12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hæstv. ríkisstj. tók við völdum fyrir nærfellt tveimur árum. Hún lýsti því þá yfir, að hún teldi það sitt höfuðverkefni að „bjarga“ vélbátaútveginum, sem þá átti í erfiðleikum. — Bjargráð hæstv. ríkisstj. voru gengislækkun um 42%, allur erlendur gjaldeyrir var hækkaður í verði um 73%.

Alþfl. barðist gegn gengislækkuninni, taldi hana á engan hátt réttlætanlega og ekki líklega til að rétta við hag útvegsins. Alþfl. benti á þá leið, sem dugað 'hafði til þessa, að greiða niður ýmsa kostnaðarliði útgerðarinnar og útflutningsuppbætur, og auk þess að bæta þyrfti rekstrarfyrirkomulag og starfshætti útgerðarinnar og koma á samvinnu útvegsmanna sjálfra um eignarhald og rekstur hraðfrystihúsanna, viðgerðarverkstæða og þess háttar. Hann benti á, að gengislækkun væri neyðarráðstöfun, sem ekki mætti grípa til, fyrr en öll önnur sund væru lokuð. Og hann sýndi fram á, að gengislækkun ein væri aldrei til bóta. Hann játaði, að ástandið gæti orðið svo illt, að gengislækkun yrði óhjákvæmileg, en væri til hennar gripið, yrði jafnframt að gera samtímis margháttaðar ráðstafanir til þess að festa hið nýja gengi og draga úr hinum illu afleiðingum gengislækkunarinnar, þ.e. koma í veg fyrir, að einstaklingar og stéttir notuðu hana til þess að skapa sér gróða á kostnað almennings. Væri þetta ekki gert, taldi Alþfl., að gengislækkun mundi valda nýju dýrtíðarflóði, leiða af sér nýjar gengislækkanir, og gæti orðið upphaf að fullkomnu gengishruni.

Orð okkar og aðvaranir voru að engu höfð. Stjórnin fór sínu fram. Gengislækkunin var lögfest. Bjargráð stj. kom til framkvæmda. Með því var lofað að tryggja: Í fyrsta lagi hallalausan atvinnurekstur og jafnvægi í viðskiptum. Í öðru lagi lækkun tolla, vegna þess að niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur væru felldar niður. Í þriðja lagi að afstýra atvinnuleysinu. Og í fjórða lagi að veita fullkomið verzlunarfrelsi.

Hvernig hefur bjargráðið gefizt. Hverjar hafa orðið efndir hæstv. ríkisstj. á þessum fögru loforðum? Er grundvöllur útflutningsatvinnuveganna öruggur? Er rekstur útgerðarinnar hallalaus? — Hvað segja útvegsmenn sjálfir þar um? Á aðalfundi L.Í.Ú. í haust var lögð fram áætlun um rekstur 60 smál. vélbáts hér við Faxaflóa á næstu vetrarvertið. Samkv. henni var gert ráð fyrir 70 þús. kr. rekstrarhalla. Og það er á hvers manns vitorði, að útgerðarmenn hafa gert kröfur um stórfellda aukningu á bátagjaldeyrisfríðindunum og aðrar hliðstæðar hjálparráðstafanir, ef útgerðin eigi að geta haldið áfram. Þeir telja, að ástandið hafi aldrei verið verra en nú. Gengislækkunin 1950 dugði ekki. Eftir eitt ár, 1951, var bætt við bátagjaldeyrisfríðindunum, nýrri gengislækkun, þ.e. um 20% af innfluttum vörum hækkaði í verði um allt að 60%. Gömlu töpin voru gerð upp og afskrifuð. Samt er vélbátaútvegurinn enn kominn í þrot, og bráð hætta er á, að útgerðin stöðvist — að dómi útgerðarmanna sjálfra — nema enn sé gengið lengra á braut gengislækkunarinnar. Og enn er þó ekki allt talið. Almælt er, að togaraútgerðarmenn hafi nú í huga að fá bátagjaldeyrisfríðindi sér til handa fyrir þann hluta aflans, sem þeir leggja upp innanlands til verkunar, eða tilsvarandi fyrirgreiðslu, svo sem loforð um sölur til clearing-landa. Það er því augljóst mál, enda af öllum viðurkennt, að gengislækkunin hefur ekki bjargað sjávarútveginum. Hagur hans er stórum verri nú en fyrir gengislækkunina þrátt fyrir öll „bjargráðin“, eða kannske vegna þeirra? Enn virðist því þurfa að bjarga. — En hvernig? Hverjar eru fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. í þessu máli? Það er furðulegt, en engu að síður satt, að hæstv. ríkisstj. hefur til þessa ekki talið ástæðu til að láta nokkuð uppi um það við Alþ., hvað hún hyggist fyrir í þessum efnum. Ætla því margir, að hún hafi í huga að senda þingið heim fyrir jólahátíðina og „leysa“ svo vandræði útgerðarinnar með bráðabirgðalögum eða án laga, að þingmönnum forspurðum, eftir áramótin. Slík afgreiðsla á svo geysi-þýðingarmiklu máli er fullkomið brot á anda þingræðisins og reglum þess.

