19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Andrés Eyjólfsson:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. bar ég fram tvær litlar brtt., en tók þær þá aftur í þeirri trú og von, að fjvn. tæki þær til athugunar. Þetta hefur nefndin nú gert, og get ég verið eftir hætti ánægður með þá úrlausn, sem þær fengu, og vil ég þakka hv. nefnd fyrir þá afgreiðslu.

Að þessu sinni hef ég borið fram fáeinar brtt., sem eru flestallar um að hækka fjárveitingu til vega í Mýrasýslu, því að mér hefur alltaf fundizt, kannske vegna þess, hve ég þekki þar vel til, að Mýrasýsla hafi verið nokkuð afskipt með vegi. Mýrasýsla er allviðlend sýsla, og á hún við slæm vegasambönd að búa, auk þess sem hún er mikil mjólkursýsla, og eru þar ein 10–15 heimili, sem eiga mestalla sína afkomu undir mjólkursölunni, en búa við mjög lélegt vegasamband, og er það skiljanlega mjög erfitt fyrir þau. Ég vil því freista að bera fram nokkrar tili. um hækkun fjárveitinga til vega í Mýrasýslu til að reyna, hvort þær nái ekki samþykki þingsins. Skal ég vera fáorður um þessar till. hverja um sig. Till. eru prentaðar á þskj. 522, undir tölul. II, og eru í fjórum liðum.

Fyrsti liðurinn er um Hvítársíðuveg, að í stað 60 þús. komi 90 þús. kr. Það er þannig ástatt í Hvítársíðunni, að það eru 16 bæir í hreppnum og af þeim hafa aðeins 7 gott vegasamband. Í fyrra voru það ekki nema 5 af þessum 16. Á hinum býlunum flestum þarf að flytja mjólkina yfir 20 km veg dag hvern, og sjá allir, að ógerningur er við slíkt að búa. Í sumar sem leið var gerður nokkur sprettur við vegagerðina og lagður vegur tvær bæjarleiðir, svo að nú eru það 7 af 16, sem hafa allgott vegasamband, eins og ég sagði áðan. Í frv. er nú gert ráð fyrir, að til þessa vegar verði veittar 60 þús. kr. á næsta ári, og er það sama upphæð og hreppurinn lánaði s.l. sumar til vegagerðarinnar, og þótt hreppurinn vildi lána þessa upphæð, mun það varla hægt, þar sem nú er verið að undirbúa byggingu barnaskóla fyrir hreppinn og í hann verður að leggja 40–50 þús. kr. Því leyfi ég mér að mælast til, að hv. þm. samþ. þessa 90 þús. kr. fjárveitingu í stað 60 þúsundanna.

Þá er 2. liður í þessum brtt., sem er um það, að til Álftaneshreppsvegar verði veittar 90 þús. kr. í stað 80 þús., eins og gert er ráð fyrir í frv. Um þennan veg er það að segja, að vegur sá, sem er í þjóðvegatölu í þessum hrepp, er langt til lagður, og vegamálastjóri hefur áætlað, að það muni þurfa um 85–90 þús. kr. til að ljúka honum. Þessar 80 þús. mundu því mjög naumar til þessa, og hef ég lagt til, að 10 þús. kr. yrði bætt við, svo að öruggt yrði, að þessi vegur yrði kominn á næsta sumar.

Þá er það í þriðja lagi Hraunhreppsvegur, að í staðinn fyrir 110 þús. kr. í fjárlagafrv. komi 125 þús. kr. Þessi hreppur er mjög illa vegaður, og bæði þar og í fleiri hreppum var á siðasta vetri gerð sú krafa, að mjólkin yrði flutt þaðan daglega til Borgarness. Þetta gerði það að verkum, að margir bændur urðu að hætta við alla mjólkursölu, gátu ekki annað, þar sem ógerlegt var að flytja mjólkina daglega svo langa og illfæra leið. Það er því hin mesta þörf að reyna að hraða vegagerð á þessum slóðum, svo að þessir bændur geti komið mjólk sinni fyrirhafnarlítið á markað.

Þá er það í fjórða lagi Þverárhlíðarvegur, að í stað 15 þús. kr. komi 25 þús. kr. Þarna stendur þannig á, að í hittiðfyrra var á, sem nefnist Litla-Þverá, brúuð, en brúin var staðsett nokkru fyrir neðan vað, sem er á ánni og er í sambandi við þjóðveginn. Það vantar því þarna dálítinn vegarspotta til að tengja brúna við þjóðveginn. Nú hefur verið áætlað af vegagerðarverkstjóra í Borgarnesi, að þessi vegarspotti mundi kosta um 25–30 þús. kr. Þennan vegarspotta þyrfti nauðsynlega að leggja næsta sumar, þar sem þetta er dagleg mjólkurflutningaleið, sem þarf að vera fær á veturna. Ég hef því leyft mér að leggja til, að fjárveitingin til þessa vegar yrði hækkuð um 15 þús. kr.

Um alla þessa vegi er það að segja, að ég hefði óskað þess, að hv. fjvn. hefði tekið þá til athugunar nánar, til þess að vita, hvort ekki væri unnt að veita ríflegar til þeirra. En ég vona, að hv. þm. sjái sér fært að samþ. þessar till. mínar.

Þá á ég einnig smátill., nr. IV á þessu sama þskj., þskj. 522, sem er um það, að framlagið til Skallagrímsgarðs verði hækkað úr 1000 kr. í 5000 kr. Þetta mundi þá vera nokkuð til samræmis við það fjárframlag, sem fjvn. hefur lagt til að veita til Egilsgarðs á Borg á Mýrum. Mér er kunnugt um það, að allir þeir, sem séð hafa þennan garð, hafa dáðst að honum fyrir, hvað hann væri sérstaklega vel hirtur. En garður þessi er gerður utan um haug Skallagríms.

Að lokum vil ég minnast ögn á VI. till. á þskj. 522, sem fram er borin af samvinnunefnd samgöngumála. Hún er um það að veita ríkisstj. heimild til að greiða h/f Skallagrími 100 þús. kr. vegna vélaviðgerðar á árinu 1951. Fjárhag h/f Skallagríms er komið þannig í vetur, að það liggur við borð, að segja þurfi öllum mannskapnum upp, vegna þess að ekki er hægt að reka skipið næsta ár með þeim halla, sem verið hefur á rekstrinum að undanförnu. Fyrst eftir að þessar truflanir urðu á útgerð skipsins, var gripið til varasjóðs, en nú mun hann allur upp étinn, og skuldir félagsins nema nú á milli 200 og 300 þús. kr. Þessi till. er því borin fram til þess, að útgerð skipsins þurfi ekki að stöðvast næsta ár, ef till. nær samþykki þingsins.