13.12.1951
Sameinað þing: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Umræðurnar í gær sanna, að skoðanir sumra manna breytast furðu fljótt eftir því, hvort þeir eru í stjórnarandstöðu eða styðja ríkisstj. Jafnaðarmenn deildu á ríkisstj. fyrir skattaáþján, en þó eru næstum sömu skattalög og í tíð stjórnar Stefáns Jóhanns, — og þá þótti þessum sömu mönnum þau réttlát. Þeir segja að vísu, að með söluskattinum hafi átt að greiða útflutningsuppbætur á fisk, sem nú sé hætt. En sannað er, að söluskatturinn var aldrei notaður til þess, heldur voru fiskuppbæturnar greiddar með því að safna í Landsbankanum óreiðuskuldum, sem nú þarf að greiða.

Það er ánægjulegt, en um leið broslegt, að heyra þá menn tala af miklum fjálgleik um nauðsynlegar framfarir í landbúnaði, sem kölluðu íslenzkt dilkakjöt hundamat, sögðu, að bezt borgaði sig að mata bændur á spítala, en flytja landbúnaðarafurðir inn frá útlöndum, — og í samræmi við það var landbúnaðinum gleymt á nýsköpunartímunum, nema til að setja bændum ráð eins og ófrjálsri stétt. Nú kveður við nýjan tón.

Dómur verður að byggjast á forsendum, bæði um ríkisstjórnir og aðra. — Ef þessi ríkisstj. hefði tekið við í góðæri og við ríkissjóði með fullar hendur fjár, er hætt við, að það hefði heyrzt nefnt af stjórnarandstöðunni, þegar dæmt var um stj. Þetta hefði líka verið réttlátt og sjálfsagt. En jafnsjálfsagt er þá einnig hitt að byggja dóma sína um núverandi ríkisstj. á því, að hún tók við botnlausari óreiðum í fjármálum og framleiðslu en nokkur stjórn hefur tekið við áður. — Það er ekki hægt að slíta í sundur daginn í gær og þá stund, sem nú er að líða. Það er órofasamband milli fortíðar og nútíðar. Það er ekki unnt að dæma um verk líðandi stundar án þess að rekja rætur þess inn í fortíðina. Það var því hárrétt hjá hæstv. forsrh., hvort sem samstarfsráðherrum okkar sumum líkar það betur eða verr, að dómur um núverandi ríkisstj. og allar ríkisstjórnir verður meðal annars að byggjast á því, hvað fyrrverandi stjórnir lögðu henni í hendur.

Það ætti ekki að vera umdeilt mál, jafnauðsætt atriði og það er, að eyðsla nýsköpunarstjórnarinnar svonefndu á öllum auði Íslendinga frá stríðsárunum hefur skaðleg áhrif um áratugi. — Það er að vísu bent á 30 togara fyrir hundrað milljónir króna, enda þótt smíði þeirra sé umdeild, og nokkur millilandaskip, sem þó voru greidd með ágóða af skipum, sem erlend þjóð lánaði okkur í styrjöldinni fyrir lága leigu. En það gleymdist að endurbyggja flest. Það gleymdist að byggja raforkuver við Sog og Laxá, að maður ekki tali um smærri raforkustöðvar og Austurveg. Það gleymdist að stækka ullarverksmiðjur. Það gleymdist að reisa áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju. Landbúnaðurinn gleymdist að mestu. Það gleymdist yfirleitt að byggja upp og endurnýja eftir styrjöldina hið almenna atvinnulíf í landinu. Í stað þess var lögð einhliða áherzla á þær greinar sjávarútvegsins, sem mest hafði græðzt á í fjárhættuspili styrjaldarinnar. Þannig var svokölluð nýsköpun í framkvæmd, og það skilur eftir afleiðingar. En í þetta eyddi nýsköpunarstjórnin, reiknað með núverandi gengi, 1 milljarð og 100 millj. betur fram yfir það, sem flutt var út. Og ég hygg, að engin ríkisstj. hafi nokkurn tíma gert jafnlítið fyrir jafnmikið fé, og þar áttu núverandi stjórnarandstöðuflokkar sannarlega bróðurpartinn.

