19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég get að vísu sagt svo um eina till., sem ég stend að ásamt fleiri þm., eins og hv. 6. landsk. var að segja, að sú till. er ekki komin á borðið enn þá, en ég get lýst henni fyrir því, þegar þar að kemur. En áður en ég vík að þeim till., sem ég er við riðinn, vil ég segja nokkur orð í framhaldi af þeirri ræðu, sem hv. frsm. samvinnun. samgm. var að ljúka við. Hann lýsti þar rækilega till. n., sem ég ætla ekki að gagnrýna, og þykir mér n. hafa eftir megni reynt að gera hvort tveggja, að verða við réttmætum óskum ýmissa landshluta varðandi samgöngubætur og um leið áð stilla útgjöldunum í hóf.

Ég vil gera lítils háttar athugasemd við þá brtt. n., er snertir styrk til h/f Skallagríms — eða Laxfossferðanna. Eftir því, sem mér skilst, þá leggur n. til í fyrsta lagi, að þetta félag njóti 100 þús. kr. styrks, og í öðru lagi er till. um, að heimilað sé að greiða þessu félagi vegna taprekstrar á s.l. ári sömu upphæð, eða 200 þús. kr. bæði árin. Ég tel rétt að drepa aðeins á þetta og vekja athygli hv. n., — ekki fyrir það, að ég leggist á móti þessari till., heldur vil ég skýra nokkuð ástæðuna fyrir því, að þessar 200 þús. kr. eru lagðar á ríkissjóð. Hv. þm. sagði, að Borgarnes- og Akranesferðunum væri haldíð uppi af hálfu félagsins með góðu og hentugu skipi, og get ég tekið undir það með honum. Ég veit það af reynslunni, þar sem Laxfoss innti í stríðinu þarfa þjónustu varðandi flutninga frá Reykjavík til Vestmannaeyja, og gekk það vel og kom sér vel vegna samgönguleysis, sem Vestmannaeyjar áttu þá við að búa. Það mun hafa verið á s.l. ári, að þetta hlutafélag sóttist eftir því, að Skipaútgerð ríkisins keppti ekki við þá vöruflutninga, sem félag þetta hefði með höndum, ekki á Laxfossi, heldur á öðrum skipum, milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, á bátum, sem ekki eru eign Skipaútgerðarinnar. Það er vitað, að í þessum flutningum fyrir Skipaútgerðina eru skip, sem vitað er, að eru ekki gerð út af Skipaútgerðinni, heldur eru í einkaeign. Þeir, sem sögðu mér frá þessum málaleitunum, skýrðu mér frá því, að Laxfossútgerðin hafi talið sig geta bjargazt styrklaust af ríkisins hálfu, ef ríkið keppti ekki við þessa vöruflutninga til Vestmannaeyja á annan hátt en að skip Skipaútgerðarinnar flyttu vörur þangað. Það leit um tíma svo út, að þeir forráðamenn, sem eru fyrir Skipaútgerðinni, og sá ráðh., sem um þetta fjallar, mundu fallast á að láta Laxfossútgerðina fá aukatekjur af þessum flutningum, sem að dómi forráðamanna hennar mundu bjarga henni frá að þurfa að leita til ríkisins um styrk. En því miður hefur þetta ekki orðið, og þessi leiguskip hjá Skipaútgerðinni hafa haldið áfram flutningum til Vestmannaeyja, og niðurstaðan er sú fyrir þessa útgerð, að ríkissjóður verður að borga þessar 200 þús. kr., sem hann annars hefði losnað við. Ég hef þetta frá beztu heimildum, sem hægt er, eða frá afgreiðslumanni Laxfoss hér í Reykjavík, og hygg ég, að hv. frsm. samvinnun. samgm. sé kunnugt um þessar málaleitanir Laxfoss. Þessar 200 þús. kr. hefði vel mátt spara ríkissjóði. Læt ég svo að því er snertir þetta mál útrætt um þetta atriði.

