19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur nú milli 2. og 3. umr. tekið fjárlagafrv. til athugunar eins og það var eftir 2. umr. og eins ýmsar brtt., sem fram komu, en teknar voru aftur til 3. umr. Hefur n. athugað þessar till., rætt um þær við viðkomandi aðila og látið atkvæði ganga um þær í n.

Meiri hl. n. ber nú fram á þskj. 502 allmiklar brtt. Stafar það af því, að margar brtt. voru teknar aftur til 3. umr., og svo af því, að n. hafði ekki gengið endanlega frá sumum liðum fjárl., eins og t.d. 18. gr., svo að eitthvað sé nefnt, og eins og ég áður gat um, þurfti n. að taka afstöðu til ýmissa brtt., sem fram komu. Ég mun nú leitast við að gera grein fyrir þessum brtt. meiri hl. fjvn. á þskj. 502, sem ég gat um áðan.

1. till. er við 10. gr., og er þar farið fram á 16 þús. kr. hækkun til sendiráðsins í Osló. Er hér aðeins um leiðréttingu að ræða, þ.e.a.s., n. hafði ekki fengið réttar upplýsingar um gengi íslenzku krónunnar í Noregi, og stafar þessi hækkun eingöngu af því.

2. till. er við 11. gr., 6. lið. Þar er gert ráð fyrir, að framlag Tryggingastofnunar ríkisins lækki úr 700 þús. niður í 450 þús., en það er 250 þús. kr. lækkun.

3. till. er einnig við 11. gr., og hljóðar hún um, að framlag til landhelgisgæzlu verði hækkað úr 9259000 kr. upp í 9700000 kr. Þótti rétt að hækka þennan lið, þar sem allmargir þm. hafa farið fram á, að bætt yrði tveim bátum við landhelgisgæzluna, öðrum við Norðurland og hinum á Breiðafirði. Er þessi liður hækkaður í trausti þess, að svo verði gert.

4. brtt., við 12. gr., er um 80 þús. kr. hækkun, vegna þess að nú liggur fyrir, að fram fari á næsta ári almenn berklaskoðun, m.a. á Siglufirði og víðar á landinu. Þetta er svo merkileg ráðstöfun, að fjvn. þótti sjálfsagt að hækka þennan lið um 80 þús. kr., eins og berklalæknir óskaði eftir.

5. brtt. er við 12. gr. og er um það, að framlag til læknisbústaða og sjúkrahúsa hækki um 450 þús. kr., þannig að það verði 1 millj. kr. Fjvn. hefur m.a. borizt erindi frá hv. þm. A-Húnv. um að hækka það allverulega með tilliti til þess, að því sjúkrahúsi yrði veitt ákveðin upphæð. Fjvn. hefur ekki hækkað þetta sérstaklega með tilliti til eins sjúkrahúss eða annars, því að hún hefur ekki viljað taka að sér að skipta þessu fé. Hún hefur ekki haft þann hátt á undanfarin ár og vill ekki taka hann upp nú. Verða hv. þm. að eiga það undir heilbrigðisstjórninni, hvernig þessu fé verður skipt. Hins vegar er auðveldara og sjálfsagt fyrir hæstv. ráðh. að mæta óskum héraðanna, eftir að þessi hækkun hefur farið fram, þó að hún sé engan veginn nægileg til þess að fullnægja þeim þörfum og kröfum, sem fyrir eru. En það hefur verið samkomulag um að gera þessa hækkun.

6. brtt. er við 13. gr., þar sem lagt er til að hækka um 4 þús. kr. framlag til ræktunarvegar í Hrísey. Þessi brtt. hefur verið borin fram af hv. þm. Eyf., og þótti eðlilegt að verða við þeirri ósk.

7. brtt. er líka við 13. gr. og er um að hækka framlag til verkstjóranámskeiða um 5 þús. kr. Þá er 8. brtt. um að veita til sveitarfélaganna á Fljótsdalshéraði 20 þús. kr. til kaupa á snjóbil. Fjvn. taldi rétt að verða við óskum þessara manna, sem vilja gera tilraun með vistaflutninga á snjóbilum yfir heiðarnar á Austurlandi. Þetta fé er sérstaklega veitt til héraðanna sjálfra til þess að gera þessa tilraun.