En þá tók nú við ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar. Til þess að unna þeirri stjórn sannmælis er skylt að geta þess, að með henni hefst stórfelldur innflutningur landbúnaðarvéla, stórra og smærri, og viðhorf allt til landbúnaðarins gerbreytist, svo að telja má til stórfelldari skyndibreytinga. Engum dylst, hvaðan alda sú var runnin, því að þessar breytingar gerði Framsfl. að ófrávíkjanlegu atriði fyrir samstarfi í þeirri ríkisstj.

En sú ríkisstj. tók upp annan sið, sem var öllu lakari. Þegar fjmrh. skorti fé til framkvæmda og eyðslu, tók hann lán á lán ofan. Viðskilnaður varð svo þannig, að ríkisstj. hafði safnað mikið á annað hundrað milljónum króna í skuldum, þar af um 100 milljónum í óreiðuskuldum. Lánstraustið var þrotið, framleiðslan við sjóinn stöðvuð, og ávísanir frá ríkisstj. fengust stundum ekki greiddar í bönkum. En þessi stjórn dó hins vegar ákaflega eðlilegum dauðdaga. Hún hafði lifað á lánum og dó þegar hún gat hvergi fengið lán.

Starf núverandi ríkisstj. er fyrst og fremst björgunar- og endurreisnarstarf. Þetta skilst mönnum því aðeins, að þeir gleymi því ekki, heldur hafi í huga, hvernig þróunin varð og við hverju ríkisstj. tók. Tveir stjórnmálaflokkar með gerólíkar og sumpart alveg andstæðar lífsskoðanir hafa knúizt til samstarfs um skeið vegna neyðarástands, sem auðnulitlar ríkisstjórnir höfðu leitt yfir þessa þjóð. - Þetta er ekkert aukaatriði, heldur mergur málsins, þegar dæma skal.

Ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar hafði með gálausri skuldasöfnun ausið út peningaseðlum, sem engin eðlileg verðmæti stóðu á bak við, og þannig hafði stj. Stefáns Jóhanns fellt krónuna í verði.

Fyrsta verk núverandi ríkisstj. var að skrá ísl. krónuna í samræmi við þetta verðfall, sem orðið var, og að koma skipunum þannig aftur á flot. Á þessa óumflýjanlegu neyðarráðstöfun benti Framsfl. fyrir og í kosningunum 1949. Bráðabirgðastjórn Sjálfstfl. hafði fallizt á hana eftir kosningarnar. Þessi ráðstöfun befur borið árangur, nema þar sem hörmulegur aflabrestur hefur valdið óviðráðanlegum óhöppum.

Næsta skrefið í björgunarstarfinu var að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs, — sem segja má að hafi verið auðgert, því að ríkissjóður hafði alls staðar misst lánstraust, — koma fjárhag ríkisins á réttan kjöl og endurreisa tiltrúna og lánstraustið. Þessi verk voru, jafnhliða því að koma skipunum á flot, grundvallaratriði allrar endurreisnarinnar.

Menn skyldu nú halda, að meginþungi ádeilunnar í þessum umræðum um fjárlögin væri, að skuldasöfnun hefði haldið áfram, tiltrú á fjárhag ríkissjóðs væri engin og hann á heljarþröminni, eins og áður var. Nei, þannig eru ádeilurnar ekki, því að það hefur hent slys — og að því er virðist stórslys. Þetta stórslys er það, að ríkissjóður er hættur að safna skuldum. Hjólið hefur ekki aðeins verið stöðvað, heldur hefur því verið snúið við. Stórslysið er það, að ríkissjóður hefur sennilega 50 millj. kr. í tekjuafgang á þessu ári. Hv. alþingismenn stjórnarandstöðunnar, sem höfðu komið öllu í botnleysu, virðast vera alveg yfirkomnir af áhyggjum út af þessu slysi, og þeir virðast ekki geta sofið út af áhyggjum yfir því, hvernig eigi að koma þessum milljónum í lóg og hvernig eigi að koma í veg fyrir, að svona ósköp endurtaki sig.

