19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef nú gerzt meðflm. aðeins að einni brtt., sem liggur fyrir við þessa umr., og ætla ég ekki að fjölyrða neitt um hana. Ég vil vænta, að hv. þm. meti vel þann tilgang, sem hún hefur, og samþ. hana. Hv. 1. flm. hennar hefur mælt fyrir henni, og ég vísa til þess, sem hann sagði um það efni.

Ég vil láta í ljós þakklæti mitt til hv. fjvn. fyrir till. hennar á þskj. 519, nr. 7, sem er um að endurgreiða hafnarsjóði Þorlákshafnar kostnað af lagningu Þorlákshafnarvegar, kr. 26285L81, á næstu þrem árum með jöfnum afborgunum. Ég hefði að vísu kosið heldur, að það hefði ekki tekið lengri tíma en tvö ár. Þó er þetta bót, og er sjálfsagt að meta og virða vilja hv. n. til þess að greiða fyrir málinu, og þakka ég henni fyrir það.

Þá vil ég einnig þakka hv. fjvn. fyrir till. hennar á þskj. 512, nr. 3. Það er til menntaskólans á Laugarvatni, 100 þús. kr. fjárveiting. Ég vil aðeins, — þó að ég viti, að hv. frsm. muni gera því miklu betri skil og ég þurfi ekki að aðstoða hann neitt við það, — láta í ljós skoðun mína á því, sem kom fram í ræðu hæstv. menntmrh. Hann er nú ekki hér viðstaddur. En ég býst við, að þessum umr. verði lokið án þess að það gefist kostur á að láta hann heyra nokkuð um þetta efni. En ég vil víkja stuttlega að því, sem hann sagði. Hæstv. ráðh. taldi, að þessi fjárveiting mundi ekki nægja og að kostnaðurinn mundi verða meiri, og hann sagði — að mér skildist — að það gæti svo farið, að hæpið væri, að hann mundi sjá sér fært að framkvæma þessa samþykkt. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi kannske ekki íhugað það, að þessi aukakostnaður á næsta ári verður ekki svo sérlega mikill. Það er sökum þess, að það eru nemendur í þessu húsnæði nú, sem skólinn hefur, og verður þess vegna sennilega ekki gerður mikill reikningur fyrir það. Sömuleiðis eru nemendur í þessum kennslustofum, sem þar eru til staðar, sem einnig dregur úr kostnaðinum. En það er rétt hjá hæstv. ráðh., að þegar þessi menntaskóladeild er að fullu tekin til starfa, þá kostar það nokkru meira. En mjög mikill kostnaður vona ég að það verði ekki og minni nokkuð en hv. 3. landsk. þm. hafði verið að orða hér áðan. En viðvíkjandi framkvæmdinni, þá kemur mér ekki til hugar annað en að hæstv. ráðh. hljóti að verða fullkomlega samþykkur Alþingi í þessum efnum sem öðrum, þannig að ég óttast ekki neitt slíkt, enda þykist ég nú vita, þó að kannske hefði mátt skilja ummæli hæstv. ráðh. eitthvað á þann veg, þá hafi hann ekki meint það. Ég get svo látið þetta nægja um þetta atriði.

En hv. 3. landsk. þm. gaf mér tilefni til þess að víkja nokkrum orðum að því, sem hann sagði. Ég veit, að hv. frsm. fjvn. gerir því atriði mjög góð skil. En af því, hvernig mér fannst hv. 3. landsk. þm. fara eitthvað annarlegum höndum um þetta mál og talaði um það af takmörkuðum skilningi, svo að ekki sé meira sagt, þá finnst mér ég ekki geta annað en víkið að þessari ræðu hans nokkrum orðum. Hann sagði, að þessi brtt. kæmi sér undarlega fyrir sjónir, þetta væri 100 þús. kr. fjárveiting. Vera má, að hann hafi meint bara, að þessi fjárveiting kæmi honum undarlega fyrir sjónir, því að hann gerði ráð fyrir, að þetta kostaði að minnsta kosti 400–500 þús. kr., sagði hann. Það mun ofmælt hjá hv. þm., að það kosti svo mikið. En það er rétt, að í framtíðinni verður kostnaðurinn miklu meiri en hér er áætlað. En mér fannst á ræðu hans umfram þetta atriði, að þá fyndist honum, að það kæmi að öðru leyti undarlega fyrir sjónir. Hann drap á það, — og mun ég koma að því síðar, — að menntaskólinn í Reykjavík væri nú svo yfirfullur, að hann gæti alls ekki tekið á móti fleiri nemendum, og það er vissulega rétt hjá hv. þm. Hann hafi verið vanræktur. Og það er einmitt það. Það er of lítið hlynnt að menntaskólanum, og ég hef látið áður í ljós skoðun mína um það atriði hér á Alþingi, og þar eigum við, sem eigum sæti hér, ríka sök á. Væri þörf á að reyna að bæta fyrir það eins fljótt og frekast er hægt. En þar finnst mér gæta nokkurs misskilnings hjá hv. þm., að það séu sérstaklega breytingar fyrir menntaskólann í Reykjavík, sem komi í veg fyrir, að menntaskóli geti starfað í sveit. Ég held, að það sé misskilningur varðandi menntaskóla í sveit, að það eigi að vera á kostnað menntaskólans hér í Reykjavík. Og ég hygg, að hvorki rektor menntaskólans né kennarar séu þeirrar skoðunar, að þeir endilega óttist, að þetta gerist með því móti.

