13.12.1951
Sameinað þing: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Erlendir stjórnmálamenn hafa stundum sagt við mig, að þeir öfundi mig af að vera frá Íslandi, sem væri svo langt frá harki heimsviðburðanna, fólkið þar friðsamt og viðfangsefnin viðráðanleg vegna fámennis þjóðarinnar.

Ég hef svarað þessu svo, að reynslan sýndi, að ólga heimsstjórnmálanna næði einnig til okkar fjarlæga lands; Íslendingar væru ekki síður ósammála en aðrir menn, svo að sízt væri erjuminna að fást við stjórnmál á Íslandi en annars staðar, enda væru viðfangsefnin hér í höfuðatriðum hin sömu og hjá öðrum þjóðum. Um sumt væri að vísu betra að fá yfirlit í okkar litla þjóðfélagi en hjá stórþjóðunum, en vegna smæðarinnar skorti okkur oft sérfræðinga og þær undirstöðurannsóknir, sem rétt úrlausn yrði reist á. En auk þess hefðum við sökum fámennis þjóðarinnar, landshátta og aðstæðna allra við ýmsa örðugleika að etja, sem hinar smærri þjóðir kæmust hjá.

Ég minnist þess, að eitt sinn lauk slíku tali á þá leið, að hinn elzti og reyndasti þeirra, er viðstaddir voru, sagði, að mennirnir væru svo skapi farnir, að þeir hefðu ætíð og alls staðar talið sjálfa sig hafa við alveg sérstaka örðugleika að etja.

Hvað sem um það er, hvort Íslendingar eiga við meiri eða minni örðugleika að etja en aðrir, þá er það augljóst, að vegna ólíkra aðstæðna verðum við Íslendingar að leysa sum mál á annan veg en flestar aðrar þjóðir.

Eitt höfuðverkefni hvers ríkis er t.d. það að veifa borgurunum vernd gegn ofbeldisárásum. Reynslan sýnir, að í stórstyrjöld verðum við nú að vera búnir við slíkri árás frá erlendu herveldi. Í nýútkomnu riti um hernaðaráætlanir Hitlers, sem byggt er á frumheimildum, segir frá því, að sumarið 1940 hafi það verið ætlun Hitlers að hernema Ísland til þess að geta hert á hafnbanninu gegn Englandi, og voru þær ráðagerðir svo langt komnar, að þeim var getið sérstakt nafn og kallaðar „Ikarus“. Úr þeim varð þó ekki, vegna þess að Raeder flotaforingi lýsti hinn 20. júní yfir, að þær væru óframkvæmanlegar.

Það dylst ekki, af hverju Þjóðverjar töldu það óframkvæmanlegt að taka Ísland í júní 1940. Það var vegna þess, að Bretar voru þá búnir að koma upp vörnum í landinu. Ef Hitler hefði jafnskjótt og hann réðst á Noreg ráðizt á Ísland, hefði hann getað tekið landið viðstöðulaust. Óhugsandi er hins vegar annað en að Bretar hefðu reynt að hrekja Þjóðverja héðan og ná landinu. Þá mundi vafalaust hafa verið barizt um landið og í landinu. Nú mundi árásarríki vitanlega hafa lært af reynslu Hitlers og reyna að taka landið á meðan það væri varnarlaust, ef svo væri, þegar stríð skylli á.

Sjálfsagðasta ráðið til að draga úr slíkri hættu er það að sjá Íslandi — eins og öllum öðrum löndum - fyrir vörnum á sérstökum hættutímum.

Vegna fámennis okkar getum við ekki gert þetta sjálfir, svo að fullnægjandi sé. Þess vegna verðum við að hafa samvinnu við aðrar okkur vinveittar þjóðir. Af þessum sökum gengum við í Atlantshafsbandalagið og höfum nú gert varnarsamninginn við Bandaríki Norður-Ameríku innan ramma Atlantshafsbandalagsins, hvort tveggja með samþykki meginþorra þjóðarinnar, enda dylst engum óblindum manni, að nú eru óvenjulegir hættutímar í alþjóðamálum.