9. brtt. er við 14. gr. A. II. 5., um eftirlaun presta og prestsekkna, og er þess efnis, að fyrir 45 þús. kr. komi 75 þús. kr., og hækkar þá þessi liður um 30 þús. kr. Biskupinn yfir Íslandi hefur haft 45 þús. kr. til þess að skipta á millí nokkurra gamalla prestsekkna, sem hafa haft mjög lágt framlag. Þótti eðlilegt að bæta þeim upp þá dýrtíð, sem er í landinu, með því að hækka þennan lið. Skal biskup skipta þessu, og verður þetta fé látið ganga til þeirra prestsekkna, sem eiga við erfiðust kjör að búa.

10. brtt. er við 14. gr. og er frekar leiðrétting um að hækka úr 20 þús. kr. upp í 35 þús. kr. framlag til handíðaskólans. Þarf sú till. ekki frekari skýringa við.

11. og 12. brtt. eru um hækkun til Hins ísl. bókmenntafélags um 10 þús. kr. og hækkun til Sögufélagsins um 8 þús. kr. vegna þess, hve útgáfukostnaður hefur stórhækkað í landinu, en þessir styrkir hafa staðið óbreyttir undanfarin ár.

13. brtt. er við 15. gr. Þar er tekinn upp nýr liður: Til rithöfundasjóðs Kelvins Lindemans, 2500 kr., enda verði fénu varið til dvalarkostnaðar fyrir skandinavískan rithöfund hér á landi. Mér þykir rétt og skylt að skýra nokkuð frá þessum lið. Þannig er mál með vexti, að þessi rithöfundur, Kelvin Lindeman, hefur varið eignum sínum til þess að mynda sjóð til þess að styrkja rithöfunda á Norðurlöndum til að dvelja hver í annars landi. Hafa íslenzkir rithöfundar átt þess kost að dveljast á Norðurlöndum með styrk úr þessum sjóði. Hefur Ísland verið tekið sem meðlimur að hans eigin ósk. Sjóðurinn hefur ekki aðrar tekjur en af útgáfu bóka, sem aðilar að sjóðnum gefa út. Frá Íslandi hefur aðeins komið 10 þús. kr. gjöf frá útgáfufélaginu Norðra á Akureyri, sem er eina framlag Íslendinga. Það þótti því rétt að verða við þeirri ósk að leggja 2500 kr. framlag til sjóðsins fyrir Íslands hönd.

14. brtt. er við 15. gr.: Til Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi til sögu- og fræðiiðkana, 5 þús. kr.

15. brtt. er einnig við 15. gr.: Til Bandalags íslenzkra leikfélaga, 20 þús. kr. Þessi brtt. var borin hér fram við 2. umr. og tekin aftur. Þótti n. rétt að verða við óskum hv. þm. um að taka þetta upp, enda komu til n. mörg erindi frá ýmsum félögum úti á landi um, að þetta fé væri veitt til Bandalags íslenzkra leikfélaga.

Þá eru 16. og 17. brtt., við 15. gr., nýir liðir til listamanna: Til Guðmundar Baldvinssonar, til söngnáms á Ítalíu, 8 þús. kr. Til Kristins Þorl. Hallssonar, til söngnáms í London, 8 þús. kr. Til Magnúsar Jónssonar, til söngnáms á Ítalíu, sama upphæð. Til Ólafs Jakobssonar, til söngnáms á Ítalíu, sama upphæð, 8 þús. kr. Þótti n. rétt að verða við þessari beiðni um að styrkja þessa ungu listamenn með framlögum í von um, að þeir beri uppi hróður Íslands meðal þeirra þjóða, þar sem þeir dvelja nú, og verði landinu til gagns og ánægju síðar.

Í a-lið 18. brtt., við 15. gr., hefur n. tekið upp framlag til menningarsjóðs Blaðamannafélags Íslands, til að halda norrænt blaðamannamót á Íslandi sumarið 1952, 25 þús. kr. N. lítur svo á, að ef vandað sé til þessa móts, geti það orðið mjög mikil landkynning fyrir Ísland. Eru tekin upp framlög á fjárlögum til tveggja annarra móta á næsta ári. — Í b-lið brtt. er lagt til, að til Egilsgarðs að Borg á Mýrum séu lagðar 5 þús. kr.