Ég hef leyft mér að endurnýja till., sem ég bar fram við 2. umr. fjárl. varðandi styrki til leikstarfsemi úti um landið, eða utan Reykjavíkur. Ég flyt þessa brtt. ásamt hv. þm. Snæf. og hv. 6. landsk. þm. Hún er nú í öðru formi og flutt sem heimild fyrir ríkisstj. eða ráðh., eins og segir á þskj. 520, XXIV. lið:

„Við 22. gr. VIII. Nýr liður: Að leggja fram 100 þús. kr. aukastyrk til þess að örva leiklistarstarfsemi leikfélaga utan Reykjavíkur, enda úthluti menntmrh. styrknum, og miðist hann við tölu leiksýninga á árinu 1952 á hverjum stað.“

Það er vitað, að úti um land, svo að segja í hverjum hreppi og hverri sýslu, er höfð viðleitni af heimamönnum og leikfélögum til að sýna sjónleiki í félagsheimilum, samkomuhúsum og góðtemplarahúsum til að skemmta héraðsbúum. Það er vitað, að af öllum skemmtunum, sem efnt er almennt til, eru leiksýningar bezt til fallnar að skemmta bæði ungum og gömlum, en það er ekki hægt að segja um allar skemmtanir, sem haldnar eru úti um land. Þegar á það er litið, hve ríkið kostar mikið upp á þjóðleikhúsið og leikstarfsemi hér í Reykjavík, þá finnst mér hóflegt að fara fram á, að dreifbýlið njóti þessarar styrkveitingar til að halda uppi leikstarfsemi víðs vegar. Það er ekki ætlazt til, að félögin fái styrk eða greiðslu, nema þau hafi til hans unnið, og er þá miðað við, að fylgt verði till. menntmrh. Úthlutun styrksins miðast við tölu leiksýninga, hve menn hafa lagt mikið á sig í þessu skyni. Ég fæ ekki annað séð en þetta sé sanngirni og gæti verið uppörvun til að halda uppi hollu skemmtanalífi úti á landi. — Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en ef á að vísa þessari till. frá, annaðhvort með tilvísun til lítilfjörlegs styrks á fjárl. til einstakra leikfélaga eða 20 þús. kr. styrks til Bandalags íslenzkra leikfélaga, þá vil ég benda á, að í fyrsta lagi er þessi styrkur svo lítilfjörlegur, að það tekur varla að nefna hann, og í öðru lagi koma þessar 20 þús. kr. til bandalagsins óbeint til góða fyrir félagsstarfið. Þess vegna er þessari till. engan veginn ofaukið, ef hv. þm. vilja sýna dreifbýlinu nokkra viðurkenningu fyrir það erfiði, sem menn leggja á sig til að efna til leiksýninga. Það er ekki ætlazt til, að farandleikfélög, sem fara byggð úr byggð, njóti þessa styrks, heldur aðeins þau félög, sem eru staðbundin við plássið, þar sem leikurinn er sýndur.

Ég hef svo ráðizt í að flytja brtt. á þskj. 522 — en það er ekki komið enn þá — ásamt hv. 2. landsk. þm., hv. 4. landsk. þm., hv. þm. Seyðf. og hv. þm. Hafnf. Er sú till. líka við 22. gr. og miðar að því að fela fjmrh. heimild til að bæta þeim skipasmiðastöðvum, sem byggðu fiskibáta fyrir ríkisstj. í tíð nýsköpunarstjórnarinnar, að einhverju leyti það tjón, sem þær urðu fyrir. Svo sem kunnugt er, efndi ríkisstj. til byggingar báta innanlands í samvinnu við margar skipasmiðastöðvar, sem byggðu þessa báta á vegum ríkisstj., en þeir urðu alls 26. Byggðir voru 9 bátar af stærðinni 60–66 smál., en 17 bátar af stærðinni 36–40 smál. Það féll í minn hlut sem sjútvmrh. að standa fyrir sölu á þessum bátum til útgerðarmanna og sjómanna í landinu. Ég get fullyrt, að þessir bátar voru vel byggðir og komu í góðar þarfir. Ég veit um marga, — og hygg, að sama megi segja um flesta, ef ekki alla, — að þeir hafa orðið til þess að draga björg í þjóðarbúið. Nú var það svo, að þeir, sem keyptu þessa báta, voru látnir skrifa samning um þetta efni og fengu að borga þá eftir þeim samningi. Meðan á byggingunni stóð hækkaði efnið, og þessar skipasmiðastöðvar höfðu ekki allar getað komið því við að tryggja sér nægilegt efni fyrir hækkunina. Þess vegna urðu allar þessar skipasmíðastöðvar fyrir tjóni með því að skila bátunum eftir þeim samningum, sem ríkisstj. krafðist.

