13.12.1951
Sameinað þing: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Háttvirtu hlustendur. Ég vildi fyrst mega víkja að ræðu Gylfa Þ. Gíslasonar, hv. 3. landsk. Ræðu hans var að öllu svarað, áður en hann flutti hana.

Hæstv. atvmrh. sagði í gærkvöld, að meðan aðeins 1/50 bátagjaldeyrisins, þ.e. 2%, væri kominn á markaðinn, eins og þegar fyrsta skýrsla verðgæzlunnar var birt, væri það rangur mælikvarði um álagninguna.

Það, sem viðskmrh. sagði nú um nýja rannsókn í þessu máli, sannar þetta. Hún nær þó aðeins til 8% bátagjaldeyrisins, — en samt hefur álagningin strax lækkað um 1/3 frá því, sem var við fyrri skýrsluna, sem náði til 2% gjaldeyrisins. Athugandi er þá, hvað verða mundi, er allur bátagjaldeyrir þessa árs væri kominn á markaðinn og framboð og eftirspurn hefðu samlagazt.

Rök hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar um álagningu á bátagjaldeyrinn voru öll fölsk vegna þess, að hann tekur ekkert tillit til þess, að samkvæmt verðlagsákvæðunum var ekki leyft að leggja á einn þriðja hluta af vöruverðinu. Ef álagningin er reiknuð af öllu vöruverðinu, eins og venjulegt er, verða allar tölur hans markleysa. Útreikningar hans og tölur eru því blekkingar og eiga ekki stoð í veruleikanum.

Haraldur Guðmundsson, hv. 4. þm. Reykv., sagði í ræðu sinni, að núverandi ríkisstj. væri flokksstjórn tveggja flokka, þar sem sérstakur kaupskapur hefði átt sér stað. Framsóknarmenn fengju nógu margar milljónir til landbúnaðarins til þess að sætta sig við, að braskararnir í Rvík fengju að græða.

Um þetta vil ég segja það, að núverandi ríkisstj. hefur ekki veitt bændum og búaliði neinar ölmusur — né fjárveitingar á kostnað annarra stétta.

Haraldur Guðmundsson miklaði fyrir sér og hlustendum 38 milljónir, sem á 16. gr. fjárlaga eru veittar til landbúnaðarmála.

Engar nýjar stærri fjárveitingar eru á þessari grein, eftir að 5 millj. kr. framlag var sett á þessa grein til landnáms og nýbygginga í sveitum samkv. lögum, sem sett voru í tíð nýsköpunarstj., þegar Pétur heitinu Magnússon var landb.- og fjmrh. Langmesta hækkunin er til sauðfjársjúkdóma, sem hækka um 10 millj. kr. frá 1947. Það, sem framlög á þessari grein að öðru leyti hafa hækkað að krónutölu, mun hreint ekki samsvara þeirri verðrýrnun, sem orðið hefur á peningagildinu.

Af þessu má öllum vera ljóst, í fyrsta lagi, að hér hafa engin kaup átt sér stað.

Í öðru lagi vil ég segja það, að það þarf ekki að kaupa Sjálfstfl. til fylgis við landbúnaðinn. Hann telur sig málsvara bænda, engu siður en Framsfl. Ræða hv. 2. þm. Skagf., Jóns Sigurðssonar á Reynistað, sem hann flutti í gærkvöld, gaf af þessu glögga mynd. Í henni kom ekki fram nein ný stefna, eins og hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, vildi vera láta í ræðu sinni hér í kvöld.

Ráðherrann sagði, að allt of oft hefðu framsóknarmenn mátt horfa upp á það, að mál landbúnaðarins væru felld hér á þingi, þó að bændafulltrúar Sjálfstfl. væru með þeim, af því að aðrir þm. Sjálfstfl. væru á móti þeim með fulltrúum verkalýðsflokkanna.

Ekkert framfaramál landbúnaðarins hefur veríð þannig fellt fyrir hæstv. ráðherra. Ekkert fyrir hæstv. fyrrv. landbrh. Alls ekkert framfaramál landbúnaðarins hefur sætt slíkum örlögum. Getsakir hæstv. landbrh. í þessu efni eru með öllu ósæmilegar.

