03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Frsm. 1. mínni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil í stuttu máli svara því, sem hv. form. fjvn. beindi til mín í síðustu ræðu sinni. Hann talaði mikið um það, hve mikið ábyrgðarleysi það væri, sem við hv. 6. landsk. þm. hefðum sýnt með því að leggja til að lækka á frv. bæði tekjur og gjöld. Ég minntist á það í gær, að þessar till., sem við bentum þarna á, hefðu ekki verið nýjar till. frá okkur, þar sem þar gætti þess sama og öll fjvn. var fylgjandi 1948, þegar samin voru fjárlög fyrir 1949. Til þess að taka af allan vafa um þetta skal ég lesa upp það, sem sýnir álit hv. form. fjvn. á því, hvert þá stefndi. Mun ég lesa fáein orð úr framsöguræðu hans það ár, sem hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar frv. var fyrst lagt fram, var gert ráð fyrir 27 millj. 419 þús. kr. rekstrarhagnaði og tæplega 400 þús. kr. óhagstæðum greiðslujöfnuði. En þá eru aðeins ætlaðar 33 millj. kr. til dýrtíðarráðstafana og önnur útgjöld á 19. gr. áætluð 6.5 millj. kr. Ef þessar upphæðir báðar eru dregnar frá rekstrarútgjöldum á frv. og niðurstaðan því næst borin saman við áætluð rekstrargjöld 1948, að frádregnum framlögum til dýrtíðarráðstafana á 19. gr., alls 55.5 millj. kr., sést, að rekstrargjöldin á frv. auk dýrtíðargreiðslu eru 8 millj. kr. hærri en á fjárl., og þá höfðu framlög til verklegra framkvæmda verið skorin niður um 12 millj. kr. Af þessu er ljóst, að rekstrarútgjöld hinna ýmsu stofnana og önnur gjöld, að undanskildum verklegum framkvæmdum, eru áætluð samkv. raunverulegum kostnaði, eins og hann varð á ríkisreikningnum 1946, og samsvarandi liðir á fjárlagafrv. hækkaðir upp í það, sem þeir reyndust á ríkisreikningnum 1947, allt eins og vísað er til í aths. við frv. Nefndin gat því ekki fallizt á, að rétt væri að samþykkja rannsóknarlaust slíka gífurlega útþenslu og hækkun á kostnaði í ríkisrekstrinum, og því varð óhjákvæmilegt að leggja í það mikla vinnu að gera samanburð á hverju atriði út af fyrir sig og ræða þau síðan ýtarlega við forstjóra hinna mörgu stofnana og leita fyrir sér um samstarf til niðurfærslu að verulegu leyti.“

Víðar í ræðunni er að þessu vikið og tekið fram, að þegar vísitalan hafi verið fest um áramótin áður, þá mætti ríkisstj. sízt hækka rekstrarútgjöld ríkisins um 20%. En þá voru heildarútgjöldin á fjárlögum ekki nema 247 millj. kr. Vegna þess að þau voru svona þá, segir hv. þm., að ekki hafi verið hægt að samþykkja rannsóknarlaust slíka gífurlega útþenslu í rekstrarútgjöldum ríkisins. En nú eru útgjöldin á fjárl. meira en 380 millj. kr. Ég skal ábyrgjast, að lauslega reiknað verða hliðstæð útgjöld á þessu fjárlagafrv., sem hér um ræðir, ekki minni en 40–50 millj. kr. hærri en á síðustu fjárl. Nú er það talið takmarkalaust ábyrgðarleysi af stjórnarandstæðingum að taka þá sömu línu og öll fjvn. var á árið 1948 og reyna að færa þetta eitthvað niður eins og það ár, sem sérstaklega voru bornar fram till. af hv. fjvn. um sparnað, en drepnar af þáverandi ríkisstj.

Þá spurði hv. þm. Barð. að því, hver niðurstaðan hefði orðið, ef söluskatturinn hefði verið afnuminn, en samkomulag hefði ekki orðið um niðurfærslu. Þá hefðu verið búnir til nýir skattar eða þessi skattur hefði verið tekinn upp aftur. — Þá minntist hann á tölur, sem mætti lækka. Ég kannast við þetta, því að ég bar fram till. um að lækka útgjöld ríkisins og lækka tekjur frv. sem söluskattinum nemur. Ég benti á, að það væri mikil lækkun á hverri gr. frv.

Hv. form. fjvn. hélt því fram og rökstuddi, hvað þyrfti að gera til þess að ná þessu marki. Vék hann að þremur atriðum. Í fyrsta lagi: Minni afskipti ríkissjóðs af málum þegnanna. Ég viðurkenni, að takmörk eru fyrir því, hve þau afskipti séu mikil, og á að meta í hverju einstöku tilfeili. En ég er ekki viss um, að það sé alveg öruggt, að það lækki mikið gjöld ríkisins eða að minnsta kosti að skattar lækki fyrir það, þó að þau afskipti ríkisins minnki eitthvað, sem eru vissulega of mikil í sumum tilfellum. T.d. er búið að afnema skömmtun, og okkur er sagt, að það sé gert samkv. ósk fjárhagsráðs. En hvað skeði? Fjárhagsráð innheimtir hærri leyfisgjöld en áður.

