03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ég á ásamt tveim öðrum hv. þm. brtt. á þskj. 308 við fjárlagafrv. fyrir árið 1952 um það, að tekin verði inn á fjárlög fjárveiting á næsta ári til Austurvegar, 11/2 millj. kr. Í sambandi við þessa brtt. vildi ég segja nokkur orð um samgöngur milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur. Á þessari leið fara fram mjög miklir flutningar, sem eðlilegt er, þar sem þetta er eina samgönguleiðin, þ.e.a.s. landleiðin milli Suðurlandsundirlendisins alls og Rvíkur, og þá er átt við milli Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Skaftafellssýslu og Reykjavíkur. Framleiðslan í þessum héruðum er orðin mjög mikil, og er þannig háttað t.d. um mjólkurflutningana, að þá vöru verður að flytja daglega þessa leið og á markaðinn hér í Reykjavík. Þar að auki fara allir vöruflutningar til þessara héraða fram eftir þessari sömu leið. Það hefur verið talin bílaumferðin hjá skíðaskálanum í Hveradölum, og þá hefur komið í ljós, að daglega fara þar fram hjá um 100 bilar. Og af því hafa reynzt vera 60 vörubilar og 40 stórir og litlir fólksflutningabílar. Þetta er meðaltala, misjöfn nokkuð eftir árstíðum, miklu meiri stundum og aftur minni stundum. Nú gefur auga leið, þar sem um svona mikla umferð er að ræða, að hver kílómetri, sem sparast í svona mikilli umferð, hefur mjög mikið að segja, hvað rekstrarkostnað snertir á þeim farartækjum, sem notuð eru til þessara hluta. Nú er þannig ástatt með þessa leið t.d. austur í Árnessýslu, að þar er allan þann tíma, sem ekki er ófært af snjó, farið um Hellisheiði, þar sem hún er stytzta leiðin frá Reykjavík að Selfossi, eða 59 km. Önnur leið er Þingvallaleiðin. Hún er 92 km. Þá er Krýsuvíkurleiðin, eftir að sá vegur var gerður. Sú leið er 102 km frá Reykjavík, og er alltaf miðað við með þessum tölum að Selfossi. Eins og sést af þessum tölum, þá munar miklu, hvað Hellísheiðarleiðin er stytzt, enda er hún oftast farin, þegar hún er ekki ófær af snjó. Hefur lengi verið talað um að fá leið, sem væri snjóléttari, og árið 1946 voru samþ. sérstök l. á Alþingi um Austurveg. Þá var gert ráð fyrir að fara með þennan veg Þrengslaleiðina svokölluðu, en hún liggur töluvert sunnar yfir fjallgarðinn en Hellisheiðarleiðin, og er hún hvergi hærri en Svínahraun yfir sjávarmál. Nú er enginn vafi á því, að því hærra sem leiðin liggur, því meiri snjóhætta er þar. Þessi leið með Austurveg var rannsökuð mjög gaumgæfilega af sérstakri n. Og upp úr starfi hennar voru samþ. l. um þennan veg. Nú hefur ekkert verið gert að þessum vegi í þessi 5 ár, síðan l. um þetta voru samþ., fyrr en lítils háttar á síðasta hausti. En á þessu tímabili var unnið að Krýsuvíkurveginum, og á s.l. vetri var nær þriggja mánaða tímabil, sem Hellisheiðarleiðin var ófær allan tímann.

En þá var farin Krýsuvíkurleiðin. Hún kom þarna að mjög verulegu gagni, vegna þess að hún var yfirleitt alltaf fær hvað snjó snerti, þó að töluvert þyrfti nú að moka þar og yfirleitt að hafa ýtur til taks til þess að halda þeirri leið opinni. Eftir upplýsingum vegamálastjóra hefur sú leið kostað með slíkum rekstri um 100 þús. kr. á síðastl. ári. En þó að hún sé miklu lengri en Hellisheiðarleiðin, þá var stórbót að geta farið hana, þegar Hellisheiðarleiðin var lokuð af snjó.