Hins vegar vil ég taka undir það, sem ráðh. sagði um ræðu Haralds Guðmundssonar, að það er óþarft verk að auka tortryggni milli stétta þjóðfélagsins, þeirra, sem búa í sveitum, og hinna við sjávarsíðuna, — ekki sízt þegar falsrökum er beitt.

Loks vil ég taka fram í þessu sambandi, að ég tel ekki svaraverðar ósvífnar ásakanir hv. þm., Haralds Guðmundssonar, um, að Sjálfstfl. vilji vernda braskarana. Hæstv. dómsmrh. vék að þessu í sinni ræðu og leiddi rök að því, hversu gersamlega haldlausar slíkar ásakanir eru.

Langstærsti flokkur þjóðarinnar, sem á fylgi sitt í öllum stéttum þjóðfélagsins, þarf ekki að taka alvarlega slíkar ásakanir frá fulltrúa langminnsta flokksins, þó að hann sé að vísu langfínasti flokkurinn, — flokkur forstjóranna og feitu embættanna.

Hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, hefur legið veikur síðustu tvær vikurnar. Hann hefur nú hafið þingstörfin að nýju hér í kvöld með árásum á nýsköpunarstjórnina. Ég held, að hann hafi farið of snemma á fætur.

Þannig sagði hann, að nýsköpunarstj. hefði ekkert til síns ágætis unnið annað en kaupa 30 togara. Var helzt að skilja, að til þeirra hefði verið varið 11 hundruðum milljóna; þeir kostuðu að vísu aðeins 1/11 hluta þess fjár og allir 30 til samans ekki meira en þeir 10 togarar, sem keyptir voru af stj., sem Framsfl. átti sæti í og Hermanni Jónassyni þóttu svo ódýrir, enda þótt hann hafi talið hina 30 allt of dýra.

Hermann Jónasson er áreiðanlega ekki búinn að ná sér eftir veikindin. Hann gleymir alveg á annað hundrað vélbátum, fjórföldun íslenzka siglingaflotans, byggingu stærstu íðnaðarfyrirtækja landsins og yfirleitt alhliða endurreisn íslenzks atvinnulífs í tíð nýsköpunarstj.

Þó verður að játa, að vegna órökstuddrar oftrúar á forustu Framsfl. neituðu margir bændur samstarfi við nýsköpunarstj., og fyrir það og það eitt hefur hlutur landbúnaðarins e.t.v. orðið minni en skyldi. Var þó í tíð nýsköpunarstj. lagður grundvöllurinn að nýrri þróun landbúnaðarins með öflun stórvirkra skurðgrafna, dráttarvéla og annarra nýtízku landbúnaðartækja (þ. á m. yfir 1200 landbúnaðarjeppa á árinu 1946) — og á grundvelli þeirrar löggjafar, sem ég áður nefndi, um landnám og nýbyggingar í sveitum, sem sett var í tíð nýsköpunarstj., hvílir sú þróun, sem nú á sér stað í landbúnaðinum og verða mun í framtíðinni.

Annars er ég sammála hæstv. dómsmrh., að það er næsta furðulegt, að Hermann Jónasson skuli ekki telja annað miklu þarfara í þessum umræðum en taka upp þessa gömlu bolabragðaglímu við fortíðina.

Ég kem þá að lokum að kommúnistunum. Þegar Stalin marskálkur varð sjötugur, skrifuðu kommúnistar á þessa leið:

„Þ. 21. desember 1879, á þeirri stund, er Stalin fæddist, stóð sólin kyrr á himninum. — Siðan skein hún bjartari en nokkru sinni fyrr til að veita okkur meiri yl og hamingju. Stalin er hin nýja sól lífs vors.“

Það er engu líkara en að þessi nýja náðarsól hafi skinið í heiði yfir skrifborði Ásmundar Sigurðssonar, hv. 5. landsk. þm., þegar hann samdi ræðu þá, sem hann flutti hér í gærkvöld.

Kannske hangir líka mynd af þessari „nýju sól lífsins“ yfir rúmi þingmannsins? Ef svo skyldi ekki vera, getur hann áreiðanlega fengið eina af allra beztu gerð hjá Brynjólfi Bjarnasyni. Menn heyrðu glöggt á ræðu hans í kvöld, að „sól lífsins“ hefur bakað hann í bak og fyrir!

