06.12.1951
Neðri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

18. mál, bifreiðalög

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta mál til athugunar um skeið, og hefur dregizt nokkuð að koma því áleiðis, vegna þess að n. hefur leitað upplýsinga hjá tryggingafélögum þeim, sem hafa bilatryggingar á hendi, og eigendum bifreiða. Aðalefni frv. er, að skyldutrygging bifreiða hækki ár 30 þús. kr. í 300 þús. kr. Þetta kann að virðast nokkuð stórt stökk, en ástæðan fyrir þessu er sú, að það hafa komið fyrir slys, sem skyldutryggingin megnar ekki að bæta. Annaðhvort verður sá, sem fyrir slysinu verður, án bóta eða sá, sem slysinu veldur, verður fyrir útgjöldum, sem honum eru fjárhagslega ofviða. Það hefur komið fyrir, að slys hafa numið ekki 30 þús. kr., heldur tugþúsundum króna meira. Það liggur í hlutarins eðli, að það þarf að tryggja eigendur bifreiðanna fyrir tjóni, sem þeir kunna að verða fyrir eða valda. Þetta er um leið trygging fyrir þá aðila. Vitaskuld getur það oft verið svo, að sá, sem ekur bifreiðinni, geti ekki greitt þær bætur, sem dómur kveður á um. Þannig orkar þetta ekki tvímælis, að hækka verður þessar tryggingar, en hins vegar er það spurning, hve mikið á að hækka þær, og veltur það á því, hve mikið bifreiðareigandi, sem tryggir bíl, þarf að greiða í iðgjöld fyrir trygginguna. Eins og ég sagði, leitaði allshn. umsagnar allra þeirra tryggingafélaga, sem hafa bílatryggingar, og ég held, að ég fari rétt með, er ég segi, að öll tryggingafélögin voru sammála um, að hækka þyrfti trygginguna. Þau telja, að þessi upphæð sé við hæfi, og mæla með, að hún sé tekin upp. — N. hefur borizt erindi frá bifreiðaeigendum, sem láta í ljós vafa um, að þetta fyrirkomulag sé hentugt. Þeir leggja til, að tryggingin sé höfð svipuð og hún er nú, en leggja til, að stofnaður verði sjóður, sem bilaeigendur greiði í nokkra upphæð á ári, og nefna í þessu sambandi 15–20% af venjulegum iðgjöldum. Svo verði veitt úr sjóðnum til bóta fyrir slys af þessu tagi. Þegar svona langt var komið, sendi n. málið aftur til tryggingafélaganna og bað þau um umsögn um, hvað tryggingagjöldin mundu hækka, et skyldutryggingin væri hækkuð upp í 300 þús. kr. N. hefur fengið svar frá öllum tryggingafélögunum um það, að iðgjöldin hækkuðu merkilega lítið, þó að upphæðin yrði tífölduð. Af þessu kemur í ljós, að bótaskyldan er tiltölulega há. Til marks um hækkun iðgjaldanna óskaði n. eftir að fá upplýsingar um, hve hækkunin yrði mikil, ef tryggingaupphæðin yrði hækkuð upp í 100 þús., 150 þús. og 300 þús. kr. Það kom í ljós, að iðgjald, sem nú er 500 kr., hækkaði við 100 þús. kr. tryggingu upp í 560 kr., ef tryggingin væri 150 þús. kr., hækkaði það um 80 kr., og ef hún yrði 300 þús. kr., hækkaði iðgjaldið upp í 590 kr. Þannig hækka iðgjöldin um 12–18%, eða m.ö.o. minna en bifreiðaeigendur lögðu til, að lagt væri í þennan sjóð, sem ætlað var að standast að nokkru það tjón, sem þeir yrðu fyrir. Hækkunin er miklu lægri en maður gat búizt við.

Allshn. leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir með þessari hækkun skyldutryggingarinnar upp í 300 þús. kr. Tryggingafélögin taka fram, að iðgjaldahækkunin sé miðuð við núverandi iðgjöld og ef grundvöllur þeirra breytist, þá breytist þetta einnig. Þessi hækkun er ekki meiri en svo, að n. telur sjálfsagt að leggja til, að hún verði lögfest og þannig fengið fullkomið öryggi fyrir bótum. Tryggingaupphæðin er að vísu hærri fyrir stóra bila. Það er gert ráð fyrir, að hún sé sú sama fyrir 6 manna bíla, svo hækkar hún um 25 þús. kr. fyrir hvern farþega, sem er fram yfir. Ef tekinn væri upp sá háttur, sem bifreiðaeigendur leggja til, að hafður verði á, verða iðgjöldin svipuð, en tryggingin og öryggið verður ekki það sama. — Þetta er sem sagt aðalefnið í frv., og n. leggur einróma til, að það verði samþ.

Í 3. gr. frv. er svo gert ráð fyrir því, að reikningar trygginganna yfir lögboðnar bifreiðatryggingar skuli vera endurskoðaðir af tveimur endurskoðunarmönnum, er dómsmrh. skipar, en laun endurskoðunarmanna skulu greidd af viðkomandi tryggingafélagi eftir ákvörðun dómsmrh. Þetta þóttu sumum tryggingafélögunum nokkuð harðir kostir, en önnur tóku á þessu með fullum skilningi. Hér á landi eru engin lög um eftirlit með bifreiðatryggingafélögum, og þess vegna er ekki óeðlilegt, að rn. reyni að hafa einhverja hönd í bagga með starfseminni, er tryggi það, að hagsmunir almennings séu þar ekki fyrir borð bornir og að tryggingariðgjöldunum sé í hóf stillt. N. telur þess vegna ekki ástæðu til að breyta þessu ákvæði og leggur til, að það verði einnig samþ. eins og gert er ráð fyrir þessu í frv.

4. gr. kveður svo á, að lög þessi öðlist þegar gildi. En öll tryggingafélögin andmæla þessu ákvæði og telja, að það sé æskilegt, að lögin gangi ekki í gildi fyrr en 1. maí næsta ár, þar sem mikinn tíma taki að undirbúa þessar breyt. og iðgjaldagreiðslur til 1. maí næsta ár mundu þegar vera greiddar og þess vegna sé gjalddaginn 1. maí heppilegur. tími til þess að miða breyt. við. N. hefur fallizt á þessar óskir tryggingafélaganna og leggur til, að 4. gr. verði orðuð þannig, að lög þessi öðlist gildi 1. maí 1952.

Fleiri atriði held ég að ég þurfi ekki að taka fram í sambandi við málið. Það er fullt samkomulag hjá öllum aðilum um það, að iðgjöldin þurfi að hækka. N. taldi eftir atvíkum, að þær iðgjaldahækkanir, sem af þessu leiddi, væru tiltölulega óverulegar og að eftirlitið, sem í frv. felst, með löggiltri endurskoðun, væri eðlilegt. N. leggur sem sagt til, að frv. verði samþ. með breyt. þeim, sem till. er um á þskj. 312 og ég hef þegar lýst.