03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég á fjórar brtt., sem ég flyt með öðrum sem 1. flm. og prentaðar eru á þskj. 308 og 315. Á þær vil ég nú minnast. Hins vegar mun hv. 1. flm. ræða um þær till. aðrar, sem ég er við riðinn, hv. 2. þm. Eyf.

Það er þá í fyrsta lagi brtt. á þskj. 315, rómv. XIV, sem ég flyt ásamt hv. þm. N-Ísf. Efni þeirrar till. er það, að ríkisstj. sé heimilt að verja allt að 10 millj. kr. af tekjuafgangi ríkisins árið 1951 til framkvæmda rafveitna ríkisins eða taka sömu upphæð að láni í þessu skyni. Það er nú varla þörf að fjölyrða um þessa till., því að ég hef nú nýverið víkið að sams konar máli í umr. hér á Alþingi, bæði í Sþ. og Ed. Þessi brtt. er ekki kjördæmistill., en er borin fram af almennri þörf þjóðarinnar á frekari lausn í raforkumálunum. Hún er borin fram til þess að auka framkvæmdir í rafveitumálunum frá því, sem verið hefur.

Þegar raforkulögin voru sett, var það von manna, eins og einnig má sjá á blaðaskrifum frá þeim tíma, að þeir fengju rafmagn heim á býli sin. Var því, eins og að líkum lætur, ákaflega fagnað. Hins vegar er það nú ljóst, að það muni taka mjög langan tíma, að raforkan komist til dreifbýlisins, eins og sú áætlun er nú úr garði gerð og framkvæmd. Það lítur út fyrir, að aðeins lítill hluti þess fólks, sem í dreifbýlinu býr, verði aðnjótandi þeirra þæginda, sem raforkan veitir, að minnsta kosti hvað viðkemur núlifandi kynslóð.

Eins og ég hef áður tekið fram í umr. um sama mál, eru tvær leiðir færar í þessum efnum. Annars vegar er það, eins og við hv. þm. N-Ísf. höfum lagt til, að greitt verði fyrir frekari framkvæmdum í dreifbýlinu í þessum efnum frá því, sem nú er áætlað, en hin er sú, að hæstv. ríkisstj. lýsi því yfir, að rafmagn komi ekki fyrr en seint og síðar meir á suma bæi. Það er skárra að segja: Dreifbýlið verður að vera útundan, - heldur en að halda vonum, sem sýnilega bregðast. Ég hef á þessu þingi flutt frv. um eina tiltekna veitu, sem samrýmist þessari brtt., ef frv. nær samþykki. Eins og sjá má, er þessi brtt. við 22. gr. fjárlaganna, heimildargreinina. Þar sem hér er aðeins um heimild að ræða, raskar þessi brtt., þótt samþ. verði, ekki niðurstöðu fjárlaga á næsta ári. Með till. er því ekki lögð nein skylda á ríkisstj. Hins vegar, ef hugsunin er sú að auka framkvæmdir í þessum efnum, er gott fyrir ríkisstj. að hafa slíka heimild sem hér um ræðir.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að víkja fleiri orðum að þessari till., því að meðflm. minn mun að líkindum minnast á hana einnig, og mun ég nú víkja að mínu eigin kjördæmi. Mun ég aðeins minnast á þær till., sem ég er 1. flm. að.

Áður en ég vík að hinum einstöku till., vil ég segja fjvn. það, að mig undrar, hvernig hún hefur sett Eyjafjarðarsýslu hjá í þeim efnum. Svo hefur og verið á undanförnum árum. Það er sagt, að vegir séu svo góðir í Eyjafirði, að þörfin um úrbætur í þeim efnum sé meiri annars staðar. Í því tilefni vil ég láta þá skoðun í ljós, að það þarf á fleira að líta en það eitt, t.d. hve margt fólk býr í héraðinu og hverjir þeir atvinnuvegir séu, sem einkum eru stundaðir. Það er meiri þörf fyrir góðan akveg þar, sem framleitt er mikið af mjólk, sem flytja þarf daglega á markað, en þegar um sauðfjárrækt er nær eingöngu að ræða. Ég er ekki að segja, að þeir menn þurfi ekki einnig að fá vegi, en ég er að tala um það, hvar þörfin er meiri og brýnni. Það er hægt að reka féð, en það er ekki hægt að flytja mjólk, svo að nokkru nemi, ef akvegur er ekki fyrir hendi.

