12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í fjárlagaræðunni í haust gat ég þess, að allríflegur greiðsluafgangur mundi verða hjá ríkissjóði á þessu ári. Tekjurnar mundu fara verulega fram yfir áætlun. Gjöldin mundu einnig fara verulega fram yfir, einkum vegna hækkandi verðlags og kaupgjalds. Erfitt hefur verið undanfarið að átta sig á því, hver verða muni endanlega niðurstaða á ríkisrekstrinum í ár. Reyndi ég þó að áætla þetta í haust, og áætlaði ég þá, að greiðsluafgangur mundi verða um 50 millj. kr.

Nú er komið yfirlit um viðskipti ríkissjóðs fram að 1. des., og sést nú betur en áður, hvernig horfir.

Tekjur á rekstrarreikningi fram að 1. des. nema 358 millj. kr. Er það áætlun mín, að tekjur á rekstrarreikningi muni losa 400 millj. kr. — verða 405 millj. eða svo. Tekjur á eignahreyfingum sýnast mér ætla að verða álíka og áætlað var. Samkvæmt þessu ættu umframtekjur að verða um 107 millj. kr. á árinu. Eru þetta aðallega umframtekjur af verðtolli og söluskatti, og veldur nokkru um umframtekjur af söluskatti, að innheimtan hefur batnað stórkostlega frá því, sem hún var áður, enda var hún þá að brotna saman.

Sé litið á gjaldahliðina, kemur í ljós, svo sem vitað var og óumflýjanlegt, eins og rás viðburðanna varð á árinu, að umframgreiðslur verða allmiklar, og sýnist mér líklegt, að þær verði ekki undir 55 millj. kr., þegar öll kurl verða komin til grafar.

Til dæmis um umframgreiðslur vil ég geta þess, að vegaviðhald sýnist muni fara fram úr áætlun um 5.5 millj. kr. a.m.k. Kostnaður við fjárskipti fer um 2.9 millj. fram úr, jarðræktarstyrkurinn um 2.3 millj. kr. Halli á ríkísspítölunum verður tæplega 2 millj. kr. hærri en áætlað var, halli á strandferðunum 1.5 millj. kr. hærri en gert var ráð fyrir og kostnaður við landhelgisgæzluna fer meira en 1 millj. kr. fram úr áætlun. Til Tryggingastofnunarinnar hefur stjórnin orðið að ákveða að leggja rúmar 2 millj. kr. meira en gert er ráð fyrir í fjárlögum, þar sem í ljós kemur, að ella verður rekstrarhalli Tryggingastofnunarinnar henni um megn. Launagreiðslur fara stórkostlega fram úr áætlun, eins og nærri má geta, ekki fyrir það, að fólki hafi verið fjölgað, heldur vegna kauphækkana á árinu. Nemur sú hækkun mörgum milljónum.

Á 20. gr. verður umframgreiðsla á framlagi til varðskipsbyggingar og á stofnkostnaði ríkisspítalanna, þar sem hætt var við að taka lán, sem heimilað var í því skyni, en kostnaður greiddur í þess stað af ríkissjóðstekjum. Enn fremur er sjáanlegt, að nokkurt fé festist á árinu í auknu rekstrarfé ýmissa starfsgreina ríkisins, og er ómögulegt hjá því að komast, þegar verðiag er hækkandi.

Þessi dæmi, sem ég hér hef nefnt um umframgreiðslur, geta ekki orðið fullnægjandi skýrsla um það efni, en eru aðeins nefnd til þess að gefa mönnum hugmynd um aðalástæðurnar fyrir því, að ríkisútgjöldin hlutu á þessu ári að fara mjög verulega fram úr áætlun eins og verðlagsog kaupgjaldsþróunin reyndist.

Í fyrra urðu umframgreiðslur nær engar, en nú verulegar. Þó eru umframgreiðslur ekki miklar hlutfallslega við gjaldahæðina nú í samanburði við það, sem oft hefur áður verið.

Reynist þessar áætlanir réttar, ætti greiðsluafgangur á árinu að verða eitthvað yfir 50 milljónir. Þess ber þó að geta, að ekki eru taldar til útgjalda 8 millj. kr., sem ríkissjóður hefur orðið að leggja út á árinu vegna kaupa á 10 togurum frá Bretlandi. Hefur ekki tekizt enn þá að útvega lán í Bretlandi til þess að greiða eftirstöðvar af andvirði togaranna 10, svo sem þó var fyrirhugað.

