04.10.1951
Efri deild: 3. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

19. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því, að ég hef ekki við höndina þær reglur, sem um þetta eru settar, og hef ekki í höfðinu einstök atriði úr þeim fyrirmælum. Ég held hins vegar, að reynslan á stríðsárunum hafi sýnt, að hér geti naumast verið um hættulegt fordæmi að ræða. Það átti sér þá stað öll þau ár bruggun á öll með sama eða svipuðum hætti og hér er ráðgert, og ég held, að það hafi alls ekki komið út á meðal Íslendinga, a.m.k. varð ég þess ekki var. Og í þeim deilum, sem orðið hafa um sjálft ölmálið, hef ég aldrei heyrt þess getið, að sérstaklega hafi verið vitnað í þetta. Hér er nánast eingöngu um að ræða gjaldeyrisöflun af hálfu Íslendinga, og þess vegna finnst mér þetta nánast iðnaðarmál. Hvort menn vilja leyfa þetta eða ekki, það er komið undir ýmsum atriðum, og í sjálfu sér legg ég ekki mikið upp úr því, en það var álit okkar í ríkisstj., að það þyrfti að hafa sams konar heimild og fyrr.