03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. að ráði, enda hefur tognað nokkuð mikið úr þeim. Minar till. eru heldur ekki margar, og þarf ég því ekki að tala langt mál. Það eru aðeins tvær till., sem ég flyt einn, en auk þess er ég meðflm. að tveimur öðrum till. Vegna þess, hvað þær eru fáar, vænti ég þess líka, að þeim verði því betur tekið af hv. alþm.

Fyrri till. er á þskj. 315, um það, að framlagið til byggingar fjórðungssjúkrahúss á Akureyri verði hækkað úr 500 þús. kr. í eina millj.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. sé þetta mál nægilega kunnugt, svo að ekki þurfi að fjölyrða mikið um það. Það hefur verið til umr. öll þau ár, sem byggingin hefur verið í smiðum, og henni hefur miðað seinna en æskilegt er og nauðsyn krefur. Ég vil geta þess með fáum örðum, hvernig fjármálum byggingarinnar er komið. Samkv. upplýsingum gjaldkerans er búið að verja í bygginguna tæpum 7 millj. kr. Samkvæmt lögum á ríkissjóður að greiða 3/5 af kostnaðinum og ætti því að vera búinn að greiða 4 millj. kr. En ríkið hefur aðeins lagt fram um 21/2 millj. kr. og stendur því í skuld við bygginguna um nálega 11/2millj. kr. Nú er það svo, að Akureyrarkaupstaður, sem stendur að þessu ásamt ríkissjóði, hefur ekki heldur fjárráð til að koma byggingunni áfram eins fljótt og æskilegt er. En til að flýta fyrir hafa verið tekin tvö bráðabirgðalán hjá Landsbankanum og 800 þús. kr. lán hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þessu fé hefur svo til öllu verið eytt í bygginguna, svo að nú er svo komið, að framkvæmdir munu stöðvast, ef ekki fæst meira fé en áætlað er á fjárlagafrv. nú. Þessar 500 þús. kr., sem áætlaðar eru, munu allar fara í afborganir og vexti af bráðabirgðalánunum hjá Landsbankanum, sem eru til fjögurra ára, en fyrsta afborgunin á að fara fram á næsta ári. Það þýðir því, að ekkert verður eftir til að halda áfram vinnu við bygginguna og framkvæmdir stöðvast. Ég held því, að það sé sanngjörn krafa, að framlagið verði hækkað svo, að nálega 1/2 millj. verði eftir til þess að halda byggingarframkvæmdum áfram, því ef Akureyrarkaupstaður getur útvegað eitthvert fé til viðbótar, er von til þess.

Ég skal geta þess, að gjaldkeri sjúkrahússins telur, að til þess að ljúka við bygginguna þurfi 21/2 millj. kr. Það er því svo komið, að ekki er eftir nema lokaátakið, og það verður ekki annað séð en að það sé hagstætt fyrir þá, sem eiga að leggja fram fé til byggingarinnar, að taka það á sig nú og gera með því arðbært það fé, sem þegar hefur verið lagt í þessar framkvæmdir, því að meðan það er ekki gert, er ekkert hægt við húsið að gera. Ég skal nefna dæmi um það, hve lítil fjármálavizka þetta er. Það er ekki bara það, að það kapítal, sem lagt hefur verið í bygginguna, sé óarðbært, heldur er líka um verulegan rekstrarkostnað að ræða. Það nemur t.d. tugum þúsunda á ári að hita upp bygginguna, svo að hún eyðileggist ekki. Þannig er það margt fleira, sem fer forgörðum, meðan ekki er lokið við bygginguna. Ég held því, að það sé hagkvæmast fjárhagslega að taka nú lokaátakið og að það minnsta, sem Alþ. getur gert, sé að tvöfalda framlagið eins og felst í þessari till.

Það má líka segja, að það líti ekki sérstaklega vel út gagnvart þeim aðilum, sem þarna eiga hlut að máli, t.d. Akureyrarkaupstað og því fólki, sem bíður þarna eftir sjúkrahúsvist, að á sama tíma og mikill rekstrarafgangur er, skuli ríkið ekki greiða lögboðin framlög sín, því að ríkið skuldar nú 11/2 millj. kr. af því fé, sem þegar hefur verið lagt í bygginguna. Það virðist því ekki mikið, þó að farið sé fram á 1 millj. kr., svo að skuld ríkisins lækkaði. Ef nú væri tekið þetta lokaátak, væri tæknilega mögulegt að ljúka við bygginguna, þ.e.a.s. að fullgera sjúkrahúsið á næsta ári, svo að það gæti tekið til starfa í lok ársins, og ég álít, að ríkið hafi meiri möguleika en kemur fram í fjárlagafrv. Ég vil því vænta þess, að till. mín verði samþ., og tel þó of skammt gengið.

Hin till., sem ég flyt, er á sama þskj., XI. liður. Hún er um það að hækka framlag til byggingar heimavistarskólahúss við menntaskólann á Akureyri úr 250 þús. kr. í 500 þús. kr. Ég skal ekki fjölyrða um till. Hv. þm. er þetta einnig kunnugt og sérstaklega hv. fjvn., því að á s.l. vetri gerði n. reisu til Akureyrar til þess að skoða þetta hús, og ég held, að henni hafi litizt sæmilega á húsið. Einnig mun það kunnugt, að skólameistari var hér á ferð s.l. vetur til þess að ræða þetta mál við ýmsa alþm., og er till. mín í samræmi við óskir hans. Hann fór eindregið fram á, að framlagið yrði ekki minna en 500 þús. kr., og ég tel það líka mjög hæfilegt. Þó að þetta nægi ekki til að ljúka byggingunni, má þó fjölga mikið því fólki, sem getur búið þar.

Ég er svo meðflm. að tveimur öðrum till. á þskj. 315, sem báðar varða útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, og skal ég ekki fjölyrða um þær. En ég vildi undirstrika XV. till. á sama þskj. varðandi bætur til þess fólks, sem beðið hefur tjón og orðið fyrir þungum sorgum í sambandi við slysið á Bolungavíkurvegi s.l. sumar. Ég tel það mjög mikla sanngirniskröfu, að það fái bætur, fyrst svo undarlega hagar til, að slík slys eru ekki bótaskyld, Hv, frsm. meiri hl. andmælti frekar þessari till., ekki vegna þess, að hann væri andvígur henni í sjálfu sér, heldur vegna þess, að með samþykkt hennar væri gengið inn á hættulegt prinsip og Alþ. mundi þá ekki hafa frið fyrir slíkum bótakröfum. Ég skal ekki neita því, að það gæti komið fyrir, að Alþ. bærust af og til kröfur um bætur, meðan svo er, að slík slys eru ekki bótaskyld, en ég held, að Alþ. ætti að ákveða, að þau verði bótaskyld, annaðhvort með breyt. á l. um almannatryggingar eða á annan hátt. Ég álít, að það sé óverjandi, að hópur fólks geti farizt eða hlotið örkuml, án þess að það sé bætt. Hér er því ekki nein hætta á ferðum, því að það hlýtur að liggja fyrir löggjafanum að sjá til þess, að slík slys verði bótaskyld. Ég mæli því eindregið með því, að þessi till. verði samþ., og tel það ekki bara maklegt, heldur sjálfsagt.