13.12.1951
Sameinað þing: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. fjmrh. var heldur vandræðalegur í svörum sínum um afstöðuna til fyrrverandi ríkisstj., til þeirrar ríkisstj., sem hann sat sjálfur í um þriggja ára skeið og vegsamaði þá, eins og ræður hans bera enn með sér, en hæstv. forsrh., Steingrímur Steinþórsson, gaf aftur þá lýsingu á, að hefði skilið við allt í öngþveiti. Það var eðlilegt, að hæstv. ráðh. væri vandræðalegur, og það bætti ekki úr skák, að Hermann Jónasson sagði, að fjármálastefna þeirrar stjórnar hefði verið stórhættuleg og að hún hefði setið, meðan hægt var að fá lán, en þegar lánin þrutu, hefði hún gefizt upp. — Ætli það fari ekki eins fyrir núverandi ríkisstj. og þeirri fyrri? Þegar hún getur ekki lengur fengið erlend lán til að framfleyta sér, ekki lengur lífað á erlendum fégjöfum, þá gefist hún upp, — þá stökkvi flokkarnir, sem að henni standa, í sundur og efni til kosninga.

Enn þá reyndi hæstv. fjmrh. að fullyrða það, sem ég læt honum eftir að fá menn til þess að skilja almennt, að það geti bætt úr fjárhagsþörf atvinnuveganna að hækka ár frá ári þær fjárhæðir, sem innheimtar eru af atvinnuvegunum, og auka á þann þátt dýrtíðina í landinu og trufla rekstur alls atvinnulífs.

Þá vék hæstv. ráðh. nokkuð að afstöðu minni til sjávarútvegsmála á Alþ. og sagði, að ég væri í flestum málum á móti hagsmunum sjávarútvegsins. Hann nefndi sem dæmi tvö atriði: gengislækkunina og ákvæðin um gjaldeyrisfríðindi. Í þessu sambandi er rétt að rifja örlitið upp, hvernig ástatt var hjá bátaútveginum, þegar gengislækkunin var samþ., og hvaða sérstakra hlunninda hann hefur orðið aðnjótandi í sambandi við breytta gengisskráningu. Þegar gengisbreyt. var ákveðin, var fiskverðið til fiskibátaflotans 75 aurar á kg. Auk þess nutu bátar þá sérstakra fríðinda, sem metið var af hlutlausum mönnum að næmu 10 aurum á kg. Hið raunverulega verð var því 85 aurar á kg. En hvað gerðist við samþykkt gengislaganna á Alþ.? Hækkaði fiskverðið? Batnaði afkoma sjávarútvegsins? Við skulum segja, að hæstv. fjmrh. viti deili á þessu. Nei, sannleikurinn er sá, að bátaútvegurinn hlaut lækkun á fiskverði við samþykkt gengislaganna. Fiskverðið lækkaði í 75 aura. En bátaflotinn varð annarrar gjafar aðnjótandi í sambandi við gengisbreyt. Allur rekstrarkostnaður bátaútvegsins hækkaði stórkostlega, og afkoman varð verri á þessu ári en nokkurt undangenginna ára. Þegar ég og fleiri sögðu, að svona mundi fara, eftir því sem öll sólarmerki voru, þegar var verið að samþ. gengisl. á Alþ., barði fjmrh. höfðinu í steininn. En þetta voru nú þær staðreyndir, sem við blöstu. Svona kom það út fyrir vélbátaútveginn. En það var annar aðili, sem græddi verulega á gengisbreyt., og fer minna fyrir því, að hæstv. ráðh. segi þá sögu. Það var ríkissjóður sá, sem hann veitir forstöðu. Ríkissjóðurinn losnaði við að greiða til bátaútvegsins, sem hæstv. fjmrh. lýsir nú yfir í tíma og ótíma, að hann vilji gera allt fyrir. Ríkissjóður losnaði þar við töluvert háar greiðslur; sennilega hefðu þær orðið á þessu ári 30–40 millj. kr. En ekki nóg með það. Ríkissjóður sá sér leik á borði undir stj. hæstv. fjmrh. að halda eftir skattstofninum, sem lagður var á til þess að rísa undir greiðslum með fiskinum til bátanna. Og á þann hátt hélt ríkið eftir skattstofni, sem á þessu ári mun veita því um 100 millj. kr. Ríkissjóður græddi á þessari breyt., og þeir, sem þar réðu ríkjum, fengu aukið olnbogarúm.

Ég benti á það, þegar var verið að lögleiða ákvæðin um fríðindi handa bátaútveginum, að litlar líkur væru til þess, að þessi fríðindi kæmu að fullu haldi fyrir bátaútveginn. Miklu líklegra væri, að aðrir hirtu þann hagnað, sem af þessu gæti leitt. Reynslan hefur sannað þetta í öllum meginatriðum. Um það liggja fyrir greinilegar tölur, sem hafa verið ýtarlega raktar.

Tími minn er rétt að verða búinn, svo að ég verð að láta þetta nægja. En að lokum aðeins þetta: Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, mun senn koma sá dagur, að leitað verði til hv. kjósenda. Öll sólarmerki benda til þess, að núverandi stjórnarflokkar muni senn stökkva í sundur. Hlustandi góður ! Þinn tími kemur senn til að taka afstöðu í þessum málum, sem nú eru efst á baugi með þjóðinni. Hversu einbeittur verður þú að taka ákvörðun? Lætur þú loddara lengur um að stjórna málefnum þinum og þins lands, eða tekur þú ákvörðun samkvæmt fenginni reynslu? Ef alþýðustétt landsins áttar sig á einföldum atriðum þessara mála, er fullvíst, að upp úr næstu kosningum munu ekki verða við völd þeir sömu menn, sem beitt hafa óstjórn í fjármálum landsins, og það mun verða gæfulegar staðið að sjálfstæðismálum þjóðarinnar en gert er af núverandi stjórnarflokkum.