03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Ég á hér tvær till. Aðra þeirra ber ég fram ásamt nokkrum öðrum þm. á þskj. 315, og er í henni lagt til, að Þorsteini Hannessyni söngvara verði greiddar 8 þús. kr. til söngnáms erlendis. — Þorsteinn Hannesson er með glæsilegustu söngvurum okkar og á að baki sér glæsilegan námsferíl. Það má segja, að hann sé búinn að ljúka reglulegu námi sínu. En hann er staðráðinn í að gera þetta að ævistarfi sínu og hefur nú þess vegna ráðizt í að ráða sig að óperu til þess að nema enn frekar. En svo er mál með vexti, að þetta starf hans er ekki betur launað en svo, að það rétt nægir til þess að draga fram lífið af þeim tekjum, sem það gefur honum í aðra hönd, en getur ekkert orðið til þess fyrir hann að grynnka á þeim skuldum, sem hann hefur orðið að safna í hinu fasta námi sínu. Þorsteinn Hannesson hefur með þessu námi valið sér erfiða braut, en með því hefur hann vafalaust litið svo á, að sér væri mögulegt að komast langt, en enn hefur þetta starf hans ekki skilað honum neinum tekjum né heldur að það hafi getað staðið straum af skuldum hans. Ég vænti þess, að þessi till. verði tekin til athugunar jafnframt till. um styrk til annarra listamanna, og vona, að þm. sjái sér fært að samþ. hana.

Hin till., sem ég á, er einnig borin fram ásamt nokkrum öðrum þm., og er hún á þskj. 321. Hún er um það að veita Svavari Guðnasyni listmálara 30 þús. kr. byggingarstyrk. — Svavar Guðnason er þekktur listamaður innanlands sem utan. Hann hefur stundað listnám frá því að hann var ungur, en fór ekki að vinna að list sinni fyrr en hann var orðinn fullorðinn, þegar hann fór utan til listnáms, og hann hefur komið fram sem fulltrúi okkar Íslendinga á sviði listar sinnar erlendis. List hans hefur á síðari árum þróazt í þá átt, sem sumir kalla „abstrakt list“. En jafnvel þeir, sem ekki finna neina fegurð í slíkum málverkum, verða samt að viðurkenna, að verk Svavars feli í sér sérkennilega og mikla fegurð. Svavar Guðnason tók þátt í sýningu 1948 í Kaupmannahöfn. Og hvað sem annars má segja um okkar listamenn, má ráða það af blaðaummælum um Svavar, að hans frammistaða þar þótti vera með miklum glæsibrag. Það segir t.d. í blöðum Kaupmannahafnar frá þeim tíma, að í hinum svokallaða heiðurssal sé það hin kröftuga, en þó fagra list Íslendingsins Svavars Guðnasonar, sem ásamt listaverkum annars málara þeki með litskrúði veggina. Í þessum blaðaummælum er Svavar einnig borinn saman við einn af glæsilegustu listamönnum Dana og komizt að þeirri niðurstöðu, að eftir að hafa athugað málverk Svavars nákvæmlega, sé það sýnt, að hann hafi meiri tilfinningu fyrir litavali heldur en þessi glæsilegi málari þeirra. Aftenbladet segir, að hið glæsilega litaval og hinar miklu sveiflur í málverkum Svavars Guðnasonar hafi orkað miklu til að gera þessa sýningu svo glæsilega sem raun ber vitni um.

Þessi ágæti listamaður hefur enga vinnustofu til þess að vinna í að listaverkum sínum. Hann hefur ekki ráð á því að stofna til slíkrar byggingar nema með því að fá einhvern ofur lítinn styrk til þess. Ég veit, að Svavar mun vera fús til að vinna að slíkri byggingu sjálfur og leggja í hana allt það, sem hann hefur. En það er ekki svo hrist úr erminni nú að byggja hús, að hann treysti sér til þess án þess að fá eitthvað, sem ofur lítið lyftir undir með honum. Hér er ekki gert ráð fyrir stórri upphæð, aðeins 30 þús. kr. En það mundi nægja til að koma slíkri byggingu af stað, og álítum við flm. þessarar till., að slíkt væri vel farið, og væntum þess, að till. verði tekið með velvild af hv. Alþ. og hún samþ.