Ásmundur Sigurðsson talaði mikið um það, að hinar lituðu þjóðir Asíu væru að berjast til frelsis. Sú barátta félli saman við frelsisbaráttu sósialismans, sagði þingmaðurinn.

Já. Það var mikið lán, að hann talaði bara um lituðu þjóðirnar, því að hvernig fellur frelsisbarátta hvítu þjóðanna hér í Evrópu, sem við þekkjum nú betur til, saman við sósíalismann? Hvernig mundu sólargeislar Stalins skína á þær? Vill þingmaðurinn skreppa austur fyrir járntjald og spyrja, — spyrja Letta — spyrja Litháa — spyrja Eistlendinga? Vill hann spyrja Finna — spyrja Pólverja — eða Grikki? Eða kannske að hann vilji spyrja varaforsætisráðherrann í Tékkóslóvakíu, Slansky? Hann er þó flokksbróðir þingmannsins — báðir í heimsflokki kommúnista. Ekki ætti Ásmundur að vera hræddur við að biðja um viðtal við hann í fangelsinu. — Þegar þingmaðurinn kemur úr þessu ferðalagi, hygg ég, að hann gæti samið nýja og betri ræðu.

Ásmundur Sigurðsson sagði: „Við kommúnistar erum sakaðir um þjónustu við erlent vald. Ekki eitt einasta atriði er nefnt því til sönnunar.“

Þessa athyglisverðu staðhæfingu langar mig til að athuga nokkru nánar í sambandi við aðra staðhæfingu, sem segja má, að verið hafi rauði þráðurinn í ræðum kommúnistanna á þessu þingi, þegar utanríkismálin hafa verið rædd. En þeir hafa haldið því fram af ofurkappi, að þeir séu þeir einu, sem alltaf hafi haft ákveðna — eina og sömu stefnu í utanríkismálum. Mér þykir líklegast, að þessari síðari staðhæfingu sé einmitt ætlað að vera sönnun fyrir því, að þeir séu ekki að þjóna öðrum.

En hvað rekum við okkur á?

Þegar litið er yfir farinn veg, liggja fyrir okkur óteljandi sannanir þess í málgögnum kommúnista, í stefnuyfirlýsingum flokksins og í ræðum forkólfa hans, að um utanríkismálin — um heimspólitíkina hafa þeir vissulega sagt eitt í dag og annað á morgun, svo að hvað rekur sig á annað. Hér er af miklu að taka, en tíminn leyfir aðeins lítið.

Þannig sögðu þeir, þegar Hitler gerði griðasamninginn við Stalin, að mönnum væri nú ljóst, að Þjóðverjar teldu, „að tími væri til kominn að framfylgja kröfum sínum á hendur Póllandi með vopnavaldi“.

Þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland, sögðu þeir hins vegar: „Evrópa sér nú enn einu sinni afleiðingarnar af undanlátseminni við fasismann; því aðeins vegna þess, að fasismanum héldust uppi grimmdarverkin á Spáni og banaráðin við Austurríki og Tékkóslóvakíu, þorir hann nú að ráðast á Pólland.“

Svo fengu þeir vitneskju um það, að utanríkisráðherra hins kommúnistiska Rússlands hefði sent skeyti til kanslara hins nazistiska Þýzkalands, svo hljóðandi:

„Ég hef móttekið tilkynningu yðar um, að þýzkar hersveitir hafi farið inn í Varsjá. Gerið svo vel að flytja þýzku ríkisstjórninni hamingjuóskir mínar og kveðjur.

Molotov.“ Þá kom þessi fyrirsögn í Þjóðviljanum: „Ekki árásarsamningur Sovétríkjanna við Þýzkaland er sigur fyrir heimsverkalýðinn.“ — Um leið sögðu þeir, að andstæðingum kommúnista á Íslandi skyldi „ekki verða að von sinni um það, að Sovétríkin réðust á Pólland.“

Einni viku eftir þessa yfirlýsingu hélt rauði herinn inn yfir landamæri pólska ríkisins.

