03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Á undanförnum tveimur þingum hef ég reynt að gera tilraun til þess að fá Alþ. til þess að auka rekstrarstyrk til amtsbókasafnsins í Stykkishólmi úr 4500 kr. í 13000 kr. Því miður hefur hvorki fjvn.Alþ. viljað fallast á þessa till. mína. Á. 15. gr. fjárl., undir rómv. VIII, er talið upp fjárframlag til bókasafna og lesstofa. Eru þar nefnd þrjú amtsbókasöfn, eitt á Akureyri, annað á Seyðisfirði og hið þriðja í Stykkishólmi. Það einkennilega er, að þrátt fyrir það þó að þessi þrjú söfn séu mjög lík að vöxtum að því er snertir bókaforða, er ekki sama framlag til neinna tveggja. Til amtsbókasafnsins á Akureyri eru veittar 13000 kr., Seyðisfjarðar 6550 kr., Stykkishólms 4500 kr. Þetta eru ákaflega einkennileg vinnubrögð, því að í sjálfu sér hafa öll þessi þrjú söfn nokkuð líku hlutverki að gegna. Í Stykkishólmi á safnið að sjá um bókalán ekki einvörðungu til þess staðar og Snæfellsness, heldur til Mýrasýslu, Dalasýslu og Barðastrandarsýslu. Íbúar allra þessara fjögurra sýslna hafa rétt til að fá bækur að láni frá amtsbókasafninu, ef þeir borga hið lága árgjald sem meðlimir. Mér er kunnugt, að sérstaklega fyrir nokkrum árum var það notað allmikið úr Flatey og töluvert úr Dalasýslu. En þrátt fyrir það þótt amtsbókasafnið eigi að gegna þessu hlutverki, eru það einvörðungu Snæfellsnessýsla og Stykkishólmur, sem standa undir rekstri safnsins, að viðbættum þeim 4500 kr., sem ríkið hefur lagt til.

Ég sé nú, að hv. þm. Seyðf. og hv. 10. landsk. bera fram brtt. um það, að rekstrarframlag til amtsbókasafnsins á Seyðisfirði verði hækkað í 10 þús. kr. Í sjálfu sér mun ég fylgja þessari brtt., því að ég tel hana sanngjarna, þar sem amtsbókasafnið á Akureyri fær 13 þús. kr. framlag á fjárl.

Á þskj. 308, undir rómv. VII, hef ég enn á ný borið fram brtt. um, að framlag til safnsins í Stykkishólmi verði hækkað úr 4500 kr. upp í 13000 kr. Til vara hef ég lagt til, að ríkisstyrkurinn verði ákveðinn 8 þús. kr. Ég treysti því, að hv. alþm. geti fallizt á aðaltill. mína, enda sé ég ekki, að hægt sé að standa á móti því, að þessi þrjú söfn fái nokkuð líkt framlag úr ríkissjóði.

Ég vil að öðru leyti þakka hv. fjvn. fyrir þau framlög, sem hún hefur ákveðið til Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, sérstaklega hvað snertir vegafé og fjárframlög til hafnarbóta. Ég verð þó líklega að koma með brtt. við 3. umr. í sambandi við framlag til brúar á Kársstaðaá, sökum þess að fjvn. hefur ekki séð sér fært að fylgja till. vegamálastjóra um 170 þús. kr. framlag. Hins vegar hefur hv. fjvn. ákveðið aðeins 130 þús. kr. fjárveitingu til þessarar brúar, og þykir mér leitt, ef á að tefja byggingu brúarinnar um eitt ár enn, vegna þess að það vantar aðeins 40 þús. kr. upp á fjárframlagið.

Það er mjög aðkallandi að brúa þetta vatnsfall og tengja með því saman samgöngur á milli Helgafellssveitar og Skógarstrandar, en það er oft mjög erfitt að komast á millí þessara sveita vegna þessa farartálma.

Ég held ég þurfi svo ekki að taka fleira fram viðvíkjandi brtt., sem ég hef flutt, en ég vænti þess, að hv. alþm. sjái sér fært að samþ. hækkun á framlagi til amtsbókasafnsins í Stykkishólmi úr 4500 krónum í 13 þús. kr.