12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Hinn 1. nóv. s.l. stóð yfir þvera forsíðu Morgunblaðsins gleiðletruð fyrirsögn, svo hljóðandi: „Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað stefnuna til viðreisnar atvinnulífinu.“ Neðan undir þessari glæsilegu uppgötvun var stór mynd af formanni flokksins í ræðustól á nýafstöðnum landsfundi flokksins og til hliðar við myndina þessi setning: „Sjálfstæðismenn eiga að geta náð meiri hluta á Alþingi.“

Þessar tvær setningar voru aðalinntak þeirrar ræðu, er formaður flokksins hafði haldið við setningu fundarins, og þann boðskap munu hinir 500 fundargestir hafa átt að flytja með sér út um byggðir landsins, að Sjálfstfl. hefur markað þá stefnu í atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar, sem hver einasti einstaklingur finnur á sínum eigin efnahag. Og hví skyldi þjóðin verða svo vanþakklát að launa ekki það afrek með því að veita flokknum meirihlutavald á Alþingi við næstu kosningar?

En til eru fleiri, sem þykjast eiga nokkurn hluta heiðursins skilið, jafnvel helming eða meira.

Réttum þremur vikum fyrr en þetta skeði birti Tíminn nýflutta ræðu fjmrh., Eysteins Jónssonar. Ráðherrann byrjar á því að minna á ummæli hæstvirts forsætisráðherra, þegar stjórnin tók við völdum, þar sem svo er komizt að orði:

Ríkisstj. er fyrst og fremst mynduð til að koma á, eftir því sem unnt er, jafnvægi í viðskipta-, atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar.“

Nú hefur Framsfl. stjórnarforustuna og fjármálaráðherrann að auki. Þykir mér því líklegt, að þið framsóknarmenn, sem orð mín heyrið, huggið ykkur við það, að Ólafur Thors hafi logið a.m.k. um helming og Framsókn eigi sinn bróðurlega hluta þess heiðurs, er viðreisnarstarfið mun hljóta.

Í þessu fjárlagafrv. birtist einn þáttur þessa viðreisnarstarfs. Eins og það lítur út núna, eru heildartekjur áætlaðar 362.6 millj., en heildarútgjöld 369.9 millj. Mismunur er núna rúmar 7 millj. Auk þess eru líkur til, að vegna óhjákvæmilegrar hækkunar á ýmsum liðum, svo sem til sjúkrahúsa, raforkumála o. fl., sem óútkljáð er, en kemur væntanlega við 3. umr., þá muni hin endanlega heildarupphæð útgjalda nema allt að 380 millj. Það er 80 millj. hærri upphæð en þessa árs fjárlög, og má óneitanlega telja nokkurt stökk á einu ári.

Væri þessi hækkun vegna aukinna framlaga til verklegra framkvæmda, útrýmingar heilsuspillandi íbúðum o.fl. því um líks, þá væri ekkert við þessu að segja. En staðreyndin er hið gagnstæða. Þessi framlög fara hlutfallslega lækkandi eftir því, sem fjárlögin hækka. Hækkunin fer til að greiða aukinn kostnað við rekstur ríkisins allan og stafar að mestu af vaxandi verðbólgu tilbúinni af ríkisstj. sjálfri.

Samkv. núverandi áætlun frv. eru 270.8 millj. fengnar með tollum og sköttum. Þar af eru um 228 millj. óbeinir skattar, sem í einhverri mynd leggjast á vöruverð og sumir oft. Sem dæmi skal ég nefna, að verðtollurinn einn er áætlaður 93 millj., nemur á hvern einstakling 650 kr., eða 3250 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu. Söluskattur einn nemur 540 kr. á einstakling, eða 2700 kr. á 5 manna fjölskyldu. Samtals nema óbeinu skattarnir, sem allir leggjast á vöruverð eftir ýmsum leiðum, 8600 kr. á fimm manna fjölskyldu. Ofan á þetta bætist verzlunarálagning. Samtals hafa þessir tollar hækkað um meira en helming síðan 1947, og ber það viðreisninni vitni á sinn sérstæða hátt.

Þessi hækkun hefur verið framkvæmd á hinn furðulegasta hátt, sem ég skal nú sýna einn þátt í. Öll þjóðin kannast við lögin um fiskábyrgð, er samþykkt voru 1946 og giltu næstu þrjú árin. Samkv. þeim skyldi ríkið ábyrgjast lágmarksverð útflutningsvaranna. Þessi löggjöf, sem fyrst og fremst var trygging þess, að framleiðslan gekk af fullum krafti, var þvílíkur þyrnir í augum núverandi stjórnarflokka, að þeir létu ekkert tækifæri ónotað til þess að svívirða hana. Var henni helzt fundið það til foráttu, að hún byndi ríkissjóði óhæfilegar byrðar. Nú liggja fyrir ríkisreikningar frá þessum árum, og sýna þeir, að samtals námu greiðslur ríkissjóðs til útflutningsuppbóta þessi þrjú ár, 1947–49, rúmum 50 millj. kr. Árið 1949 var ríkinu tryggður sérstakur tekjustofn til að mæta þessum útgjöldum. Þessi tekjustofn var söluskatturinn og var áætlaður það ár 36 millj. kr.