Þá er 19. brtt., við 15. gr., um að hækka kostnað af sjómælingum um 75 þús. kr. Það, sem hér um ræðir, er reyndar nokkurs konar leiðrétting, þar sem ekki hefur verið tekið tillit til þeirrar gífurlegu hækkunar, sem hefur orðið á öllu í sambandi við þennan rekstur.

20. brtt. er við 16. gr., að til sjóvarnargarðs í Gerðahreppi í Gullbringusýslu verði greiddar 25 þús. kr. Þetta erindi barst n. ekki fyrr en eftir 2. umr. og er því tekið upp hér.

21. brtt., við 16. gr., er um að hækka framlag vegna sauðfjársjúkdómavarna, flutningskostnaðar, um 360 þús. kr. Vil ég fara nokkrum orðum um þetta atriði: Þegar gengið var frá frv. við 2. umr., var þessi kostnaður áætlaður af sauðfjárveikivarnan. um 1050000 kr. Síðan kom erindi frá hv. þm. Árn. um, að lagðar væru fram 250 þús. kr. til þess að gera veg yfir Sprengisand til þess að ná sambandi þar við Norðurland og nota til fjárflutninga úr Þingeyjarsýslu. Eftir áætlun vegamálastjóra var kostnaður áætlaður 250 þús. kr. Mundi þetta spara verulega kostnað við flutningana og jafnvel spara sem nemur hærri upphæð en þessi upphæð, sem hér er áætluð, nemur. N. setti sig því í samband við forstjóra sauðfjárveikivarnanna og spurði um, hvort lækka mætti þennan lið, 1050000 kr., ef ódýrara yrði að flytja líflömbin þannig. En þegar n. athugaði þetta, komst hún að þeirri niðurstöðu, að það yrði að hækka þennan lið um 360 þús. kr., og þó eru þetta 70 kr. á hvert lamb af þeim 15 þús. lömbum, sem ætlunin er að flytja úr Þingeyjarsýslu. Það er mín skoðun, að það verði að endurskoða, hvort nauðsynlegt sé að áætla 70 kr. á hvert lamb, sem flutt er frá Þingeyjarsýslu til Suðurlands. Ef flutningurinn verður ódýrari með því að láta gera þennan veg, sem hér um ræðir, fyrir 250 þús. kr., þá veit ég ekki, hver kostnaðurinn yrði, ef það ætti að flytja þau eftir öðrum leiðum. En ólíklegt er það, að ekki sé hægt að koma lambi á milli þessara staða fyrir minna en 10 kr., jafnvel þótt það sé flugleiðis, hvað þá eftir öðrum leiðum. Ég vil því, að hæstv. ríkisstj. láti athuga það mjög gaumgæfilega, hvort ekki sé hægt að lækka þennan lið, þó að hann sé samþ. hér. Fjvn. hafði ekki tíma til að athuga þetta, eftir að þessi nýja áætlun kom í gærkvöld. En ég beini því til hæstv. ríkisstj., að hún láti þessa athugun fara fram. Fjvn. hefur ekki viljað skipta sér af því, hvort einhver ákveðin upphæð, 250 þús. kr. eða einhver önnur, væri tekin af þessu framlagi til þess að bæta vegasamgöngur þessar, en er ekki á móti því, ef ódýrara reyndist að fara þessa leið en aðrar leiðir. Vitanlega verður ekki um að ræða stórkostlega vegagerð á svo langri leið fyrir þessa upphæð. Annars eru þær upplýsingar fyrir hendi frá vegamálastjóra, að leiðin sé greiðfær fyrir utan Tungnaá, sem yrði þá að ferja yfir. Að öðru leyti mætti gera leiðina bilfæra að sumarlagi.

Þá er 22. till. nýr liður: Byggingarstyrkur til fiskideildanna í Norðlendingafjórðungi vegna sjóvinnunámskeiða, 40 þús. kr. Ég tel, að því fé sé vel varið, sem varið er til þess að halda uppi og auka sjóvinnunámskeið í landinu. Það hefur sýnt sig, að fjöldamargir af þeim unglingum, sem fara til sjós, hafa ekki fengið þá kennslu, sem þörf var, og er æskilegt, að þeir geti lært nauðsynlegar aðferðir í sambandi við fiskveiðar og geti lært á sjóvinnunámskeiðum að gera við veiðarfæri, uppsetningu lóða og ýmis störf í sambandi við sjóvinnu. N. er öll sammála um að taka þessa upphæð upp, þó að það sé í raun og veru í fyrsta skipti, sem tekin hefur verið upphæð inn á fjárlög, sem er beinlínis ætluð til slíkra framkvæmda.

