03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla með fáum orðum að mæla fyrir tveimur brtt. á þskj. 308, sem ég er flm. að. — Hin fyrri er nr. XIV á því þskj., og till. flyt ég ásamt 7 öðrum hv. þm. Er till. um það, að ríkisstj. verði heimilað að greiða Finni Jónssyni listmálara 30 þús. kr. byggingarstyrk. Það hefur verið venja Alþ. um alllangt skeið undanfarið að veita viðurkenndum málurum nokkurn byggingarstyrk, ef þeir ráðast í að koma upp fyrir sig vinnustofu. Nú er Finnur Jónsson listmálari að byggja sér vinnustofu hér í bæ, og er þessi brtt. flutt af því tilefni. — Það er óþarft að fara um þennan listamann mörgum orðum. Hann er meðal þeirra íslenzku málara, sem mestrar viðurkenningar nýtur af öllum þeim, sem á þau mál bera skyn, hvaða stefnu sem þeir annars kunna að fylgja í þeim málum. Finnur er mjög sterkur listamaður og auk þess mjög starfsamur. Fyrir löngu, eða 1925, fékk hann mikla viðurkenningu, er hann var tekinn inn í einn þekktasta listamannafélagsskap í Evrópu, Der Sturm í Berlín, sem ýmsir listamanna, sem hlotið hafa heimsfrægð, hafa verið i, svo sem Klee, Kandinsky, Chagall, Picasso, Rudolf Bauer og fleiri. Félagsskapur þessi lagðist niður, þegar nazistar brutust til valda í Þýzkalandi 1933, og þeir listamenn, sem þennan félagsskap skipuðu, fóru úr landi, mjög margir til Bandaríkjanna. Finnur Jónsson listmálari tók um mörg ár þátt í sýningum þessa heimsfræga félagsskapar, og var hann á þeim árum einn Norðurlandabúa, að Isace Grünwald, sænskum málara, frátöldum, sem tekinn var í þennan félagsskap. Síðan hefur Finnur Jónsson sýnt myndir á mjög mörgum norrænum sýningum og hlotið mikla viðurkenningu. Í myndum sínum fjallar hann um ýmis þjóðleg efni, og eykur það gildi þeirra. Hann hefur verið um mörg ár í samtökum íslenzkra listamanna og átt þátt í stjórn þeirra. — Ég vona, að hv. þm. sjái sér fært að samþ. þessa till. Varðandi upphæð hennar, 30 þús. kr., vildi ég láta þess getið, að fyrir stríðið síðasta var algengt, að, slíkir styrkir næmu 10-15 þús. kr. Nú hefur byggingarkostnaður margfaldazt síðan, og væri því ekki til of mikils mælzt, með tilliti til þess, þó að þessi upphæð hefði til samræmis við það verið látin vera 40–50 þús. kr. Svo langt vildum við flm. ekki ganga. En það er víst að 30 þús. kr. er minni styrkur nú en 10–15 þús. kr. voru fyrir nokkrum árum. Erfiðleikar við byggingar eru meiri nú á allra síðustu árum heldur en fyrr vegna þeirra erfiðleika, sem siglt hafa í kjölfar gengislækkunarinnar. Og það eru líkur til, að listamaður þessi lendi í verulegum erfiðleikum með byggingarframkvæmdir sínar, ef, hann fær ekki styrkinn.

Ég flyt Vl. brtt. á sama þskj., um að veita 15 þús. kr. til dr. Sveins Bergsveinssonar til rannsókna á íslenzkri hljóðsögu og framburði í íslenzku. Sveinn Bergsveinsson er doktor frá Hafnarháskóla, og fjallaði ritgerð hans um hljóðfræðileg efni. Þessi ritgerð var viðurkennd af háskólanum í Berlín, þannig að honum veittist réttur til þess að kenna við þýzka háskóla. Dr. Sveinn Bergsveinsson dvaldi um nokkur ár fyrir stríð á Norðurlöndum og í Þýzkalandi og skrifaði allmikið um mállýsingu, sérstaklega um hljóðfræði. Hann kom heim fyrir nokkrum árum eftir dvöl sína erlendis. Heilsubrestur hans veldur því, að hann á erfitt með að vinna fyrir sér við kennslu í framhaldsskólum. Auk þess er það óskynsamleg nýting á hæfileikum hans að láta hann kenna unglingum. Sjálfstæð vísindastörf á sviði málfræði hentuðu honum betur; en í þeim efnum er nauðsyn á, að margvisleg verkefni verði leyst. Dr. Sveinn segir í bréfi til menntmrn., að nauðsyn sé á að halda áfram málrannsóknum Björns Guðfinnssonar, og vekur athygli á nauðsyn þess að hefjast handa gegn flámælinu, sem hefur verið að spilla tungunni undanfarið og heldur því áfram. Um það er ekki að deila, að dr. Sveini Bergsveinssyni er treystandi til mikilla átaka á því sviði, enda hefur stjórn háskólans farið miklum viðurkenningarorðum um menntun dr. Sveins og látið í ljós ósk sína um, að honum verði á einhvern hátt gefinn kostur á að starfa að málvísindum og sérstaklega að því verkefni, sem ég nefndi áðan og honum er sérstaklega hugleikið. Ég hygg, að því fé, sem hér er farið fram á, að veitt verði þessum manni, 15 þús. kr., væri mjög vel varið, ef till. þessi væri samþ., og upphæð þessi í raun og veru hégómi í samanburði við það málefni, sem hér er verið að leggja lið. Vona ég, að hv. alþm. sjái sér einnig fært að samþ. þessa brtt.