12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Nú hafa hv. stjórnarandstæðingar ausið úr skálum reiði sinnar, þeir hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, hv. 6. landsk., Hannibal Valdimarsson, sem eru fulltrúar Alþfl., og hv. 5. landsk., Ásmundur Sigurðsson, sem er fulltrúi Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins.

Það er alltaf létt fyrir þá, sem ekki telja sig bera ábyrgð, að koma fram sem vandlætara. En stjórnarandstaða á, ef hún skilur sitt hlutverk, að finna til ábyrgðar, — meiri ábyrgðar en gætti í ræðum hv. áðurnefndra þingmanna.

Samkvæmt ræðum hv. stjórnarandstæðinga á allt, sem mótdrægt er, að vera núverandi ríkisstj. að kenna. Þeir vilja ekki muna að órofa samband er milli örðugleikanna á líðandi stund og þeirra tíma, þegar flokkar núverandi stjórnarandstöðu tóku þátt í ríkisstjórnum og ýttu á ógæfuhlið, stofnuðu til þess ástands, sem nú er barizt við að bæta úr. — Við skulum horfa um öxl: Hvernig var ástatt í landinu þegar núverandi stjórn tók við völdum fyrir tæpum tveimur árum?

Stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar var mynduð í ársbyrjun 1947. Hún tók við vandræðabúi nýsköpunarstjórnarinnar svonefndu, sem gafst upp um leið og hún var búin með þær miklu gjaldeyrisinnstæður, sem þjóðin hafði eignazt fyrir óvenjulega rás viðburðanna á styrjaldarárunum.

Verkefni stjórnar Stefáns Jóh. Stefánssonar var mjög örðugt, — það skal viðurkennt. Hún reyndi að veita viðnám, en í ársbyrjun 1949 var í ljós komið, að ráðstafanir hennar dugðu alls ekki til þess að halda uppi fjármála- og atvinnulífi þjóðarinnar.

Framsfl. var að vísu þátttakandi í stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar, en hafði verið í hreinni andstöðu við nýsköpunarstjórnina, meðan hún sat að völdum. Hann varaði þjóðina við þeirri stefnu, sem ráðandi hafði verið, en tók þátt í stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar, af því að hann taldi skylt að reyna að bjarga því, sem bjargað yrði.

Í ársbyrjun 1949 taldi Framsfl., að sýnt væri, að stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar hlyti að missa marks, nema tekið væri til róttækari aðgerða, sem ekki fékkst samkomulag um. Gerði flokkurinn því kröfu til þess, að fram færu kosningar, þótt eitt ár væri eftir af kjörtímabili. Gömul og ný reynsla staðfestir, að síðasta þing fyrir kosningar er varla hæft til að taka vandamál heilbrigðum tökum.

Kosningar veittu Framsfl. aukið fylgi og leiddu þannig í ljós, að þjóðin kunni að meta varnaðarorð hans og kröfur um átök til leiðréttingar.

Hvernig stóðu svo sakir í árslok 1949? Stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar sagði af sér, þegar Alþingi kom saman eftir kosningarnar í nóv. 1949. Sjálfstfl. hafði myndað minnihlutastjórn snemma í desember, en skorti þingfylgi til þess að koma fram málum.

Í fjárhags- og atvinnulífi þjóðarinnar var ástandið á þessa leið: Ekki var farið að starfa að nokkru ráði að setningu fjárlaga fyrir fjárlagaárið 1950, og virtist þingið ekki sjá sér það fært eins og ástandið var, enda þótt fjárlagafrv. hefði verið lagt fram snemma á þinginn. — Útflutningsatvinnuvegir þjóðarinnar virtust algerlega stöðvaðir. Undanfarin ár hafði Alþingi neyðzt til þess að ábyrgjast verð á bátafiski og varið til þess miklum fjárhæðum. Nú tók Alþingi aðeins ábyrgð á fiskverðinu þrjá fyrstu mánuði ársins 1950. Engin fjárhagsgeta var til þess að gera meira og fullkomin tvísýna á, að þetta væri meira að segja hægt, þótt yfirlýsing um ábyrgðina væri gefin. — Ríkissjóður var algerlega févana. — Verzlunin hafði reyrzt í fjötra hafta, kvótakerfis og skömmtunar. — Verzlunarfyrirtæki, svo sem samvinnufélögin, gátu ekki tekið eðlilegum vexti, Almenningur leið af vöruþurrð. Svartamarkaður blómgaðist til gróða fyrir braskara, en féflettingar alþýðu manna. — Tíminn leið, og alltaf harðnaði á dalnum. Við svo búið mátti ekki standa.