Það er því augljóst orðið, að afkoma ríkissjóðs á þessu ári verður góð, en hins vegar ekki betri en brýn nauðsyn var á að hún yrði, og vandséð, hvernig ráðið hefði orðið fram úr brýnustu vandamálunum, ef ekki hefði verið jafngætilega gengið frá fjárl. og raun var á.

Ríkissjóður hefur dregizt með miklar lausaskuldir, sem safnað hafði verið áður en breytt var um fjármálastefnu. Námu þessar lausaskuldir á annað hundrað milljónum, þegar núverandi stjórn tók við, og þar að auki hafði togarasamningur verið gerður upp á 90 milljónir, án þess að nokkuð væri fyrir því séð, hvernig 25–30 millj. af því yrðu greiddar. Lækkuðu lausaskuldir þessar dálítið á árinu 1950. Eins og mönnum er kunnugt, hefur ríkisstj. gert það að tillögu sinni og fengið til þess samþykki Alþingis, að 50 millj. kr. yrði varið úr mótvirðissjóði til þess að greiða upp í þessa skuldafúlgu. Er málið enn í athugun hjá Marshallstofnuninni, en hún verður svo sem kunnugt er að samþykkja ráðstöfun mótvirðissjóðs. Fáist þetta samþykkt, mun vera hægt að grynna mjög verulega á lausaskuldum ríkissjóðs.

Með þessar afkomuhorfur í huga hefur ríkisstj. í samráði við stuðningsflokka sína á Alþingi tekið ákvörðun um að leggja til við Alþingi, að varið verði 30 millj. kr. af greiðsluafgangi þessa árs sem hér segir:

1. Lán til ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs 15 millj.

2. Lán til byggingarsjóðs verkamanna, bæjarfélaga, sem byggja samkv. lögum um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, og lán til smáíbúða í kaupstöðum og kauptúnum 12 millj.

3. Til iðnaðarlána 3 millj.

Þannig hefur nú þegar verið tekin ákvörðun um að verja 30 millj. kr. af greiðsluafganginum til þessara bráðnauðsynlegu framkvæmda, og verður hægt að bæta úr brýnustu lánaþörfum til þessara bygginga og ræktunarframkvæmda eingöngu vegna þess, að ríkissjóður hefur haft greiðsluafgang á árinu.

Liggi málið þannig fyrir, að hentugra þyki að veita þessi lán úr mótvirðissjóði, en nota í þess stað 30 millj. af greiðsluafganginum til þess að greiða upp í lausaskuldir, þá mundi það verða gert, en engu mundi það breyta í sjálfu sér.

Ádeilur stjórnarandstæðinga á ríkisstj. eru að ýmsu leyti harla nýstárlegar. Venjulega hefur stjórnarandstaðan hér á Alþingi orðið að syngja sönginn um vaxandi skuldasúpu og um stjórn, sem sökkvi dýpra og dýpra í fen skulda og greiðsluvandræða. Nú kveður við annan tón. Nú er því helzt haldið fram stj. til ávirðingar í fjármálum, að afkoma ríkisins sé of góð. Óneitanlega er þetta skemmtileg tilbreyting og sýnir, að út af öllu er hægt að skammast.

Að svo miklu leyti sem heila brú er að finna í gagnrýni stjórnarandstæðinga á fjármálastjórnina, þá virðist þetta vera kjarninn: Að stj. skattpíni menn að óþörfu og hafi svikizt um að afnema söluskattinn, sem lagður hafi verið á til þess að standa undir greiðslu útflutningsuppbóta, enda hafi því verið heitið að afnema hann, þegar gengisbreytingin var gerð. — Að ríkisstj. geri ekkert til þess að spara, og raunar bera stjórnarandstæðingar sér það einnig í munn, þótt híkandi séu, að stj. standi fyrir því að þenja út ríkisbáknið. — Í framhaldi af þessu halda stjórnarandstæðingar því svo fram, að hægt sé að afnema söluskattinn, enda geri það ekki mikið til, þótt nokkur greiðsluhalli yrði á ríkisbúskapnum. Ég mun nú fara nokkrum orðum um þessa gagnrýni.