Í kosningabaráttunni haustið 1949 var það aðalbaráttumál beggja stjórnarflokkanna að létta þessum álögum af ríkissjóði. Ráðið var fyrir fram fundið. Það var gengislækkunin, sem lögfest var í febrúarbyrjun 1950. Meiri hluti þjóðarinnar gaf þeim umboð til þeirrar ráðstöfunar á kjördegi, og það var notað.

En var svo þessum álögum létt af ríkissjóði og skattþegnunum? Hvað segir reynslan um það? Árið 1950 var söluskatturinn hækkaður um 11 millj. á áætlun fjárlaga, upp í 47 millj. Þetta þurfti að gerast þrátt fyrir það, að gengislækkunin var búin að létta fiskábyrgðargreiðslunum af ríkissjóði og leggja þá upphæð og auðvitað miklu hærri ofan á allt vöruverð í landinu.

Ég þarf ekki að lýsa áhrifum gengislækkunarinnar á verðlagið, þau þekkja allir. En samkvæmt kenningum þeirra fræðimanna, er hana ráðlögðu, og þeirra stjórnenda, er kenningunum trúðu, átti hún að verða frambúðarlausn, er dygði til viðreisnar atvinnulífinu um ófyrirsjáanlega framtíð. Hver varð svo reynslan í því efni? Tíu mánuðum síðar, þ.e. um síðustu áramót, var aftur þrot fyrir dyrum. Þá var hugrekki ríkisstj. gagnvart Alþingi einnig þrotið, svo að nú þorði hún ekki að láta það fá vandamál atvinnulífsins til meðferðar. Í þess stað betlaði hún nýtt gjafafé, bjó til bátagjaldeyriskerfið með einfaldri reglugerð og breytti til um innflutningsverzlunina á grundvelli þessara nýju gjafa. Árangur þessa segir enn til sín í vöruverðinu, sem eðlilegt er.

En hefur þá verið fallið frá innheimtunni á söluskattinum? Ekki er það. Jafnframt því sem þetta kerfi var upp tekið, og greiðslur þær, sem honum var upphaflega ætlað að mæta, lagðar í annað sinn á almenning með enn aukinni dýrtíð, þá töldu þeir sig þurfa að hækka þennan skatt. Á þessa árs fjárl. er hann áætlaður 55 millj., en mun áreiðanlega reynast 90–100 millj. Um síðustu mánaðamót var hann orðinn yfir 78 millj., þ.e., hann verður nú á árinu allt að því helmingi hærri en fiskábyrgðargreiðslurnar námu samtals í þrjú ár. Og á næstu fjárl. er hann áætlaður 77 millj., eða þriðjungi hærri en fiskábyrgðargreiðslurnar sömu ár og allt að 5 sinnum hærri en meðaltal þeirra.

Þetta má kalla viðreisn í lagi, að lækka gengið þannig, að allur erlendur gjaldeyrir hækkar um 75%, og hækka innflutningsverð allra vara að sama skapi, leggja síðan 10 mánuðum síðar á nýja verðhækkun með bátagjaldeyrinum og hækka jafnframt tolla og neyzluskatta um þúsundir króna á hverja einustu fjölskyldu í landinu.

Sem dæmi um það, hve útgerðin fær mikinn hluta þess okurs, sem á vörurnar leggst samkvæmt þessari frægu reglugerð, sem stjórnin ungaði út dagana eftir að þingið var sent heim í fyrravetur, hefur verið upplýst, að verðmyndun ákveðins hluta af þessum vörum varð þannig til:

Innkaupsverð ............. …….1958000

Bátagjaldeyrir ............………..738000

Verzlunarálagning ................2413000

Tollar, fragt og söluskattur….2391000

7500000

Hvað má lesa úr þessum tölum?

Vörumagn, sem kostar innan við 2 millj. í innkaupi, er selt til neytenda á 71/2 millj., þ.e., hækkunin verður meira en 51/2 millj. Af þeirri upphæð fékk bátaútvegurinn 700 þús.

Hefur þessi tollheimta verið nauðsynleg vegna afkomu ríkissjóðs, t.d. á þessu ári? Reynslan segir nei.

