10.10.1951
Neðri deild: 6. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (7)

39. mál, lántaka vegna landbúnaðarframkvæmda

Emil Jónsson:

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi orð um framlag til iðnlánasjóðs. Ég tek yfirlýsinguna þannig, að verði féð ekki útvegað að láni, muni ríkisstj. leggja það fram úr sínum sjóði fyrir eða um næstu áramót.

Um sementsverksmiðjuna þykir mér líka gott að heyra, að ríkisstj. hefur fullan hug á því að leita fyrir sér annars staðar en hjá þessum banka, ef ekkert fæst hjá honum fyrr en að tveimur árum liðnum.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það er langur afgreiðslutími á ýmsum tækjum og vörum, sem til verksmiðjunnar þarf. Það er því vissulega ástæða til að vera með áætlanir nokkuð á undan þeim tíma, sem maður hefur von um að fá féð til hennar, svo að ekki standi á þessum tækjum. En ég vil eindregið skilja orð hæstv. ráðh. þannig, að það verði leitazt við að útvega þetta lán til verksmiðjunnar annars staðar, ef það fæst ekki einnig á þessum stað, svo að áframhald verði með framkvæmdir nú, eins og ekkert hefði í skorizt. Með þessum lánveitingum til landbúnaðarins virðist útilokað að fá lán hjá Alþjóðabankanum til sementsverksmiðjunnar á næstu tveimur árum, svo að með þessari ráðstöfun er sá afturkippur því miður kominn í þetta mál, að á þessum stað fást þessir peningar ekki. En ég vil sem sagt vona það, að hæstv. ríkisstj. takist á öðrum vettvangi að fá það, sem til þarf, svo að byggingin þurfi ekki að tefjast af þeim sökum meir en orðið er, vegna þess að hún fékk ekki að fljóta með þeim fyrirtækjum, sem tekin voru á sínum tíma undir Marshallhjálp.