Með því að gera þennan Austurveg, sem l. frá 1946 gera ráð fyrir, ef gera mætti ráð fyrir, að hann yrði miklu snjóléttari en Hellisheiðarleiðin, en þó eitthvað snjóþyngri en Krýsuvíkurleiðin, þá ætti lagning hans að spara mjög mikið og verða til mjög mikilla hagsbóta fyrir samgöngurnar austur. Þrengslaleiðin, þegar sú leið væri fullgerð, yrði 61.3 km frá Reykjavík og að Selfossi, eða m.ö.o. rúmlega 2 km lengri en núverandi Hellisheiðarvegur. En ef gerður væri kaflinn frá því efst úr Svínahrauni og austur á Ölfusárveginn hjá Þurá, eins og gert var ráð fyrir, þá mundi það verða 66.5 km. Það kemur út af því, að Austurvegurinn er hugsaður á nýjum stað alla leiðina frá Lögbergi og að Selfossi, og sú leið er farin töluvert beinna en núverandi leið er, og þess vegna styttist hann um rúmlega 5 km, þegar hann væri kominn allur. En nú er ekki nokkur vafi á því, að það er rétt stefnt í þessu máli að gera þennan kafla frá því efst úr Svínahrauni, þar sem hann á að liggja, og austur í Ölfus. Þessi kafli er 24 km. Vegamálastjóri hefur gert áætlun um, að þessi kafli kostaði, miðað við að hann væri 7 metra breiður og malborinn, um 51/2 millj. kr. Nú gerir hann einnig ráð fyrir því og segir, að það mundi stytta þennan veg nokkuð, að fara fyrr niður á Ölfusárveginn, og mætti stytta hann með því kringum 5 km, og með því að fullgera ekki þennan spotta eða hafa hann mjórri en aðalveginn, þá mundi geta farið svo, að hægt væri að koma þessum vegi þarna saman fyrir 3.7 millj. til 4 millj. kr. Vegamálastjóri fór fram á það á síðasta hausti að fá að byrja á þessum vegi, þ.e.a.s. láta ýtur vinna nokkuð að honum, svo sem ryðja hann og reyna að hlaða hann upp, til þess að ef snjóa gerði, þá væri hægt að sjá, hvernig vegurinn reyndist, hvort hann færi strax í kaf eða stæði upp úr snjónum. Með samþykki rn. var þetta gert í haust, og er nýlega hætt að vinna þar. Þetta gerði hann einnig til þess að athuga, hvernig þessi vinna færi hjá þessum stórvirku ýtum, og hefur komið í ljós, að sú áætlun, sem vegamálastjóri var búinn að gera áður, mun láta mjög nærri að vera rétt, eða það er ekki hægt að sjá annað á því, sem komið hefur í ljós af þessum vinnubrögðum.

Nú hefur verið lagt til í erindi, sem lá fyrir fjvn., að áætla á fjárl. fyrir árið 1952 1.5 millj. kr. til þess að halda áfram vinnu við Austurveg á næsta ári. En hv. fjvn. sá sér ekki fært að taka þetta inn á fjárl. Þess vegna höfum við flm. þessarar till. tekið hana nú upp sem brtt.

Ég vænti þess, að þetta mál fái góðar undirtektir hjá hv. þm., þar sem vitað er samkvæmt reynslu frá síðasta ári, þegar varð að nota Krýsuvíkurleiðina í 100 daga, þá hefur vegamálastjóri reiknað út, að miðað við að ef Hellisheiðarleiðin hefði verið farin allan tímann, þá mundi á þessum tíma hafa sparazt á 2. millj. kr. í benzíni og sliti á bilunum. Ef slíkt kæmi fyrir vetur eftir vetur, þá mundi það fé, sem lagt er í Austurveginn, ekki vera lengi að borga sig. Frá því sjónarmiði séð verður þetta svo sjálfsagt og eðlilegt, að nauðsynlegt er að koma veginum þarna saman. Þó að ekki sé gert frekar í því að gera Austurveginn eins og l. um hann ákveða, þá er þetta kaflinn, sem er mest áríðandi og hefur langmest að segja, ef hann kæmist fram. — Ég vænti, að hv. þm. hafi þetta í huga, þegar kemur til atkvgr. um þessa till., og vænti, að þeir afgreiði hana eins og óskir standa til.