Andstæðingar þessara framkvæmda eru fyrst og fremst mennirnir, sem blygðunarlaust hafa sagt, að á Íslandi mætti skjóta án miskunnar, ef það kæmi Rússum að gagni, mennirnir, sem halda hér uppi flokksstarfsemi með beinni aðstoð erlends stórveldis, sem sannanlega hefur haft sérstakan áhuga fyrir hernaðarþýðingu Íslands, allt frá því Lenin lýsti henni á Kominternfundi 1920. En heilindi þessara manna má marka af því, að þeir láta svo sem tilgangurinn með vörnum Íslands sé sá, að héðan eigi að gera árásir á Rússland. Hernaðarþýðing Íslands geti engin önnur verið en að vera slík árásarstöð á Austur-Evrópu.

Hitler var einlægari en þessir menn. Hann ráðgerði ekki töku Íslands vegna þess, að hann óttaðist, að árás yrði gerð frá Íslandi á Þýzkaland eða meginland Evrópu. Hann sagði berum orðum, að það væri til þess að einangra Bretland, sem hann vildi ná tangarhaldi á Íslandi. Hernaðarþýðing Íslands verður auðvitað hin sama í framtíðinni, þ.e. fyrst og fremst til verndar samgönguleiðunum yfir Atlantshaf, og sú þýðing breytist ekki, á meðan Bretland heldur velli.

Það er einnig alger fjarstæða, sem fullyrt befur verið hér, að til mála komi, að Bandaríkin hverfi frá flugstöðvum þeim, er þau hafa í Bretlandi, vegna hættunnar, sem sú skipun skapi um árás á England, og þá yrði slíkum stöðvum e.t.v. komið upp á Íslandi. Fyrirspurn um brottflutning stöðvanna svaraði Churchill í neðri deild brezka þingsins hinn 21. nóv. s.l. á þessa leið:

„Þeirri skipan, sem nú er, mun haldið, á meðan hennar er þörf vegna heimsfriðar og öryggis.“

Þetta þarfnast ekki frekari skýringa. Kommúnistar vita og jafnvel sem aðrir, að á Íslandi eru engar árásarstöðvar og enginn viðbúnaður til að koma þeim upp.

Auðvitað láta aðrar þjóðir sér annt um varnir Íslands fyrst og fremst vegna sinna hagsmuna.

Öllum hinum frjálsu, vestrænu lýðræðisríkjum er hætta búin af varnarleysi Íslands. Sú hætta er þó mest og örlagaríkust fyrir okkur Íslendinga sjálfa. Það var því vegna ríkrar nauðsynjar íslenzku þjóðarinnar, sem varnarsamningurinn var gerður á s.l. vori og hefur nú verið samþykktur formlega á Alþingi í andstöðu við kommúnista eina, og sýndu hrakyrði Ásmundar Sigurðssonar í garð íslenzkrar æsku hér í umræðunum í gær vel gremju þeirra félaga yfir einangrun sinni. Var því ekki að undra, að hann reyndi að hressa hið hrellda lið sitt með drýgindalegu skrafi um, að bráðum muni þeir hrifsa hér völd í skjóli sinna rússnesku húsbænda.

Ef slíkt ok yrði lagt á þjóðina, mundi mjög horfa öðruvísi en nú. Því oki yrði ekki af létt með eigin ákvörðun Íslendinga, eins og er um varnarsamninginn.

Það er alveg undir okkar eigin vilja og ákvörðun komið, hversu lengi samningurinn gildir. Brynjólfur Bjarnason sagði — aldrei þessu vant — alveg satt á útifundi kommúnista 16. maí í vor, er hann benti á, að andstæðingar samningsins þurfa ekki annað en að sannfæra meiri hluta þjóðarinnar um, að samningurinn sé okkur til ófarnaðar, þá er hægt að fella hann úr gildi með einhliða ákvörðun íslenzkra stjórnvalda, hvenær sem er, með hæfilegum fyrirvara.