Söluskatturinn var að vísu lagður á í því skyni að standa undir dýrtíðargreiðslum, en því fór svo fjarri, að sú yrði niðurstaðan í tíð fyrrv. stj., að tugmilljóna halli. varð á ríkisbúskapnum þrátt fyrir söluskattinn, og voru því útflutningsuppbæturnar að mjög verulegu leyti greiddar þá með stórfelldri lausaskuldasöfnun í Landsbankanum. Það var alveg augljóst mál veturinn 1950, að ekki var hægt að afnema söluskattinn, ef tryggja átti greiðsluhallalausan ríkisbúskap. Þessu marglýsti ég yfir, undireins og ég tók við starfi því, sem ég nú hef með höndum, og var ekki í því sambandi farið aftan að neinum. Ég mótmæli því þessum ásökunum stjórnarandstæðinga sem algerlega tilhæfulausum. Ríkisstj. hefur ekki farið aftan að neinum í þessu efni og engin loforð svíkið, þvert á móti alltaf lagt áherzlu á, að án söluskattsins yrði ekki hægt að reka greiðsluhallalausan ríkisbúskap, og það sama gildir enn, svo sem ég kem að síðar.

Þá er það sú gagnrýni, að reynslan sýni, að hægt hefði verið að lækka skattana.

Tekjur ársins í ár fara mjög verulega fram úr áætlun af tveimur ástæðum. Annars vegar sökum þess, að verðlag erlendis hefur farið mjög hækkandi, Það var ekki vitað, þegar tekjuáætlunin var gerð, að svo mundi fara, en af þessu hefur ekki orðið neinn verulegur hreinn ávinningur fyrir ríkissjóð, sökum þess að einmitt þessar verðhækkanir og kauphækkanir, sem af henni leiddi, hafa aukið ríkisútgjöldin mjög mikið. Á hinn bóginn hafa ríkistekjurnar farið allverulega fram úr áætlun vegna óvenjulega mikils innflutnings. Sú aukning er afleiðing aukaframlags frá greiðslubandalagi Evrópu til þess að standa undir birgðasöfnun. Þessum tekjuauka af birgðasöfnun var ekki hægt að gera ráð fyrir, þegar fjárlögin voru samin, enda engin ráðdeild né neitt vit í því að ætla slíkan tekjuauka til venjulegra eyðsluútgjalda.

Vegna þess, hvernig á þessum málum hefur verið haldið, hefur ríkissjóður nú rétt nokkuð við fjárhag sinn og getur nú varið nokkru fé til stuðnings byggingum og ræktunarframkvæmdum eða til skuldagreiðslu.

Vilja menn ekki gera sér það ómak að hugleiða, hvernig ástandið væri nú í fjármálum ríkisins og í byggingar- og ræktunarmálum, ef farið hefði verið í fyrra að ráðum stjórnarandstæðinga og söluskatturinn afnuminn? Það er nú komið í ljós, að afleiðing þess hefði orðið stórfelldur greiðsluhalli hjá ríkissjóði, þar sem söluskattstekjur nema mörgum milljónatugum meira en greiðsluafgangurinn.

Kem ég að því í lok þessa máls, hver búhnykkur alþýðu þessa lands yrði að greiðsluhallapólitík stjórnarandstæðinga.

Þá eru það ríkisútgjöldin og sparnaðurinn. Það er nú sér á parti, hversu hlálega það lætur í eyrum kunnugra, að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna skuli yfirleitt tala um sparnað og um ríkisbáknið í þeim tón, sem þeir gera. Þetta er furðuleg óskammfeilni, þegar þess er gætt, að báðir þessir flokkar hafa ætíð verið fylgjandi öllum vexti í ríkisbákninu, sem teknar hafa verið ákvarðanir um, og þó aldrei fengið því ráðið að þenja ríkisbáknið svo út sem þeir vildu.

Þessir flokkar hafa báðir tekið þátt í ríkisstjórn, og það er víst alveg óhætt að fullyrða, að engir hafa verið óprúttnari en einmitt fulltrúar þessara flokka í öllu því, er lotið hefur að útþenslu í ríkiskerfinu, né verið fjær því að beita sér fyrir almennum sparnaði, enda er það kunnugt, að þessir flokkar byggja að verulegu leyti stefnu sína á þeirri kröfu, að ríkið hafi miklu meiri afskipti af málefnum landsmanna en nú tíðkast, og því hlýtur vitanlega að fylgja aukning á ríkisbákninu og almennum starfrækslukostnaði ríkisins.