Tekjur og gjöld fjárl. þessa árs voru áætluð innan við 300 millj. Stjórnarmeirihlutinn í fjvn. áætlar í sínu nál., að tekjurnar muni verða 450 millj., þ.e. 150 millj. fram úr áætlun. Fjmrh. telur þetta of hátt, nefnir 105 millj. umframtekjur, og ég skal gjarnan halda mér við þá tölu. Gjöld munu fara eitthvað fram úr áætlun. Nú er viðurkennt, að söluskatturinn er 1112 stig af hinu almenna verðlagi og 5–6 stig af vísitölunni. Hver einasti liður af þeim 300 millj., sem útgjöld fjárl. eru áætluð, að utanríkisþjónustunni undanskilinni, er háður hinu almenna verðlagi. Afnám söluskattsins og lækkun verðlagsins um 11–12% hefði því sparað ríkissjóði nokkra milljónatugi. Það mundi verða staðreynd, að þótt söluskatturinn hefði ekki verið innheimtur, þá hefði ríkissjóður komið út greiðsluhallalaus, líklega með nokkurn tekjuafgang, því að líkur eru til, að áætlun fjmrh. sé of lág.

Þessar ráðstafanir allar eru svo meistaraleg uppfinning til að skapa verðbólgu, að það er sízt að undra, þótt íslenzk stjórnarvöld hafi heimsmet í þeirri grein.

Tvö eru þau hugtök, sem undanfarin ár hafa skipað virðulegust sæti í öllum pólitískum áróðri stjórnarflokkanna beggja, þó einkum Framsóknar. Það eru hugtökin verðbólga og ofþensla. Ég hef nú sýnt fram á, hvernig þeir haga baráttunni gegn verðbólgunni, enda virðast þeir nú komnir á það stig að vilja bannfæra það orð úr íslenzku máli. En baráttan við „ofþensluna“ heldur áfram, og það er þörf að skilgreina hana. Og allra fyrst verður þó að gera sér ljóst, hvað það er, sem þessir herrar kalla ofþenslu.

Í febrúarbyrjun árið 1947, um sama leyti og samstjórn borgaraflokkanna þriggja tók við völdum, sigldi fyrsti nýsköpunartogarinn, Ingólfur Arnarson, inn á Reykjavíkurhöfn. Honum var tekið með miklum fögnuði sem boðbera enn þá nýs uppgangstímabils í efnahagslífi þjóðarinnar. Svo mikill var fögnuður og áhugi þjóðarinnar almennt, að jafnvel Framsókn þorði ekki annað en að dylja sína margyfirlýstu andúð á þessum ráðstöfunum og ganga inn á það að kaupa 10 nýja togara í viðbót við hina 30. Siðan þetta skeði hafa því 40 nýir togarar bætzt í veiðiskipaflotann íslenzka. Áður var vélbátaflotinn meira en tvöfaldaður.

Til þess að nýta framleiðslu þessara veiðiskipa hafa verið byggð fjölmörg hraðfrystihús, margar fiskimjölsverksmiðjur og fjöldi fiskþurrkunarhúsa víðs vegar um landið. Tala þessara fyrirtækja mun nú nema 60–70. Á þessum árum, síðan þjóðin varð bjargálna í styrjöldinni, hafa einnig verið byggð upp fjölmörg önnur iðnaðarfyrirtæki, svo sem í járniðnaði, trésmíði, skipaviðgerðum og margs konar öðrum verksmiðjuíðnaði. Í landbúnaðinum hefur einnig orðið stórkostleg breyting og hefði þó getað orðið meiri, ef Framsfl., sem ræður flestum málefnum bændastéttarinnar, hefði ekki fjandskapazt við nýsköpunarstefnuna frá upphafi. Þá var kjörorð Framsóknar að bíða þangað til heimurinn kæmist í gamla lagið. Svo langt gekk það, að Samband íslenzkra samvinnufélaga notaði ekki nærri því það fjármagn og þau gjaldeyrisleyfi, sem það fékk til innkaupa á vélum fyrir landbúnaðinn. Samt hefur hann fengið mikið af stórvirkum ræktunarvélum, svo að nú eru möguleikar til meiri afkasta á einu ári en áður á 10 árum. Hversu mikla möguleika þetta allt hefur skapað til aukinnar framleiðslu og aukinna þjóðartekna, eyði ég ekki mörgum orðum að. Það mun verða gert af öðrum fulltrúa Sósfl. í þessum umræðum síðar. En ég ætla að draga fram nokkrar staðreyndir um ríkjandi ástand.