Brynjólfur þóttist hafa gert mikla uppgötvun, er hann skýrði frá þessu, og kom það auðsjáanlega mjög á óvart, að samningurinn væri okkur svo hagkvæmur. En ekkert sýnir betur en uppsagnarákvæðið, að samningurinn er gerður milli frjálsra og jafnrétthárra aðila.

Slíkur hugsunarháttur frjálsræðis og jafnréttis er kommúnistum óskiljanlegur, og vist er um það, að þær þjóðir Austur-Evrópu, sem orðið hafa að sæta kúgun voldugs nágranna, líta öfundaraugum til einnar minnstu þjóðar heims, er svo hagkvæmum samningi hefur náð við mesta lýðveldi veraldarinnar.

Því hefur verið haldið fram af kommúnistum, að varnarsamningurinn hafi verið gerður vegna þess, að Keflavíkursamningurinn mundi hafa fallið úr gildi við þá breyttu stjórn á Þýzkalandi, sem nú er ráðgerð, en sá samningur var bundinn við herstjórn og eftirlit Bandaríkjanna þar. En ákvæðunum um Þýzkaland stendur alls ekki til að breyta að þessu leyti, og hefði gildi Keflavíkursamningsins því alls ekki haggazt af þeim ástæðum. Hitt er allt annað mál, að Þjóðverjar vilja eins og nú horfir alls ekki missa lið Bandaríkjanna úr landi sínu. Bretar og Frakkar hafa og látið þau fá margar herstöðvar í löndum sínum.

Auðvitað eru þó hvarvetna annmarkar samfara dvöl erlends varnarliðs, ekki aðeins fyrir þann, sem tekur á móti liðinu, heldur einnig fyrir hinn, sem sendir liðið. En í slíkt tjáir ekki að horfa, ef takast á að skapa það jafnvægi, sem varðveitt geti heimsfriðinn.

Af öllu skrafi kommúnista er einna ömurlegast að heyra þá frýja okkur hugar með því, að styrjöld hafi ekki brotizt út. Vera kann, að það séu þeim vonbrigði, um það skal ég ekkert segja, en hitt er víst, að varnarráðstafanir hér og í öðrum frjálsum löndum miða allar að því að koma í veg fyrir stríð, og er það einlæg von okkar, að svo takist, og er vissulega mikið á sig leggjandi, til þess að það megi verða.

Annmarkarnir við dvöl erlends varnarliðs verða að vísu meiri hér á landi vegna fámennis þjóðarinnar, en ekki má gleyma hinu, að við sleppum að mestu leyti við þær miklu fjárhagslegu byrðar, sem aðrar þjóðir taka á sig til að tryggja varnir landa sinna. Frændur okkar Norðmenn taka t, d. á sig sem svarar því, að Íslendingar greiddu a.m.k. 90 millj. kr. á ári í þessu skyni. Auðvitað er það á okkar valdi, ef við viljum sjálfir taka einhvern þátt í vörnum landsins, en aldrei hefur verið farið fram á það við okkur, hvað þá heldur meira, af bandamönnum okkar, að við legðum sjálfir fram lið eða tækjum þátt í kostnaði umfram það, sem ákveðið er í varnarsamningnum, og kostnað við sameiginlegar stofnanir bandalagsins, eins og fram kemur í fjárlögunum.

En við höfum líka í nóg önnur horn að líta. Stærð landsins og fámenni þjóðarinnar gerir það að verkum, að við verðum að balda uppi hlutfallslega mjög kostnaðarsömum samgöngum og leggja í margháttaðar verklegar framkvæmdir og menningarstofnanir, sem verða okkur þungbærari en gerist í þéttbýlli löndum.

Það er auðvitað einnig hlutfallslega miklu kostnaðarsamara fyrir svo fámenna þjóð að halda uppi ríkisskipun en hinar fjölmennari. Þennan kostnað viljum við þó umfram allt bera, enda hefur reynslan sýnt okkur, að hann margborgar sig, einnig fjárhagslega, þegar allt kemur til alls.