Þær fengu að vísu samningsbundið verð fyrir þá, en vegna hækkunar á efni og vegna þess að þær fengu ekki eftirgjöf á tollum, urðu þær fyrir miklu tjóni og hafa sumar ekki borið sitt barr síðan. Ég ætla, að það sé víst, að engin ríkisstj. vilji efna til þess að láta þegnana vinna fyrir sig verk, sem þeir tapa á, enda er ekki hægt að segja, að þetta sé ríkisstj. að kenna, þó að svona hafi farið. En ríkisvaldið verður að taka tillit til, hvaða ástæða er fyrir því, að þessir menn urðu fyrir tjóni. Nú var það svo, að eftir þessu var leitað, meðan ég var fjmrh., en mig skorti heimild til að verða við þessari ósk, þó að ég gæti ekki séð annað en að þetta væri rétt. í fjárlfrv., sem ég bjó út, þegar ég var fjmrh., setti ég því heimild fyrir ráðh. til að mega bæta þessum skipasmiðastöðvum þetta tjón, 35 þús. kr. á stærri bátana, en 25 þús. kr. á hina minni. Þannig fór frv. úr fjmrn. til Alþ. Það er dálítið táknrænt fyrir þá aðbúð, sem fjmrh. átti við að búa í þeirri tíð af hálfu fjvn., að hún felldi þetta úr frv. M.ö.o., heimild, sem fjmrh. bað um til að verða við óskum borgaranna, var látin niður falla af fjvn. og Alþ. Ég skal — til að sýna sanngirni — kannast við, að hv. fjvn. hafði það fyrir augum, að ef við þessari beiðni yrði orðið, þá mundu aðrar kröfur sigla í kjölfarið, og heyrðist í því sambandi getið um endurgreiðslu á tollum af sænsku húsunum og bátum, sem fluttir voru til landsins á sama tíma. Ég get þessa hér vegna þess, að það kunna í þessu að felast nokkrar málsbætur fyrir n. fyrir að vísa beiðni ráðh. frá. Hann varð að láta sér lynda, að beiðnin var ekki veitt. Nú hefur það skeð síðan, að núverandi fjmrh. hefur freistazt til að láta niður falla toll af þessum sænsku húsum, og ég hef tekið eftir því, að það er stjfrv. um að veita heimild til að endurgreiða tollinn af hinum innfluttu bátum, svo að þeim þrándi er nú vikið úr götu. Það ætti því að vera auðsótt nú að gefa ráðh. heimild til að geta litið á skaða þessara skipasmíðastöðva með sanngirni. Ég vil enn fremur geta þess, að á þeim tíma, sem fyrrv. fjmrh. bjó út frv. til fjárl. fyrir árið 1950, var íslenzka krónan á öðru gengi en hún er nú. Þrátt fyrir þetta vildi ég ekki breyta þeim upphæðum, sem þá voru nefndar, svo að í rauninni er hér farið fram á lægri upphæð en í upphafi, og er það enn ein ástæða til þess, að hið háa Alþ. sýni nokkurn réttlætisvott þeim, sem fyrir skaðanum hafa orðið. Loks vil ég geta þess, að Gunnlaugur Briem, skrifstofustjóri í ráðuneytinu, hefur sagt, að hann teldi það hið mesta réttlætismál, að alþ. veitti aðstoð í þessu efni. Hann var fulltrúi í atvmrn., þegar bátarnir voru smíðaðir. Hann var það enn, er ég var ráðh., og flutti ég þetta þá í samráði við hann og einnig 1950, en þetta komst ekki í gegn hér í þinginu, og flyt ég þetta því enn í samráði við hann. Ég vona því, að Alþ., hafandi þessar staðreyndir í höndum, sjái sér fært að sýna réttlæti í þessu máli. Þessir bátar eru það vel úr garði gerðir, að ég hef enga kvörtun heyrt um þá, hvorki bátann, sem smíðaðir voru hér, né vélarnar, sem fengnar voru í þá. Það sýnir, að þeir, sem smíðað hafa bátana, hafa afhent þjóð sinni góð og vönduð skip og eiga því vissulega ekki skilið að bera einir þann skaða, sem orðið hefur af smíði þeirra.