23. brtt. er við 16. gr., um að hækka framlag til byggingar iðnskóla úr 500 þús. kr. í 1 millj. kr. Það hefur verið leitað mjög fast á við fjvn., að ríkissjóður tæki að sér ákveðinn hluta af kostnaðinum við byggingu skólans eins og annarra skóla í landinu. Fjvn. hefur ekki viljað fallast á þetta og telur, að ef eigi að gera þetta, þá eigi að gera það með sérstakri lagasetningu, en ekki í sambandi við fjárlög. Hins vegar hefur hún fallizt á að hækka þetta framlag, þar sem byggingin liggur undir skemmdum, ef ekki er hægt að hraða henni.

Þá er lagt til í 24. brtt., að liðurinn til nýrra raforkuframkvæmda verði hækkaður um 500 þús. kr. N. er ljóst, að það hefði þurft að hækka þennan lið miklu meira.

25. brtt. er um 500 þús. kr. hækkun til brennisteinsrannsókna. Við 2. umr. voru teknar þessar 500 þús. kr. til þess að kaupa nokkur borunartæki, en það sýndi sig, þegar farið var að ræða málið nánar, að það var ekki nema hálfnað verk, þó að keypt væru tæki, ef ekki fengist neitt framlag til þess að kosta framkvæmd verksins. Þótti mikils um vert að gera þessar framkvæmdir, sem ef til vill geta skapað Íslandi verulegan gjaldeyri. Enn fremur var upplýst, að fleiri en einn erlendur aðili vildi taka að sér að gera þessar rannsóknir gegn því að fá að reka þetta fyrir eigin reikning eða í félagi við íslenzka ríkið. Þetta þótti engum æskilegt, og var því horfið að því að hækka þennan lið um 500 þús. kr., eða upp í 1 millj. kr.

Þá er hér 26. brtt., við 17. gr., nýr liður: Til áfengismálaráðunauts, 12 þús. kr.

27. brtt., við 17. gr., er um, að til Heimilisiðnaðarfélags Íslands, til leiðbeiningarstarfsemi í heimilisiðnaði, greiðist 12 þús. kr. Þessi till. var tekin aftur við 2. umr. Virtist sem rétt væri að verða við þessari beiðni.

28. brtt. er um 400 þús. kr. hækkun til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga. Það þótti nauðsynlegt að hækka þessa upphæð upp í 1 millj. kr., og fellst n. á það.

29. brtt. er um 150 þús. kr. hækkun til vatnsveitna. Hafa ýmis erindi borizt til fjvn. í sambandi við styrk til þessara framkvæmda. Fjvn. skiptir ekki þessu fé. Er það sjálfsagt hæstv. heilbr.- og félmrh., sem dæmir um það á sínum tíma, hvort styrkirnir skuli veittir og hvaða aðilum eða hvort þeir skuli veittir sem lán, ef það sýnir sig, að fyrirtækið geti borið sig fjárhagslega, þegar því hefur verið komið upp.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um 18. gr. Vil ég beina því til hæstv. fjmrh., að það virðist halla sí og æ meira á ógæfuhliðina, ef svo mætti segja, í sambandi við þessa gr. fjárl. Það er eins og ríkisstj. hafi ekki kjark í sér til þess að spyrna hér við fótum. Þó er sýnilegt, að þetta getur ekki gengið svona til lengdar. Það eru sífelldar kröfur frá ýmsum aðilum um sífelldar hækkanir, til þess að þetta verði í samræmi við það, sem fyrir var. Það, sem er verst í sambandi við þetta mál, er, að ómögulegt er að finna út af 18. gr. til samanburðar, hvað fólkið hefur í raun og veru. Það þarf að finna út, hvað fólkið hefur t.d. úr lífeyrissjóði, í eftirlaun o.fl. Þegar verið er að gera samanburð, er afar villandi að hafa þessa gr. fyrir sér eins og hún er. Ég vil beina því til hæstv. ráðh., hvort ekki væri hægt að gera einhverjar breytingar á þessu máli, þótt ekki væri nema þannig, að hægt væri að sjá í fjárl. alveg ákveðið, hve háa upphæð þessir menn hafa alls, bæði frá lífeyrissjóði, í eftirlaun o. fl., til þess að hægt sé að sjá, hvaða laun ríkissjóður greiðir þessu fólki. — Annars skal ég geta þess, að við 18. gr. II. a. er lagt til, að nokkur nöfn séu felld niður, sem samtals gera 15 þús. í grunn. Einn maður, Matthías Þórðarson fiskifræðingur, sem nú er orðinn háaldraður maður og hefur unnið merkilegt starf fyrir íslenzku þjóðina, er hækkaður úr 6727.50 kr. upp í 10 þús. kr.