Hitt er annað mál, að löngum hefur við brunnið hér á landi, að þegar við höfum tekið ný mál í okkar eigin hendur, hafa sumir í fyrstu býsnazt yfir kostnaðinum af þeim, svo sem einstaka maður gerir nú um utanríkismálin.

Óhætt er þó að fullyrða, að engin starfræksla ríkisins borgar sig beinlínis betur en þessi. Margháttuð milliganga í viðskipta- og verslunarmálum og alþjóðasamtökum sannar þetta svo, að ekki verður um villzt. Reynt er að gera það tortryggilegt, að hátt kaup þurfi að borga þeim mönnum íslenzkum, er að þessum störfum vinna erlendis. Í þeim efnum tjáir þó ekki að miða við greiðslur til embættismanna hér innanlands. Miða verður við hætti á þeim stað, er þessir starfsmenn vinna verk sín.

Þegar við hugleiðum það, að gögn liggja fyrir um, að uppihald fyrir einn stúdent kostar í sumum löndum kringum 50000 íslenzkar krónur, þá er ekki óeðlilegt, að nokkuð háar fjárhæðir þurfi til þess að halda uppi erindrekum íslenzka ríkisins, sem vitanlega verða að vera þar með fjölskyldu sinni og búa við svipuð kjör og þeir menn, er þeir hafa daglegan umgang við í starfi. Dvöl í ókunnum löndum um tiltölulega skamma hríð hlýtur ætíð að hafa í för með sér meiri kostnað en vera í heimahögum.

Stéttamunur og tekju er í flestum eða öllum löndum miklu meiri en hér á landi þekkist. Þess vegna hafa þeir menn, er að þessum eða svipuðum störfum starfa erlendis, miklu hærri laun en hér á landi tíðkast. Munurinn í þessum efnum frá því, sem hér er, er þó hvergi meiri en í Sovét-Rússlandi, enda mundi kostnaðurinn við að halda uppi sérstöku sendiráði þar með aðeins einum útsendum sendifulltrúa nú vera nærri einni millj. kr. Því mikla fé mundi alveg vera á glæ kastað, þar sem Rússar vilja engin verzlunarskipti við okkur eiga — eftir frásögn hv. þm. Áka Jakobssonar, sem er manna handgengnastur rússneskum stjórnvöldum — vegna þess, að þeim líkar ekki sú ríkisstj., sem Íslendingar hafa valið sér.

Hinn mikli jöfnuður, sem hér er á lífskjörum manna, og algert jafnræði stéttanna gagnstætt hinum mikla stéttamun, sem í öðrum löndum tíðkast, gerir íslenzkt þjóðfélag frábrugðið flestum eða öllum öðrum.

Auðvitað þurfum við margt að læra af erlendum þjóðum. En víst er um það, að meginhlutinn af hinum sósíalistísku og kommúnistísku kenningum um það, hvernig eigi að koma á jöfnuði innan þjóðfélagsins, lætur undarlega í eyrum okkar Íslendinga.

Í kommúnistísku þjóðfélagi er ekki aðeins miklu meiri tekju- og lífskjaramunur en þekkist hjá okkur, heldur sýnir reynslan, að efnahagsog stjórnarkerfi þvílíks þjóðfélags verður því aðeins haldið uppi, að 5–10% af íbúunum séu hnepptir í fangabúðir og látnir þræla þar við þau kjör, sem vissulega eru ekki mönnum sæmandi.