En það, sem fjármálastjórnin hefur reynt að gera sér ljóst, er það, að uppistaðan í björgunarstarfinu varð að vera endurreisn á fjárhag ríkissjóðs og trausti. Á því byggðist allt, og án þess var útilokað, að nokkurt björgunarstarf yrði unnið. Vegna endurreisnar á fjármálum ríkisins fengum við aukna Marshallaðstoð. Vegna trausts á fjármálastjórninni fengum við heimild til notkunar mótvirðissjóðsins og lán úr alþjóðabankanum til þess að ráðast í virkjanir við Sog og Laxá og til þess að reisa áburðarverksmiðju, framkvæmdir, sem munu kosta á fjórða hundrað millj. kr. og eru stærri en nokkrar íslenzkar framkvæmdir, sem gerðar hafa verið til þessa. Og þessar framkvæmdir eru gerðar af ríkisstj., sem tekur við, þegar allur auður þjóðarinnar er upp étinn, og í ofanálag tekur hún við stórskuldum, þar af um 100 millj. kr. í óreiðuskuldum.

En endurreisnin í fjármálum ríkissjóðs hefur gert fleira framkvæmanlegt. Stjórn Stefáns Jóhanns hafði á hátíðisdegi sjómanna lýst yfir, að hún mundi kaupa 10 togara, en stj. hans sá aldrei fyrir fé til að greiða þá. Eitt af verkum þessarar stj. hefur verið að greiða þessa togara, sem enginn gat keypt, nema meginið af kaupverðinu væri lánað.

Þessi ríkisstj. hefur orðið að sjá fyrir nokkrum milljónum króna vegna síldarkreppunnar. Þessi stjórn verður að greiða um 7 millj. kr. árlega á fjárl. vegna ábyrgðarvanskila, sem hlaðið hafði verið á ríkissjóð á undanförnum árum.

Þar sem sjávarafli hefur brugðizt fyrir norðan og vestan í tvö ár, hefur ríkisstj. gert ráðstafanir til að aðstoða sjávarþorp til kaupa á gömlum togurum og kosta nýtízku viðgerð á þeim. Þrátt fyrir það, hvernig komið var, er þessi stjórn tók við, hefur innflutningur landbúnaðarvéla ekki aðeins haldið áfram, heldur verið aukinn.

Með því fjármagni, sem Búnaðarbankanum var ætlað til útlána, hefðu framkvæmdir í landbúnaðinum stöðvazt. Vegna núverandi stjórnarstefnu hefur tekizt að útvega Búnaðarbankanum 15 millj. af gengisgróðanum, 15 millj. af tekjuafganginum í ár og 16–18 millj. að láni hjá alþjóðabankanum til útlána á næsta ári, eða á þremur árum um 50 millj. kr. Og þótt þessar 50 millj. kr. sé of lítið, er það jafnvíst, að ekkert af þessum 50 millj. til eflingar landbúnaðarframkvæmda hefði fengizt, ef eigi hefði verið gerbreytt um fjármálastefnu, þegar núverandi stj. tók við.

Af þessum sömu ástæðum er það, að til lána í húsbyggingar í kaupstöðum og kauptúnum verður nú varið um 12 millj. kr. úr ríkissjóði eða úr mótvirðissjóði, og er það meira fé en varið hefur verið í því skyni um lengri tíma.

Ég hygg, að við rólega umhugsun verði hv. þingmönnum og hlustendum ljóst, að ekkert verk í allri þessari keðju framkvæmda til endurreisnar var framkvæmanlegt, nema það byggðist á öruggri fjármálastjórn. Gildir þetta ekki aðeins um þær allt að 30 millj. kr., sem eru nú lagðar fram af tekjuafganginum í ár til endurbyggingar í sveitum og kaupstöðum, heldur er allt framkvæmdakerfið byggt upp, nú eins og endranær, út frá öruggri fjármálastjórn og því trausti, sem hún skapar.