Spá Alþfl. um áframhaldandi gengislækkun hefur því miður þegar rætzt. Bátagjaldeyrisfyrirkomulagið var fyrsta skrefið. Ætlar hæstv. ríkisstj. enn að halda áfram á þeirri braut?

Hvað er þá um jafnvægið í viðskiptunum við útlönd að segja? Er það fengið? Viðskiptahallinn hefur aldrei verið meiri en á þessu ári. Talið er fullvíst, að um 200 millj. skorti á, að útflutningurinn hrökkvi til þess að greiða innflutninginn. Og við þennan halla bætast svo duldar greiðslur, sem skipta tugum millj. kr. Hallinn í ár verður e.t.v. jafnaður með Marshallfé, lánum og framlögum. En hvað tekur við í júní næst, þegar Marshallhjálpin hættir? Greiðsluþrot eða ný innflutningshöft, nema hvort tveggja sé. — Slíkar eru efndir ríkisstj. í þessum efnum.

Hafa tollar og skaftar verið lækkaðir, þegar hætt var að greiða útflutningsuppbætur og greiða niður kostnaðarliði útgerðarinnar? Nei, tollarnir hafa allir haldizt og hækkað stórkostlega vegna verðhækkunarinnar. Söluskatturinn hefur auk þess hækkað beinlínis vegna hækkunarinnar á skattstiganum sjálfum.

Áætlað er, að tekjur ríkissjóðs á þessu ári verði um 150 millj. kr. hærri en gert er ráð fyrir á fjárl. og nemi um 450 millj. kr. Heildartekjur þjóðarinnar á árinu er talið líklegt að muni nema um 1700 millj. kr. Reynist þetta rétt, tekur ríkissjóður í sinn hlut meira en fjórða hlutann af tekjum landsmanna. En hér er þó ekki allt talið. Við þetta bætast gjöld til bæjar-, sveitar- og sýslusjóða. Útsvörin ein nema á þessu ári yfir 100 millj. kr. Opinber gjöld samtals nálgast því 600 millj. kr. á árinu, en það er a.m.k. þriðjungur af heildartekjum þjóðarinnar. Þriðji hver skildingur, sem landsfólkið aflar, rennur því til ríkis, bæjar- og sveitarsjóða. Er hægt að halda lengra áfram á þessari braut? Flestir munu lita svo á, að nú sé nógu langt gengið og mál að stinga við fótum.

En hæstv. ríkisstj. virðist á annarri skoðun. Fjárlagafrv. fyrir árið 1952, sem hér er til umr., sýnir álit hæstv. ríkisstj. á því máli. Þar er gert ráð fyrir, að allir tollar og skattar verði framlengdir, enda hefur aðalstarf þingsins til þessa verið að afgr. frv. um það efni. Samkv. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að tekjur og gjöld á árinu verði, hvort um sig, um 370 millj. kr. Áreiðanlega hækkar frv. við 3. umr., og ekki mun verða komizt hjá umframgreiðslum fremur venju. Það er óhætt að fullyrða, að 400 millj. er sú allra lægsta upphæð, sem hæstv. ríkisstj. telur sig þurfa að hafa handa á milli á næsta ári, jafnvel þótt vísitalan hækki ekki frá því, sem hún nú er. Líkurnar til þess, að vísítalan stöðvist, virðast hins vegar engar. Þvert á móti virðast stórfelldar hækkanir á henni vera fram undan og þá um leið hækkanir á útgjöldum ríkisins. Reykjavíkurbær boðar hækkun á rafmagni, hitaveitugjöldum o.fl., o.fl., auk útsvarshækkunar. Og hvert verður „bjargráð“ ríkisstj. vegna útgerðarinnar? Eitthvað kostar það. Hver áhrif hefur það á dýrtíðina í landinu? Ný hækkun þar. Allt bendir því til þess, að sá hluti, sem ríkissjóður og sveitarsjóðir taka til sín á næsta ári af tekjum landsmanna, verði ekki lægri en á þessu ári, heldur miklu fremur, að hann verði enn þá hærri.