Þá sagði Halldór Kiljan Laxness í Þjóðviljanum: „Ég skil ekki almennilega, hvernig bolsévikar ættu að sjá nokkurt hneyksli í því, að 15 milljónir manna eru þegjandi og hljóðalaust innlimaðar undir bolsévismann.“

Í upphafi síðustu styrjaldar, þegar Bretar og önnur lýðræðisríki í Vestur-Evrópu börðust ein gegn nazismanum, gáfu kommúnistar þessa yfirlýsingu hér: „Hér á Íslandi verða sósíalistar að gera sér fullljóst, að þeir geta hvorugum hinna stríðandi aðila óskað sigurs.“ Fasisminn var kallaður „erkióvinurinn“, en Bretar „sterkasti óvinurinn“, enda þótt áður hafi verið búið að lýsa Bretum sem okkar „eðlilega verndara“ í dálkum Þjóðviljans.

Þegar Íslendingar unnu fyrir brezka setuliðið hér, sögðu kommúnistar í Þjóðviljanum, að slík „hagnýting vinnuaflsins væri glæpsamleg“.

Svo fóru Rússar í stríðið. Þá var hin glæpsamlega hagnýting vinnuaflsins kölluð „landvarnarvinna“. Þá sögðu kommúnistar (Þjóðviljinn, 19. maí 1942) : „Þeir, sem hamast nú gegn landvarnarvinnunni á Íslandi, eru að vinna í þágu Kvislings og Hitlers.“

Þannig liggja fyrir endalausar sannanir um það, að kommúnistar hafa alltaf sagt eitt í dag og annað á morgun. Ég þarf ekki að þylja meira af þessu tagi yfir kommúnistum. Þeir þekkja líka sín eigin spor. En sporin hræða! Því að það verða menn að gera sér ljóst, og það er mergurinn málsins, að það er þrátt fyrir allt þetta rétt, sem kommúnistar segja, að þeir hafa alltaf haft eina og sömu stefnu í utanríkismálum. Þeir hafa alltaf vitað, hvað þeir voru að segja.

1. Það er þeirra stefna, þegar „glæpsamleg hagnýting vinnuaflsins“ verður að „landvarnarvinnu“, — ef Rússar vilja.

2. Það er þeirra stefna, þegar okkar „eðlilegi verndari“ verður að okkar „sterkasta óvini“, — ef Rússar vilja.

3. Það er þeirra stefna, „að milljónir séu þegjandi og hljóðalaust innlimaðar undir bolsévismann“.

4. Það er þeirra stefna, eins og Brynjólfur Bjarnason lýsti yfir, þegar hann lagði upp í eina Moskvuför sína, að „það er ekki nóg að tilheyra heimsflokki kommúnismans. Við verðum einnig allir að vera reiðubúnir að framkvæma fyrirskipanir hans.“ — Framkvæma „fyrirskipanir“ hans, — vill ekki Ásmundur Sigurðsson taka eftir því?

5. Það er þeirra stefna að vera fimmta herdeild kommúnismans á Íslandi.

Þessa — og þessa einu — stefnu í utanríkismálum Íslendinga hafa kommúnistar haft, og þeir hafa sannarlega fylgt henni dyggilega. Að fylgja alltaf, hvernig sem á stendur og hvað svo sem þeir hafa sagt, fyrirskipunum (eins og Brynjólfur orðaði það), fyrirskipunum frá stjórnendum hins alþjóðlega kommúnisma, — það er þeirra eina stefna, þeirra „þjónustu“-stefna.

Það er von, að almenningur hér á landi hafi næsta oft átt erfitt með að átta sig á „línudansinum“ hér heima, þegar valdhafar Sovétríkjanna hafa verið að þræða sína refilstigu til landvinninga og nýrrar yfirdrottnunar, — ævinlega dyggilega studdir af 5. herdeildinni í því landi, sem í þetta eða hitt skiptið varð ofbeldinu að bráð.

En forsprakkar kommúnista hér vissu og vita, hvað þeir segja og gera. Það er þeirra þyngsta sök ?

Það er þetta, sem íslenzka þjóðin, sá hluti hennar, sem fylgt hefur kommúnistum í rangri trú, verður að skilja, þegar kommúnistar hér á Alþingi gerast svo djarfir að hælast yfir því, að þeir hafi alltaf haft eina og sömu stefnu í utanríkismálum þjóðarinnar.