Það er einmitt þessi uppbygging atvinnulífsins, sem átt er við, þegar stjórnarflokkarnir hafa talað um ofþenslu. Og það er afraksturinn, þjóðartekjurnar af rekstri og nýtingu þessara atvinnutækja, sem átt er við, þegar talað er um of mikla kaupgetu. Og það er beinlínis spursmálið um framleiðsluna sjálfa, grundvöll þjóðarafkomunnar, sem um er að ræða, þegar rætt er um of mikið fé í umferð í landinu, fé, sem þurfi að draga inn, taka úr umferð til þess að draga úr ofþenslunni. En þetta hafa einmitt verið kjörorð allra þeirra ríkisstjórna, sem setið hafa að völdum siðan 1947, og ráðin hafa verið bæði mörg og margvísleg. Hið fyrsta voru nýju Alþýðuflokkstollarnir í maímánuði 1947, 30–40 milljónir. Annað var vísitölubindingin í ársbyrjun 1948, rúmlega 8% kauplækkun, sem nú átti öllu að bjarga. Þó varð björgunin ekki meiri en svo, að um næstu áramót á eftir þurfti nýja aukaskatta, er námu allt að 50 millj. Var þá dýrtíðarsjóðurinn búinn til og til hans lagðar 64 milljónir. Einn þessara skatta var söluskatturinn. Næsta sporið var gengislækkunin og siðan bátagjaldeyririnn, sem ég hef áður lýst. Með þessu hefur því marki verið náð að lækka kaupgjaldið og kaupgetuna.

Miðað við sömu vísitölu og gilti 1947 hefur hið almenna kaupgjald lækkað svo, að nú vantar Dagsbrúnarverkamann 8000 kr. á ári, miðað við fullan vinnutíma og vinnudagafjölda, til þess að hafa sömu laun og þá. Þessu neitar enginn, og gagnvart þessari staðreynd treysta stjórnarherrarnir sér ekki lengur til að halda því fram, að kaupgjaldið sé orsök ástandsins og dýrtíðarinnar. Til afsökunar hafa þeir því gripið fegins hendi það hálmstrá, að ýmsar verðhækkanir hafi orðið erlendis.

En baráttan við það, sem þeir kalla ofþenslu, heldur áfram. En það er barátta á móti heilbrigðu og öruggu atvinnulífi í landinu. Hún hefur verið háð með því að draga inn fjármagnið, sem í umferð var, í stað þess að auka það eins og þurfti. Þegar 40 nýir togarar koma inn í atvinnulífið á fáum árum, þá kalla þeir á marga tugi, jafnvel hundruð milljóna kr. í rekstrarfé. Þegar fjöldi nýrra hraðfrystihúsa og fiskimjölsverksmiðja er tekinn í notkun, þá kalla þau fyrirtæki enn á marga milljónatugi í rekstrarfé. Og þegar í notkun fara tugir skurðgrafna, hundruð stórra beltisdráttarvéla og fjöldi smærri heimilisdráttarvéla, ásamt öðrum erlendum innflutningi, sem þarf til aukinna ræktunarframkvæmda og landbúnaðarframleiðslu, þá kallar það allt einnig á milljónatugi í rekstrarfé.

Þannig mætti halda lengi áfram að telja, svo sem önnur iðnfyrirtæki, járniðnaðarfyrirtæki, dráttarbrautir, smærri verksmiðjur o.s.frv. Hið lausa fjármagn, sem í umferð er, er blóðið í þessum efnahags- og framleiðslulíkama þjóðarinnar, og ef það vantar, verður hann óstarfhæfur, þótt framleiðslutækin séu nægilega mikil, fyrsta flokks að gæðum og vinnuaflið yfirdrifið að magni. En allar þær ríkisstjórnir, sem ráðið hafa hér síðan 1947, hafa unnið markvisst að því að dæla blóðinu út úr þessum efnahagslíkama, svo að hvert líffærið af öðru er að verða óstarfhæft.

Með seðlaskiptunum, sem allir muna, var fyrst gerð tilraun til að lækka seðlamagnið í umferð um þriðjung. Það tókst að vísu ekki til lengdar, en svo kom gengislækkunin og minnkaði verðgildi hverrar krónu um 75%. Auk þess hafa aðrar verðhækkanir bætzt við. Slík ráðstöfun hlýtur að kalla á fleiri krónur í rekstur atvinnulífsins, og þarf enga hagfræðinga til að skilja það. Ef verðgildið er lækkað um helming, þarf togari, sem áður þurfti 1–2 millj., nú 2–4. Verzlunarfyrirtæki, sem áður þurfti 3 millj., þarf 5–6. Iðnaðarfyrirtæki, sem áður þurfti 4 millj., þarf 7–8, og ræktunarsamband lítillar sveitar, sem áður nægði 100 þús. kr. til framkvæmdar ákveðins verkefnis fyrir sína fáu meðlimi, þarf nú 200 þús. En í stað þess að láta sér skiljast þessi einföldu sannindi hefur miskunnarlaust verið haldið þeirri stefnu að ná fjármagninu úr umferð undir því yfirskini, að verið sé að minnka ofþensluna.

Fyrir tæpu ári síðan sagði hæstv. fjmrh. hér á Alþingi, að okkar mesta mein væri það, að of miklir peningar væru í umferð hjá þjóðinni. Og nú alveg nýlega viðurkenndi hæstv. viðskmrh. í þingræðu, að hann hefði skipað bönkunum að hafa hemil á útlánastarfseminni. Það hefur einnig verið upplýst hér, að seðlaveltan í umferð er nálega sú sama og var fyrir gengislækkunina og heildarútlán bankanna stórum minni, miðað við peningagildið. Þetta er stefnan gagnvart atvinnulífinu á sama tíma og ríkisstj. telur sig þurfa 80 millj. hærri upphæð til ríkisrekstrarins á næsta ári en þessu.