Við þm. Eyf. fórum fram á það við hv. fjvn., að fjárveiting yrði tekin upp til þess að byggja upp Eyjafjarðarbraut. Í þessu sambandi vil ég minna á, að þessi braut var lögð á þeim tíma, þegar mönnum kom ekki til hugar, að bifreiðar yrðu samgöngutæki hér á landi. Þessi vegargerð var eingöngu ætluð hestvögnum, og var ekki gert ráð fyrir, að ekið væri á henni að vetrarlagi. Ef nokkur snjór sezt í brautina, er hún þegar ófær bifreiðum. Það má vera, að það mætti fá gert við brautina af viðhaldsfé vega, en slíkt hefur nú ekki fengizt að verulegu gagni, nema hvað varðar þjóðveginn næst Akureyri.

Ég vík þá að brtt. III á þskj. 291, um að hækka framlag til ræktunarvegar í Hrísey um 4 þús. kr. Í till. fjvn. er nú lagt til að veita til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum 30 þús. kr., í Flatey 10 þús., þar næst kemur Hrísey með 4 þús., en aðrir ræktunarvegir eru með 3 þús. kr. Ég er að vísu ekki kunnugur í Flatey á Breiðafirði, en ef þörfin er þar 10 þús. kr. til ræktunarvega, þá geri ég ekki síður ráð fyrir, að þörf sé 8 þús. kr. í Hrísey.

Hinar till., sem við þm. Eyf. flytjum, eru þær, að við förum fram á fjárveitingu til tveggja minningarlunda, sem þegar er byrjað á, til minningarlundar Jónasar Hallgrímssonar 5 þús. kr. og minningarlundar Jóns Arasonar 5 þús. kr.

Ég held, að þess gerist ekki þörf, að færð séu rök fyrir því, að þessir menn eigi skilið, að Íslendingar minnist þeirra með þeim hætti, að gerðir séu minningarlundir, sem helgaðir séu þeim. Ég hef því engin orð um það. Á 400. ártíð Jóns biskups Arasonar voru gerð samtök í Eyjafirði um að koma upp trjálundi til minningar um hann að Grýtu í Öngulsstaðahreppi, þar sem hann er talinn vera fæddur. Hefur þegar safnazt nokkurt fé til þessa trjálundar og framkvæmdir þegar hafnar. — Um minningarlund Jónasar Hallgrímssonar er það að segja, að það mál var tekið upp af Skógræktarfélagi Íslands, og var það Valtýr Stefánsson ritstjóri, sem hreyfði því máli þar sérstaklega að gera minningarlund í fæðingarsveit hans um skáldið, sem orti svo mikið um íslenzka náttúru og sá dalinn í anda fyllast skógi. Í Öxnadal er nú þegar undirbúið 4 ha landssvæði, sem skrýða á skógi. Er það að Steinsstöðum, þar sem skáldið ólst upp og átti því sitt raunverulega æskuheimili, þótt Jónas fæddist á Hrauni í Öxnadal. Nú þegar mun vera búið að gróðursetja um 2 þús. trjáplöntur. Þessar framkvæmdir kosta það mikið fé, að lítið munar um 5 þús. kr., en það er viðeigandi að veita þessa litlu upphæð úr ríkissjóði til þessa máls, og raskar það lítið niðurstöðutölum fjárlaganna, en með því viðurkennir Alþingi þessa merku viðleitni, þótt í litlu sé.

Ég skal svo ekki eyða tíma hins háa Alþingis lengur og læt máli mínu lokið.