31. brtt., við 18. gr. II. b., er um, að Camilla Hallgrímsson hækki um rúmlega 1921 kr., Katrín Sveinsdóttir hækki um 1257 kr. Undir d-lið er Kristin Þórarinsdóttir, og hækki sá liður úr 3363.75 kr. upp í 5 þús. kr.; e-liður, Súsanna Friðriksdóttir, hækki úr 2811.I5 upp í 5 þús. kr. Niður falli liðurinn Helga Stephensen, 1725 kr.

Þá er einnig tekinn nýr liður í þessa gr. fyrir vísitöluupphæð á lífeyri úr lífeyrissjóðum starfsmanna ríkisins, barnakennara, ljósmæðra og hjúkrunarkvenna, 575 þús. kr. Þetta er gert í samráði við hæstv. ríkisstj. Þetta er framlag, sem ríkið þarf að leggja fram á næsta ári. Það, sem þarf að bæta fyrir árið 1950–51, er greitt af tekjuafgangi þessa árs.

Þá hefur hæstv. ríkisstj. óskað eftir því, að tekin verði upp á 19. gr. vantalin verðlagsuppbót, 3500000 kr., þar sem ekki litur út fyrir, að kaupgjaldsvísitalan stöðvist í 141. Þótti rétt að áætla nokkra upphæð fyrir þessari hækkun, sem þegar er vitað að mun verða.

34. brtt. er við 20. gr. Þar er lagt til, að hækkað sé um 200 þús., úr 1600 þús. í 1800 þús., framlag til viðbótarhúsnæðis við ríkisspítalana. Af þeirri upphæð fari 250 þús. kr. til byggingar hjúkrunarkvennaskóla. Það þótti ekki ástæða til að setja það sem sérstakan lið, heldur var þessi athugasemd sett við framlagið. Er það fyrsta sporið til þess að koma af stað þessari byggingu, sem svo margir hafa óskað eftir að rísi upp og geti tekið til starfa sem allra fyrst.

Þá er 35. brtt. um hækkun til lögreglustöðvar í Reykjavík, að í stað 150 þús. kr. komi 250 þús. kr. Ég skal taka það fram, að fjvn. hefur óskað eftir því að geta haft þessa upphæð miklu hærri, því að það er áreiðanlega mjög æskilegt, að þessi bygging komist upp.

36. till. er um styrki til hjúkrunar, að fyrir 4 þús. kr. komi 10 þús. kr. Þetta er heimild á 22. gr. og er ætlað til ljósmóður í Vestur-Ísafjarðarsýslu, sem hefur haft styrk undanfarin ár.

37. till. er um að verja allt að 1 millj. kr. til byggingar sementsverksmiðju.

38. till. er um að greiða hafnarsjóði Húsavíkur vegna samnings við síldarverksmiðjur ríkisins allt að 240 þús. kr. Þetta er borið fram samkv. ósk hæstv. fjmrh. til þess að leysa deilu, sem verið hefur milli Húsavíkurhafnar og síldarverksmiðja ríkisins, og á þetta að vera lokagreiðsla.

39. till. er um að greiða allt að 25 þús. kr. til foreldra Sólheimadrengsins, ef að því ráði yrði hnigið að fara með hann til Bandaríkjanna og koma honum þar á skóla fyrir vansköpuð börn. Eins og kunnugt er, fæddist þessi drengur á Akureyri handleggjalaus, og fjvn. hefur viljað stuðla að því, að hann fengi kennslu, ef með því væri hægt að bæta úr erfiðleikum foreldranna og drengsins að einhverju leyti.