Það er að mínu áliti þetta og þessi verk, sem fyrst og fremst réttlæta tilveru núverandi ríkisstj. En hér er aðeins talað um hin sérstæðari og óvenjulegri verk björgunarstarfsins og endurreisnarinnar, en einhver kynni að hugsa sem svo í fljótu bragði, að allt annað hefði nú verið látið sitja á hakanum og aðrar framkvæmdir svo að segja lagzt niður í tíð núverandi stj. Að minnsta kosti töluðu hv. stjórnarandstæðingar á þá leið um þessi mál í gærkvöld, og var meira að segja helzt svo að skilja, að ríkisstj. stöðvi framleiðsluna og framkvæmdir til þess að stofna til atvinnuleysis — viljandi. Sannleikurinn er þó auðvitað þessu andstæður.

Varðandi almennar framkvæmdir í landinu sýnist mér ekki úr vegi til að koma í veg fyrir misskilning í því efni að minna á ýmislegt, sem unnið hefur verið bæði af því opinbera og einstaklingum, meðan bessi stj. hefur setið, þ.e. á árunum 1950–51. Ég nefni aðeins staðreyndir samkvæmt opinberum skýrslum, en vera má, að þær bregði upp nokkuð annarri mynd af ástandinu að þessu leyti en stjórnarandstæðingar drógu upp í gærkvöld og oftar, þegar þeir hafa verið að tala um hina dauðu hönd ríkisstj. í atvinnulífi og framkvæmdum. Ég vil þá minna á það, að á þessum tveimur árum hafa verið byggðir 330 km af þjóðvegum og 33 brýr 10 metra og lengri, þ. á m. sumar langstærstu brýr landsins til þessa, en 32 styttri brýr. Jarðræktarskýrslur fyrir árið 1951 eru enn ekki fyrir hendi, en á árinu 1950 voru tekin út nálægt 2200 ha í nýrækt, 700 ha í túnasléttum, 250 km í girðingum, 30 km í handgröfnum skurðum, 37 km í lokræsum, fyrir utan kílræsi, 525 km í vélgröfnum skurðum, heyhlöður úr varanlegu efni, sem rúma eitthvað á annað hundrað þúsund hestburði af töðu, 11 þús. m3 í safnþróm og áburðarhúsum o.s.frv. Á árinu 1951 eru framkvæmdir þessar áreiðanlega sízt minni. Á þessum 2 árum hafa verið veitt fjárfestingarleyfi samtals fyrir 1060 íbúðum í sveitum og bæjum, og má gera ráð fyrir, að unnið hafi verið að þeim flestum. Framlengingarleyfi eru hér ekki talin. Veitt hafa verið á sama tíma ný leyfi fyrir 2000 útihúsum í sveitum. Fyrir utan hinar stóru virkjanir við Sog og Laxá er nú byrjað að vinna að þremur öðrum almennum virkjunum, lagningu rafleiðslna á ýmsum stöðum, en allmargir bændur hafa komið upp einkarafstöðvum. Unnið hefur verið að byggingu á 6 nýjum og stórum sjúkrahúsum, þótt ekki séu taldar viðbyggingar og endurbætur og ekki heilsuverndarstöðin, sem Reykjavíkurbær hefur í byggingu. Enn fremur hefur verið unnið að nokkrum skólahúsum og félagsheimilum, lagðar símalínur engu minna en áður. Að hafnargerðum og lendingarbótum hefur verið unnið á 40–50 stöðum hvort ár fyrir sig, og veitt hafa verið leyfi fyrir nálægt 70 nýbyggingum í þágu iðnaðarins úr innlendum hráefnum, einkum sjávarafla, og má þar sérstaklega nefna fiskimjölsverksmiðjur og fiskverkunarstöðvar, einkum fyrir saltfisk, svo og mjög miklar nýbyggingar vegna ullariðnaðar, sem unnið hefur verið að á þessum árum. Á árinu 1951 var veitt leyfi fyrir um 60 saltfiskþurrkunarkerfum, sem sett voru upp ýmist í nýjum húsum eða eldri húsum með breytingum vegna breyttra markaða. Á sama tíma hafa verið veitt ný leyfi fyrir 27 nýbyggingum í öðrum iðngreinum. Fiskiflotinn hefur á þessum árum verið aukinn um 10 togara, sem að vísu voru keyptir áður en þessi ríkisstj. tók við, en það hefur komið í hennar hlut að sjá um greiðslur. Kaupskipaflotinn hefur verið aukinn um 3 skip, en 2 eða fleiri eru í smíðum. 2 skip hafa bætzt við landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi.