Í sambandi við skattlagningu ríkisins skiptir tvennt höfuðmáli: Fyrst það, hvernig fjárins er aflað, og í öðru lagi, til hvers það er notað. Eru gjöldin á lögð með það fyrir augum, að þeir efnuðustu og tekjuhæstu greiði mest? Því verður að svara algerlega neitandi, því miður.

Tollarnir, neyzluskattarnir, eru megintekjur ríkissjóðs. Nægir í því sambandi að benda á söluskattinn, verðtollinn og vörutollinn. Þessir þrír tollar eru áætlaðir nálægt 200 millj., eða um 60% af tekjunum. Hins vegar er tekju- og eignarskatturinn, sem er stighækkandi eftir eignum og tekjum, aðeins áætlaður 11–12% af tekjunum, og auk þess eru reglurnar um persónufrádrátt og skattaálögur hjóna svo fráleitar, að skatturinn er lagður á tekjur, sem ekki einu sinni nægja til lífsframfæris.

Tollarnir hvíla, eins og allir vita, þyngst á þeim, sem fyrir flestum hafa að sjá. Þeir þurfa mest að kaupa af mat, fatnaði o.s.frv. Þeir borga meginhluta neyzluskattanna.

Hvernig er svo þessu fé úthlutað? Er því varið til þess að létta kostnaði af almenningi, sem ella mundi höggva jafnstórt skarð í tekjur hans og skattarnir gera? Er því varið til þess að sjá fyrir sameiginlegum þörfum landsmanna allra? Er þess vandlega gætt, að landsmönnum sé ekki mismunað við úthlutun fjárins? Aðrir ræðumenn Alþfl. munu víkja nokkuð að þessu. Ég skal aðeins nefna eitt dæmi. Til atvinnuveganna eru lagðar 44 millj. kr., sem skiptast þannig: Til landbúnaðarins 38.2 millj. kr., til sjávarútvegs 4.9 millj. kr. og til iðnaðar 1.2 millj. kr. Framlagið til landbúnaðar er því hér um bil átta sinnum hærra en til sjávarútvegsins og þrjátíu og tvisvar sinnum hærra en framlagið til iðnaðarins. Auk þess er greidd úr ríkissjóði uppbót til bænda á það verð, sem kaupendur greiða fyrir kjöt og mjólk, og nemur sú upphæð nú 42 aurum á hvern lítra mjólkur og 84 aurum á hvert kjötkílógramm. Vissulega er eðlilegt og æskilegt, að landbúnaðurinn sé styrktur til þess að skapa sem bezt framleiðsluskilyrði og tryggja lífskjör þess fólks, sem að honum starfar. En jafnframt og engu síður eiga framlögin að verða til þess að gera framleiðsluvörur hans ódýrari, svo að almenningur geti keypt þær, og gæta skal hófs í hverju máli. Segjum, að 6000 bændur séu á landinu. Nemur þá heildarframlag til þeirra úr ríkissjóði nærfellt 6500 kr. á hvern bónda til jafnaðar á ári, auk verðlagsuppbóta á framleiðsluvörur þeirra. Hér er ekki skorið við nögl.

Hvað er að segja um hina aðalatvinnuvegina? Er ekki þörf á að létta undir með þeim? Fleiri menn hafa haft atvinnu af iðnaði en landbúnaði. Og sjávarútvegurinn er sú undirstaða, sem öll viðskipti okkar við útlönd byggjast á.

Ég vil spyrja hæstv. ríkisstj.: Telur hún fært að veita slíkar fjárupphæðir af almannafé til landbúnaðarins án þess, að á móti komi lækkun á afurðaverði? Og sé það fært að hennar dómi fjárhagsins vegna, hvernig getur hún þá réttlætt svo ferlega misskiptingu að veita iðnaðinum, sem á við hina mestu erfiðleika að stríða, aðeins einn þrítugasta og annan hluta á móts við landbúnaðinn?

