19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vildi lítils háttar gera að umræðuefni 3. liðinn í brtt. meiri hl. fjvn. á þskj. 512, um menntaskóla á Laugarvatni, þar sem lagt er til, að til menntaskóla þar verði veittar 100 þús. kr. Ef það verður samþ., mun ég gera gangskör að því, að slíkur skóli verði stofnaður í sveit sem sjálfstæður menntaskóli, með því sem þar til þarf, en ekki sem útibú frá héraðsskólanum á Laugarvatni eins og mér virðist ýmsir halda, að hægt sé að gera nú, að hafa menntaskóla í sveit sem útibú héraðsskólans á Laugarvatni. En í þessu sambandi vil ég taka fram, að 100 þús. kr. er alls ekki nægileg fjárveiting, það er ekki hægt að stofna og reka menntaskóla í sveit eða annars staðar með 100 þús. kr. fjárveitingu, og þá er um tvennt að gera: annaðhvort, að skólinn verði stofnaður með þessari fjárveitingu og ríkissjóður bæti við því, sem á vantar, eða að skólinn verði ekki stofnaður, vegna þess að fé er ekki fyrir hendi til að stofna hann, þó að þingið hafi veitt fé til hans á fjárl. Ég bið hv. þm. að gæta þess, að ég mundi halda, að slíkur skóli kostaði frekar 400–500 þús. kr. en 100 þús. kr., og í framtíðinni verður náttúrlega ekki, hvorki á Laugarvatni né annars staðar, rekinn menntaskóli í sveit með 100 þús. kr. fjárveitingu. Ef ég man rétt, kostar skólinn á Akureyri 1200 þús. kr. á næsta ári, svo að það hlýtur að vera ljóst, að ekki er hægt, hversu vel sem til þess er stofnað og hversu vel sem á er haldið, að reka menntaskóla með 100 þús. kr. framlagi. — Þessa afstöðu mína vildi ég gera hv. þm. ljósa, svo að ekki sé neitt um að villast og ekkert um að deila í sambandi við þau frv., sem e.t.v. síðar kynnu að koma fram í þessu máli. Ég er út af fyrir sig ekkert andvígur því, að stofnaður verði menntaskóli í sveit, — ég tel það að mörgu leyti æskilegt, — en ég álit, að því leyti sem ég hef getað kynnt mér þetta mái, að ekki sé enn tími til þess kominn að hefjast handa um þessar framkvæmdir.