04.01.1952
Efri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

18. mál, bifreiðalög

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur haft málið til athugunar, en eins og segir í hinum ýtarlegu upplýsingum, sem hafa verið lagðar fram í athugasemdum með frv., er þetta frv. borið fram vegna þess, að upphæð sú, sem ætluð er til tryggingar, er ekki nógu há til þess að koma upp í bætur fyrir tjón það, sem bifreiðar kunna að valda. Má segja, að þetta sé öllum ljóst, að ekkert samræmi er milli trygginganna og bótaupphæðanna. Ekki er gert ráð fyrir svokölluðum topptryggingum, heldur 300 þús. kr. fyrir fjórhjóla bifreiðar, en fyrir stærri bifreiðar 25 þús. kr. fyrir hvern farþega, sem í bifreiðinni er. Er það einnig rökstutt í athugasemdum þeim, er fyrr greinir, að ekki sé að sama skapi meiri áhætta fyrir hinar stærri bifreiðar sem farþegar séu fleiri í þeim.

Allshn. hefur fengið ýmis gögn um þetta mál, m.a. frá félögum bifreiðaeigenda og tryggingafélögum, og til skýringar prentuðum við sýnishorn áætlana, sem komu frá hinum ýmsu tryggingafélögum, en þær voru allar samhljóða. Er það gert til skýringar, af því að maður skyldi ætla, að t.d. tíföld tryggingarhækkun kostaði tíföld iðgjöld, en svo er þó ekki. En það er annað atriði, sem n. lagði til að gerð yrði breyting á. Það var í félögum bifreiðaeigenda óánægja yfir einkaafstöðu tryggingafélaganna, þar sem þau kæmu alltaf fram sem einn aðili, og félög bifreiðaeigenda hefðu ekkert tækifæri til þess að fylgjast með tryggingunum, sem þau þó ættu að gera. Allshn. þótti rétt að koma til móts við félög bifreiðaeigenda og leggur því til þá breytingu á 3. gr., er segir á þskj. 499, til þess að gefa þessum félögum tækifæri til þess að tilnefna annan endurskoðandann eftir 3. gr. Gallinn við þessa till. var sá, að það er enginn aðili til þess að koma sameiginlega fram fyrir hönd þessara félaga, ef ágreiningur yrði þeirra á milli um tilnefningu endurskoðanda.

Í stuttu máli sagt leggur n. til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum á 3. gr., sem segir í nál. á þskj. 499, og að frv. verði vísað til 3. umr.