Mér þykir nú rétt að benda á þetta, þótt mér sé ljóst, að það eru ekki fullnægjandi svör við ásökunum stjórnarandstæðinga, þótt sýnt sé fram á ráðdeildarleysi þeirra, enda mun ég gera þessu frekari skil.

Mun ég víkja að þessu nokkru nánar, og kemur þá fyrst til álita:

Hefur núverandi ríkisstjórn gert ráðstafanir til sparnaðar? Til svars þessari spurningu vil ég nefna nokkur dæmi. Núv. ríkisstj. hefur lækkað grunnlaunauppbætur starfsmanna frá því, sem þær voru, lengt starfstíma á flestum opinberum skrifstofum, leitazt við að draga úr eftirvinnu, lagt niður milli 60 og 70 embætti og störf og lagt niður ýmiss konar taprekstur, sem áður var uppi haldið á kostnað ríkisins. Þetta eru nokkur dæmi, en ekki tæmandi upptalning á því, sem gert hefur verið til aukinnar ráðdeildar í ríkisbúskapnum. Beinn sparnaður af þessum og öðrum ráðstöfunum ríkisstj. nemur milli 10 og 20 millj. kr. á ári, en erfitt er að áætla þar um nákvæmlega.

Fróðlegt er að athuga, hvernig stjórnarandstæðingar hafa tekið sumum af þessum ráðstöfunum.

Þegar vinnutími í opinberri starfrækslu var lengdur um hálfa klukkustund á dag, reyndu kommúnistar af öllum mætti að koma því til leiðar, að opinberir starfsmenn gerðu ólöglegt verkfall til þess að mótmæla þessari breytingu, og undir það tóku a.m.k. sumir í Alþfl. Þótt opinberir starfsmenn hefðu þessar ráðagerðir þeirra að engu, þá sýndi þetta glöggt afstöðu núverandi stjórnarandstæðinga í sparnaðarmálum.

En þegar rætt er um sparnað, þá er rétt að minnast á þau mál nokkru nánar, vegna þess að hér er um mikið alvörumál að ræða og margir hafa að vonum þungar áhyggjur af hinum opinberu gjöldum.

Andstæðingar stj. halda því fram núna, að það sé auðvelt að lækka þessi gjöld stórkostlega. Mig langar að spyrja þá í því sambandi nokkurra spurninga, sem þeir hafa áður verið spurðir hér á Alþingi, en gefið lítil svör við, en máske þeir standi sig betur, þegar fleiri heyra til.

Hvað er það, sem þeir vilja spara? Vilja þeir ekki lofa hv. þm. og þjóðinni allri að heyra þetta? Þeir hafa ekki flutt neinar sparnaðartillögur hér á Alþingi. Þótt þeir þykist hafa verið að pukrast með eitthvað þess konar í fjvn., þá hafa þeir ekki komið fram hér á þingi með þess háttar tillögur. Hvað er það, sem á að spara? Hvað er það, sem er svo auðvelt að spara og á að vera svo þungvægt, að straumhvörfum valdi í skattaálögum? Vilja þeir fækka dómurum og lögreglumönnum? Vilja þeir draga úr landhelgisgæzlunni eða fækka mönnum á varðskipunum? Vilja þeir fækka læknum, spítölum eða fækka starfsfólki á spítölunum eða draga úr fæðiskostnaði sjúklinga eða hækka daggjöld á spítölunum? Vilja þeir draga úr styrkjum til berklasjúklinga, eða vilja þeir lækka framlög til þeirra, sem þjást af langvarandi sjúkdómum? Vilja þeir draga úr framlögum til nýrra vega eða til viðhalds vega, framlögum til hafnargerða og vita, framlögum til flugmála og strandferða? Vilja þeir fækka prestum? Vilja þeir loka skólum eða leggja niður skóla? Vilja þeir lögbjóða lengri vinnutíma fyrir kennara og fækka kennurum? Vilja þeir loka söfnunum? Vilja þeir draga úr námsstyrkjunum? Vilja þeir lækka jarðræktarstyrkinn, framlög til Búnaðarbankans, skógræktar og sandgræðslu? Vilja þeir lækka framlög til fjárskiptanna eða hætta við þau í miðju kafi, draga úr framlögum til aflatryggingasjóðs eða til Fiskifélagsins eða til raforkumála? Vilja þeir lækka framlög til Tryggingastofnunar ríkisins, til sjúkrasamlaganna, framlög til bygginga í kaupstöðum og kauptúnum? Vilja þeir láta hætta að greiða eftirlaun eða draga úr eftirlaunum? Vilja þeir láta lækka laun opinberra starfsmanna? Þannig mætti halda áfram að spyrja, og þannig spurði ég hv. 6. landsk., Hannibal Valdimarsson, við 2. umr. fjárl., þegar hann talaði sem fjálglegast um sparnað, en hverju svaraði hann? Hann svaraði, að hann hefði verið spurður um þá liði fjárl., sem sízt mætti lækka. Það ætti að spara á kostnaði við ríkisstj. og utanríkismálin, segja stjórnarandstæðingar. En þegar þess er nú gætt, að liðirnir, sem ekki má spyrja um í sambandi við sparnað, nema meginhlutanum af öllum útgjöldum fjárl., þá fer að verða þrautin þyngri fyrir menn að gera sér grein fyrir því, hvað þeir meina með fjasi sínu um, að auðvelt væri að valda straumhvörfum í fjármálum ríkisins með sparnaði.