Þá kem ég að hinni frægu Marshallaðstoð, sem sannanlega hefur hjálpað til að gera allan almenning í landinu fátækari, þótt það kunni að hljóma einkennilega í eyrum þess fólks, sem lært hefur að trúa því, að utanríkisstefna Bandaríkjanna sé góðgerðastarfsemin ein. Því fólki mun þykja sem nú sé ég þó að villast inn á Moskvulínuna. En þetta er bara staðreynd, sem þjóðin er nú að byrja að skilja.

Í Marshallsamningnum stendur það ákvæði, að jafnvirði þeirra dollaragjafa, sem við fáum, skuli leggjast inn í Landsbanka Íslands í íslenzkum krónum í sérstakan sjóð. Mótvirðissjóður hefur hann verið nefndur og má ekki ráðstafa nema með leyfi amerískra stjórnarvalda. Þetta fé nemur orðið hundruðum millj. kr. og hefur orðið að takast út úr efnahagslífinu af því fé, er þjóðin hafði í sínum eigin rekstri. Einstaklingarnir hafa orðið að greiða þetta fé af þeim eignum, er þeir áttu fyrir, en ríkið eignast að vísu mótvirðissjóðinn í staðinn.

Og hvað er svo um þann stóra hluta Marshallfjárins, sem notaður hefur verið beint fyrir neyzluvörur? Þegar verzlunin var gefin frjáls sem kallað er, þótt öfugmæli sé, var því lýst yfir, að til þess fengjum við stóraukið gjafafé, a.m.k. á annað hundrað millj. kr., og auk þess fékk stjórnin lánsheimild, 60–70 millj. Þetta fé hefur verið notað til að fylla landið varningi, að ýmsu leyti þörfum, en að mörgu leyti óþörfum.

Það, sem almenningur kaupir af þessum vörum og ekki hleðst upp í búðunum vegna kaupgetuleysis, verður kaupandinn að greiða með innlendu fé. Það verður að takast af eign einstaklingsins, ef hún einhver er. Þannig eru enn dregnir tugir eða hundruð millj. kr. úr umferð af því fjármagni, sem var í veltunni í þjóðarbúskapnum.

Nú skulum við hugsa okkur hina leiðina, að framleiðslutæki þjóðarinnar hefðu verið rekin af viti og framleitt útflutningsvörur fyrir þennan erlenda gjaldeyri. Þá hefði fjármagnið fengið að halda sína eðlilegu hringrás: úr auðlindum náttúrunnar sem hráefni, er nýtt væri til fulls í eigin iðjuverum, og jafnframt því að skapa þannig gjaldeyristekjur hefði það skapað atvinnutekjur hjá þjóðinni og einstaklingum hennar, atvinnutekjur, sem einstaklingar nota til að greiða nauðsynjar sínar með, og hringrásin síðan haldið áfram milli atvinnulífsins og einstaklinganna. Það er munurinn á því, að þjóðin vinni fyrir verðmæti nauðsynja sinna eða fáí þær að gjöf. Það er hvorki meira né minna en spurningin um efnahagsafkomu hvers einstaklings. Sú þjóð, sem fer að lifa á gjafafé, gerir tvennt í senn. Hún malar niður eigið atvinnulíf og gerir einstaklingana að öreigum, vegna þess að þá fær blóðrás efnahagslíkamans — hringrás fjármagnsins — ekki að renna óhindruð. En ekki skulum við gleyma því, að þetta eru viðreisnarráðstafanir framsóknarstjórnarinnar, unnar eftir stefnu, sem Sjálfstfl. hefur markað til viðreisuar atvinnulífsins.

Þá er rétt að glugga í það, hvernig viðreisnin birtist í atvinnulífinu eða einstökum þáttum þess. Vegna tímans verða fá dæmi að nægja.

Undarfarna mánuði hafa íslenzkir togarar mokað upp fiski, ýmist á Íslands- eða Grænlandsmiðum. Þrátt fyrir næg iðjufyrirtæki til að tvöfalda verðmæti aflans hér heima hafa þeir siglt með hann ísaðan til Englands eða á saltfisksmarkað í Danmörku. Danir hafa síðan tekið hann til pökkunar og selt á sömu markaði og okkur standa til boða, en hirt álitlegar gjaldeyristekjur fyrir verðmætisaukninguna. Á meðan standa íslenzku hraðfrystihúsin, fiskimjölsverksmiðjurnar og fiskþurrkunarhúsin auð og ónotuð.