Um miðjan marz tók núverandi stj. til starfa. Í stefnuyfirlýsingu stj. segir m.a. svo:

„Það er hv. alþingismönnum og alþjóð kunnugt, að útflutningsframleiðsla landsmanna er nú þannig á vegi stödd vegna verðbólgu innanlands og erfiðleika á sölu íslenzkra afurða erlendis, að alger stöðvun þessarar framleiðslu virðist vera yfirvofandi.

Ríkisstj. er fyrst og fremst mynduð til þess að koma á, eftir því sem unnt er, jafnvægi í viðskipta- og fjármálalífi þjóðarinnar.“

Hinni nýju stjórn og stuðningsflokkum hennar var ljóst, að vegna útflutningsframleiðslunnar og um leið fjármálaástandsins í landinu í heild var óhjákvæmilegt að breyta gengi íslenzkrar krónu til samræmis við gengi gjaldmiðils í helztu viðskiptalöndum okkar. Þetta var gert með lögum um gengisbreytingu, stóreignaskatt, launabreytingar, framleiðslugjöld o.fl. Stjórnarandstæðingar hömuðust strax að þessum ráðstöfunum og hafa síðan af fremsta megni reynt að gera þær tortryggilegar og óvinsælar og torvelda, að þær næðu tilgangi sínum. Sjálfir vissu þeir, að þessar ráðstafanir voru óhjákvæmilegar, og óskuðu í hljóði og einkasamtölum, að þær yrðu gerðar. Framkoma þeirra er því óverjandi og ber vott um, að þeir vita ekki, hvaða skyldur hvíla á stjórnarandstöðu, er skilur hlutverk sitt. Þannig stjórnarandstaða er því óafsakanleg. Hún er eins og framkoma manns, sem segir vísvitandi rangt til vegar.

Engum dettur í hug að halda því fram, að gengisfellingin hafi verið æskileg. Hún var nauðvörn þjóðar, sem var að því komin að gefast upp varðandi atvinnumál og fjármál sin. Hún var ill nauðsyn. Og eins og ill nauðsyn gerir ævinlega, reynir hún á manndóm og þroska þeirra, sem verða að taka á sig auknar byrðar og erfiðleika.

Ég hef í ræðu minni talið rétt að líta til baka, af því að það, sem nú er að gerast, er afleiðing hins liðna og verður að metast með tilliti til þess.

Ef ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hefðu ekki haft þrek til þess að horfast í augu við staðreyndirnar og gera þær ráðstafanir, sem ég nefndi, þótt óvinsælar væru, þá hefði orðið alger stöðvun á útflutningsframleiðslu, enginn getað gert út, ekkert kjöt verið seljanlegt erlendis fyrir framleiðsluverð og fullkomið atvinnuleysi steðjað að. Er það furðulegt og ber vott um ömurlegt ábyrgðarleysi, að þeir, sem telja sig sérstaklega til þess fallna að vera fulltrúar verkalýðs og launafólks, skuli ásaka fyrir þær aðgerðir, sem hafa bjargað frá jafnstórkostlegu atvinnuleysi sem við blasti. Má segja í því sambandi, „að heggur sá, er hlífa skyldi“.

Lítum rólega á hlutina. Allt atvinnu- og fjárhagslíf þjóðarinnar var á glötunarbarmi. En með átaki gengisbreytingarinnar var forðað frá henni. Nýtt líf færðist í framleiðsluna og atvinnurekstur þann, er stendur undir afkomu þjóðarinnar. Þrátt fyrir stórkostlegan aflabrest í sumum verstöðvum hefur meiri heildarútflutningur orðið af sjávarafurðum þetta ár en hið síðastliðna, af því að útgerðin lifnaði við. Sala á hraðfrystum fiski hefur verið meiri og hagkvæmari en áður. Opnazt hafa markaðir fyrir dilkakjöt, svo að vonir standa til, að óhætt sé að auka þá framleiðslu svo sem landskostir framast leyfa. Allar leiðir til sæmilegrar sölu voru lokaðar af hinu ranga gengi íslenzku krónunnar, þegar stj. tók til starfa.