Þetta sparnaðartal stjórnarandstæðinga hér hefur ekki mikið gildi. Helzt þá það, að tækifæri gefst til þess að benda mönnum á það einu sinni enn, að eigi að framkvæma lækkun á ríkisútgjöldunum, þannig að verulegu muni eða stefnuhvörfum valdi, þá er það ekki hægt nema með því að gerbreyta um afskipti ríkisins af málefnum landsmanna. Það er ekki mögulegt nema með því að leggja niður margs konar þjónustu, sem menn hafa á undanförnum árum gert kröfur um, að ríkið tæki að sér. Það er sjálfsagt að halda áfram allri viðleitni til sparnaðar, og það þarf sífellt að gera nýjar og nýjar sóknarlotur til þess að reyna að finna leiðir til þess að draga úr þeim beina kostnaði og koma í veg fyrir útþenslu. Það er líka geysilegt verk, sem í því liggur að koma í veg fyrir slíkt. En þess konar ráðstafanir, þótt góðar séu, leysa ekki þennan vanda. Það er ekkert annað en gaspur eitt, að hægt sé með sparnaði á beinum rekstrarkostnaði ríkisins að lækka ríkisútgjöldin þannig, að á því verði byggðar skatta- og tollalækkanir, nema menn eigi þá við stórfellda launalækkun opinberra starfsmanna, en hvernig ætti það að standast að setja þeim laun í algeru ósamræmi við önnur laun í landinu? Það er fullkomið ábyrgðarleysi að halda því fram, að mögulegt sé að halda uppi svipaðri þjónustu í dóms- og lögreglumálum, kirkju- og kennslumálum, samgöngumálum, tryggingamálum, heilbrigðismálum, málefnum atvinnuveganna, ásamt stórfelldum verklegum framkvæmdum, eins og nú er gert, og lækka um leið verulega skattabyrðina á þjóðinni. Slíkt er ekki framkvæmanlegt.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á það í þessu sambandi, hve furðulegt er að heyra og sjá ýmsar samþykktir um þessi málefni, sem gerðar eru. Það er erfitt að sjá, að það geti haft góðan endi, ef hver stétt og hver hópur, sem saman kemur til funda, lætur það verða sitt höfuðverkefni að krefjast framlaga af ríkinu fyrir sig og handa sér og álykta um leið með hörðum orðum gegn skatta- og tollaálögum og heimta á þeim stórfelldar lækkanir. Verði þeim leik haldið áfram mjög almennt og það virt til fjandskapar, ef ekki er hægt að fara eftir slíkum samþykktum, þá geta menn búizt við því, að sá þingmeirihluti verði vandfundinn, sem hefur nógu sterk bein til þess að halda þannig á málefnum landsins, að ekki hljótist stórslys af.