Til að sýna gjaldeyristapið af þessu ráðlagi skal ég nefna dæmi: Einn 300 tonna togarafarmur af karfa, sem seldur er á ísfisksmarkaði í Bretlandi fyrir 9000 pund, gefur 325 þús. kr. nettó í gjaldeyri. Sé þessi sami farmur fullunninn hér í verksmiðjum, sem til eru, fást úr honum gjaldeyrisverðmæti, þ.e. fiskur, mjöl og lýsi, fyrir 668 þús. kr. samtals. Það eru meira en tvöfaldar gjaldeyristekjur. Þar við bætist svo það, að sá dýrmæti tími, sem fer í siglingar út, gæti farið til veiða og aflinn því orðið meiri.

Í öðrum greinum sumum, t.d. saltfisksverkuninni, er gjaldeyris- og verðmætisaukningin miklu meiri.

Hvað er það svo, sem veldur því, að þetta er gert? Það er margyfirlýst af atvinnurekendum sjálfum, að það sé skortur á lánsfé, skortur á rekstrarfé.

Svo langt er komið með að draga úr ofþenslunni, að það hittir lífæð þjóðarinnar, gjaldeyrisöflunina sjálfa. Eigendur togarans „Akureyjar“ auglýstu hann nýlega til sölu, segjast ekki geta rekið hann vegna fjárskorts, þótt þeir geti sannað, að hrein eign þeirra í fyrirtækinu sé ekki minni en 3–4 millj. kr. Jafnframt þessu þyrpast heimilisfeðurnir úr smærri kaupstöðum og þorpum úti um land hingað til Reykjavíkur og suður á Keflavíkurflugvöll í von um atvinnu við stríðsundirbúning.

Þá skal bent á ástandið í iðnaðinum íslenzka. Nýlega hefur verið birt skýrsla frá Iðju, félagi verksmiðjufólks. Þar eru getnar þær upplýsingar, að í 18 verksmiðjufyrirtækjum í Reykjavík, sem höfðu 481 mann í vinnu í byrjun þessa árs, muni 70 manns verða starfandi í lok ársins, og helmingur þessara fyrirtækja hættir þá störfum með öllu. Öll þessi fyrirtæki framleiða nauðsynjavörur, að meiri hluta úr innlendum hráefnum.

Nú er á einu ári hætt að nota vinnuafl 411 manns í þessari einu starfsgrein, hætt að nota þær vélar og annað kapítal, sem í þessu stendur. Í þess stað er tekið erlent lán eða betlað fé, er áreiðanlega nemur mörgum tugum millj., til að kaupa þessar vörur inn í landið. Þessi ráðsmennska er líkust því, að landinu sé stjórnað af vitfirringum.

Hver er svo reynsla bændastéttarinnar? Verðhækkun á öllum rekstrarvörum, svo gífurleg, að hún gleypir miklu meira en þá verðhækkun, sem orðið hefur á framleiðslunni. Stöðnun þeirrar vélyrkjuþróunar, er hafin var, vegna þess að þeim bændum fer óðum fækkandi, sem nú sjá möguleika á að eignast þær vélar og verkfæri, sem þeir hafa hingað til talið sig geta eignazt, því að nú hafa þær þrefaldazt í verði.

Verulegur hluti þeirra 100–120 millj., sem ríkið innheimtir í ár umfram þarfir, stendur nú sem skuldaupphæðir í reikningum bændanna við kaupfélögin. En gleymið því ekki, bændur, að þetta er jafnvægið, sem ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar hét að skapa og skapað var eftir þeirri linn, sem Ólafur Thors kveður Sjálfstfl. hafa markað.

Og afleiðingar þessa alls eru enn fremur þær, að fjöldi fólks, sem hafði áður en viðreisnin hófst og áður en byrjað var að skapa jafnvægið komizt yfir íbúð eða orðið bjargálna með því að vinna baki brotnu nótt og nýtan dag, meðan nóg var atvinna, er nú að verða öreigar aftur. Og allt gerist þetta því hraðar sem við fáum meiri gjafir, meiri aðstoð, meiri efnahagshjálp.

Það lítur út fyrir, að stjórnendur þessara mála, og á ég þar við borgaraflokkana alla, hafi frá öndverðu gert sér það ljóst, að þeir mundu verða lítt vinsælir af árangri þessarar stjórnarstefnu. Þess vegna hafa þeir öll þessi ár lagt megináherzlu á að æra fólk út af heimspólitíkinni. Inntak alls þessa áróðurs hefur í stuttu máli verið þetta:

Ofbeldisstefna Rússanna er að flæða yfir heiminn og ógnar Íslandi með árás á það varnarlaust. Bandaríkin og lýðræðisþjóðir Vestur Evrópu eru skjól og skjöldur frelsisins og útverðir menningarinnar í heiminum. Ísland verður að skipa sér í þessa fylkingu og leggja fram sinn skerf til verndar þeim mannlegu verðmætum, sem hinn vestræni heimur berst fyrir. Á íslandi starfar sérstakur stjórnmálaflokkur, sem einskis óskar fremur en að sér megi takast að selja landið í hendur Rússanna og gera íslenzku þjóðina að þrælum.

Þessi áróður hefur óneitanlega borið árangur. Hann hefur í fyrsta lagi borið þann árangur að sljóvga dómgreind þjóðarinnar og eftirtekt á því, sem gerzt hefur í hennar eigin málum, bæði innanlands- og utanríkismálum. Og það er eingöngu vegna þessa sljóleika, að þessum mönnum tekst að halda völdum enn. En hann hefur þó borið jafnvel ægilegri árangur á öðru sviði. Honum hefur tekizt að rugla svo siðferðisvitund fjölda fólks, að tugir íslenzkra æskumanna hafa beinlínis óskað eftir því að fá að takast á hendur ferð austur á austurströnd Asíu í þeim tilgangi einum að drepa fólk. Hvert stefnir með framtíð íslenzkrar æsku og íslenzkrar þjóðar, ef slíkur hugsunarháttur nær tökum á æskulýðnum sem heild? Vopnlaus háði íslenzka þjóðin sína frelsisbaráttu og vann sigur á grundvelli eigin þjóðmenningar. Nú er það túlkað sem hetjuskapur af blöðum auðvaldsins á Íslandi, að íslenzkir æskumenn taki vopn í hönd til hjálpar spilltasta auðvaldi veraldarinnar að myrða meðlimi kúgaðra nýlenduþjóða og drekkja í blóði frelsisbaráttu hennar.

Ég vil nú gera þessum áróðri dálítil skil. Einn af okkar merkustu rithöfundum sagði eitt sinn eitthvað á þá leið, að til þess að geta fylgt borgaraflokkunum að málum af sannfæringu, þá yrði maður að losa sig við alla skynsamlega hugsun. Ég held, að það sé ekki hægt að kveða vægar að orði um þau trúarbrögð, sem reynt er með offorsi að innræta þjóðinni, að rússnesk árás á Ísland sé svo yfirvofandi, að þess vegna hefðum við þurft að ganga í hernaðarbandalag og panta erlenda hersetu. Til þess að skilja þau átök, sem núna fara fram í heiminum, verður að líta á þróunarsögu borgarastéttarinnar og kapítalismans og dæma út frá henni.

Á síðustu áratugum 18. aldar og fyrri helmingi 19. aldar geisuðu voldugar byltingar í þjóðlöndum Evrópu. Það var hin unga borgarastétt, sem þar var að brjótast til valda og velta í rústir hinu aldagamla, rótfúna aðalsveldi, er komið var að hruni vegna eigin innri meinsemda. Borgarastéttin barðist til valda undir kjörorðunum: frelsi, jafnrétti, bræðralag. Hún fékk líka í lið með sér kúgaðar undirstéttir aðalsveldisins, verkamenn og bændur.

Sigur borgarastéttarinnar var þróunarspor síns tíma fram á við. En þegar hún var orðin föst í sessi, búin að skapa sín borgaralegu lýðræðisríki, þá breytti hún sínum fögru kjörorðum í önnur, miðuð við eigin hagsmuni sína. Frelsi allra manna varð að frelsi einstaklingsins til að arðræna aðra, jafnréttið var gert að rétti hins sterka, og bræðralagshugsjónin var gerð að hinni skefjalausu frjálsu samkeppni. En borgaralegu lýðræðisríkin seildust fljótt lengra. Þau náðu á síðari hluta 19. aldar og fyrstu áratugum hinnar 20. yfirráðum yfir öllum lituðum þjóðflokkum veraldar. Sú saga er saga árásarstyrjalda, nýlendukúgunar, arðráns og morða af hendi þessara lýðræðisríkja.

Það, sem gerist í heiminum í dag, er það, að þessar lituðu, kúguðu nýlenduþjóðir eru að sprengja fjötrana, skapa sér eigið frelsi. Sú barátta mun halda áfram, þangað til þær hafa náð frelsinu.

Þótt brezkir herir jafni við jörðu þorpin á Malakkaskaga, þótt franskir herir brytji niður skæruliðasveitir í Indókína, þótt Hollendingar fangelsi leiðtoga Indónesa og Bandaríkjastjórn láti beita kjarnorkusprengju í Kóreu, þá megnar það ekki að stöðva frelsisbaráttu þessara þjóða. Það er þetta, sem heimur auðvaldsins óttast. En jafnframt þessu er annað að ske. Sjálfur kapítalisminn er kominn í þrot, því að hann hefur þegar tekið sitt dauðamein. Það dauðamein eru andstæðurnar innan hans sjálfs.