Nú spyr kannske einhver: Hvers vegna var bátaútgerðinni um s.l. áramót gefinn frjáls hálfur sá gjaldeyrir, sem hún aflar? Var það ekki af því, að þeirri útgerð nægði ekki gengislækkunin? Jú, það var einmitt af því. Það var ekki af því, að gengisfellingin væri röng leið, heldur af því, að hún náði of skammt fyrir þennan atvinnuveg, til þess að þeir, sem hann stunda, fengju svipaða aðstöðu til afkomu og aðrir framleiðsluhópar.

Þessar ráðstafanir, sem varð að gera til þess að koma bátaútgerðinni af stað, hafa að sjálfsögðu valdið hærra verði á þeim innflutningi, sem keyptur er fyrir bátagjaldeyrinn. Leitazt var við að velja til innflutnings fyrir þennan gjaldeyri þá vöruflokka, sem frekar er hægt að vera án fyrir almenning, þótt vitanlega væri ekki hægt að greina alveg þar á milli.

Til þessara úrræða var gripið af því, að ekki var annarra kosta völ. Uppbótaleiðin hafði áður reynzt ófæra, og ekki gat þjóðin án þess verið, að bátar sæktu afla á mið. Hins vegar hljóta allir að óska þess, að bátaútgerðinni lánist að vaxa upp úr þörfinni fyrir þessar ívilnanir. Og gæta verða bátaútvegsmenn þess að spenna bogann ekki of hátt í kröfum sínum, því að fáar eða engar ráðstafanir, sem gripa hefur orðið til vegna atvinnuveganna, eru jafnóvinsælar meðal almennings og þessar.

Eitt af því, sem ríkisstj. taldi nauðsynlegt og skylt að beita sér fyrir, var meira frjálsræði í verzlun, en til þess þurfti bætta gjaldeyrisafkomu, aukið fjármagn til innflutnings.

Fyrir aðgerðir ríkisstj. er nú viðskiptaástandið orðið mjög breytt frá því, sem áður var. Áður þurfti gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir öllum innfluttum vörum, en nú er frjáls innflutningur á meira en helmingi af þeim verzlunarvarningi, sem fluttur er til landsins. Nú getur hver sem er flutt inn helztu nauðsynjavörur án þess að þurfa gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir þeim. Þessar frjálsu vörur geta menn nú fengið hjá þeim verzlunum, sem þeir telja sér hagkvæmast að skipta við. Kaupfélagsmenn geta fengið þær hjá sínum eigin fyrirtækjum, kaupfélögunum, og enginn vafi er á því, að vegna þessa frjálsræðis í viðskiptunum geta kaupfélögin nú miklu betur séð fyrir þörfum félagsmanna heldur en áður var, meðan höftin voru á öllum innflutningi og vörukaup félaganna mjög takmörkuð með óeðlilega litlum innflutningsskammti af mörgum vörum. Og þeir, sem vilja verzla við kaupmannaverzlanir, geta líka fengið þessar vörur hjá þeim. Menn geta nú yfirleitt fengið þessar vörur á þeim verzlunarstöðum, þar sem þeim er auðveldast að hafa verzlunarviðskipti, í stað þess að áður þurfti fólk oft að leita eftir kaupum á nauðsynjum í fjarlægum landshlutum.

Þegar höftin voru leyst og innflutningurinn gefinn frjáls, var í samræmi við þá ráðstöfun afnumið verðlagseftirlit á frílistavörum. Síðar kom í ljós, að sumir heildsalar misnotuðu aðstöðu sína og lögðu óheyrilega mikið á einstakar vörutegundir. Þetta gat sérstaklega gerzt fyrst í stað, á meðan framboð var ekki orðið nægilegt á hinum frjálsu vörum og almenningur og smásalar vöruðu sig ekki á okrinu með samanburði.

Harðlega verður að átelja þá menn, sem misnotuðu þannig frelsið, og sýni það sig, að þetta lagist ekki, þá verður að sjálfsögðu að grípa til sterkra aðgerða til þess að fyrirbyggja ósómann.

Höfð er nú gát á, hvað gerist í þessum efnum, og mun almenningur verða látinn fylgjast með því, sem fram kemur við áframhaldandi athugun á þessum hlutum.