Sú upptalning, sem ég hef gert hér, er lausleg og engan veginn tæmandi, en hún gefur þó nokkra hugmynd um, að ekki hafa framkvæmdir verið látnar niður falla hér á landi á þessum tíma, hvað svo sem geipað er um þau efni af stjórnarandstöðunni.

Geta má þess, að brúttófjárfestingin, þ.e. að meðtöldu viðhaldi, árið 1951 er áætluð 600 millj. kr., eða nálægt 1/3 af þjóðartekjunum.

Samstarfsmöguleikar í þessari ríkisstj. voru og eru takmarkaðir, eins og ég sýndi áðan fram á, vegna ólíkrar lífsstefnu þeirra flokka, sem að henni standa. En þessi ríkisstj. hefur margt vel unnið á því sviði, sem henni var frá upphafi afmarkað. Okkur framsóknarmönnum kom aldrei til hugar, að samstarf gæti orðið milli Framsfl. og Sjálfstfl. um ýmis umbótamál. Við framsóknarmenn höfum einatt sagt kjósendum okkar þetta bæði fyrir kosningar og eftir þær. Allt um þau atriði var okkur framsóknarmönnum ljóst áður en samstarfið hófst, og á þeim sviðum hefur samstarfsflokkurinn hvorki reynzt betur eða verr en við bjuggumst við.

Mannalæti verkamannaflokkanna eru oft furðuleg, þegar þeir tala um núverandi ríkisstj. og íhaldssemi hennar. Þeir hæla sér af umbótamálum, sem þeir hafi komið fram í stjórnarsamstarfi við stríðsgróðamennina. Jú, rétt er það, í stjórnartið verkamannaflokkanna var í þá fleygt í formi umbátamála krónu og krónu af spilaborði stríðsgróðans til þess að friða þá og veita auðmönnunum næði til að raka úr sama borði 99 kr. af hverjum 100. Og sum af þessum umbótamálum, eins og kaflinn um heilsuspillandi íbúðir og kaflinn um heilsuvernd, voru ekki haldbetri en það, að þeim var frestað með nýjum lögum að tilhlutun þeirra flokka, sem ákvæðin settu, áður en þau komu til framkvæmda.

Við álítum hins vegar einatt, að Framsfl. og heiðarlegur, lýðræðissinnaður verkamannaflokkur gætu saman unnið stórvirki í þessu landi.

En þessar umræður virðast ekki benda á vaxandi líkur fyrir slíku samstarfl.

Afstaða Alþfl. er furðuleg í þessu efni, því þótt hann sé í öðru orðinu að dangla í Sjálfstfl., er öllum vitanlegt, að vilji ráðandi manna í flokknum stendur til þess eins, að Alþfl. stækki eða þó fremur Sjálfstfl. vaxi svo, að þessir tveir flokkar fái meiri hluta á Alþingi og geti myndað ríkisstjórn saman. Í einu og sama eintaki Alþýðublaðsins eru stundum óvildargreinar um bændur á forsíðu, baksíðu og innan í og eru vitanlega skrifaðar til þess að ala á óvild milli kjósenda Alþfl. og bænda, en koma í veg fyrir samúð, sem leitt gæti til samstarfs. Þið heyrðuð ræðu hv. alþm. Haralds Guðmundssonar í gærkvöld, hún var af sama toga spunnin. Þessi rógur milli stétta er alltaf skaðlegur og viðurstyggilegur — ekki sízt þegar rangfærðar eru tölur til þess að falsa myndina.

