03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Á þskj. 308 eru tvær brtt., sem ég vildi gera að umtalsefni hér. — Önnur er um það, að 8 þús. kr. verði veittar til Guðmundar Jónssonar söngvara til söngnáms. Fjvn. hefur tekið upp í till. sínar styrk til nokkurra listamanna, það er brtt. n. nr. 41, og fer till. mín fram á, að það verði veittur sams konar styrkur til Guðmundar Jónssonar. Á fjárlögum yfirstandandi árs var samþ. fjárveiting til hans. Hann er nú erlendis við söngnám. Og ég þarf ekki að vera margorður um rökstuðning fyrir því, hversu ágætur söngvari Guðmundur Jónsson er.

Síðari till. er á sama þskj., 308, XVI. Hún er um endurnýjun á heimild til greiðslu á fjárl. til h/f Skipanausta vegna dráttarbrautar og skipasmíðastöðvar og um leið hækkun vegna breytts verðlags. Þessi heimild var samþ. á fjárl. árið 1949 og var 3 millj. kr. Sú brtt. fékk þá góðar undirtektir hér í þinginu. En ástæðan til þess, að sú heimild hefur ekki verið notuð, er sú, að fjárfestingarleyfi hefur enn ekki fengizt til framkvæmdanna. Nú er það svo, að verulegur hluti af því efni, sem á að nota til þessarar dráttarbrautar og skipasmiðastöðvar, er frá Ameríku, og hafa verðhækkanir á því að sjálfsögðu orðið mjög verulegar, þar sem tvær gengisbreyt. hafa orðið á dollar síðan þessi heimild var samþ. Ólafur Sigurðsson skipaverkfræðingur og forstjóri landssmiðjunnar, sem er manna bezt kunnugur þessu, hefur gert kostnaðaráætlun um þetta í samráði við bandarískt fyrirtæki, sem hefur 100 ára reynslu eða meira í að byggja slíkar stöðvar. Og kostnaðurinn nú við þau mannvirki, sem hér um ræðir, mundi eftir þeirri áætlun verða við byggingu 2500 tonna dráttarbrautar og byggingu skipasmíðastöðvar 7680 þús. kr. Við það er svo miðuð lánsheimildin, 6 millj. kr., í stað 3 millj. kr., sem áður var.

Fyrir 2 árum, þegar mál þetta var hér til meðferðar, þá gerði ég ýtarlega grein fyrir þessu máli og fyrir nauðsyn málsins og fjárhagsáætlun. Þetta á sér nokkuð langan aðdraganda. Það var á árunum 1944–45, að stofnað var hlutafélagið Skipanaust til þess að koma upp skipasmíðastöð og dráttarbraut. Landi til fyrirtækisins var úthlutað inni við Elliðaárvog. Málið var lagt fyrir nýbyggingarráð, sem tók því mjög vel og tók þessa fjárhagsáætlun upp í áætlun sína og hét því stuðningi.

Í samráði við nýbyggingarráð voru þá þegar fest kaup á nokkru efni, sem liggur hér enn ónotað. Nýbyggingarráð mælti svo með því, að fyrirtækið fengi stofnlán, 2.4 millj. kr. En þegar til átti að taka, þá hafði stofnlánadeildin ekki það fé handbært, sem þannig hafði verið gefin ávísun á. Og af þessum ástæðum hefur fjárhagsráð ekki enn treyst sér til að veita fjárfestingarleyfi. Hefur dráttur af tilgreindum ástæðum orðið á þessum framkvæmdum. Hins vegar vil ég segja, að hér er um eitt mesta nauðsynjamál að ræða fyrir útveg landsmanna. Við höfum hér á landi í raun og veru aðeins eina skipasmíðastöð, þ.e. slippinn í Reykjavík, sem endurbyggður var fyrir allmörgum árum og hefur verið stækkaður ekki alls fyrir löngu. Hann mun geta annazt viðgerðir á flestum togaranna, þ.e.a.s. hann er nægilega stór og öflugur til þess. En á hitt er að líta, að ekkert má út af bera. Einhver bilun, sem þar kynni að koma fyrir, gæti komið í veg fyrir, að íslenzki skipastóllinn gæti fengið viðgerð, þar sem ekki er um aðra slíka viðgerðastöð að ræða hér á landi. Og erlendis, þangað sem við náum til, hafa skipasmíðastöðvarnar eða skipaviðgerðastöðvarnar svo mikið verkefni viðkomandi viðgerðum á skipum, sem þar eiga heima, að þar geta ekki komizt í framkvæmd viðgerðir á okkar skipum fyrr en þá eftir langa bið.

Það er nauðsynlegt fyrir íslenzk stjórnarvöld að skilja, að það getur verið voði fyrir hendi í sambandi við að hafa ekki þessa skipaviðgerðarstöð, þar sem ekki er hægt að gera við íslenzk skip erlendis nema eftir langan tíma. Þessi skipasmíðastöð, sem hér er fyrirhuguð, á að geta tekið í slipp til viðgerðar skip allt að 2500 tonn að stærð. Þannig ætti að vera unnt að gera við öll okkar skip hér á landi, að undanskildum Tröllafossi, Gullfossi og Hæringi. Það eru sem sagt aðeins 3 skip, sem eru í eigu okkar Íslendinga, sem skipasmíðastöðin gæti ekki tekið til viðgerðar í hinni fyrirhuguðu stöð.

Ég skal ekki fara frekari orðum um þetta, en ég vil geta þess, að það hefur nýlega verið rætt við fjárhagsráð um þetta, að það veitti fjárfestingarleyfi fyrir þessu fyrirtæki. Hins vegar hefur Alþingi áður fjallað um þetta mál og hefur á þinginu 1949 viðurkennt nauðsyn þess, að það næði fram að ganga. Það má því líta á þetta sem endurnýjun af hálfu þingsins, en upphæðin hefur aðeins verið hækkuð nokkuð með tilliti til gengislækkunarinnar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar.