04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

33. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. fjhn. hefur sagt, voru þessi mál rædd á fundi n., og mætti þar form. Félags sérleyfishafa. En ég gat ekki sannfærzt um, að brtt. mín ætti ekki rétt á sér.

Eins og hv. þm. muna, fer till. fram á, að í stað þess, að heimilt sé að undanskilja sérleyfi og sérleyfisgjaldi fólksflutningaferðir endrum og sinnum á héraðsmót, fjölsóttar skemmtanir, hópferðir og því um líkt, þá verði þessi réttur skilyrðislaus. Það hefur nú verið þannig þangað til í sumar, að fólk hefur ekki þurft að borga neitt gjald af hópferðum. Þess vegna er það svo, þó að þetta frv. líti sakleysislega út, — en það fjallar um, að 7% þau, sem verið hafa, lækki niður í 3%, — þá felur það í sér nýtt 3% gjald á aðila, sem ekkert slíkt gjald hafa þurft að greiða fram að þessu. Hópferðir, eins t.d. berjaferðir Reykvíkinga, hafa verið undanþegnar þessu sérleyfisgjaldi. Ég fæ ekki séð, að það sé nein nauðsyn á þessu. Ég fæ ekki séð, að menn eigi ekki að geta slegið sér saman um bil án þess að þurfa að borga sérstakt gjald. Það er ófært, hvernig menn geta ekki orðið hreyft sig í þessu þjóðfélagi án þess að þurfa að borga fyrir það. Auðvitað kemur þetta niður á þeim, sem hafa ekki efni á því að eiga lúxusbíl. Auk þess þurfa menn ekki að búast við því, þó að þeir greiði þetta gjald, að það komi fram sem tekjur á fjárlögum, því að þessar tekjur verða alls ekki gefnar upp eins og fleiri smáskattar, sem lita sakleysislega út, eins og t.d. leyfisgjaldið, sem rennur til fjárhagsráðs, þrátt fyrir það að ríkið fái þar 2 millj. kr. tekjuafgang. Svona er farið að því að koma alls staðar að gjöldum, sem ekki koma fram sem tekjuliður á fjárlögum, og finnst mér því, að þessi gjöld séu óréttmæt. Þess vegna vildi ég eindregið leggja til, þrátt fyrir mótmæli nokkurra sérleyfishafa, að gjöldum þessum verði létt af almenningi.

Hv. þm. A-Húnv. hefur flutt brtt. við mína brtt. Er ég hans till. samþykkur að því undanteknu, er snertir samkomur innan héraða. Það þýðir það, að ef t.d. Reykvíkingar skreppa til nærliggjandi héraðs á héraðsmót, þá eru þeir skuldbundnir til að borga sérleyfisgjald, sem bændur innan héraðsins sleppa við. Mér finnst þetta óþarfleg þröngsýni, að ef Reykvíkinga eða aðra kaupstaðarbúa langar til að slá sér saman um bil og fara í næsta hérað, þá þurfi þeir að borga fyrir það sérstakt gjald, sem menn innan héraðsins þurfa ekki að greiða. Ég held, að brtt. hv. þm. A-Húnv. sé einnig þannig, að erfitt sé að hafa eftirlit með innheimtu á þessu gjaldi og tryggja, að það verði ekki misnotað, en það held ég að væri auðvelt, — því að hvað er hérað? Fyrir utan það er þetta ekki réttlátt.

Viðvíkjandi því, að haldið hefur verið fram, að erfitt væri um innheimtu gjalds á sérleyfisleiðum, þá held ég, að það sé ekki rétt, því að það er annað með bila, sem hafa sínar fastákveðnu leiðir, og er það auðskilið.

Fæ ég ekki séð nein þau rök, sem mæla gegn brtt. minni. Það virðist vera tilgangurinn að skattleggja allt stórt og smátt, þegar nokkur möguleiki er að koma því við.