40. till. er um að lána bændum á harðindasvæðunum frá 1949–51 allt að 5 millj. kr., enda greiðist féð af tekjum ríkissjóðs árið 1951. Hæstv. ríkisstj. hefur látið fara fram nákvæma athugun á ástandinu og ekki talið annað fært en að fá þessa heimild til þess að bæta úr sárustu neyðinni.

41. till. er um að heimila ríkisstj. að ábyrgjast allt að 6 millj. kr. lán til byggingar hraðfrystihúsa og fiskimjölsverksmiðja. Þessi heimild hefur áður verið á fjárl., en verið bundin við hraðfrystihús, sem ætlunin var að fengju stofnlán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins, en ekki fengu þessi lán vegna fjárskorts stofnlánadeildarinnar. Nú hefur fiskimjölverksmiðjum verið bætt við.

42. till. er um að heimila ríkisstj. að ábyrgjast nýtt rekstrarlán, að upphæð 700 þús. kr., fyrir vinnuheimili Sambands íslenzkra berklasjúklinga að Reykjalundi. Mér þykir rétt að ræða þessa till. nokkuð. Samband íslenzkra berklasjúklinga fékk á sínum tíma ábyrgð ríkissjóðs fyrir 300 þús. kr. rekstrarláni. Þó að félagið hafi nú stóraukið reksturinn og peningagildið minnkað, hefur félagið ekki fengið meira en þessar 300 þús. kr., af því að ábyrgð hefur ekki verið fyrir meiru. Stofnunin getur ekki dregið úr rekstrinum, þar sem um sjúklinga er að ræða. Hæstv. ríkisstj. hefur líka sýnt skilning í þessu máli og fallizt á þetta.

43. till. er í tveimur liðum. Fyrri liðurinn er um að endurgreiða aðflutningsgjöld af minkum, kr. 23413.29. Minkar þessir voru fluttir inn frá Kanada á árinu 1946 í því skyni að endurbæta minkastofn landsmanna. — Síðari liðurinn er um að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af skólabíl, sem trúbræður 7. dags aðventista hafa gefið söfnuðinum hér til afnota fyrir heimavistarskólann að Vindheimum í Ölfusi. Mér þykir rétt að segja nokkur orð í sambandi við þennan lið. Það mætti ætla, að hér væri verið að fara inn á nýja braut, en svo er ekki, því að þessi gjöld hafa verið endurgreidd af öllum skólabilum. Aðventistar hafa reist mikið skólahús, sem að öllu hefur verið byggt fyrir gjafafé, að miklu leyti erlent, og hafa allir tollar verið greiddir af þeim innflutningi. Ríkissjóður hefur ekkert styrkt skólann, og þykir því ekki ósanngjarnt, að þetta verði heimilað og að hæstv. ríkisstj. noti heimildina, verði hún samþ.

44. till. er um það að gefa eftir að einhverju leyti aðstoðarlán úr ríkissjóði, sem veitt voru á árunum 1945–49 til síldarútvegsmanna, ef útvegsmenn hafa ekki notið eftirgjafar samkv. l. nr. 120 1950. Því mun hafa verið lofað á sínum tíma, að þó að þessir menn færu ekki í skuldaskil, skyldi það sama gilda um þá í þessu efni og hina.

45. till. er um að endurgreiða Akureyrardeild Rauðakross Íslands aðflutningsgjöld af sjúkrabifreið. Er þetta í samræmi við það, að Rauðikross Íslands hefur fengið endurgreidd aðflutningsgjöld af þeim bifreiðum, sem hann hefur áður flutt inn.

46. og síðasta till. er um það, að tryggt verði með samningi, að bókasafn Þorsteins M. Jónssonar verði eign Kennaraskóla Íslands, enda fallist ríkisstj. á skilyrði eigandans fyrir afhendingu safnsins. Það þótti ekki rétt að gefa stj. heimild til að kaupa safnið. Það lá fyrir, að Þorsteinn M. Jónsson hefur boðizt til að afhenda það fyrir matsverð. Helmingur þess á að ganga til að viðhalda safninu og auka það, en hitt til eiganda. Eigandinn setur þó ýmis skilyrði, og hefur hann sent fjvn. uppkast að samningi, en n. vildi ekki samþ. hann. Væntir n. þess, að hæstv. ríkisstj. láti athuga hann vel.