Fjárhagsráð hefur tekjuafgang, sem er um 3 millj. kr. Það eru milljónir, sem leggjast á vöruverð. Það er tap á framleiðslunni. Það er alls staðar tap, þar sem verið er að gera tilraun til að skapa tekjur að einhverju leyti. En það er góð afkoma hjá sjálfu fjárhagsráði og tekjuafgangur. — Í öðru lagi voru það lægri laun, og minntist hv. form. fjvn. á launagreiðslur til opinberra starfsmanna. — Í þriðja lagi var það lenging vinnutímans fyrir sömu laun. Á þessum þremur atriðum taldi hann að byggja ætti viðreisn í fjárhagsmálum ríkisins. — En hv. þm. Barð. gleymdi bara fjórða atriðinu, sem er stærst og hefur verið praktíserað undanfarin ár. Það er að láta dýrtíðina hækka stórkostlega með söluskattinum, sem alltaf tvöfaldar verzlunarálagningu og leggst á vöruverð og krefst síðan launahækkunar á eftir. Þetta sýnir bezt útreikningur sá, sem ég gerði samkv. upplýsingum, sem ég fékk í haust. Samkv. þeim vantar Dagsbrúnarverkamann nú upp undir 8 þús. kr. til þess að hafa fengið launahækkun samkv. þeim dýrtíðarhækkunum, sem orðið hafa síðan 1947. Ég ætla. að þetta slái niður þær röksemdir, að það sé launahækkun, sem hafi skapað þessa útgjaldahækkun á fjárlögum ríkisins. Ég veit, að hver maður, sem tekur laun, finnur, að dýrtíðin hefur vaxið honum yfir höfuð. Þetta er stórt atriði í málinu, og það er þetta atriði, sem ég hafði í huga, þegar ég lagði til, að n. byrjaði sitt starf á því að marka þá stefnu að fella niður þennan tekjustofn, sem er 10–12% af þeirri verðhækkun, sem hefur orðið. Það sýnist liggja ljóst fyrir, að út frá því ættu útgjöld ríkisins, sem eru raunar öll háð almennu verðlagi, að lækka, því að útgjöldin lækka, ef verðlagið lækkar, og hækka, ef verðlagið hækkar. En hæstv. ráðh. og hv. frsm. meiri hl. hafa gengið fram hjá þessu atriði, og þó var þetta eitt aðalatriðið í framsöguræðu minni í gær. Og svo breiðir hv. frsm. meiri hl. sig yfir ábyrgðarleysi mitt og hv. 6. landsk. (GJ: Ekki síður hans.), sem sé svo mikið, að ekki sé hægt að taka okkur alvarlega.

Þá minntist hv. frsm. meiri hl. á till. minar á þskj. 306 og sagði, eins og rétt er, að lækkanirnar næmu ekki nema 700–800 þús. kr., en hækkanirnar væru yfir 10 millj. kr. En ég vil benda á það, sem ég mun ekki hafa tekið fram í minni framsöguræðu, en hv. 6. landsk. tók fram í gær, að ég lýsti því yfir í byrjun, að ef söluskatturinn væri ekki innheimtur, væri ég fús til samvinnu um niðurfærslu útgjalda á móti þeirri lækkun, sem það hefði í för með sér. Hitt var ekki mín meining, að þessar 70 millj. kr. yrðu afgangs og að stjórnin gæti ráðstafað þeim eftir sinni vild.

Þá vildi ég aðeins segja örfá orð um síðasta atriðið, sem hv. frsm. meiri hl. minntist á. Ég mundi ekki hafa rætt það á opnum fundi, ef hann hefði ekki komið inn á það sjálfur. Hann sagði, að forstjóri einnar ríkisstofnunar hefði komið á fund n., en þessi stofnun hefði hækkað launin meira en nokkur önnur stofnun. Það hefði verið betra fyrir hv. frsm. meiri hl. að minnast ekki á þetta, en ég vil taka það fram, að afstaða okkar 6. landsk. var ekki sprottin af því, að form. hélt því fram, að nauðsynlegt væri að spara, heldur því, hvernig form. talaði við þennan mann. (HV: Hann talaði við hann í siðlausum tón.) Og þetta er ekki einsdæmi. Það hefur komið fyrir, að flokksbræður hv. frsm. meiri hl. hafa gengið af fundi í mótmælaskyni við það, hvernig hann talar við embættismenn ríkisins, sem engu er líkara en hann væri að yfirheyra glæpamenn. Óánægja okkar stafaði af þessum talsmáta. Ef til vill hefur það ekki bætt úr skák, að þessi maður er talinn nokkuð vinstrisinnaður, — það er Klemens Tryggvason hagstofustjóri, það er ástæðulaust að leyna því, það er öllum kunnugt.

Ég var búinn að forma brtt. til lækkunar á útgjöldum hagstofunnar, en ég bar hana ekki fram, þar sem svo harkalega hafði verið tekið á móti öðrum sparnaðartill. mínum. (HV: Enda hefði hún ekki verið samþ.) Nei, hún hefði ekki verið samþ.