04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

33. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hér hafa verið fluttar margar ræður um lítið mál eins og oft hefur komið fyrir áður. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um að staðfesta brbl. um lækkun sérleyfisgjalds úr 7% í 3%. Með þessu léttir undir hjá sérleyfishöfum, en þeir hafa haldið því fram, að rekstur sérleyfisferða hafi ekki borið sig nema hjá þeim, sem hafa beztu leiðirnar. Þá held ég, að ætti ekki í sömu andránni að samþ. brtt., sem gæti verið þeim til óþurftar, en á það hefur verið bent af ýmsum, að sú hætta vofði yfir, að bifreiðarstjórar taki fólk á samkomur á sérleyfisleiðum og taki þannig allan flutning af sérleyfishöfunum, sem verða þrátt fyrir það að halda uppi ferðum.

Það hafa komið fram þrjár brtt., ein frá hv. 2. þm. Reykv. og brtt. við hana frá hv. þm. A-Húnv. og við þá brtt. brtt. frá hæstv. viðskmrh. Hver verður svo framkvæmdin, ef það verður ofan á, sem hæstv. ráðh. leggur til, að heimilt sé að flytja fólk án sérleyfisgjalds, eins og það er orðað hér, „á héraðsmót og fjölmennar skemmtanir innan sýslunnar“. Það má kannske færa rök fyrir þessu, en hvernig verður framkvæmdin? Við skulum nú hugsa okkur, að það verði stofnað til skemmtunar á Hólum eins og oft kemur fyrir. Það er gott fyrir Skagfirðinga að sleppa við að greiða þennan 3% skatt. En er nú nokkur sanngirni í því, að íbúar kjördæmis hv. þm. A-Húnv. þurfi að borga gjaldið, sem verða mun, ef brtt. ráðh.. verður samþ.? Og ef bílstjóri á Sauðárkróki flytur fólk þaðan á samkomuna, þarf það að borga gjaldið.

En ef honum dytti í hug að taka fólk í bil sinn til viðbótar í Hegranesinu, þá þyrfti ekki að borga sérleyfisgjald af fargjaldi þess. Ég held, að þetta fari að verða nokkuð erfitt í framkvæmd. Það er fleira í þessari brtt., eins og t.d. að láta þetta gilda fyrir héraðsmót og fjölsóttar skemmtanir. Hvað er fjölsótt skemmtun? Nú hefur skemmtun orðið fámenn, að því er talið er, og þá eiga þeir, sem sóttu skemmtunina, að greiða skattinn, en að sleppa, ef skemmtun hefur orðið fjölmenn.