Bezta dæmi, sem nú gerist, er það, að jafnvel íhaldsstjórnin brezka stingur nú við fótum í hlýðninni við bandaríska kapítalismann, neitar að taka þátt í Evrópuhernum og lætur skína í breytt viðhorf gagnvart Sovétríkjunum. Þarna er brezku auðvaldsherrarnir að gera síðustu tilraun til að bjarga sér frá því að verða gleyptir af hinum bandarísku. En af því mun leiða árekstra milli auðvaldsríkjanna innbyrðis, sem geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Auðvaldið hefur unnið ótal árásarstríð, en það stríð, sem yfir stendur nú, er þess dauðastrið, og það vinnur enginn.

Það er því engin rússnesk árás á Ísland, sem er yfirvofandi, heldur frelsi hundraða milljóna fólks af lituðum þjóðflokkum undan arðránsog kúgunaroki evrópskra og amerískra lýðræðisríkja.

En þessi frelsisbarátta nýlenduþjóðanna fellur saman við þróun sósialismans í heiminum, sem óhjákvæmilega hlýtur að verða ríkjandi þjóðfélagsform um ófyrirsjáanlega framtíð, eins og barátta borgarastéttarinnar á sínum tíma féll saman við þróun hins kapítalíska lýðræðis sem þjóðfélagsforms 19. aldar og fram á hina 20., eftir að þjóðskipulag aðalsins féll.

Án þess að skilja þessa þróun er útilokað að geta dregið ályktanir af viðburðum heimsins nú. Fulltrúar íslenzku borgaraflokkanna hafa nú gert sig seka um þær ægilegu ráðstafanir að láta Ísland taka á sig hernaðarlegar skuldbindingar til þjónustu við þetta hrynjandi nýlenduveldi auðvaldsskipulagsins í heiminum. Þetta er þeirra þáttur til að reyna að halda sér á floti í því pólitíska kviksyndi, sem stjórn þeirra á efnahagsmálum þjóðarinnar hefur leitt þá út í. Og ráðið er það gamla, að kenna öðrum um klækina, sem þeir fremja sjálfir. Okkur sósíalista saka þeir um þjónustu við erlend ríki án þess að hafa nokkurn tíma getað bent á eitt atriði til sönnunar. En sjálfir koma þeir saman á klíkufund, brjóta stjórnarskrána með því að biðja um erlenda hersetu til þess að losa Bandaríkjastjórn við þann álitshnekki, sem hún hefði hlotið af því að fara sínu fram gegn mótmælum Íslendinga. Svo mikil er þjónkunin á þá hliðina. Hins vegar er svo annar þáttur. Þegar menn hafa gert sig seka um jafnóskaplega hluti og klíkufundur þessara þingmanna gerði í vor, þá leita þeir að átyllum til að réttlæta gerðir sínar bæði fyrir sjálfum sér og öðrum. Líklega hefur þeim verið talin trú um, að stríð yrði komið í haust. Nú hafa þeir verið sviknir um þetta stríð og engar horfur á, að úr því verði bætt á næstunni. Og það er annað að ske jafnframt. Átökin í Kóreu, Íran, Egyptalandi og ekki sízt í Evrópu sjálfri hera því glöggt vitni, að aflið, sem þeir treystu á, að væri hið sterkasta í heiminum, er ekki aðeins miklu veikara en þeir héldu, heldur einnig sjálfu sér sundurþykkt. Þess vegna óttast þessir menn þann dóm, er framtíðin mun fella yfir þeim og verkum þeirra, og til þess að réttlæta sig í lengstu lög halda þeir áfram að spá stríði, og hvenær getur ekki sú spá orðið að ósk, sbr. orð Stephans G. Stephanssonar:

„Falin er í illspá hverri

ósk um hrakför sýnu verri.“

Nú vil ég spyrja ykkur, sem hlustið, og þó einkum þann æskulýð, sem fylgir borgaraflokkunum þremur að málum: Er ekki hyggilegra bæði fyrir þjóðina og einstaklinginn að reyna að skilja þróunina, sem er að gerast, og haga sér samkvæmt henni? Ef þið, æskulýðurinn, látið halda áfram að blekkja ykkur, eins og nú er reynt að gera, þá eruð þið sjálf að búa ykkur þau örlög að standa á miðjum aldri skilningslaus eins og andlegir steingervingar gagnvart þeirri þróun og þeim lífsviðhorfum, sem þið verðið sjónarvottar að og gerast munu hvarvetna í heiminum, þessari þróun, að yfirráðakerfi auðvaldsheimsins yfir flestum lituðum þjóðum veraldar hrynur til grunna og þar með hagkerfi auðvaldsins. Ætlið þið að láta blekkja ykkur til að loka ykkur sjálf úti frá allri þekkingu og öllum skilningi á þessari þróun? Hver einasti maður, sem það gerir, mun á sínum tíma standa gagnvart fyrirbærum heimsviðburðanna eins og nátttröllin í íslenzku þjóðsögunum, sem dagaði uppi og urðu að steini við að sjá dagsbirtuna.