Þannig hlýtur ábyrgðarleysi eins og það, sem fram kemur í tali og tillögum stjórnarandstæðinga hér á Alþingi, að verða til þess að liða þjóðfélagið í sundur, ef menn ekki láta víti þeirra verða sér til varnaðar.

Það þjóðfélag fær ekki staðizt, sem saman er sett af hópum óbilgjarnra manna og þröngsýnna, sem hver um sig krefst fríðinda handa sér og sinni stétt, alveg án tillits til annarra, og halda uppi sífelldum mótmælum út í bláinn gegn óhjákvæmilegum opinberum gjöldum án þess að gera nokkra tilraun til að líta á samhengi mála og gefa því gaum, til hvers með sanngirni er hægt að ætlast.

Ég hef nú gefið nokkrar upplýsingar um afkomuna á þessu ári og svarað höfuðárásum stjórnarandstæðinga á fjármálastjórnina. Mun ég að lokum víkja nokkrum orðum að framtíðinni og fjárlagafrv. því, sem nú er verið að afgreiða.

Þegar frv. þetta kom fram, gerði það ráð fyrir um 360 millj. kr. ríkisútgjöldum á næsta ári. Við 2. umr. hefur Alþingi hækkað frv. þannig, að nú gerir það ráð fyrir 370 millj. kr. útgjöldum. Þetta eru miklu hærri útgjöld en á fjárl. þessa árs og hærri tala en útgjöldin verða á þessu ári. Gerði ég ýtarlega grein fyrir því við framsögu fjárl., í hverju hækkunin er fólgin, og ræði það því ekki hér. Þar eru að mestu að verki sömu öfl og þau, sem verða til þess að ríkisútgjöldin í ár fara fram úr áætlun. Þar er ekki um að ræða aukna þenslu í ríkiskerfinu, heldur aukinn kostnað við þá þjónustu, sem áður hefur verið haldið uppi, og margs konar framkvæmdir. Einkum eru þó launahækkanir þungar í skauti, eins og gefur að skilja.

Nú geri ég ráð fyrir, að frv. hækki eitthvað við 3. umr., og er m.a. óhjákvæmilegt að setja inn nokkra fúlgu vegna þess, að fyrirsjáanleg er nú hærri kaupgjaldsvísitala en gert var ráð fyrir, þegar frv. var samið.

Eftir 2. umr. er rúmlega 7 millj. kr. greiðsluhalli á frv. Tekjur eru alls áætlaðar á rekstrarreikningi 357 millj. kr. Þessa tekjuáætlun verður óhjákvæmilega að hækka við 3. umr. frv. allverulega, ef frv. á ekki að verða afgreitt með greiðsluhalla. Þá kemur spurningin: Er óhætt að hækka þessa tekjuáætlun, og hvað sýnir reynslan í ár? Ég sagði í upphafi ræðu minnar, að ég héldi, að rekstrartekjur á þessu ári mundu verða rúmar 400 millj. kr., 405 millj. eða þar í kring. Það eru að vísu lítið eitt hærri tekjur en fjárlagaútgjöldin verða, en hér við er tvennt að athuga sérstaklega. Annað er það, að við getum alls ekki gert ráð fyrir jafnmiklum innflutningi á næsta ári og í ár. Birgðir í verzlununum eru nú verulegar og aukast ekki úr þessu. Verður því innflutningurinn á næsta ári aðeins til þess að mæta neyzlunni. Á hinn bóginn er söluskatturinn í ár nokkru hærri en sem nemur raunverulegum árstekjum af honum, þar sem innheimtan hefur verið bætt á árinu og innheimzt hefur af eldri eftirstöðvum.

Þegar þetta er haft í huga og þess jafnframt gætt, að það er aldrei hægt að framkvæma fjárl. þannig, að ekki verði einhverjar umframgreiðslur, hversu vel sem upp á er passað og hversu vel sem reynt er að sjá fyrir það, sem útgjöldum veldur, þá er það augljóst, að það er teflt á allra tæpasta vað með því að hækka nokkuð tekjuáætlunina frá því, sem hún er í frv. Þetta verður þó að gera, ef ekki á að leggja á nýja skatta eða nýja tolla til þess að mæta gjöldunum. - Niðurstaða mín verður því þessi:

Það verður að fá samtök um að bæta sem allra minnstu af nýjum gjöldum á frv. við 3. umr., helzt engum nema leiðréttingum, því að afgreiðsla fjárl. er í mestu hættu, eins og nú horfir. Við verðum að hækka eitthvað tekjuáætlunina samt sem áður og taka þá áhættu, sem í því felst, heldur en að hækka skatta og tolla, verðum að gera það í trausti þess, að næsta ár verði a.m.k. ekki lakara framleiðsluár en það, sem nú er að líða.