Eftir upplýsingum hv. þm., sem ég held að séu alveg réttar, um að menntaskólinn í Reykjavík geti ekki tekið á móti fleiri nemendum og hann sé yfirfullur nú, þá hafa piltar, sem vilja stunda menntaskólanám utan af landi, ekki átt annars úrkostar en að fara til Akureyrar. Hv. þm. sá ráð við því og sagði, að húsrúm í Akureyrarskólanum væri of mikið fyrir skólann eins og hann er skipaður nú. Hann taldi, að þar væri of mikið húsrúm og það stæði bara autt. En hann álítur betra húsrúm á Laugarvatni, en hins vegar, að þeir, sem vildu stunda þar nám, skyldu þó annaðhvort hætta eða fara til Akureyrar. Hann athugar ekki það, að það er dýrara að stunda nám á Akureyri en í heimavistarskóla í sveit. Nú vil ég mega vona, að kennslan geti verið jafngóð á báðum stöðunum, svo að að því leyti ættu menn að sækja jafnt til staðanna. Ég veit, að Laugarvatnsskólinn hefur lagt sig fram nú á síðustu árum, eftir að byrjað var að stunda þessa kennslu þar, um að ná í góða kennara. Og ég held, að þeim hafi tekizt það og að kennararnir þar séu góðir og að þau próf, sem nemendurnir hafa tekið, séu eins góð og hjá nemendum í öðrum skólum. En því má þá ekki Laugarvatnsskólinn nota sitt húsnæði til þessarar kennslu? Sérstaklega finnst mér þetta undarlegt hjá hv. 3. landsk. þm., þar sem hann segir sig eiginlega vera hlynntan því, að menntaskóli komist á í sveit. (GÞG: Þegar tími er til kominn.) Þetta var marklaust innskot hjá hv. þm. Húsrúm er nú til, og það þarf ekki svo mjög að kosta til þess, að minnsta kosti ekki nú um skeið, að endurbæta það. Kennslustofurnar eru þar til. En það þarf einhvern smákostnað til að koma öðru þar í lag. En þessi kostnaður getur ekki orðið mikill. Það verður nokkur aukakostnaður að vísu. En verður hann ekki á Akureyri einhvern tíma? Hv. þm. sagði, að það yrði enginn aukakostnaður á Akureyri. Ég skil ekki þetta. Hvernig er þeirra skólastjórn? Kennarar hafa ákveðinn stundatíma lögboðinn, mega kenna meira, en þurfa þess ekki. Mundu þeir vinna það fyrir ekki neitt, ef þeir bættu við sig stundakennslu? Stundakennarar lifa á því starfi að vera stundakennarar. Ég hef enga trú á, að þeir geti, þó að þeir vildu, bætt við sig kennslu vegna þessarar viðbótar, sem kæmi vegna kennslu í Akureyrarskólanum, og unnið fyrir ekki neitt. Þeir yrðu að fá viðbót á laun sín, ef gert er ráð fyrir, að þessi viðbót kæmi á Akureyri, nema því aðeins að skólastjórnin á Akureyri sé þannig, að þeir kennarar, sem þar kenna, kenni ekki eins langan tíma og þeim ber. En því vil ég ekki trúa. Og það hlýtur að aukast kostnaður vegna fjölgunar nemenda þar.

