10.10.1951
Neðri deild: 6. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

39. mál, lántaka vegna landbúnaðarframkvæmda

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Óhætt er að taka undir það, sem hv. þm. Hafnf. sagði, að dráttur sementsverksmiðjuframkvæmdanna frá því, sem upphaflega var gert ráð fyrir, er mjög bagalegur. Það er ákaflega langur afhendingarfrestur á vélum — ég held 12–18 mánuðir. Þess vegna höfum við mikinn áhuga fyrir að geta komið málinu í horf fyrir áramótin, þannig að hægt sé að panta vélarnar fyrir þann tíma, því að ýmiss konar umleitanir fara fram við Alþjóðabankann, eins og mönnum er kunnugt. En staðið hefur á svörum. Í fyrsta lagi út af því, að bankinn hefði ekki lokið sérfræðilegum athugunum sínum, en bjóst þó við, að þeim yrði lokið fljótlega. Sérstaklega voru áhyggjur út af einum fyrirhuguðum þætti í framleiðslunni, sem ekki er vitað enn, hvort valdi aths. frá þeirra hendi við áætlunina. Annað var það, að tæknilegum athugunum var ekki lokið. Ég hef greint frá því, að bankinn lét vita, að búast mætti við, að dráttur yrði á þangað til eitthvað sæist meira en hægt er nú að sjá, hvernig okkur gengi að framkvæma þessi stóru mannvirki, sem við höfum nú í framkvæmd. Hins vegar er, eins og hæstv. atvmrh. tók fram, engu lokað um það að fá síðar í þessari stofnun framlag til verksmiðjunnar, ef þeim falla vel áætlanir að loknum tæknilegum athugunum. Mér er óhætt að lýsa yfir fyrir hönd stj., að hún leitast fyrir um öll tiltækileg úrræði til að koma verksmiðjunni á fót svo fljótt sem mögulegt er og lætur einskis ófreistað.

Varðandi iðnaðinn gat ég þess við 1. umr. fjárl., að ef stj. tækist ekki fyrir áramót að útvega lán til að greiða þetta framlag, sem ákveðið er til iðnlánasjóðs, mundi hún sjá um, að það yrði lagt fram öðruvísi. Ástæðan til þess, að málið var ekki tekið fyrir við Alþjóðabankann í sambandi við hin málin, var sú, að við vorum með í einu í sjálfu sér allt of mörg mál, tvær stórar virkjanir, áburðarverksmiðjuna, landbúnaðarlánin og sementsverksmiðjuna, m.ö.o. fimm áætlanir. Og mér fannst ekki koma til mála að gera málið flóknara með því að blanda inn í svona lítilli fjárhæð til iðnaðarins. Ef svo fer, að það getur ekki flotið með togaralánum í Bretlandi, verðum við að leggja það fé fram öðruvísi. Að gefnu tilefni rifja ég þetta upp.