14.12.1951
Neðri deild: 44. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

132. mál, lánasjóður stúdenta

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hv. fjhn. hefur nú skilað áliti um frv. til l. um lánasjóð stúdenta, og hv. frsm., hv. þm. V-Ísf., hefur lýst yfir því, að n. mæli með frv. óbreyttu, en hafi ekki tekið afstöðu til brtt. á þskj. 303 um, að framlag ríkissjóðs verði hækkað úr 300 þús. í 500 þús., þar sem n. telji hættu á því, að breyt. á frv. muni tefja framgang málsins.

Þar sem komið hefur í ljós í umr. við hæstv. fjmrh., að hann er andvígur þessari hækkun, má gera ráð fyrir því, að till. gæti orðið til þess að tefja málið, þar sem langt er liðið á þingtímann, og þess vegna munum við flm. taka till. til baka. Ég vil þó segja frá því með fáum orðum, hvers vegna við berum till. fram.

Því hefur verið lýst af hæstv. menntmrh., hve nauðsynlegt það er, að lánasjóður stúdenta taki til starfa til þess að hjálpa stúdentum og að skynsamlegra sé að gera það með námslánum með góðum kjörum en með óendurkræfum styrkjum á fjárl., eins og áður hefur verið. Ég er hæstv. ráðh. sammála um þetta og tel þessa hugmynd heppilegri en styrkjaleiðina. Stúdentaráðið fór í fyrstu fram á, að framlag ríkissjóðs til lánasjóðs yrði 250 þús. kr. á ári í 30 ár og að ríkið ábyrgðist allhátt lán, 2.5 millj. kr. Síðar var þessu breytt af stúdentaráði og gert ráð fyrir því, að framlag ríkisins yrði 500 þús. kr. á ári í 25 ár og að ríkið ábyrgðist 1/2 millj. kr. lán til sjóðsins. Með þessu móti voru taldar meiri líkur á því, að sjóðurinn gæti tekið fyrr til starfa með fullum krafti, því að erfitt er nú að fá lán og vextir eru háir. — Ástæðan til till. okkar hv. þm. Ak. var sú, að við vildum, að sjóðurinn gæti tekið til starfa strax af fullum krafti. Til þess að tefja ekki málið höfum við þó ákveðið að taka till. aftur, en það er gert í trausti þess, að sjóðurinn fái nægileg lán nú þegar, svo að hann geti tekið til starfa af fullum krafti. Takist það ekki, verður að endurskoða málið á næsta þingi. Margir hv. þm. hafa tjáð mér, að þeir væru till. okkar meðmæltir, þó að þeir óskuðu, að hún væri tekin aftur nú. Treysti ég á stuðning þeirra á næsta þingi, ef endurskoðun reynist nauðsynleg.