19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Við þm. Eyfirðinga flytjum hér 2 brtt. við fjárlfrv., og er önnur þeirra í tveim liðum. Þessar brtt. eru nú ekki komnar hér á þskj., en munu koma bráðlega. Ég mun ekki ræða nema aðra till., hina mun meðflm. minn ræða.

Till. sú, sem ég mun ræða, er brtt. við 22. gr. XX. og er nýr liður. Hún fer fram á, að ríkissjóði verði heimilað að greiða að fullu tjón það, sem varð á hafnargarðinum á Dalvík í stórbrimi haustið 1950. Við eigum ekki við það, að þetta verði sérstök útgjöld á næsta árs fjárl., heldur að fjárveitingum til hafnarinnar verði varið til þessa án framlags á móti, þar til skaði þessi er að fullu bættur, og ekki verði krafizt á meðan framlags frá Dalvík á móti, eða þótt Dalvík leggi eitthvað til þessara framkvæmda, þá verði lögboðinn hluti af því greiddur. Þetta raskar því ekkert niðurstöðu fjárlagaafgreiðslunnar nú né heldur þarf að raska fjárlagaafgreiðslu á næsta ári, nema ríkisstj. vildi ljúka þessu á næsta ári og nota hluta af því fé, sem væntanlega verður veitt sem aukaveiting til hafnarframkvæmda á fjárlagafrv.

Það tjón, sem varð á garðinum og nú er búið að bæta, hefur kostað 300 þús. kr. Hv. fjvn. fékk upplýsingar um þetta í fyrra, er ný skoðun fór fram, en það hafa víst ekki legið nú fyrir skjöl um þetta mál. En ég get ekki talið, að það geri neitt til, því að vitanlega mun það ráðuneyti, sem mál þessi heyra undir, kynna sér nákvæmlega allar aðstæður, svo að það sé að öllu leyti tryggt, að ekki geti orðið um misnotkun á þessu að ræða.

Við berum þessa till. fram bæði vegna þess, að vitanlegt er, að þetta sveitarfélag, Dalvík, á við mikla örðugleika að stríða vegna þessa óhapps og hefur orðið að vinna að því eftir megni að reyna að bæta það. Í öðru lagi er það vegna þess, að fordæmi er fyrir hendi. Það mun hafa verið greiddur kostnaður við viðgerð á höfninni í Bolungavík og einnig á öðrum stöðum. Finnst okkur, að þetta muni því engu síður eiga rétt á sér. Hér er um að ræða hlut, sem enginn heima á Dalvík getur að gert. Ekki létu þeir þetta stórbrim koma, og ekki reiknuðu þeir út, hvernig garðurinn ætti að vera. Ég ætla mér ekki að bera hér sakir á neinn, en það var vitamálaskrifstofan, sem hafði með höndum allar áætlanir og framkvæmdir í þessu máli.

Um það má lengi deila, hvort rétt sé að ganga inn á þessa braut, hvort ríkið eigi að taka á sig útgjöld, þegar ýmis sveitarfélög verða fyrir svona óhöppum, en það hefur verið gert, eins og ég gat um áðan, í Bolungavík og annars staðar, og eiga því aðrir staðir sama rétt. Og það er þannig með margt, að þegar hefur verið gengið inn á þessa braut, þá er erfitt að segja: Þessir eiga að fá hlunnindin, en hinir ekki. — Ég vænti því, að þessi till. fái góðar undirtektir hjá Alþ. og fjvn.

Ég vil svo að endingu þakka forseta fyrir, að hann skyldi vilja leyfa mér að tala um þessa brtt., þótt ekki væri búið að útbýta henni.