Tökum annað dæmi til samanburðar. Til almannatrygginganna, þar með talin sjúkrasamlögin, eru ætlaðar um 32 millj. kr. Það er fyrirsjáanlegt, að það fé hrekkur ekki til þess að halda áfram að greiða bætur Tryggingastofnunarinnar með dýrtíðaruppbót, eins og verið hefur, nema enn verði gengið á sjóði stofnunarinnar í viðbót við halla tveggja síðustu ára. En það þýðir, að fjárhagsöryggi trygginganna er skert og geta þeirra til að fullnægja ætlunarverki sínu rýrð. En einmitt á erfiðleikaárum hljóta útgjöld trygginganna að aukast. Framlagið til trygginganna, til tíu þús. öryrkja og gamalmenna, barna, mæðra, sjúkra og þeirra, sem verða fyrir slysum, er ákveðið 6–7 millj. kr. lægra en framlagið til landbúnaðarins eins. Er þetta sanngjarnt? Ein meginástæðan til þess, að heilsugæzlan hefur enn eigi komið til framkvæmda, er skorturinn á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum. Hér í Reykjavík er þessi skortur sennilega tilfinnanlegastur. Mörg hundruð rúmliggjandi sjúklinga, sem ættu að vera í hælum eða í sjúkrahúsum, verða að dvelja:i heimilum við mjög mismunandi aðbúnað. Og mörg hundruð bíða auk þess nauðsynlegra læknisaðgerða, sem ekki verða gerðar nema á sjúkrahúsum. — Við Alþfl.- menn höfum lagt til, að af tekjuafgangi þessa árs verði varið mjög verulegri upphæð til sjúkrahúsabygginga og slíkra stofnana. Reykjavíkurbær hefur samþ. að reisa bæjarspítala og heilsuverndarstöð. Ekkert er byrjað á spítalanum enn. Ef till. okkar hefðu verið samþ., hefði ríkissjóður getað lagt fram af tekjuafgangi 1951 allt sitt framlag til spítalans, þannig að þegar hefði verið hægt að hefja framkvæmdir með fullum hraða, er bærinn legði sitt fram. Með því mátti slá margar flugur í einn höggi, bæta hag hinna sjúku, gera starfsemi trygginganna fullkomnari og sjá fjölda manna fyrir atvinnu. En tillaga okkar Alþfl: manna um þetta efni var felld — kolfelld.

Ég vík þá að atvinnuástandinu. Hvað hefur ríkisstj. efnt af loforðum sínum um örugga atvinnu í landinu? Hefur hún komið í veg fyrir atvinnuleysi? Hér þarf ekki mörg orð um að hafa. Staðreyndirnar blasa við, hvert sem litið er. Sjálf ríkisstj. játar, að á Siglufirði sé neyðarástand. Svipað er á Ísafirði, Ólafsfirði, Bíldudal — og svona mætti lengi telja.

Samkvæmt upplýsingum, sem atvinnumálanefnd fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík hefur látið þingmönnum bæjarins í té nú í dag, eru nú um 1200 atvinnuleysingjar hér í Reykjavík. Stærstu hóparnir eru þessir: Iðnverkafólk 400, verkamenn 350, vörubilstjórar 130, múrarar 70, prentarar 15 og málarasveinar 35. — Stjórn Iðju hefur auk þess lagt fram skýrslu um fækkun starfsfólks hjá 18 nafngreindum iðnfyrirtækjum frá því 1. júní þessa árs. Sú skýrsla sýnir, að af 481 starfsmanni, sem fyrirtækin höfðu í ársbyrjun, hafa 320 þegar verið látnir hætta störfum. Af þeim 161, sem eru eftir, hefur 91 verið sagt upp frá næstu áramótum, og verða þá aðeins 70 eftir af 481.

Iðnrekendur telja, að ein höfuðorsakanna til þess, að þeir hafi orðið að segja upp fólkinu, sé sú, að innflutningur efnivaranna, t.d. kápuefnis, sé háður leyfum, en innflutningur fullgerðs fatnaðar, t.d. á kápum, hins vegar frjáls gegn bátagjaldeyri. Efnisleyfin fást aðeins frá ákveðnum löndum, clearing-löndum, t.d. Spáni og Póllandi, en þar séu efnin bæði dýrari og verri en t.d. í Englandi og auk þess ekki samkvæmt tízkunni. Auk þess benda þeir á, að söluskatturinn sé lagður þrisvar á þeirra framleiðslu, 7.7% á innkaupsverð, 3% á heildsöluverð og 2% á smásöluverð, en aðeins tvisvar á innfluttar kápur, samtals 9.7%. Þetta er aðeins eitt dæmið af fjölmörgum, sem sýna áhrifin og afleiðingarnar af stefnu hæstv. ríkisstj.