Jafnframt er það nú ljósara en nokkru sinni fyrr í haust, að ríkið þarf á öllum sinum tekjustofnum óskertum að halda, ef afgreiðsla fjárl. á að verða greiðsluhallalaus. Afgreiðsla greiðsluhallalausra fjárl. er hornsteinn þeirrar fjármálastefnu, sem stj. fylgir, og ég mun ekki sjá mér unnt að taka að mér framkvæmd fjárl., ef tekjustofnar ríkisins verða skertir frá því, sem þeir eru nú.

Afstaða stjórnarandstæðinga til fjárlagafrv. er hins vegar sú, að þeir leggja til, að söluskatturinn verði felldur niður, en hann gefur ríkissjóði í ár á milli 80 og 90 millj. kr. tekjur. Enn fremur hafa þeir tekið afstöðu svo að segja undantekningarlaust með öllum hækkunartillögum fjvn., og kommúnistar hafa til viðbótar lagt til við 2. umr., að útgjöldin hækki um 11 milljónir. Þannig leggja stjórnarandstæðingar til, að fjárlögin fyrir næsta ár verði afgreidd með 8090 millj. kr. greiðsluhalla.

Hver mundi svo verða afleiðingin af greiðsluhallapólitík stjórnarandstæðinga? — Menn högnuðust eitthvað í bili á afnámi söluskattsins –þeir, sem hafa fastar tekjur. En ekki yrði Adam lengi í Paradís. Ríkissjóður kæmist í algert fjárþrot. Það yrði að stöðva verklegar framkvæmdir, og það þýddi stórfellt atvinnuleysi. Mótvirðissjóður frysi inni. Af því leiddi enn frekari stöðvun framkvæmda og enn stórfelldara atvinnuleysi. En það væri hægt að halda öllu í gangi með skuldasöfnun í Landsbankanum, segja kommúnistar. Ég veit ekki, hvort fleiri þora að segja það, en þeir tala þó eins og þeir meini það. En hver yrði afleiðing þess, ef það yrði reynt? Við eigum enga gjaldeyrisvarasjóði til þess að standa á móti hallaútlánum bankanna, og lánsþol bankanna er spennt til þess ýtrasta, þannig að afkoman út á við má ekki tæpara standa. Yrði safnað lausaskuldum á ný til þess að halda uppi opinberum verklegum framkvæmdum í hallarekstri, þá þýddi það stórfelldan lánssamdrátt hjá bönkunum til atvinnuveganna, samdrátt þeirra, hrun og stöðvun fjölda fyrirtækja og gífurlegt atvinnuleysi.

Afstaða þeirra manna, sem nú berjast fyrir því að afnema nauðsynlega tekjustofna ríkissjóðs, eins og nú standa sakir, — með þau falsrök á vörunum, að það sé gert til hagsbóta fyrir alþýðu landsins, — er fjandsamleg hagsmunum alþýðustéttanna til sjávar og sveita og mundi þýða stórfellt atvinnuleysi og örbirgð þeirra, sem ekki hafa föst störf og sitt á þurru. Mundu þeir fastlaunuðu þó ekki lengi græða á þessari pólitík, þótt söluskatturinn yrði afnuminn í bili, þar sem afleiðing hallastefnunnar, hrunstefnunnar, mundi fljótlega segja til sín í nýjum og þungum búsifjum fyrir þá, — eða halda menn, að það mundi ekki segja til sín, áður en langt um liði, í nýjum, margföldum kvöðum, ef stefnt er til stórfellds samdráttar framkvæmda og atvinnuleysis eða til fullkominnar lánasveltu atvinnuveganna, sem einnig þýðir atvinnuleysi, minnkandi framleiðslu, en aukna fátækt?

Það er sama, hvernig á þetta er litið. Aumt er hlutskipti þeirra, sem hafa valið sér hlutskipti hinna ábyrgðarlausu, og verður því verra, sem þessi mál eru meira rædd.