Hinn mikli jöfnuður, sem hér ríkir, er ein helzta prýði og stolt íslenzku þjóðarinnar. En við verðum þó að gæta þess, að ekki sé gengið svo langt, t.d. með harkalegri skattalöggjöf, að hvötin til að brjótast í framkvæmdum og leggja sig fram í starfi sé að miklu leyti tekin frá mönnum. Eins verða menn að hafa það í huga, að heilbrigð söfnun fjármuna hjá einstaklingum og fyrirtækjum er undirstaða þess, að atvinnurekstur geti gengið með sæmilegu öryggi, eðlileg þróun hans og vöxtur geti átt sér stað, svo að atvinnuleysi skapist ekki, því að vissulega verður að keppa að því að halda uppi sem allra almennastri vinnu. Hinn mikli jöfnuður kemur hvergi betur fram en í þeirri staðreynd, sem Haraldur Guðmundsson benti á í gær, að þrátt fyrir svo háa beina skatta, þ.e. tekjuskatt og stríðsgróðaskatt, að engum dettur í hug, að þá sé hægt að hækka, þá nema tekjurnar af þessum sköttum aðeins litlum hluta ríkisteknanna, hinu verður að ná með óbeinum, almennum sköttum.

Fjármagnsleysi atvinnurekenda hefur nú þegar orðið til þess, að ríki og bæjarfélög hafa ráðizt í ýmiss konar framkvæmdir hér á landi, sem viðast annars staðar eru í höndum einstakra manna. Í sjálfu sér er ekkert við þessu að segja, ef þetta er eina ráðið til, að nauðsynlegar framkvæmdir séu gerðar, og þessir aðilar geta rekið atvinnutæki sín í samkeppni við aðra. Hættan kemur, þegar krafizt er einokunar, hafta og banna eða áætlunarbúskapar í því formi, sem við höfum nokkuð fengið smjörþefinn af á undanförnum árum.

Íslenzkir atvinnuhættir eru þannig, að það getur aldrei blessazt til lengdar að láta nefndir víðs fjarri vettvangi hins daglega lífs kveða á um, hvað hver og einn megi gera. Í þessu kemur fram aðalhættan af jafnaðarstefnunni, sú, að skrifstofuvaldið kveði niður sjálfan lífsþróttinn, hugmyndaauðgina og framkvæmdarviljann, sem hlýtur að vera undirstaða allra framfara. Það verður aldrei fundið út með neinum áætlunum eða skipulagt, í hvaða ungum manni felist dugurinn til að ryðja nýjar brautir sjálfum sér og öðrum til gæfu og gengis. Þjóðfélaginu verður að haga þannig, að slíkir menn hafi athafnamöguleika og séu ekki kveðnir í kútinn af stofulærðum spekingum, sem í sínum þægilega skrifstofustól þykjast hafa vit á öllum hlutum. Það er alltaf hægt að jafna metin eftir á, en voðinn er vís, ef allir eru hnepptir í viðjar, svo að enginn geti hreyft sig sjálfum sér og öðrum til bjargar.

Höftin voru að vísu óhjákvæmileg, á meðan menn fengust ekki til þess að skrá rétt gengi krónunnar. Með rangri skráningu íslenzku krónunnar var haldið uppi falskri kaupgetu á erlendum vörum, þar sem þjóðin hafði alls ekki efni á að kaupa svo mikið af þeim sem fá hefði mátt, ef þær hefði verið unnt að borga með hinni íslenzku krónu. Þess vegna varð að hindra það með ströngum höftum, að menn gætu fengið keyptar þær vörur, sem þeir ímynduðu sér, að þeir hefðu peninga til að kaupa. Þeim, sem innflutningsleyfi fengu, voru hins vegar veitt stórkostleg hlunnindi, og þótt reynt væri að draga úr þeim með verðlagsákvæðum, varð afleiðingin sú, að svartur markaður, brask og margs konar óviðráðanleg lögbrot áttu sér stað. Mátti raunar jafna þessari úthlutun við hreina peningagjöf til þeirra, er hlutu, og má nærri geta, hvernig andrúmsloft skapaðist umhverfis slíka starfrækslu.

Spillingin, sem þessu var samfara, var mikil og eitrandi fyrir allt þjóðlífið, og Alþýðuflokksmenn ættu að þekkja það manna bezt, að því fór fjarri, að sú spilling væri eingöngu eða fyrst og fremst bundin við verzlunarstéttina. Þar komu miklu fleiri til greina.