Sjálfsagt er iðnaðinum íslenzka áfátt á ýmsa lund. En er þetta leiðin til þess að bæta úr því? Milljónatugum hefur á síðari árum verið varið til kaupa á nýtízku tækjum, og hundruð manna vinna við iðnaðarstörf. Á að láta þessi dýru tæki ónotuð, verksmiðjufólkið sitja auðum höndum og greiða erlendu verkafólki vinnulaunin?

Hvað hyggst hæstv. ríkisstj. gera til þess að afstýra voða atvinnuleysisins? Sé ekkert gert, fer það versnandi með hverri viku. Er verzlunin frjáls? Verzlunarfrelsið er að mestu innantómt orð, eins og ég skal nú sýna fram á. Engin efni fást til fatnaðar nema með leyfi. Bátagjaldeyri fær enginn nema greiða eins konar löghelgað svartamarkaðsverð, og öllum er bannað að flytja frílistavörur til landsins, nema áður sé tryggt gjaldeyrísleyfi. Það eru bankarnir, sem þar koma í stað innflutningsnefndar.

Hvað er þá um „frjálsu“ verzlunina? Hún er enn í gæsalöppum. Hún er nafnið tómt, blekking og yfirskin.

1. Enginn má flytja inn byggingarefni til þess að koma upp yfir sig húsi án gjaldeyris- og innflutningsleyfa. Sama gildir um ýmsa vefnaðarvöru, svo sem kápuefni og fataefni, og eru þá leyfisveitingarnar, sem fást, oftast bundnar við ákveðin lönd. Vörur, sem háðar eru innflutningsleyfum, eru áætlaðar um 30% af heildarinnflutningnum.

2. Enginn má flytja inn bátagjaldeyrisvörur, svo sem tilbúinn fatnað, hreinlætistæki, heimilisvélar, varahluta í bifreiðar, vélar til járn- og trésmíða o.fl., nema hann hafi í höndum bátagjaldeyri, sem kostar a.m.k. allt að 60% meira en hið skráða gengi. Þessar vörur er áætlað að nemi um 18% af innflutningnum.

3. Þá eru eftir frílistavörurnar, en þær eru áætlaðar um 52.7% heildarinnflutningsins. Það eru fyrst og fremst algengar matvörur, vörur til framleiðslunnar, svo sem kol, salt, veiðarfæri, olíur o.fl., sem allt voru forgangsvörur, áður en gengið var lækkað. Til viðbótar eru svo ýmsar tegundir vefnaðarvöru, léreft, bómullardúkar o.fl., sem mikill hörgull var á áður og innflutningur því rýmkaður mjög verulega á. Rétt er að viðurkenna það. Fyrir þessar vörur þarf ekki lengur sérstakt innflutningsleyfi. En þar með er ekki öll sagan sögð. Eftir sem áður þarf að fá gjaldeyrisleyfi. Samkv. reglugerðinni frá 12. júní 1950 er öllum bannað að flytja inn þessar vörur, nema þeir hafi áður tryggt sér gjaldeyri til greiðslu á þeim. Um gjaldeyrinn þurfa menn að leita til bankanna. Þar af leiðir, að nú þurfa menn að fara í Austurstræti til að fá leyfin í stað Skólavörðustígs áður. Og bankarnir heimta nú, að lagt sé fram sem trygging fyrir gjaldeyrisloforðum þeirra frá 30% og allt að 100% af gjaldeyrisupphæðinni. Þessa upphæð verður innflytjandinn að leggja fram eða fá að láni hjá bankanum sjálfum. Ýmsir alvarlegir erfiðleikar eru því á vegi þeirra, sem litið reiðufé hafa handa á milli og ekki eru í náð hjá bankanum, áður en þeir geta notað sér verzlunar- og innflutningsfrelsið.

