10.01.1952
Neðri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

19. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er staðfesting á brbl., sem gefin voru út s.l. vor, þess efnis, að leyft væri að brugga og selja til hins erlenda varnarliðs, sem hér dvelst, sterkari bjór en leyft er að framleiða til innanlandsneyzlu. Það var tilsvarandi heimild, sem var veitt meðan styrjöldin stóð til handa brezka setuliðinu, sem hér dvaldist. Að athuguðu máli var talið, að sú heimild væri ekki fullnægjandi til þess, að hægt væri að brugga bjór handa því erlenda varnarliði, sem nú dvelst hér. Og þar sem þannig er litið á, að um nokkra atvinnu sé að ræða, efling á innlendum iðnaði og nýjan tekjustofn til handa ríki og bæjarfélagi, þá taldi ríkisstj. rétt að breyta heimildinni frá því, sem áður var, til samræmis við það ástand, sem nú hefur skapazt. Hins vegar hefur af öðrum ástæðum orðið minna úr framkvæmdum í þessu efni. Það mun ekki hafa gengið saman um verð milli framleiðanda hér og hins erlenda varnarliðs. Og eins og stundum ella var því þá hreyft, að það væri eðlilegt, að þetta gengi út yfir skatta til ríkisins, þannig að þeir yrðu felldir niður, og þá yrði ölið talið samkeppnisfært. N. í Ed. lét í ljós þá skoðun, — og að vissu leyti réttilega, — að ef þessi skattgreiðsla væri felld niður, væri í sjálfu sér eftir svo litlu að slægjast af hálfu Íslendinga, að ekki væri rétt að veita heimild til þessarar framleiðslu, og lýsti þess vegna yfir, að hún teldi rétt, að þessari heimild yrði því aðeins beitt, að samsvarandi tollar og skattar verði greiddir af þessari framleiðslu eins og tíðkast af öðru öli í landinu, og ef framleiðslan stendur ekki undir slíkri skattgreiðslu, verði hún ekki leyfð.

Sumir vilja blanda þessu máli saman við deiluna um það, hvort almennt ætti að veita leyfi til að brugga áfengt öl, annaðhvort til heimaneyzlu eða til að flytja úr landi. Ég tel algera fásinnu að blanda þessu saman. Við höfum margra ára reynslu úr styrjöldinni um, að það ýtir ekki á neinn hátt undir bruggun eða neyzlu á áfengu öli í landinu, að leyfð var bruggun á áfengu öli handa erlenda setuliðinu, sem þá dvaldist hér. Það var frá atviki skýrt í Ed., sem sýndi, að smyglhættan er ákaflega lítil í þessu sambandi. Því var haldið fram, að vegna þess að ekki gekk saman um sölu ölsins til hins erlenda varnarliðs, hefði því verið hellt niður, sem búið var að brugga. Ég veit ekki um sannindi þessarar sögu, en ef hún er rétt, sýnir hún, að ekki hefur því öli verið smyglað til landsmanna eða selt á íslenzkum markaði, heldur gerði framleiðandinn það, sem sjálfsagt var, að eyðileggja framleiðslu sína, úr því að ekki var hægt að selja hana á löglegan hátt. Engin rödd hefur heyrzt um það, hvorki fyrr né síðar, að nokkur dæmi séu þess, að þess konar öl hafi borizt á innlendan markað eða verið selt með ólöglegum hætti. Hér er því einungis að ræða um atvinnumál fyrir kannske ekki mjög marga menn, en þó einhverja, um efling íslenzks iðnaðar og svo töluverðan tekjulið fyrir ríkissjóð og væntanlega bæjarsjóð líka. Verður málið að skoðast eingöngu í því ljósi. Ég vona því, að málið fái hér mjög öruggan framgang. Gangi ekki saman um verð, verður heimildinni ekki beitt. Það er ekkert gat í l. Ég ætla ekki hér að ræða um þau rök, að það sé svívirðilegt athæfi að leyfa Íslendingum að brugga öl, jafnvel þó að tryggt sé, að menn nái ekki í þennan forboðna drykk. —- Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.