Þessu ástandi varð haldið um hríð, en ekki til lengdar. Gengisfelling var því óhjákvæmileg. Alþýðuflokksmenn víssu það ekki siður en aðrir. Ef þeir hefðu haldið áfram að vera í stjórn, hefðu þeir vissulega, nauðugir — viljugir, orðið að gera þessar ráðstafanir. Enda fer því fjarri, að lífskjör Íslendinga hafi vegna gengisbreytingarinnar orðið lakari en í þeim þjóðfélögum, þar sem jafnaðarmenn ráða. Á árinu 1950 var neyzla á mann t.d. svipuð á Íslandi og í Noregi, og vita þó allir, að Noregur er miklu ríkara land en Ísland. Hitt er einnig óumdeilanlegt, að atvinnuleysi og hrun hefði orðið hér, ef gengið hefði lengur verið rangt skráð. Andstæðingar gengisbreytingarinnar reyna að afsaka sig með því, að þrátt fyrir hana hafa skapazt nokkrir örðugleikar. — Auðvitað voru ekki öll vandamál leyst með henni. Aflaleysi, illt tíðarfar og annað fleira segir að sjálfsögðu til sín eftir sem áður. Eins er það, að vissir örðugleikar hljóta að koma í ljós, þegar innlendur iðnaður verður að keppa við erlendan. En auðvitað var ekki endalaust hægt að halda uppi innlendum iðnaði með því að banna alla samkeppni við hann. Í þessu þarf að leita hins rétta meðalhófs, og vitanlega verður að halda þeim iðnaði, sem með nokkru sanngjörnu móti fær staðizt, og víst er um það, að við sjálfstæðismenn munum gera allt, sem í okkar valdi stendur, til að koma í veg fyrir böl atvinnuleysisins.

Alþýðuflokksmenn og raunar stundum einnig sumir framsóknarmenn, sbr. ummæli samráðherra míns, Hermanns Jónassonar, áðan, láta að vísu svo sem Sjálfstfl. vinni einungis fyrir þá ríku, auðmennina í þjóðfélaginu, vegna þess að þeir ríku séu flestir innan hans vébanda. Mér sýnist nú að vísu, og þarf ekki að horfa langt til að sjá það, að menn geti orðið loðnir um lófana í hvaða flokki sem þeir eru. Þeir kunna sumir í Alþfl., Kommúnistafl. og Framsfl. að koma sér vel fyrir, ekki síður en sjálfstæðismenn.

Íslendingar eru ekki svo heimskir menn, að fleiri þeirra kjósi Sjálfstfl. en nokkurn hinna flokkanna af því, að flokkurinn vinni gegn hagsmunum fjöldans, heldur af hinu, að fjöldinn finnur, að flokkurinn vinnur honum til framdráttar.

Það er óneitanlega dálítið skrýtið, þegar ónefndir menn í litlu flokkunum, og þá ekki sízt Alþfl., tala eins og þeir óhreinki sig af því að vinna með Sjálfstfl., og brá hinu sama raunar fyrir í ræðu Hermanns Jónassonar.