En það er annað, sem gefið hefur verið frjálst. Verzlunin og innflutningurinn er enn reyrt í viðjar. Hins vegar hefur ríkisstj. veitt innflytjendum og öðrum milliliðum frelsi til þess að skammta sér álagninguna á vöruna. Verðlagseftirlitið hefur svo til alveg verið afnumið. Heildsölum og öðrum milliliðum hefur nú verið í sjálfsvald sett að ákveða, hvað þeir taka fyrir störf sín við útvegun og dreifingu varanna. Þeir mega því hækka kaupið sitt eftir vild. Þetta frelsi hafa þeir notað óspart, eins og glögglega var sýnt fram á hér í útvarpinu við umræðurnar um verðlagsmálin.

Álagningin, sérstaklega á bátagjaldeyri og vefnaðarvöru, hefur hækkað gífurlega. Athugun verðgæzlustjóra á innflutningi í ágúst sýndi, að meðalálagning heildsala á vefnaðarvöru á frílista hafði hækkað um 180% við afnám verðlagsákvæðanna, en meðalálagning smásala um 47%. Heildarálagningarhækkun á innflutningi nam í október í heildsölu 96%, en í smásölu 34%.

Milliliðir hafa hækkað álagningu sína á bátagjaldeyrisvörur um stórum meira en útvegsmenn hafa fengið í sinn hlut. Um það skal ég nefna sem dæmi, að ávextir, innfluttir til 1. okt., kosta 6 millj., á þá leggst 3.6 millj. í bátagjaldeyri, álagningarhækkunin nemur 7.2 millj., og útsöluverðið er talið um 29 millj. Af þessari gífurlegu hækkun álagningarinnar og aukningu tolla hefur það leitt, að vörurnar hafa hækkað mjög umfram það, sem gengislækkunin sjálf og bátafríðindin gáfu tilefni til. Gróðinn af gengislækkuninni og bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu hefur að miklu leyti runnið til milliliða, heildsala. Vísitalan hefur stórhækkað, kaupið mjakazt upp á eftir og kostnaður útgerðarinnar aukizt. Af gróðanum á bátagjaldeyrinum hafa milliliðirnir fengið 2 krónur á móti hverri einni, sem útvegsmenn fengu. Dýr hjálp við útgerðina það!

Ef verkalýðurinn fær nokkra hækkun á kaupi sínu í krónutölu, setur hæstv. ríkisstj. allar sínar áróðursvélar í gang. Þá hriktir í máttarstoðum þjóðfélagsins. Þá er öllu stefnt í voða að hennar dómi, — ekki aðeins þjóðarvoði, heldur sérstakur háski á ferðum fyrir launastéttirnar sjálfar, sem kauphækkunina fá. Hækkað kaup þýðir aukna kaupgetu, af henni leiðir vöruþurrð og hækkað verðlag, sem bitnar harðast á launastéttunum sjálfum, segir hæstv. ríkisstj. En sama stjórn leyfir heildsölum og öðrum milliliðum að hækka tekjur sínar skefjalaust og leggur blessun sína yfir það athæfi. Stafar þá þjóðfélaginu enginn háski af hinni auknu kaupgetu þeirra og þeirri hækkun dýrtíðar, sem aukin álagning þeirra veldur? Og hvað um þær auknu tekjur, sem bændur fá vegna framlaga úr ríkissjóði, nærfellt 40 millj. á ári, auk uppbóta á afurðaverðið? Stafar þjóðinni engin hætta af þeirri tekjuaukningu, þeirri kauphækkun? Er hún annars eðlis, hefur hún önnur áhrif en kauphækkanir launastéttanna.

Ýmsir undrast, að Framsfl. skuli hafa fallizt á kröfur íhaldsflokksins um að leyfa ótakmarkaða milliliðaálagningu. Aðrir spyrja, hvað valdi því, að Sjálfstfl., sem á sitt aðalfylgi í kaupstöðum landsins, hefur fallizt á stöðuga hækkun á framlögum til landbúnaðarins og á afurðum hans, meðan iðnaðurinn fær ekkert og tekjur bæjarbúa minnka.

Skýringin er sú, að hér er um hrossakaup að ræða. Sjálfstfl. fellst á að halda áfram uppbótagreiðslunum og auka framlög til landbúnaðarins gegn því, að verzlunarálagning og milliliðagróði verði leyfð án takmarkana. Báðir flokkar eru sammála um nauðsyn þess að takmarka kaupgetu alls almennings, launastéttanna, en leyfa hinum að auka tekjur sínar.