Næstum helmingur af upphæðinni á fjárlögum til landbúnaðarins er greiðsla vegna fjárpestanna og niðurskurðar vegna þeirra, hliðstætt niðurskurði, sem annars staðar er framkvæmdur vegna gin- og klaufaveiki og alls staðar greiddar skaðabætur fyrir. Næsthæsta fjárhæðin er jarðræktarstyrkurinn, sem margar þjóðir greiða og viðurkenna þar með, að ræktunin er ekki aðeins fyrir bóndann, sem framkvæmir hana, heldur fyrir komandi kynslóðir. Nú er því minni ástæða til að telja þetta eftir, því að jarðræktarstyrkurinn er ekki fyrir fræinu í sáðslétturnar.

En fyrst ég er neyddur til að taka þátt í þessum metingi milli stétta, má benda á, að iðnaður er talinn annars staðar gróðavænlegasti atvinnuvegurinn. Og enn fremur, að nú erum við að verja okkar dýrmæta og ódýrasta fjármagni á 4. hundrað milljónum til þess að byggja aflstöðvar, sem ekki sízt koma iðnaðinum að liði, auk áburðarverksmiðjunnar, sem talin er opna margháttaða möguleika fyrir nýjan iðnað.

Ef litið er til sjávarútvegsins, kemur í ljós, að samkvæmt reikningsaðferð hv. alþm. Haralds Guðmundssonar ætti að. telja kostnað við landhelgisgæzlu 9 millj. framlag til sjávarútvegsins, einnig 7 millj. kr. árlegt tap á ábyrgðum, sem eru vegna framkvæmda við sjávarsiðuna. Þá ætti þar og að telja framlag vegna síldarkreppu, þótt ekki sé á fjárlögum, tap bankanna vegna sjávarútvegsins, er leggur stórskatt á aðra landsmenn, — að ógleymdum bátagjaldeyri, sem leggur skatta á landsmenn, er nema nokkrum tugum milljóna. — Við framsóknarmenn erum ekki að telja þetta eftir. En þetta er dregið fram til þess að sýna, hve heiðarleg myndin var, sem Haraldur Guðmundsson dró upp, — og menn eiga jafnframt að geta gert sér það ljóst, hvert Alþfl. stefnir, hve auðvelt það muni vera fyrir Framsfl. að ná samstarfi við hann, þegar jafnvel hv. alþm. Haraldur Guðmundsson talar svona, eftir að mörgum hinna blindu er þó að verða ljóst, að hröð efling landbúnaðar er eina leiðin til þess, að þjóðin geti lífað í landinu.

Eftir yfirlýsingu hv. alþm. Ásmundar Sigurðssonar í útvarpinu hér í gærkvöld um utanríkismál þarf víst enginn að vera í efa um það, að Sameiningarflokkur alþýðu setur drauminn um alheimsríki kommúnismans ofar öllu samstarfi um innlend umbótamál.

Ég vil að lokum fagna þeirri yfirlýsingu hv. alþm. Jóns Sigurðssonar, að ef bændafulltrúarnir í Sjálfstfl. séu sammála, muni Sjálfstfl. í heild fara eftir því. Allt of oft höfum við séð bændafulltrúa Sjálfstfl. á þingi greiða atkvæði með landbúnaðarmálum, en hinn hluta flokksins beita atkvæðavaldi til þess að fella þau mál með verkamannaflokkunum. Yfirlýsing hv. alþm. Jóns Sigurðssonar tek ég sem yfirlýsingu um nýja og betri vinnuaðferð flokks hans. Ég fagna þessari yfirlýsingu. Hér eftir verður væntanlega léttara fyrir fæti um málefni bænda en okkur framsóknarmönnum hefur stundum fundizt til þessa.