Þeir menn, sem eru svo fínir eða andvígir fjárgróða eins og ónefndir framsóknarmenn, að þeir geta ekki unnið með fjöldanum mikla, sem er í Sjálfstfl., ættu sem fyrst að draga sig út úr stjórnmálum, áður en þeir verða að algerum steingervingum. Á meðan kjósendafylgi breytist ekki verulega frá því, sem verið hefur nú í mörgum kosningum, verða fjölmörg hagsmunamál bændastéttarinnar ekki leyst nema með samstarfi Sjálfstfl. og Framsfl. og fjölmörg bagsmunamál verkalýðsins ekki nema með vissu samstarfi Sjálfstfl. og Alþfl. Til slíks samstarfs þarf engin hrossakaup að gera við Sjálfstfl., ef það miðar að þjóðarheill, því að um hana er Sjálfstfl. auðvitað ekki síður annt en sérhagsmunaflokkunum, og vissulega er það t.d. þjóðarnauðsyn að verjast sauðfjárpestinni, en til þeirra varna hefur farið sú aukning á framlögum til landbúnaðarins, sem Haraldur Guðmundsson talaði um. Eða hvernig dettur Alþýðuflokksmönnum í hug að tala um sjálfstæðismenn sem óvini verkalýðs og alþýðu til sjávar og sveita, þegar það er auðsætt, að miklu fleira af þessu fólki er í Sjálfstfl. en Alþfl., og þegar Alþýðuflokksmenn vita, að eina ráðið til að forða verkalýðssamtökunum frá kommúnistum er, að samvinna í verkalýðsmálum eigi sér stað milli þessara flokka?

Auðvitað eru lýðræðisflokkarnir ósammála um margt, en það er bezt að gera sér í allrí vinsemd öfgalaust grein fyrir, hvar hver og einn stendur og hvers hann er megnugur. Stór orð og ráðagerðir, sem stangast á við allan veruleika, hefna sín oftast furðu fljótt. Slíkir orðhákar og ráðagerðasmiðir lenda oftast sjálfir í þeirri gröf, er þeir ætluðu öðrum, enda eru t.d. framsóknarmenn farnir að finna það, að nartið, sem málgögn þeirra eru sífellt með í sjálfstæðismenn, svipað því, sem Hermann Jónasson var með, bitnar ekki á þeim, heldur fyrst og fremst á framsóknarmönnum sjálfum, svo sem berlega kom fram í Mýrasýslukosningunni í sumar og fréttir berast um hvarvetna að af landinu.

Gagnrýnin er að vísu nauðsynleg, og þar sem við erum allir mannlegir, má margt að okkur finna. En því auðveldara ætti að vera að halda sér við sannleikann og láta lygina kommúnistum einum eftir, því að hún er eina ívafið, sem þeir eiga eftir í sínum ljóta svikavef, þar sem Rússadekrið hefur ætíð verið uppistaðan. En til alls annars verður að ætlast af þeim stjórnmálaflokkum, sem af íslenzku bergi eru brotnir og starf sitt miða við íslenzk a hagsmuni. Við, sem í stjórnmálum stöndum, verðum að vísu flestir svo harðhúðaðir, að ósannindavaðallinn, úr hvaða átt sem hann kemur, fær ekki á okkur. En íslenzka þjóðin hefur vissulega nóg að deila um, næga örðugleika við að etja, þótt við búum okkur ekki til deilumálin og örðugleikana að ástæðulausu. Til slíkra tilbúinna örðugleika verður óneitanlega að telja svo skrýtna og einhliða sagnfræði sem hæstv. samráðh. minn, Hermann Jónasson, bar hér á borð um fyrrv. ríkisstjórnir. Mætti verja löngum tíma til að leiðrétta ýmislegt, sem hann sagði þar. Til þess er ekki tími nú, enda tel é,g þessa eilífu deilu um það, sem liðið er, einna ófrjóastan þátt íslenzkra stjórnmála. Sagan dæmir um það, sem liðið er, en sannleikurinn er sá, að allur tíminn frá stríðslokum er óslitið tímabil stórfelldra framkvæmda og umbóta. Vitanlega hefur sumt farið lakar en skyldi, en nú skiptir ekki mestu máli að deila skini og skuggum í því liðna, heldur er aðalatriðið nú og í framtíðinni að þoka góðum málum fram. Margt fer að vísu aflaga, en mikið hefur sannarlega áunnizt. Erfiðleikarnir mega ekki verða til hindrunar, heldur til hvata um enn harðari sókn íslenzku þjóðinni til framdráttar og vegsauka.

Við megum aldrei gleyma þeim orðum þjóðskáldsins, að

„fjör kenni oss eldurinn, frostið oss herði,

fjöll sýni torsóttum gæðum að ná“.