Gengislækkunin átti að bjarga útflutningsatvinnuvegunum. Hún dugði ekki. Bátagjaldeyririnn var þá upp tekinn, dugði ekki heldur. Því skal ekki neitað, að ástand í efnahags- og atvinnumálum getur verið svo illt, að gengislækkun sé óhjákvæmileg. Svo var að vísu ekki 1950, en skeð er skeð. En tvennt er nauðsynlegt, til þess að gengislækkunin geti komið að nokkru gagni og verði ekki beinn þjóðarvoði: Fyrst, að ráðstafanir séu samtímis gerðar til þess að festa hið nýja gengi og koma í veg fyrir, að lækkunin leiði fljótlega til nýrrar áframhaldandi gengislækkunar. Hið síðara, ráðstafanir gegn því, að gróðalöngun einstakra manna og stétta yrði til þess að auka misskiptingu teknanna með því að gefa gróðastéttunum tækifæri til að auka sinn hlut á kostnað almennings.

Hvaða ráðstafanir hefur hæstv. ríkisstj. gert í þessu skyni? Engar. Hún hefur þvert á móti gefið gróðastéttum landsins frjálsar hendur, húsaleigulögin hafa verið afnumin, til þess að þeir, sem eiga hús til að leigja öðrum, geti aukið tekjur sínar takmarkalaust, og verðlagseftirlitið er afnumið, til þess að milliliðirnir geti aukið sínar tekjur.

Afleiðingin er auðsæ og þegar komin í ljós. Dýrtíðin eykst stöðugt hröðum skrefum, húsaleigan og vöruverðið. Framfærsluvísitalan er komin upp í 151 stig og hækkar með hverjum mánuði. Kaupgjaldið mjakast á eftir og er nú miðað við 144 stig og verður svo næsta mánuð. Ávinningurinn, sem útgerðarmenn áttu að fá af gengislækkuninni, er þegar étinn upp. Bátagjaldeyrisfríðindin líka. Svo þarf nýja gengislækkun aftur til þess að jafna metin. Og þá byrjar sennilega sami leikurinn aftur. Þeir, sem áttu fasteignir og skulduðu, hafa allir grætt á gengislækkuninni. Fasteignir hafa hækkað í verði og skuldirnar lækkað. Sparifjáreigendur og launafólk hefur tapað sem gróða hinna nemur. Spariféð hefur rýrnað og kaupmáttur launanna minnkað.

Ég hef sýnt fram á, að þeir, sem átti að bjarga, útvegsmenn, eru sízt betur settir en fyrir gengislækkunina, og launastéttirnar eru stórum verr settar; kaupgeta þeirra hefur verið skorin niður með launalækkunum og atvinnuleysi. Verðmæti sparifjár þeirra, sem lagt hafa til hliðar til elliáranna og séð bönkum landsins og þar með atvinnuvegunum fyrir starfsfé, hefur verið skert um a.m.k. þriðjung á síðustu 20 mánuðum. Hverjar 3 krónur í sparisjóði nú eru minna virði en 2 krónur voru fyrir gengislækkun.

Hæstv. ríkisstj. er flokksstjórn, þ.e., hún hefur miðað starf sitt og stefnu við hagsmuni ákveðinna stétta. Slíkt er ekki hægt að afsaka, enn síður að réttlæta. Hlutverk hverrar ríkisstj. á að vera að tryggja landsmönnum öllum í heild sem bezt lífskjör, öryggi og atvinnu. Og það er bein skylda hverrar ríkisstj. að gæta þess fyrst af öllu að draga ekki fram hlut ákveðinna stétta eða einstaklinga á kostnað annarra.

Hæstv. ríkisstj. hefur brugðizt þeirri sjálfsögðu skyldu. Hún hefur metið meira hagsmuni stuðningsflokka sinna og þeirra manna, sem þar ráða mestu, en hag almennings. — Þess vegna er fjárlagafrv. úr garði gert eins og ég hef lýst. Þess vegna er milliliðum og gróðastéttum leyfð frjáls álagning, og þess vegna hefur lífskjörum almennings hrakað og atvinnuleysið magnazt á valdatíma hæstv. stjórnar. Hæstv. ríkisstj. veit þetta og finnur. Hún veit, hvaða dóm þjóðin hefur lagt á verk hennar, stefnu hennar og framkvæmdir. Þess vegna er nú upp risin misklið á stjórnarheimilinu, óværð komin í hægindin. Hvor kennir öðrum um, og snurður hlaupa á þráðinn, eins og glöggt kom fram í umræðunum í gærkvöld.

Þegar jatan er tóm, bítast klárarnir.