22.10.1951
Efri deild: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

5. mál, innheimta skemtanaskatt með viðauka

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Stjfrv. þetta á þskj. 5 var til athugunar í fjhn., svo sem vera bar. Enginn ágreiningur varð í n., og mælir n. samhljóða með því, að frv. verði samþ. Ekkert kemur fram, sem bendir í þá átt, að ástæða sé til þess að innheimta ekki eins háan skemmtanaskatt og innheimtur hefur verið undanfarið af skemmtanahaldi í landinu, þar sem þörf þeirra aðila, sem eiga að njóta fjárins, virðist vera viðvarandi, en þeir eru: þjóðleikhúsið, félagsheimilasjóður, lestrarfélög og kaup kennslukvikmynda. Hins vegar taldi fjhn. rétt í þessu sambandi að vekja athygli á því, að það virðist vera eins og að skrifa á svell, sem þiðnar árlega, að endurtaka svona lagasetningu ár eftir ár, eins og gert hefur verið. Nefndin hefur því í áliti sínu viljað beina því til hæstv. ríkisstj. að taka til athugunar framvegis, hvort ekki sé rétt um löggjöf eins og þessa, sem reynslan er búin að sýna, að er viðvarandi þörf fyrir, að breyta stofnlögunum, því að það virðist vera lítil verkhyggindi, að hið háa Alþingi eyði tíma og fjármunum árlega í að setja slíka löggjöf. Einnig virðist alls ekki til þæginda fyrir þá, sem eiga að vinna samkv. þessari löggjöf, að hún sé ekki í einu lagi, heldur þurfi að leita ákvæða hennar á fleiri stöðum. Þetta vil ég leggja áherzlu á fyrir hönd n. Hins vegar taldi n. ekki rétt að tefja þetta frv. með því að gera það að till. sinni, að reglan væri strax upp tekin, því að hagkvæmt mundi vera, ef aukalögin væru felld inn í stofnlögin, að endurskoða þá stofnlögin í heild um leið, og það mundi taka tíma. En undirstrika vil ég það, að þetta ætti að vera til athugunar framvegis.

Að svo mæltu tel ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð að þessu sinni. Málið liggur svo ljóst fyrir.