(Viðskmrh.: Þess gerist ekki þörf.) Það er svo annað mál, hvort stj. notar heimildina, en meiri hl. fjvn. álítur rétt að veita hana. Í samningnum er m.a. gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði vátryggingarfé, sem nemur 3000 kr. á ári. Safnið er talið 400 þús. kr. virði samkv. bráðabirgðamati, eftir því sem eigandi þess gefur upp. Þá er það tekið fram í samningnum, að eigandinn þurfi ekki að afhenda safnið allt fyrr en hann og kona hans eru látin. Honum er heimilað að afhenda það, sem honum sýnist, og er þetta hvað óaðgengilegast, því að svo gæti farið, að eigandinn vildi afhenda hluta af safninu, sem ekki væri mikils virði. Þá kemur geymsluskylda og annar kostnaður. Fjvn. væntir þess þó, að hæstv. ríkisstj. láti athuga þetta mál.

Þá er á þskj. 512 till. um að hækka framlag til hafnargerðar í Bolungavík úr 60 þús. kr. í 260 þús. kr. Ég sé, að hv. þm. N-Ísf. er ekki við, og vil því skýra þetta atriði nokkru nánar. Það var ákveðið á síðasta ári á 22. gr. fjárl. að heimila ríkisstj. að verja fé til viðgerðar á brimbrjótnum í Bolungavík vegna skemmda, sem urðu á mannvirkinu í desember 1950. Kostnaðurinn var áætlaður 500 þús. kr. Áður hafði verið ákveðið að bæta tjón, sem orðið hafði á öðrum árum, án framlags á móti. Á þessu ári hafa verið greiddar upp í þessar framkvæmdir 800 þús. kr., en alls hafa verið greiddar 1 millj. og 200 þús. kr., án þess að neitt kæmi á móti, fyrir viðgerð á brimbrjótnum. Í raun og veru hefur þó ekki verið hér um viðgerð eina að ræða, heldur endurbætur, svo að garðurinn hefur verið gerður traustari en hann var áður, en það var ekki ætlun Alþ., að ríkissjóður bæri allan þann kostnað. Nú þarf um 500 þús. kr. í viðbót, svo að unnt sé að vinna að þessum framkvæmdum á næsta ári, sem er knýjandi nauðsyn, og verður þessu fé skipt í sama hlutfalli og öðrum hafnarframlögum. Þetta er ástæðan til þess, að þessar 200 þús. kr. hafa verið teknar upp, og vegna þessa fær Bolungavík 40 þús. kr. meira en nokkur önnur höfn á landinu.

Þá er brtt. við 14. gr. B. II., sem hæstv. menntmrh. bar fram við 2. umr., en tók aftur til 3. umr. N. þótti rétt að bæta við till., að lánin yrðu veitt samkv. reglum, sem menntmrn. setti. Till. er um það, að af styrk þeim, sem veittur er íslenzkum námsmönnum erlendis, skuli 275 þús. kr. veittar námsmönnum sem lán með hagkvæmum kjörum. Ég veit ekki, hvort vakað hefur fyrir hæstv. ráðh., að allir námsmenn hefðu jafnan aðgang að þessum lánum eða hvort þeir ættu frekar að fá þau, sem möguleika hafa á því að greiða þau síðar, en n. taldi rétt að taka till. upp.

Þá er 3. till. á þessu þskj. varðandi Laugarvatn, sem ég vildi ræða nokkuð. Við 2. umr. bar meiri hl. fjvn. fram till. um 100 þús. kr. fjárveitingu til menntaskólakennslu á Laugarvatni. Till. þótti ekki nægilega skýrt orðuð og var tekin aftur til 3. umr. Nú hefur till. verið orðuð um á þann veg, að fé þetta verði veitt til menntaskóla á Laugarvatni. Verði till. samþ., er því þar með slegið föstu, að l. um menntaskóla í sveit skuli framkvæmd. Alþ. verður að segja til um það, hvort það vill samþ. þetta eða ekki.

Verði till. felld, fær skólinn ekkert framlag á þessu ári, en verði hún samþ., þýðir það, að þegar á næsta ári verður settur upp menntaskóli á Laugarvatni með þeim kostnaði, sem því fylgir. Það er vert, að menn geri sér þetta ljóst.