Eitt af því, sem ríkisstj. setti sér sem takmark, þegar hún tók til starfa, var, að afgreidd skyldu greiðsluhallalaus fjárlög. Þetta hefur stjórnin staðið við. Áður hafði um skeið verið greiðsluhalli á fjárlögum og ríkissjóður hlaðið á sig skuldum, svo að við algeru öngþveiti lá um fjárhagsafkomu ríkissjóðs. Nú er um verulegan tekjuafgang að ræða, svo að um algera stefnubreytingu er að ræða. Mun fjmrh. nánar skýra frá þessu í umr. hér á eftir.

Eins og alþjóð veit, er nú unnið að meiri og fjárfrekari stórframkvæmdum á vegum ríkisins og vissra bæjarfélaga en nokkru sinni hafa þekkzt áður. Á ég þar við hinar miklu viðbótarvirkjanir við Sog og Laxá, en á báðum þessum stöðum hefur verið unnið af fullum krafti þetta ár. Þá er og að því komið, að byrjað verði á framkvæmdum við að reisa áburðarverksmiðju, — og vonandi heppnast einnig að koma upp sementsverksmiðju hér á landi innan skamms. Þessar risaframkvæmdir, sem nú er starfað að að frumkvæði ríkisstj., geta strandað, sé þess ekki örugglega gætt, að fjárhagur ríkissjóðs sé traustur. Þess verður því að gæta nú eins og undanfarin ár, siðan núverandi ríkisstj. kom til skjalanna, að fullkomlega öruggt sé um afkomu ríkissjóðs á næsta ári. En jafnframt og þjóðin öll gleðst yfir þessum framkvæmdum, verðum vér að gera oss grein fyrir því að gæta hófs um ýmsar aðrar fjárfestingar, meðan verið er að ljúka þeim. Sé þessa ekki. gætt, má búast við afleiðingum, sem geta orðið hinar afdrifaríkustu og valdið því, að verk þessi stöðvist eða tefjist öllum til tjóns.

Um utanríkismál vor og horfur í alþjóðamálum vil ég taka þetta fram:

Af málflutningi kommúnista bæði utan þings og innan má ráða, að þeir óska eftir, að Ísland sé óvarið með öllu, svo að árásarþjóðir eigi sem auðveldast með að geta hernumið landið án fyrirhafnar. En allir vita, og kommúnistar einnig, að árásarhætta stafar eingöngu frá hinum austrænu einræðisríkjum.

Vér Íslendingar gerðumst meðlimir í félagi Sameinuðu þjóðanna og síðar tókum vér þátt í stofnun Atlantshafsbandalagsins. Vér höfum með þessum ráðstöfunum tekið á okkar herðar vissar skuldbindingar í þessu þjóðasamstarfl.

Hið síðasta ár hefur leitt í ljós, að einræðisríki geta ávallt fyrirvaralaust hafið árásir á friðsöm ríki algerlega að ástæðulausu. Það var með þessa reynslu að baki, að íslenzka ríkisstj. gerði síðastl. vor samning við Bandaríki N.- Ameríku fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins um hervarnir á Íslandi. Efni þessa samnings skal ekki rakið hér, enda hefur hann verið birtur og er því alþjóð kunnur. Hér skal það eitt tekið fram, sem samningurinn ber ótvírætt með sér, að hér verða aðeins herstöðvar í varúðarskyni, en alls ekki búnar út til árása. Lýðræðisflokkarnir þrír stóðu einhuga að þessum samningi. En kommúnistar hafa reynt að ófrægja hann og gera sem tortryggilegastan að skipan hinna austrænu húsbænda sinna. Ég tel, að það hefði verið algerlega óforsvaranlegt andvaraleysi af ríkisstj. að láta undir höfuð leggjast að gera slíkar ráðstafanir, eins og þá var ástatt og er enn um sambúð þjóðanna, enda má það öllum ljóst vera, að við verðum að fylgja sömu stefnu í utanríkismálum og hin stóru lýðræðisríki á vesturhveli jarðar.

Tími minn er nú á þrotum. Ég hef ekki farið út í það að svara stjórnarandstöðunni orði til orðs, heldur hef ég svarað með yfirliti um staðreyndir þess, sem var, og þess, sem er.

Ef þjóðin ber réttilega saman, hvert horfði, þegar stj. tók við, og hvar nú er staðið — þrátt fyrir aflabrest víða og illt tíðarfar í sumum landshlutum, — þá er ég ekki hræddur við dóm þjóðarinnar. Slíkur samanburður er hinar réttu forsendur dómsins.

Væntanlega tek ég aftur til máls í þessum umræðum og minnist ef til vill þá á stjórnarandstöðuna nánar og hennar málflutning.