Mér fannst því satt að segja, þó að hv. þm. lýsti yfir góðri hugsun varðandi slíka stofnun sem menntaskóla í sveit, að það kenndi heldur kulda í þessu máli, eftir því sem kom í ljós hjá hv. þm. Hann minntist á, að húsnæðið á Laugarvatni hefði verið byggt óþarflega stórt. Það má vel vera. En komi þessi stofnun þarna, þá er ég viss um, að húsnæðið verður fullnotað, og ef skólinn starfar þar áfram. En hvað á þá að segja um bygginguna á Ákureyri, ef að einhverju leyti er ekki notað það húsnæði, sem er þar, og að það þurfi að gera þessar ráðstafanir, sem sé að koma í veg fyrir, að stofnaður verði menntaskóli í sveit, til þess að húsnæðið á Akureyri verði notað? Er það þá nokkuð mætara, að þeim fjármunum, sem kæmu fyrir það, að ekki kæmi menntaskóli á Laugarvatni, yrði þá varið til kennslu á Akureyri? Er Reykjavíkurskólinn betur settur með það, að fjármununum verði varið til kennslu á Akureyri? Það get ég ekki séð, að slíkt mundi hjálpa fyrir menntaskólanum í Reykjavík. En úr því nú að hv. 3. landsk. þm. finnst, að það sé ekki neitt að því að koma í veg fyrir, að menntaskóli geti starfað á Laugarvatni eða í sveit, og það megi vísa nemendum til Akureyrar, þá er það í mörgum tilfellum sama og að segja þeim hér í Reykjavík að hætta, því að hv. 3. landsk. þm. er búinn að segja, að menntaskólinn í Reykjavík geti ekki tekið við fleirum og hafi jafnvel of margt af nemendum. Og ef það reynist svo, að þeir komi ekki fleiri nemendum fyrir hér í Reykjavík, má þá ekki hafa sömu svör við því og segja, að það sé ekkert rúm nema á Akureyri, farið þið þangað, hér höfum við ekkert húsnæði, fyrr en Akureyrarskólinn er fullskipaður? Þetta veit ég að hv. 3. landsk. þm. dettur ekki í hug, og ég ætla ekki að styðja slíka skoðun með honum.

Ég álít, að það elgi að laga fyrir menntaskólanum í Reykjavík, og ég er hv. þm. alveg sammála um það. En mér finnst hv. 3. landsk. þm. gleyma hinum hlýja hug gagnvart menntaskóla í sveit, þegar hann sagði, að það væri rangsleitni í garð menntaskólans í Reykjavík, ef það á að verja fé til menntaskóla á Laugarvatni. Hvernig ætti sú rangsleitni að koma fram? Varla þannig, að það kæmust ekki fleiri kennarar að hér í Reykjavík. Ekki gæti það orðið rangsleitni í garð menntaskólans í Reykjavík, þó að kennararnir væru .þar betri en við skóla í sveit eða á Laugarvatni. Það atriði yrði ekki rangsleitni gegn menntaskólanum, en það gengi þá út yfir nemendurna. Þetta er því fjarri öllu lagi, það sem hv. þm. sagði um þetta. Síðan kemur hann og segir það sína skoðun, — og ég vil trúa, að hann sé hlynntur því, — að menntaskóli komi í sveit. Og það hefur mikið að segja fyrir okkar þjóð, að þeir menn, sem ganga skólaveginn, fái sem fullkomnasta þekkingu og sem allra víðtækastan skilning á öllum málum, svo að þeir, sem koma til með að starfa að verkefnum þjóðarinnar, þar með almennum störfum í bennar hag, svo sem kennslustörfum, embættisstörfum og iðnaðarstörfum, hafi sem víðtækasta þekkingu á öllum þjóðarhag. Og það er áreiðanlega bezt fyrir því séð með því, að þeir, sem þarna koma til með að hafa þjónustu á hendi fyrir þjóðina, hafi skilning á öllu hennar þjóðlífi. Hver einstaklingur getur það ekki til fulls, en til samans ætti það að geta gerzt. Til þess að þetta geti orðið, verða þeir, sem munu hafa skilyrði til að öðlast þessa þekkingu í kaupstöðum, að kynnast því starfi, sem þar fer fram og við sjó, en aftur á móti þeir, sem stunda nám í sveit, kynnast störfunum þar, eftir því sem gerist í sveitinni. Og þeir munu áreiðanlega kynnast athafnalífinu meira en þeir, sem stunda nám í kaupstöðum eða við sjó. Þetta liggur í augum uppi. Og ég vil minna hv. 3. landsk. þm. á þessi atriði. Ég óttast það, ef það fer svo, að embættismenn hafa einhliða þekkingu aðeins á því, sem gerist í fjölmenninu, en ekki á því, sem gerist úti um byggðir landsins. Þetta veit ég að hv. 3. landsk. er mér sammála um. Við verðum að lofa þessari stofnun að koma á fót, og ég skal taka höndum saman við hann um að hlynna að menntaskólanum í Reykjavík, og þá hygg ég, að við vinnum vel og þetta geti orðið gagnlegt fyrir þjóðina.