4. till. er við 17. gr., 7. lið, um að í stað „1/3 af andvirði Silfurtúns“ komi: lokagreiðsla vegna Silfurtúns. — Þessi breyt. er gerð samkv. upplýsingum skrifstofustjóra ráðuneytisins, en eins og kunnugt er, er þetta skoðað sem rekstrarstyrkur til Sambands íslenzkra berklasjúklinga, sem fengið hefur trésmiðjuna til eignar og afnota.

5. brtt. er við 18. gr. II. a., um að bætt verði við þeim Ágústi Elíassyni, fyrrv. yfirfiskimatsmanni, og Jóni Sveinssyni, fyrrv. skattdómara.

Loks er 6. og síðasta till., við 18. gr. H. b., um hækkun eftirlauna til Helgu Finnsdóttur og um, að bætt verði við Sólveigu Pétursdóttur, ekkju Stefáns Kristinssonar.

Þetta eru þær till., sem fjvn. ber fram, en auk þess er von á nokkrum fleiri tili. frá n., sem enn eru ekki komnar fram, og mun ég ræða þær síðar. Allar þessar till. hafa fylgi meiri hl. fjvn.

Hækkanir þær, sem till. fjvn. hafa í för með sér, eru sem hér segir: 10. gr. hækkar um 16 þús. kr. 11. gr. hækkar um 691 þús. kr. 12. gr. hækkar um 530 þús. kr. 13. gr. hækkar um 229 þús. kr., að viðbættum 473 þús., ef till. samvn. samgm. eru taldar með, eða alls um 702 þús. kr. 14. gr. hækkar um 145 þús. kr. 15. gr. hækkar um 182500 kr. 16. gr. hækkar um 1925000 kr. 17. gr. hækkar um 574 þús. kr. 18. gr. hækkar um 197398.38 kr. Við þetta bætist svo vísitöluuppbót á lífeyri, 575 þús. kr., og einnig bætast við rúmar 50 þús. kr. vegna hækkaðrar verðlagsuppbótar. Loks hækkar 19. gr. um 3500000 kr. Alls hækka rekstrarútgjöldin um rúmar 9 millj. kr., þegar með er talin styrkhækkunin til flóabáta.

Rekstrarútgjöldin, sem voru 323154171.00 kr., hækka um 9037889.38 kr. og verða því alls 332192060.38 kr.

Tekjur á rekstraryfirliti verða 356688378 kr., en það er sú upphæð, sem lögð var til fyrst, svo að ef till. n. verða samþ., verður rekstrarafgangur 24496317.62 kr.

Nú hefur 20. gr. frv. verið hækkuð um 300 þús. kr., svo að sjóðsyfirlitið mundi líta þannig út, að útborganir yrðu 332194060.38 kr., að viðbættum 47076075.00 kr., sem eru útgjöld samkv. 20. gr., eða alls 379270135.38 kr. Innborganir yrðu hins vegar 362638378.00 kr., svo að greiðsluhalli mundi verða, sem næmi 16631757.38 kr.

Vegna þessa greiðsluhalla, sem ég hef lýst, hefur það orðið samkomulag í n. og við fjmrh. að leggja til að hækka tekjuliði 2. gr. sem hér segir, og verður till. útbýtt síðar: Tekju- og eignarskattur hækki úr 41 millj. kr. í 45 millj. kr., verðtollur hækki úr 93 millj. kr. í 105 millj. kr., stimpilgjald hækki úr 6 millj. kr. í 7 millj. kr., tekjur af tóbakseinkasölunni verði áætlaðar 21/2 millj. kr. hærra en gert er ráð fyrir í frv. nú. Samtals er þetta um 191/2 millj. kr. Ef þessi hækkun á tekjuáætluninni verður samþ. og tekjurnar innheimtast, verður greiðsluafgangur á sjóðsyfirliti um 3 millj. kr.

Ég skal ekki ræða það nú, hve þýðingarmikið það er, að fjárl. verði afgr. greiðsluhallalaus, hæstv. fjmrh. hefur oft gert það áður. Hitt er sýnt, að gæta verður allrar varúðar og að ekki er hægt að samþ. mikið af öðrum till., ef ná á hagstæðum greiðslujöfnuði, nema séð sé samtímis fyrir nýjum tekjum.

Ég vil fyrir hönd fjvn. óska þess, að allar till. n. verði samþ. og allar aðrar till. felldar, nema n. fái tækifæri til að athuga þær og ræða og geti fallizt á nauðsyn þeirra.

Ég skal svo ekki ræða þetta frekar.