næsta ári er það að segja, að óhugsandi er, að tekjurnar verði jafnmiklar af aðflutningstollum, vegna þess að það hafa safnazt svo miklar vörubirgðir fyrir í landinu, að innflutningurinn hlýtur að verða minni næsta ár. Horfurnar eru ekki góðar, eins og meiri hl. getur um í nál. sínu, og má hafa alvarlega gát á að afgreiða ekki fjárl. með greiðsluhalla. Það er sýnilegt, að fjárl. verða nú um 380–390 milljónir, og sjáum við þá, að tekjurnar mega ekki minnka stórlega frá því, sem var síðastl. ár, svo að fjárl. fái staðizt, en þær hljóta að minnka af aðflutningsgjöldunum frá því, sem var á síðasta ári. Má því hafa allan vara á frá sjónarmiði þeirra. sem vilja afgreiða greiðsluhallalaus fjárl. og hafa skilning á því, að það er óhjákvæmilegt, til þess að stjórnarstefnan fari ekki út um þúfur. — Ég vildi upplýsa þetta núna, en eins og ég held að sé minnzt á í áliti meiri hl. fjvn., vitum við meira um þetta fyrir 3. umr. en nú. En ég vildi láta þessi orð falla vegna þess, sem hv. 5. landsk. þm. sagði um þetta.